Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.

Þingskjal 4.  —  4. mál.



Frumvarp til laga

um stimpilgjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Stimpilgjald.

    Greiða skal í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögum þessum.

2. gr.
Upphaf gjaldskyldu og ábyrgð.

    Gjaldskylda stofnast þegar gjaldskylt skjal er undirritað. Ef tveir eða fleiri aðilar undirrita gjaldskylt skjal stofnast gjaldskyldan er hinn síðasti undirritar skjalið.
    Aðili sem byggir rétt á gjaldskyldu skjali ber ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds.

3. gr.
Gjaldskyld skjöl.

    Greiða skal stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi og skipa yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum.
    Greiða skal stimpilgjald vegna eftirrita af dómum, sáttum og lögbókandagerðum er skapa réttindi eða skyldur sem ekki hefur áður verið gert um gjaldskylt skjal, sbr. 1. mgr.
    Gjaldskylda skjals fer eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi.

4. gr.
Gjaldstofn.

    Gjaldstofn stimpilgjalds er verð viðkomandi eignar eins og það er tilgreint í gjaldskyldu skjali. Verðbreyting til hækkunar á skjali sem áður hefur verið greitt af stimpilgjald er gjaldskyld og skal gjaldið þá nema hækkun þeirri er orðið hefði ef hið hærra verð hefði staðið í skjalinu frá upphafi.
    Stimpilgjald af gjaldskyldu skjali sem kveður á um eignaryfirfærslur fasteigna ákvarðast eftir því verði er fram kemur í kaupsamningi eða öðru skjali um eignaryfirfærslu.
    Stimpilgjald af gjaldskyldu skjali sem kveður á um eignaryfirfærslur skipa yfir 5 brúttótonnum ákvarðast eftir því verði er fram kemur í kaupsamningi eða öðru skjali um eignaryfirfærslu, þó aldrei lægri fjárhæð en nemur áhvílandi veðskuldum.
    Þegar fasteign eða skipi yfir 5 brúttótonnum er úthlutað félagsmanni í félagi við félagsslit greiðist stimpilgjald að því marki sem eignarhlutur hans í eigninni verður meiri en eignarhlutur hans var í félaginu.
    Þegar greitt hefur verið stimpilgjald vegna kaupsamnings eða annars skjals um eignaryfirfærslu á fasteign eða skipi yfir 5 brúttótonnum er afsalsbréf til sama kaupanda undanþegið stimpilgjaldi.
    Ef gjaldskylt skjal stofnar til réttinda eða skyldna er meta má til mishárra fjárhæða skal greiða stimpilgjald af hæstu fjárhæðinni.
    Ef í sama skjali felast fleiri en ein tegund gjaldskyldra gerninga eru báðar eða allar tegundir gjaldskyldar.
    Þegar gjaldskyld skjöl eru gefin út í fleiri en einu eintaki er aðeins eitt þeirra gjaldskylt.
    Nú kveður gjaldskylt skjal á um greiðslu í erlendum gjaldmiðli og ákvarðast stimpilgjaldið þá af sölugengi þess gjaldmiðils eins og hann er skráður hér á landi þegar greiðsla stimpilgjalds fer fram. Með sölugengi er átt við opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands.
    Sýslumaður skal kanna í hverju tilviki hvort gjaldskyld fjárhæð er rétt tilgreind í gjaldskyldu skjali. Sýslumaður getur krafið gjaldanda um allar nauðsynlegar skýringar eða gögn vegna fjárhæðarinnar.
    Ef gjaldandi sinnir ekki áskorun sýslumanns um að gefa skýringar eða leggja fram gögn skv. 10. mgr. eða hin tilgreinda gjaldskylda fjárhæð þykir ósennileg eða tortryggileg skal sýslumaður taka ákvörðun um fjárhæð gjaldsins. Við þá ákvörðun ber að taka mið af sennilegu markaðsvirði eignar að leigulóð meðtalinni. Sé þess þörf skal sýslumaður afla umsagnar sérfróðra aðila áður en stimpilgjaldið er ákvarðað.

5. gr.
Gjaldhlutfall.

    Af gjaldskyldum skjölum skal greiða:
     a.      0,8% stimpilgjald ef rétthafi er einstaklingur,
     b.      1,6% stimpilgjald ef rétthafi er lögaðili.
    Ef fasteign eða skip er selt veðhafa við nauðungarsölu greiðir veðhafi hálft stimpilgjald af verðmæti eignarinnar hvort sem hann er einstaklingur eða lögaðili.

6. gr.
Skjöl undanþegin stimpilgjaldi.

    Eftirtalin skjöl eru undanþegin stimpilgjaldi:
     a.      Samningar þess ráðherra er fer með málefni landbúnaðar við bændur um töku jarða til nytjaskógræktar.
     b.      Skjöl er sýna yfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, enda sé ekki samhliða um sölu eða söluafsal að ræða.
     c.      Skjal sem samkvæmt efni sínu er gjaldskylt í samræmi við ákvæði laga þessara en er undanþegið stimpilgjaldi vegna sambands þess við annað gjaldskylt skjal.

II. KAFLI
Gjalddagi stimpilgjalds, staðfesting á greiðslu, álag,
endurgreiðsla og endurákvörðun.

7. gr.
Gjalddagi og staðfesting á greiðslu.

    Sýslumenn annast innheimtu stimpilgjalds.
    Gjalddagi vegna gjaldskylds skjals er tveimur mánuðum eftir að gjaldskylda stofnast, sbr. 1. mgr. 2. gr. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir.
    Þegar gjaldskylt skjal er afhent til þinglýsingar skal sýslumaður kanna hvort stimpilgjald hefur verið greitt.
    Sýslumaður gefur út greiðslukvittun til staðfestingar á því að stimpilgjald hafi verið greitt.
    Ráðherra getur falið tilteknu sýslumannsembætti að annast innheimtu stimpilgjalds.

8. gr.
Álag.

    Ef stimpilgjald er ekki greitt á gjalddaga skal greiða álag til viðbótar því stimpilgjaldi sem greiða bar.
    Álag skv. 1. mgr. skal vera 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.
    Fella má niður álag ef gjaldandi færir gildar ástæður sér til málsbóta og getur sýslumaður metið í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

9. gr.
Endurgreiðsla stimpilgjalds.

    Sýslumaður skal endurgreiða stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði. Ef stimpilgjald af skjali sem ekki er gjaldskylt er af vangá innheimt eða innheimt er of hátt stimpilgjald af gjaldskyldu skjali skal endurgreiða það sem ofgreitt er samkvæmt lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
    Endurgreiðsla samkvæmt þessari grein má aðeins fara fram ef beiðni um hana hefur borist sýslumanni áður en fjögur ár eru liðin frá undirritun þess skjals sem beiðnin varðar. Heimilt er þó að víkja frá þessum fresti við mjög sérstakar aðstæður.
    Ráðherra getur falið tilteknu embætti sýslumanns að annast endurgreiðslur á stimpilgjaldi.

10. gr.
Endurákvörðun stimpilgjalds.

    Komi í ljós að ekki hefur verið greitt stimpilgjald í samræmi við lög þessi hefur sýslumaður heimild til að endurákvarða stimpilgjald. Heimild til endurákvörðunar gildir í sex ár frá því að upphafleg ákvörðun um innheimtu stimpilgjalds var eða mátti vera tekin.
    Hafi gjaldandi látið í té fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta ákvörðun stimpilgjalds á, er heimilt að endurákvarða honum stimpilgjald í tvö ár frá því að upphafleg ákvörðun um innheimtu stimpilgjalds var eða mátti vera tekin.

III. KAFLI
Kæruheimild, refsingar og eftirlit.
11. gr.
Kæruheimild.

    Rísi ágreiningur um stimpilgjald samkvæmt lögum þessum er gjaldanda heimilt að kæra ákvörðun sýslumanns til ráðuneytisins. Kærufrestur skal vera þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar. Kæra til ráðuneytisins frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
    Kærunni skal fylgja frumrit eða endurrit ákvörðunar sýslumanns og í kærunni skal koma fram hvaða atriði ákvörðunar sæta kæru ásamt rökstuðningi. Gögn, sem ætluð eru til stuðnings kærunni, skulu fylgja í frumriti eða staðfestu eftirriti.
    Ef kæra fullnægir ekki skilyrðum 2. mgr. skal ráðuneytið beina því til kæranda að bæta úr því innan hæfilegs frests.

12. gr.
Refsingar.

    Hver sá gjaldskyldur aðili sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um stimpilgjald honum viðkomandi skal greiða fésekt allt að tífaldri fjárhæð þess stimpilgjalds sem undan var dregið og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri fjárhæð þess stimpilgjalds sem undan var dregið. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Skýri gjaldskyldur aðili rangt eða villandi frá einhverju er varðar atriði sem skipta máli við ákvörðun og innheimtu stimpilgjalds má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á gjaldskyldu hans eða greiðslu gjaldsins.
    Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur sýslumanni í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi gjaldskyldu annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til sýslumanns skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr.
    Tilraun til brota eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
    Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og svipta hann starfsréttindum, enda sé brotið framið til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

13. gr.
Eftirlit.

    Ráðherra er skylt að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og gæta þess að ákvörðun og innheimta stimpilgjalds sé samræmd á landinu öllu.

14. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara í reglugerð, m.a. um frekari skilyrði greiðslukvittana, innheimtu stimpilgjalds og framkvæmd endurgreiðslna.

15. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um stimpilgjald og í því eru lagðar til verulegar breytingar á innheimtu stimpilgjalds í átt til einföldunar.
    Frumvarpið byggist að hluta á tillögum starfshóps sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í apríl 2013. Starfshópurinn fékk það verkefni að endurskoða lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, með það að markmiði að einfalda álagningu stimpilgjalds og framkvæmd innheimtu ásamt því að skapa samkeppnishæfara umhverfi og gera gjaldtöku sanngjarnari án þess að skerða tekjur ríkissjóðs. Starfshópurinn skilaði ráðherra skýrslu ásamt drögum að frumvarpi þann 20. september 2013.

2. Tilefni lagasetningar.
    Tilefni framlagningar frumvarpsins er einkum tvíþætt. Í fyrsta lagi er talið löngu tímabært að taka gildandi lög um stimpilgjald til gagngerrar endurskoðunar og í öðru lagi hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemdir við lögin.
    Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 voru þrjú ný ákvæði sem vörðuðu stimpilgjald lögfest til bráðabirgða. Bráðabirgðaákvæðin fólu í sér að stimpilgjald var tímabundið fellt niður af skjölum um skilmálabreytingar á fasteignaveðskuldabréfum sem gefin voru út af einstaklingum og einnig nýjum veðskuldabréfum sem gefin voru út vegna vanskila á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga. Þá var fjórða bráðabirgðaákvæðið lögfest með lögum nr. 130/2009, um ráðstafanir í skattamálum. Með því ákvæði voru skjöl sem fólu í sér skilmálabreytingar á bílalánum einstaklinga gerð undanþegin stimpilgjaldi.
    Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 27. júní 2012 1 og 11. júlí 2012, 2 um ríkisstyrki til Íslandsbanka, Landsbanka og Arionbanka leiddu til þess að enn frekari breytingar voru gerðar á fyrrgreindum bráðabirgðaákvæðum. ESA taldi að stimpilgjald af skjölum er vörðuðu skilmálabreytingar lána væri annars vegar samkeppnishamlandi fyrir fjármálafyrirtæki og hins vegar kæmi það sér illa fyrir neytendur vegna skiptikostnaðar. Þá vísaði ESA til þess að slíkt gengi mögulega gegn fjórfrelsinu og taldi íslensk stjórnvöld ekki hafa gengið nógu langt í lagfæringum á þessu þar sem ákvæðin voru aðeins sett til bráðabirgða. Af þessum sökum voru bráðabirgðaákvæði II, III, V og VI í lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, gerð varanleg með 31. gr. laga nr. 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Eftir breytingarnar komu ákvæðin inn í núgildandi stimpilgjaldslög sem ákvæði 24. gr. a. – 24. gr. d.
    Í aðdraganda framangreindra ákvarðana ESA skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að breyta ákvæðum laga nr. 36/1978, um stimpilgjald. Í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda þessa efnis kom fram að ráðherra hefði í hyggju að setja saman starfshóp á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem ætti að skila skýrslu, ásamt drögum að frumvarpi, til ráðherra. Í framhaldinu ákvað ráðherra í maí 2012 að skipa starfshóp til að endurskoða lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, með það að markmiði að einfalda álagningu gjaldsins og framkvæmd ásamt því að skapa samkeppnishæfara umhverfi og gera gjaldtöku sanngjarnari án þess að skerða tekjur ríkissjóðs.
    Með bréfi dags. 15. apríl 2013 var formlega gengið frá skipun starfshópsins og átti hann að ljúka störfum 1. nóvember 2013. Með skipunarbréfi ráðherra dags. 3. júní 2013 var verkefni starfshópsins breytt og honum falið að kanna sérstaklega leiðir til að afnema stimpilgjald af lánsskjölum. Þá var hópnum gert að skila niðurstöðum 20. september 2013.
    Alþingi ályktaði 28. júní 2013 að fela ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlun í tíu liðum til þess að taka á skuldavanda heimila á Íslandi (9. mál á 142. löggjafarþingi). Í 9. lið aðgerðaáætlunarinnar segir að stimpilgjald af lánsskjölum verði endurskoðað og stefnt verði að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota. Þá segir að frumvarp verði lagt fram á haustþingi 2013 og að vinnan sé á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðuneytis.
    Lög um stimpilgjald voru fyrst lögfest, að danskri fyrirmynd, árið 1918. Ný lög um stimpilgjald voru sett á árinu 1921 og giltu að stofni til fram til ársins 1978. Árið 1977 fór fram heildarendurskoðun á lögunum og að þeirri endurskoðun lokinni var frumvarp lagt fyrir Alþingi sem varð að lögum nr. 36/1978. Með lögunum voru ákvæði eldri stimpilgjaldslaga aðlöguð breyttum aðstæðum og framkvæmd laganna einfölduð. Frá gildistöku laga nr. 36/1978 hafa margar breytingar verið gerðar á lögunum en engar heildarbreytingar á þeim hafa náð fram að ganga.
    Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á gerð skjala og framkvæmd innheimtu stimpilgjalds. Þá eru rafræn skjöl orðin algeng í notkun en slík skjöl þekktust ekki við setningu laga nr. 36/1978. Af þessum sökum er túlkun og framkvæmd laganna orðin erfið og óljósari en áður. Auk þess skortir á að framkvæmd laganna sé nægilega samræmd á landsvísu. Því verður að telja að brýn þörf liggi til þess að endurskoða ákvæði laganna í heild.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildandi lög um stimpilgjald verði felld brott í heild en í þeirra stað taki gildi ný heildarlög um stimpilgjald.
    Gjaldskyldan samkvæmt frumvarpinu nær einungis til þeirra skjala er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi og skipa yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi. Þetta hefur í för með sér að ekki verður lengur skylt að greiða stimpilgjald vegna lánsskjala, þ.m.t. skilmálabreytinga á lánsskjölum, vegna hlutabréfa, vegna skilríkja fyrir eignarhlut í félögum og vegna félagssamninga. Þá fellur einnig brott skylda til að greiða stimpilgjald vegna kaupmála, vátryggingarskjala, aðfarargerða, kyrrsetningargerða, löggeymslna, leigusamninga um jarðir og lóðir, heimildarskjala um veiðiréttindi og skjala sem leggja ítök, skyldur og kvaðir á annarra eign,
    Lagt er til að stimpilgjaldið verði 0,8% þegar rétthafi er einstaklingur en 1,6% þegar rétthafi er lögaðili.
    Lagt er til að sýslumenn innheimti stimpilgjaldið og að þeir gefi út kvittun sem staðfestingu fyrir greiðslu. Þar með munu bæði ástimplun stimpilmerkjavélar og álíming stimpilmerkja á stimpilskyld skjöl heyra sögunni til. Innheimta er nú skráð rafrænt í tölvukerfi innheimtuaðila og upplýsingar um greiðslu stimpilgjalds einstakra aðila liggja fyrir í gagnagrunni sýslumannsembætta.

4. Erlendur réttur.
    Í Noregi er stimpilgjald á eignaryfirfærslur fasteigna 2,5% af kaupverði eða markaðsverði fasteignar.
    Í Svíþjóð er 1,5% stimpilgjald lagt á eignaryfirfærslur fasteigna þegar kaupandinn er einstaklingur en 4,25% þegar kaupandinn er lögaðili. Þá er 2% stimpilgjald lagt á skuldabréf tryggð með veði í fasteign hjá einstaklingum en 1% stimpilgjald lagt á önnur veðskuldabréf.
    Í Finnlandi er lagður sérstakur 4% eignaryfirfærsluskattur (e. transfer tax) á einstaklinga og lögaðila vegna eignaryfirfærslu fasteigna.
    Í Danmörku var hugtakið stimpilgjald að mestu leyti fellt brott árið 2000 og þess í stað er notað hugtakið skráningargjald. Auk skráningargjaldsins er greitt fast gjald, þinglýsingargjald, af öllum skjölum sem lögð eru fram til þinglýsingar. Fasta þinglýsingargjaldið er 1.660 danskar krónur. Hlutfallslegt skráningargjald, sambærilegt stimpilgjaldi, er greitt eftir tegundum skjala og er það 0,6% vegna eignaryfirfærslu á fasteignum en 1,5% vegna veðskuldabréfa.
    Á Írlandi er greitt 2% stimpilgjald af verðmæti fasteigna. Vegna eignaryfirfærslna íbúðarhúsnæðis er þó innheimt 1% stimpilgjald af fyrstu 1.000.000 evrunum af kaupverði eignar en 2% stimpilgjald af verði umfram 1.000.000 evrur.
    Í Bretlandi nemur hlutfall stimpilgjalds vegna eignaryfirfærslu fasteigna/landareigna 0–15% eftir því hvert kaupverð eignarinnar er og hvort kaupandinn er lögaðili eða einstaklingur.

Tafla I. Gjaldtaka við eignaryfirfærslu í nálægum ríkjum.


Við eignaryfirfærslu Veðskuldir Hlutafé Vátryggingar
Bretland 0–15%* Nei 0,5–1,5% Nei
Danmörk 1.600 DKK + 0,6% 1,5% Nei Já, einhver dæmi
Finnland 4%** 1,6% 1,6% Nei
Írland 1–2% 1% 1% Nei
Noregur 2,5% Nei Nei Nei
Svíþjóð 1,5% ef einstaklingur 4,25% ef lögaðili 2% ef einstaklingur 1% ef lögaðili Nei Nei
*    Hlutfallið fer eftir því hvert verð eignar er og hvort kaupandi er einstaklingur eða lögaðili.
**    Ef kaupandi fasteignar er einstaklingur á aldrinum 18–39 ára er hann undanþeginn gjaldinu.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var tekið mið af skýrslu starfshóps sem í sátu, auk fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúar frá Fjársýslu ríkisins, Sýslumanninum í Reykjavík, Þjóðskrá Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja.

6. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá.
    Eins og nánar er fjallað um í 2. kafla skuldbundu íslensk stjórnvöld sig í aðdraganda ákvarðana ESA um ríkisstyrki til Íslandsbanka, Landsbanka og Arionbanka, til að gera breytingar á stimpilgjaldi til að minnka skiptikostnað viðskiptavina fjármálafyrirtækja. Skiptikostnaður er sá kostnaður sem lagður er á þegar aðili flytur viðskipti sín frá einu fjármálafyrirtæki til annars. Þótt brugðist hafi verið við þessum athugasemdum ESA með lögfestingu frumvarps þess er varð að lögum nr. 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þá höfðu íslensk stjórnvöld engu síður skuldbundið sig til að endurskoða gildandi lög um stimpilgjald og koma með tillögur um breytingar sem miða að því að einfalda framkvæmdina við álagningu stimpilgjalds og ýta undir samkeppni. Í frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald verði afnumið af lánsskjölum.
    Ekki er talið að efni frumvarpsins stangist á við aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.

7. Mat á áhrifum.
    Á síðustu tveimur áratugum hafa tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum að jafnaði numið um 0,5% af vergri landsframleiðslu (VLF). Tekjurnar jukust verulega í aðdraganda efnahagshrunsins haustið 2008 í takt við aukin umsvif efnahagslífsins og náðu hámarki árið 2007 eða ríflega 0,9% af VLF. Á árunum eftir hrun hafa tekjurnar lækkað verulega, eins og sjá má á mynd I, og nema þær nú um 0,2% af VLF.

Mynd I. Tekjur af innheimtu stimpilgjalds 2004–2012.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum árið 2012 námu tæplega 3,4 milljörðum kr. en árið 2011 námu þær 2,9 milljörðum kr. Tekjurnar náðu hámarki árið 2007 þegar þær fóru í 9,3 milljarða kr. en lækkuðu ört í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og hafa verið á bilinu 2,7–3,4 milljarðar kr. á ári síðastliðin fjögur ár.
    Í töflu II kemur fram hve miklum tekjum stimpilgjaldið skilaði í ríkissjóð árið 2012 eftir einstökum gjaldflokkum.

Tafla II. Innheimta stimpilgjalds 2012.


Gjaldflokkar Millj. kr.
Skjöl er varða eignaryfirfærslur 1.151
Skuldabréf 1.461
Tryggingarbréf 396
Skulda- og tryggingarbréf (stimpilgjald innheimt af fjármálafyrirtækjum) 201
Afurðalán 8
Aðfarargerðir, kyrrsetningargerðir og löggeymsla 38
Kaupmálar 2
Leigusamningar (lóðarleigusamningar) 0
Skilmálabreytingar lána (sem féllu ekki undir undanþágur gildandi laga) 10
Vátryggingarskjöl 53
Félagssamningar (stofnfé, hlutafé) 1
Óskilgreint 49
Endurgreitt stimpilgjald –18
Samtals: 3.352

    Í endurskoðaðri áætlun fjárlaga fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir að tekjur af stimpilgjöldum verði 4 milljarðar kr., eða nokkru hærri en á árinu 2012. Aukin umsvif á fasteignamarkaði og hækkandi fasteignaverð er án efa meginskýring þeirrar aukningar. Ekkert bendir til annars en sú þróun haldi áfram yfir á næsta ár og því reiknað með að tekjur af stimpilgjaldi verði 4,3 milljarðar kr. á árinu 2014 að óbreyttum lögum. Það er sú fjárhæð sem byggt er á í því frumvarpi sem hér er kynnt.

Tafla III. Áætlaðar tekjur af stimpilgjaldi 2014.


Fyrir breytingu, millj. kr. Tillögur Áhrif,
millj. kr.
Eftir breytingu, millj. kr.
Samningar um eignaryfirfærslu (nú 0,4%) 1.500 0,8–1,6% 4.300 2.800
    Þar af einstaklingar 900 0,80% 1.800 900
    Þar af lögaðilar 600 1,60% 2.500 1900
Skuldabréf og tryggingabréf 2.650 Fellt niður 0 –2.650
Afurðalán (0,5%) 10 Fellt niður 0 –10
Aðfarargerðir, kyrrsetningar og löggeymsla 50 Fellt niður 0 –50
Kaupmálar (50 kr. + 0,4%) 2 Fellt niður 0 –2
Vátryggingaskjöl (8% af iðgjaldi) 70 Fellt niður 0 –70
Hlutafé og stofnfé (0,5%) 1 Fellt niður 0 –1
Annað 17 Fellt niður 0 –17
Samtals 4.300 4.300 0

    Með frumvarpinu er lagt til að greitt verði 0,8% stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu á fasteign eða skipi yfir 5 brúttótonnum ef rétthafi er einstaklingur en 1,6% stimpilgjald ef rétthafi er lögaðili en gjaldskylda annarra skjala verði felld brott. Þar munar mest um stimpilfrelsi lánasamninga af hvers kyns tagi sem í velflestum tilvikum hafa orðið til í tengslum við eigendaskipti.
    Sem dæmi má taka fjölskyldu sem fjárfestir í eigin húsnæði (samningur um eigendaskipti). Hún fjármagnar kaupin með eigin fé og 65% lántöku af kaupverði (lánasamningur með veði). Sé kaupverð eignarinnar 35 millj. kr. og lánsfjárhæðin 23 millj. kr. greiðir viðkomandi fjölskylda 140 þús. kr. í stimpilgjald af kaupsamningi og 345 þús. kr. í stimpilgjald af skuldabréfinu, eða samtals 485 þús. kr. miðað við gildandi reglur. Verði frumvarpið að lögum mun umrædd fjölskylda greiða 280 þús. kr. í stimpilgjald og viðskiptakostnaður hennar því lækka um 205 þús. kr., eða um 0,6% af kaupverði fasteignarinnar. Hefði viðkomandi fjölskylda ekki þurft að fjármagna kaupin með lánum hækkar viðskiptakostnaður hennar um 140 þús. kr. við breytinguna.
    Gert er ráð fyrir að ný lög um stimpilgjald muni skila sömu tekjum í ríkissjóð á árinu 2014 og gildandi lög, eða 4,3 milljörðum kr. Hins vegar verður tilfærsla á milli gjaldstofna eins og fram kemur í töflu III. Fljótt á litið má ætla að útgjöld heimila í formi stimpilgjalds muni lækka talsvert en lögaðila hækka og gæti sú tilfærsla verið kringum 1 milljarður kr. Erfitt er að meta þessi áhrif af einhverri nákvæmni þar sem ekki liggur fyrir greining á því hvernig skuldabréfin skiptast á milli einstaklinga og lögaðila.
    Við mat á áhrifum frumvarpsins þarf einnig að hafa huga þá miklu einföldun og bættu framkvæmd sem í því felst samanborið við gildandi lög.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Kveðið er á um að greiða skuli stimpilgjald af þeim skjölum sem falla undir lögin.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um stofnun gjaldskyldu. Miðað er við að gjaldskylda stofnist við undirritun skjals. Sé aðstæðum þannig háttað að tveir eða fleiri aðilar koma að undirritun hins gjaldskylda skjals, og undirritun á sér ekki stað samtímis, þá telst gjaldskylda stofnast á þeim degi er hinn síðasti undirritaði skjalið.
    Um ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds segir í 2. mgr. að aðili sem byggi rétt á gjaldskyldu skjali beri ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Í flestum tilvikum er kaupandi eignar sá aðili en það á þó ekki við þegar t.d. um gjafagerninga er að ræða. Eðli málsins samkvæmt byggja oft fleiri en einn aðili rétt á gjaldskyldu skjali, t.d. ef tveir kaupa sömu fasteign. Í þeim tilvikum eru rétthafar samábyrgðir fyrir greiðslu gjaldsins.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru fjallað um þau skjöl sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. er rakið að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu á fasteignum hér á landi og skipum yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi. Á þetta t.d. við um afsöl, kaupsamninga, gjafagerninga og aðra gerninga sem kveða á um eignaryfirfærslu.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði sem er efnislega nánast sambærilegt 2. mgr. 5. gr. gildandi laga. Þó eru eftirrit af dómum gerð gjaldskyld í 2. mgr. og orðinu notarialgerðum skipt út fyrir lögbókandagerðir, sbr. lög nr. 86/1989, um lögbókandagerðir. Í ákvæðinu felst að stimpilgjaldsskylda getur stofnast ef eignaryfirfærsla fasteigna hér á landi eða skipa yfir 5 brúttótonnum kemur til vegna þeirra atvika sem rakin eru í ákvæðinu.
    Ákvæði 3. mgr. er sambærilegt ákvæði 1. mgr. 5. gr. gildandi laga og kveður á um að gjaldskylda skjals fari eftir þeim réttindum sem það veitir en ekki efni þess eða formi.

Um 4. gr.

    Ákvæðið kveður á um gjaldstofn stimpilgjalds.
    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að gjaldstofn stimpilgjalds er verð viðkomandi eignar eins og það er tilgreint í gjaldskyldu skjali. Á sama hátt leiða verðbreytingar til hækkunar eftir að stimpilgjald hefur verið greitt til hækkunar gjaldsins.
    Í 2. mgr. er áréttað að stimpilgjald vegna eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi er það verð sem er gefið upp í kaupsamningi eða öðru skjali um eigendaskipti.
    Í 3. mgr. er fjallað um gjaldstofn vegna eignaryfirfærslu á skipi yfir 5 brúttótonnum. Í ákvæðinu kemur fram að þrátt fyrir það verð sem fram kemur í skjali um eigendaskipti verður gjaldstofn aldrei lægri en áhvílandi veðskuldir.
    Í 4. mgr. er fjallað um það þegar fasteign eða skipi er úthlutað til félagsmanns í félagi við félagsslit og er ákvæðið efnislega sambærilegt 3. mgr. 16. gr. gildandi laga.
    Í 5. mgr. kemur fram sú meginregla að greiða skuli stimpilgjald einu sinni vegna hvers gernings. Þannig er ekki skylt að greiða gjaldið vegna afsals hafi það þegar verið greitt vegna kaupsamnings um sömu eign. Þessa reglu ber þó að skýra með hliðsjón af 2. málsl. 1. mgr. er kveður á um skyldu til greiðslu viðbótargjalds ef verðbreytingar eru síðar gerðar á skjali til hækkunar.
    6. mgr. fjallar um þau tilvik þegar skjal stofnar til réttinda eða skyldna er meta má til mishárra fjárhæða og skal þá greiða stimpilgjald af hæstu fjárhæðinni. Ákvæðið á sér samsvörun í 9. gr. gildandi laga.
    Í 7. mgr. er fjallað um að þau tilvik þegar fleiri en ein tegund gjaldskyldra gerninga eru í sama skjalinu. Eru þá báðar eða allar gjaldskyldar. Ákvæðið er sambærilegt 6. gr. gildandi laga.
    Í 8. mgr. kemur fram sú meginregla að greiða skuli stimpilgjald einu sinni af hverju skjali. Þessa reglu ber þó að skýra með hliðsjón af 2. málsl. 1. mgr. er kveður á um skyldu til greiðslu viðbótargjalds ef verðbreytingar eru síðar gerðar á skjali til hækkunar.
    Í 9. mgr. er kveðið á um hvernig útreikningur stimpilgjalds fer fram þegar gjaldskylt skjal kveður á um greiðslu í erlendum gjaldmiðli. Ákvæðið er efnislega sambærilegt 28. gr. gildandi laga en þó ítarlegra. Samkvæmt ákvæðinu ákvarðast stimpilgjaldið af sölugengi viðkomandi gjaldmiðils eins og hann er skráður hér á landi þegar greiðsla stimpilgjalds fer fram. Með sölugengi er átt við opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands.
    Í 10. og 11. mgr. er fjallað um fjárhæð gjaldskylds skjals og skyldu sýslumanns til að gæta þess að fjárhæð gjaldskylds skjals sé yfirhöfuð tilgreind og að hún sé rétt tilgreind. Ákvæðið á sér nokkra samsvörun í 13. gr. gildandi laga en með ákvæði frumvarpsins er gildandi ákvæði gert fyllra. Við mat á fjárhæð gjaldskylds skjals skal að jafnaði miðað við markaðsverð eigna að leigulóð meðtalinni, sbr. meginreglu 1. mgr. Þá er sýslumanni veitt heimild til að afla umsagnar sérfróðra aðila um þá fjárhæð sem gjaldskylt skjal kveður á um áður en hann tekur ákvörðun um stimpilgjaldið.

Um 5. gr.

    Ákvæðið fjallar um gjaldhlutfall. Gjaldskylda samkvæmt lögunum takmarkast við gjaldskyld skjöl samkvæmt 3. gr.
    Stimpilgjaldið er 0,8% ef rétthafi er einstaklingur en 1,6% ef rétthafi er lögaðili. Um skilgreiningar á því hvað teljist einstaklingur og hvað lögaðili er vísað til almennra skilgreininga í lögum. Einstaklingur sem stundar atvinnurekstur og notar til þess eigin kennitölu og einstaklingsfirma greiðir þannig lægra gjaldið. Ef bæði einstaklingur og lögaðili eru aðilar að sama gerningi þarf réttindahlutfall hvors um sig að liggja fyrir svo að unnt sé að ákvarða gjaldið með réttum hætti.
    Sú sérregla gildir að ef fasteign eða skip er selt veðhafa við nauðungarsölu greiðist hálft gjald af verðmæti eignarinnar hvort sem veðhafi er einstaklingur eða lögaðili. Efnislega sambærilegt ákvæði er að finna í 4. mgr. 16. gr. gildandi laga.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um þau skjöl sem sérstaklega eru undanþegin stimpilgjaldi. Talið er upp í þremur stafliðum hvaða skjöl þetta eru og er í öllum tilvikum um að ræða skjöl sem einnig eru undanþegin gjaldinu samkvæmt gildandi lögum.
    Í a-lið kemur fram að samningar sem ráðherra er fer með málefni landbúnaðar gerir um töku jarða til nytjaskógræktar séu undanþegnir gjaldinu. Um er að ræða sambærilega undanþágu og felst í 10. tölul. 35. gr. gildandi laga.
    Í b-lið kemur fram að skjöl er sýna yfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, enda sé ekki samhliða um sölu eða um söluafsal að ræða, verði gjaldfrjáls. Um er að ræða efnislega sambærilegt ákvæði og í 2. málsl. 5. mgr. 16. gr. gildandi laga.
    Í c-lið er fjallað um skjal sem samkvæmt efni sínu er gjaldskylt í samræmi við ákvæði laga þessara en er undanþegið stimpilgjaldi vegna sambands þess við annað gjaldskylt skjal. Um er að ræða efnislega sambærilegt ákvæði og í 1. mgr. 32. gr. gildandi laga.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. segir að sýslumenn annist innheimtu stimpilgjalds og eru þeir einu innheimtumenn gjaldsins.
    Í 2. mgr. er skilgreint hvenær gjalddagi stimpilgjalds ákvarðast en hann er tveimur mánuðum eftir það tímamark sem rakið er í 1. mgr. 2. gr. laganna. Gjalddagi er þannig tveimur mánuðum eftir undirritunardag. Ef fleiri en einn undirrita skjal er miðað við þann dag er hinn síðasti undirritar enda er það alla jafna á þeim tímapunkti sem samningar öðlast gildi.
    Sú skylda er lögð á sýslumenn í 3. mgr. að kanna sérstaklega þegar skjal er fært til þinglýsingar hvort stimpilgjald hafi verið greitt af hinu gjaldskylda skjali.
    Í 4. mgr. er lagt til að sýslumenn gefi út greiðslukvittun eftir að greiðsla stimpilgjalds hefur farið fram og er greiðslukvittunin fullnægjandi sönnun á greiðslu gjaldsins. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum.
    Í 5. mgr. er ráðherra veitt heimild til að fela einum eða fleiri sýslumönnum að innheimta stimpilgjald. Slíkt kann að vera talið nauðsynlegt til að samræma innheimtuna á landsvísu.

Um 8. gr.

    Ákvæðið fjallar um þau viðurlög sem skylt er að beita ef stimpilgjald er ekki greitt á gjalddaga. Álagið skal vera 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%. Um er að ræða breytingu frá gildandi lögum en samkvæmt þeim skal greiða 10% fyrir hvert byrjað sjö daga tímabil allt að hálfu grunngjaldinu, sbr. 36. gr. Álag samkvæmt gildandi lögum getur því mest orðið 50% en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að álag verði mest 10%.
    Heimilt er að fella niður álag ef gjaldandi færir gildar ástæður sér til málsbóta. Sýslumanni er falið að meta það í hverju tilviki hvað teljist gildar ástæður í þessu sambandi.

Um 9. gr.

    Ákvæðið fjallar um endurgreiðslu stimpilgjalds og er það að hluta til sambærilegt 14. gr. gildandi laga. Sýslumönnum er falið að endurgreiða gjaldið ef gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ef ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði. Eru þetta sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 14. gr. gildandi laga. Þá er kveðið á um það að stimpilgjald skuli endurgreiða ef það er innheimt af vangá eða innheimt of hátt. Fer um endurgreiðsluna eftir lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
    Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að endurgreiða stimpilgjald áður en tvö ár eru liðin frá útgáfu skjalsins en í frumvarpinu er lagt til að sá tími verði lengdur í fjögur ár frá undirritun skjalsins. Sýslumanni er heimilt að víkja frá þeim fresti við mjög sérstakar aðstæður og aðeins í undantekningartilvikum. Á það einkum við ef gjaldanda verður ekki kennt um þau atvik er valda því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist. Gjaldendur geta þó aldrei borið fyrir sig vanþekkingu á réttarreglum.
    Í 3. mgr. er að finna það nýmæli frá gildandi lögum að ráðherra er veitt heimild til að fela einu sýslumannsembætti að annast endurgreiðslur á stimpilgjaldi. Með því móti er betur tryggt að framkvæmd endurgreiðslnanna verði samræmd á landsvísu.

Um 10. gr.

    Ákvæðið kveður á um endurákvörðun stimpilgjalds en lagt er til að sýslumaður hafi heimild til að endurákvarða stimpilgjald í sex ár frá því að upphafleg ákvörðun um innheimtu gjaldsins var eða mátti vera tekin en í tvö ár hafi gjaldandi látið í té fullnægjandi upplýsingar þegar upphafleg ákvörðun um innheimtu gjaldsins var eða mátti vera tekin. Ákvæðið er í samræmi við 97. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem kveður á um heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar skatts.

Um 11. gr.

    Lagt er til að með frumvarpinu verði lögfest sérstök kæruheimild. Í gildandi lögum er að finna heimild til að kæra ákvörðun um stimpilgjald til ráðuneytisins en í frumvarpinu eru kæruheimildinni gerð ítarlegri skil.
    Ákvæðið er í þremur málsgreinum og gefur gjaldanda leiðbeiningar um það hvernig kæru skuli háttað og hvaða gögn skuli fylgja henni. Lagt er til að kærufrestur verði þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar en samkvæmt gildandi lögum er fresturinn tveir mánuðir. Með ákvörðun er átt við ákvörðun sýslumanns um innheimtu stimpilgjalds, fjárhæð gjaldsins, endurgreiðslu gjaldsins o.fl. Dagsetning ákvörðunar er sú dagsetning sem fram kemur á greiðslukvittun skv. 4. mgr. 7. gr. þegar stimpilgjald hefur verið greitt. Þá er gjaldanda veittur frestur til að bæta úr annmörkum kærunnar, séu þeir einhverjir, innan hæfilegs frests. Áætlað er að hæfilegur frestur í þessu tilliti sé um þrjár til sex vikur, allt eftir því hversu flókið og viðamikið kæruefnið er.
    Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda um meðferð kærumála.

Um 12. gr.

    Ákvæðið fjallar um refsingar fyrir brot gegn ákvæðum frumvarpsins. Í gildandi lögum er að finna refsiákvæði í 37. gr. en í frumvarpinu er fjallað með ítarlegri hætti um refsiviðurlög.
    Ákvæðið sækir fyrirmynd til 13. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er ráðherra falið að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Sérstaklega er áréttað í ákvæðinu að hafa skuli eftirlit með því að innheimtan sé samræmd á landinu öllu.

Um 14. gr.

    Ákvæðið hefur að geyma reglugerðarheimild. Ráðherra er heimilað að mæla nánar fyrir um framkvæmd laganna í reglugerð, m.a. um frekari skilyrði greiðslukvittana og endurgreiðslu gjaldsins.

Um 15. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki frekari skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um stimpilgjald.

    Í frumvarpinu er lagt til að gildandi lög um stimpilgjald verði felld brott í heild sinni en í þeirra stað taki gildi ný heildarlög um stimpilgjald. Gjaldskyldan samkvæmt frumvarpinu nær einungis til þeirra skjala er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Þetta hefur í för með sér að ekki verður lengur skylt að greiða stimpilgjald vegna lánsskjala, þ.m.t. skilmálabreytinga á lánsskjölum, vegna hlutabréfa, vegna skilríkja fyrir eignarhluta í félögum og vegna félagssamninga. Þá fellur einnig brott skyldan til að greiða stimpilgjald vegna kaupmála, vátryggingarskjala, aðfarargerða, kyrrsetningargerða, löggeymslna, leigusamninga um jarðir og lóðir, heimildarskjala um veiðiréttindi og skjala sem leggja ítök, skyldur og kvaðir á annarra eign.
    Lagt er til að stimpilgjaldið verði 0,8% þegar rétthafi er einstaklingur en 1,6% þegar rétthafi er lögaðili. Lagt er til að sýslumenn innheimti stimpilgjaldið og að þeir gefi út kvittun sem staðfestingu fyrir greiðslu. Þar með munu bæði ástimplun stimpilmerkjavélar og álíming stimpilmerkja á stimpilskyld skjöl heyra sögunni til. Innheimta er nú skráð rafrænt í tölvukerfi innheimtuaðila og upplýsingar um greiðslu stimpilgjalds einstakra aðila liggja fyrir í gagnagrunni sýslumannsembætta.
    Gert er ráð fyrir að frumvarp að nýjum lögum um stimpilgjald muni skila sömu tekjum í ríkissjóð á árinu 2014 og gildandi lög, eða 4,3 mia. kr. Þó er gert ráð fyrir að tilfærslur verði á milli gjaldstofna. Tilfærslurnar eru með þeim hætti að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi þegar rétthafi er einstaklingur hækka um 900 m.kr. og verða 1,8 mia.kr. á ári, en þegar rétthafi er lögaðili hækka tekjur ríkissjóðs um 1,9 mia.kr. og nema 2,5 mia.kr. á ári. Á móti 2,8 mia.kr. hækkun vegur að tekjur vegna lánsskjala svo sem skuldabréfa, tryggingabréfa, afurðalána og annarra lánsskjala, lækkar um 2,8 mia.kr. og eru því nettóáhrifin þau að tekjur ríkissjóðs verða óbreyttar verði frumvarpið að lögum. Við mat á áhrifum frumvarpsins þarf einnig að hafa í huga þá miklu einföldun og bættu framkvæmd sem frumvarpið mun leiða af sér verði það að lögum. Gera má ráð fyrir að slík einföldun á framkvæmdinni muni leiða til hagræðingar hjá sýslumannsembættum en erfitt er að leggja nákvæmt mat á hve mikil slík áhrif yrðu. Jafnframt þarf að horfa til þess að einföldun kerfisins, þar sem gjaldstofninn er skýr og gjaldhlutföll ljós, dregur úr kostnaði allra sem þurfa að nota kerfið, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja, vegna minna umstangs og tímasparnaðar.
Neðanmálsgrein: 1
1     Nr. 244/12/COL.
Neðanmálsgrein: 2
2     Nr. 290/12/COL og nr. 291/12/COL.