Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 38. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 38  —  38. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf við Færeyjar og Grænland um aukið framboð á kennslu
til að taka á lestrar- og skriftarvanda.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að eiga samstarf við stjórnvöld Færeyja og Grænlands til að efla kennslu þeirra sem eiga við lestrar- og skriftarvanda að stríða. Stjórnvöld standi að sameiginlegri rannsókn og tryggi samvinnu þeirra sem málið varðar til að stuðla að miðlun þekkingar og kennsluhátta sem hafa gefið góða raun.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 4/2013 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi 20. ágúst 2013.
    Einstaklingar sem eiga við lestrar- og skriftarvanda að stríða hafa fengið sérkennslu sl. 10 ár í Færeyjum utan hins opinbera menntakerfis annaðhvort frá foreldrum eða öðrum eldhugum sem af sjálfsdáðum hafa aflað sér viðeigandi þekkingar og kunnáttu. Í ljósi þess að hið opinbera menntakerfi hefur ekki haft þá nauðsynlegu þekkingu sem þarf til að taka á lestrar- og skriftarvanda voru félagasamtök um lestrar- og skriftarvanda stofnuð árið 2001. Í náinni samvinnu við stjórnvöld og skóla hafa samtökin veitt bæði ungmennum og fullorðnum aðstoð við að taka á sínum vanda. Fyrstu árin var starfsemin fjármögnuð með einkaframlögum en sl. fjögur ár hefur starfsemi samtakanna verið á fjárlögum. Árið 2013 fengu samtökin alls 900.000 danskra króna.
    Á Grænlandi eru engin slík félagasamtök til staðar en á Íslandi hafa samtökin, sem verið hafa til staðar sl. 10 ár, átt erfitt með að fjármagna starfsemi sína. Árið 2013 var framlag til þeirra tryggt á fjárlögum en fram að því voru þau fjármögnuð með einkaframlögum.
    Hið opinbera skólakerfi aðstoðar nemendur sem standa höllum fæti og reynir að koma til móts við sérþarfir nemenda. Hins vegar falla margir nemendur, sem að undanskildum lestrar- og skriftarvanda eiga ekki við vandamál að stríða, milli skers og báru sem veldur því að með tímanum dragast þau aftur úr í þeim tilvikum sem lestrarfærni er skilyrði fyrir eðlilegri námsframvindu.
    Samstarf þvert á landamæri vestnorrænu landanna getur án efa bætt framboð á sérkennslu og þar með stuðlað að því að auðvelda nemendum með lestrar- og skriftarvanda að ljúka námi.