Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 77. máls.

Þingskjal 77.  —  77. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013, frá 3. maí 2013, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013, frá 3. maí 2013, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda.
    Með tilskipun 2011/77/ESB er stefnt að því að bæta réttarstöðu listflytjenda með því að lengja verndartíma listflutnings og hljóðrita. Þá er leitast við að tryggja að listflytjendur njóti ávinningsins af lengingu verndartímans. Einnig er stefnt að því að tryggja samræmingu á verndartíma höfundaréttar milli aðildarríkjanna þegar um er að ræða frumsamdar tónsmíðar með frumsömdum texta.
    Hér að aftan er gerð nánari grein fyrir efni tilskipunarinnar sem um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt tilskipuninni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda.
    Tilskipun 2011/77/ESB felur í sér breytingar á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda í þá átt að lengja verndartíma á listflutningi og hljóðriti. Með tilskipun 2011/77/ESB er kveðið á um að verndartími einkaréttar listflytjenda af listflutningi og höfundaréttur hljómplötuframleiðenda skuli lengjast úr 50 árum í 70 ár eftir að flutningur fór fram, frumupptaka var gerð eða eftir fyrstu dreifingu hennar. Þá er gert ráð fyrir því að listflytjandinn njóti ávinningsins af lengingu verndartímans og kveðið á um tvær leiðir sem ríki geta valið um í þeim tilgangi. Annars vegar má skylda hljómplötuframleiðendur að leggja til hliðar upphæð sem samsvarar 20% af þeim tekjum sem stofnast vegna einkaréttar til dreifingar, eintakagerðar og birtingar á hljóðritunum. Þessari upphæð skal svo ráðstafa til þeirra sem hafa framselt eða úthlutað einkarétti sínum fyrir heildargreiðslu. Hins vegar má mæla fyrir um leiðréttingu á þeim samningum þar sem listflytjendur hafa framselt einkarétt sinn til endurgjalds til hljómplötuframleiðenda á þann hátt að listflytjendur byrji með „hreint borð“. Í þeim tilvikum bera ríki ábyrgð á því að úrræði séu til staðar takist ekki að endurnýja eða leiðrétta samninga milli aðila. Að lokum er með tilskipuninni stefnt að því að tryggja samræmingu á verndartíma höfundaréttar milli aðildarríkjanna þegar um er að ræða frumsamdar tónsmíðar með frumsömdum texta, á þann hátt að umrædd tilskipun nái til allra þeirra verka.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2011/77/ESB kallar á breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum. Stefnt er að því að mennta- og menningarmálaráðherra leggi fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi til breytinga á höfundalögum til samræmis við efni tilskipunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir því að lagabreytingarnar hafi aukinn kostnað í för með sér eða stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.

Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 94/2013

frá 3. maí 2013

um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn



SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Fella ber inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda ( 1 ).

2)        XVII. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi bætist við í lið 9f (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/116/EB) í XVII. viðauka við EES-samninginn:

„eins og henni var breytt með:

–     32011 L 0077: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 (Stjtíð. ESB L 265, 11.10.2011, bls. 1).“

2. gr.



Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2011/77/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.



Ákvörðun þessi öðlast gildi 4. maí 2013, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.



Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 3. maí 2013.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

formaður.



Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2011/77/ESB
frá 27. september 2011
um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 1. mgr. 53. gr., 62. gr. og 114. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins ( 1 ),
í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Verndartími fyrir listflytjendur og framleiðendur hljóðrita er 50 ár samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/116/EB ( 3 )
2)        Í tilfelli listflytjenda hefst þetta tímabil með listflutningi eða, þegar upptaka af listflutningnum er löglega gefin út eða henni miðlað til almennings með löglegum hætti innan 50 ára frá því að listflutningurinn fer fram, fyrstu útgáfu eða miðlun hans til almennings, eftir því hvor dagurinn er á undan.
3)         Tímabilið hefst hjá framleiðendum hljóðrita við upptöku hljóðritsins, löglega útgáfu þess innan 50 ára frá upptöku eða, ef slík útgáfa hefur ekki farið fram, löglega miðlun til almennings innan 50 ára frá upptöku.
4)        Endurspegla skal hið félagslega viðurkennda mikilvægi, sem skapandi framlag listflytjenda hefur, með verndarstigi sem áréttar hið skapandi og listræna framlag þeirra.
5)        Listflytjendur hefja gjarnan feril sinn ungir og er núgildandi 50 ára verndartími fyrir upptökur á listflutningi oft ekki nægjanlegur til að vernda hann allt æviskeið þeirra. Af þeim sökum horfa sumir listflytjendur fram á tekjumun á ævikvöldi sínu. Þar að auki geta listflytjendur ekki alltaf treyst á að réttindi þeirra yfir eigin listflutningi geti hindrað eða takmarkað hneykslanlega notkun sem kann að vera gerð á flutningnum á meðan þeir lifa.
6)        Tekjur sem leiða af einkarétti á endurútgáfu og notkun, eins og kveðið er á um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu ( 1 ), einnig sanngjarnar bætur fyrir endurútgáfu til einkanota, í skilningi þeirrar tilskipunar, og einkarétt á dreifingu og leigu, í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/115/EB frá 12. desember 2006 um leigu- og útlánsrétt og önnur tiltekin réttindi, tengd höfundarétti, á sviði hugverkaréttar ( 2 ), ættu að minnsta kosti að vera tiltækar listflytjendum á æviskeiði þeirra.
7)        Því skal lengja verndartíma á upptökum af listflutningi og hljóðritum í 70 ár frá því að viðkomandi atburður fór fram.
8)        Réttindi á upptöku listflutningsins skulu hverfa aftur til listflytjandans ef framleiðandi hljóðritsins býður ekki fjölfölduð afrit hljóðritsins, sem yrði almenningseign ef ekki kæmi til lengingar á verndartímanum, til sölu í nægjanlegu magni, í skilningi alþjóðasamningsins um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana, eða láti ógert að gera slíkt hljóðrit aðgengilegt almenningi. Þessi valkostur skal vera tiltækur við lok hæfilegs frests sem framleiðandi hljóðritsins hefur til að framkvæma báðar þessar nýtingarleiðir. Réttindi framleiðanda hljóðritsins á því skulu þannig renna út til að forðast aðstæður þar sem réttindi þessi væru til staðar samhliða þeim sem listflytjandinn hefur á upptöku listflutningsins, þó að réttindi hins síðarnefnda séu ekki lengur yfirfærð eða framseld til framleiðanda hljóðritsins.
9)        Listflytjendur verða jafnan að yfirfæra eða framselja einkarétt á endurútgáfu, dreifingu, leigu og notkun á upptökum af listflutningi þeirra til framleiðanda hljóðrita, þegar þeir stofna til samningsbundinna tengsla við hann. Í staðinn fá sumir listflytjendur höfundarlaunin greidd fyrirfram og njóta aðeins frekari greiðslna þegar útgefandi hljóðritsins hefur fengið inn tekjur fyrir upphaflegu fyrirframgreiðslunni og samningsbundnum frádrætti kostnaðar. Aðrir listflytjendur yfirfæra eða framselja einkarétt sinn og fá í staðinn eingreiðslu (eina greiðslu þóknunar). Þetta á sérstaklega við um listflytjendur sem eru hvorki sýnilegir í listflutningi né skráðir á kreditlista (ótilgreindir listflytjendur) en stundum einnig um listflytjendur sem eru nefndir á kreditlista (tilgreindir listflytjendur).
10)        Innleiða skal hliðarráðstafanir í því skyni að tryggja að listflytjendur, sem hafa yfirfært eða framselt einkarétt til framleiðenda hljóðrita, hagnist í raun á lengingu verndartímans.
11)        Fyrsta hliðarráðstöfunin skal vera sú að setja þá kvöð á framleiðendur hljóðrita að þeir leggi til hliðar, að minnsta kosti árlega, upphæð sem samsvarar 20% af tekjum frá einkarétti af dreifingu, endurútgáfu og notkun hljóðrita. „Tekjur“: afrakstur framleiðanda hljóðrita áður en kostnaður er dreginn frá.
12)        Greiðsla þessara fjárhæða skal einungis vera gerð til hagsbóta fyrir listflytjendur, hverra upptaka af listflutningi er geymd í hljóðriti og sem hafa yfirfært eða framselt réttindi sín til framleiðenda hljóðrita gegn eingreiðslu þóknunar. Úthluta skal fjárhæðunum, sem settar eru til hliðar með þessum hætti, á einstaklingsgrundvelli til ótilgreindra listflytjenda a.m.k. árlega. Fela skal innheimtusamtökum slíka úthlutun og má beita innlendum reglum um óráðstafanlegar tekjur þar að lútandi. Til að koma í veg fyrir að óhóflegar byrðar séu lagðar á við innheimtu og stjórnun þessara tekna skulu aðildarríkin geta sett reglur um umfang þess hversu mikið smáfyrirtæki falla undir kvaðir þess efnis að leggja af mörkum ef þær greiðslur gætu litið óhóflega út með tilliti til kostnaðar við innheimtu og stjórnunar þessara tekna.
13)        Í 5. gr. tilskipunar 2006/115/EB er listflytjendum þegar veittur réttur til sanngjarnrar þóknunar, sem þeir geta ekki afsalað sér, fyrir leigu á, m.a. hljóðritum. Ennfremur yfirfæra eða framselja listflytjendur jafnan ekki til framleiðenda hljóðrita þau réttindi sín að krefjast sanngjarnrar þóknunar í formi eingreiðslu fyrir útsendingar í útvarpi og miðlun til almennings skv. 2. mgr. 8. gr. tilskipunar 2006/115/EB og sanngjarnar bætur fyrir endurútgáfur til einkanota skv. b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/ 29/EB. Við útreikninga á heildarfjárhæðinni, sem framleiðandi hljóðrita skal leggja til hliðar fyrir greiðslu viðbótarþóknunar, skal því ekki hafa hliðsjón af tekjum, sem framleiðandi hljóðrita hefur hlotið af leigu hljóðrita, sanngjarnri þóknun í formi eingreiðslu, sem móttekin var fyrir útsendingu í útvarpi og miðlun til almennings, eða fyrir sanngjarnar bætur, sem mótteknar voru fyrir afritun til einkanota.
14)        Önnur hliðarráðstöfun, sem er ætlað að endurstilla samninga með því að listflytjendur yfirfæri einkarétt sinn til framleiðanda hljóðrita á grundvelli rétthafagreiðslna, skal vera „hreint borð“ fyrir þá listflytjendur sem hafa framselt framangreinda einkarétti sína til framleiðenda hljóðrita gegn höfundaréttargreiðslum eða þóknunum. Til að listflytjendur njóti að fullu ávinnings af lengda verndartímanum skulu aðildarríkin tryggja, samkvæmt samningum á milli framleiðenda hljóðrita og listflytjenda, að hlutfall höfundaréttargreiðslna og þóknana sé veðbandalaust þrátt fyrir að listflytjendur hefðu þegið fyrirframgreiðslur eða samningsbundinn frádrátt kostnaðar á lengda verndartímanum.
15)        Vegna réttarvissu skal kveðið á um, þar sem skýrar vísbendingar um hið gagnstæða vantar í samninginn, að samningsbundnar yfirfærslur eða framsal á réttindum á upptöku listflutnings, sem lokið er við fyrir þann dag er aðildarríkin eiga að samþykkja ráðstafanir til að framkvæma þessa tilskipun, skuli halda gildi sínu á lengda verndartímanum.
16)        Aðildarríkin skulu geta kveðið á um að semja megi að nýju um tiltekna skilmála, sem kveða á um endurteknar greiðslur, til hagsbóta fyrir listflytjendur. Aðildarríkin skulu hafa sett sér verklagsreglur til að ná yfir þann möguleika að nýjar samningaviðræður skili engum árangri.
17)        Tilskipun þessi skal ekki hafa áhrif á samrýmanleg ákvæði í innlendum reglum og samningum, svo sem kjarasamningum sem samþykktir voru í aðildarríkjunum á milli hagsmunasamtaka listflytjenda og hagsmunasamtaka framleiðenda.
18)        Í sumum aðildarríkjum fá tónsmíðar með texta aðeins einfaldan verndartíma sem reiknaður er út frá andláti síðasta eftirlifandi höfundar á meðan önnur aðildarríki veita bæði tónlist og texta aðskilinn verndartíma. Tónsmíðar með texta eru að langmestu leyti samdar af fleiri en einum höfundi. Til dæmis má nefna að ópera er gjarnan samstarfsverkefni textahöfundar og tónskálds. Ennfremur felst sköpunarferlið á tónlistarsviðum eins og jass-, rokk- og dægurtónlist oft í samstarfi margra aðila.
19)        Af þessum sökum varð ófullnægjandi samræming á verndartímum að því er varðar tónsmíðar með texta, texta og verka sem samin voru með það í huga að tónlist og texti stæðu saman, sem leiðir til hindrana á frjálsum vöru- og þjónustuflutningum, s.s. þjónustu við sameiginlega umsýslu yfir landamæri. Til að tryggja að þessum hindrunum verði rutt úr vegi skulu öll þau verk, sem njóta verndar á þeim tíma þegar aðildarríkjunum ber skylda til að lögleiða þessa tilskipun, hafa samræmdan verndartíma í öllum aðildarríkjunum.
20)        Því ber að breyta tilskipun 2006/116/EB til samræmis við það.
21)        Þar sem aðildarríkin geta ekki náð markmiðum hliðarráðstafananna með fullnægjandi hætti, að því leyti sem landsráðstafanir á því sviði myndu annaðhvort leiða til röskunar á samkeppni eða hafa áhrif á gildissvið einkaréttar framleiðanda hljóðrita, eins og þau eru skilgreind í löggjöf Sambandsins, og má því betur ná þeim á vettvangi Sambandsins, getur Sambandið samþykkt ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna eins og segir í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Til þess að ná þessum markmiðum er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur, í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein.
22)        Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til þess, bæði í eigin þágu og í þágu Sambandsins, að semja og birta sínar eigin töflur sem sýna, eftir því sem kostur er, samsvörun milli þessarar tilskipunar og lögleiðingarráðstafana þeirra,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Breytingar á tilskipun 2006/116/EB

Tilskipun 2006/116/EB er breytt sem hér segir:
1)     Eftirfarandi málsgrein bætist við í 1. gr.:
    „7. Verndartími tónsmíðar með texta skal renna út 70 árum frá andláti þess sem lifir lengst af höfundum texta og tónlistar, hvort sem viðkomandi er skráður meðhöfundur eða ekki, að því tilskildu að framlög beggja séu sérstaklega samin fyrir viðkomandi tónsmíð með texta“.
2)     Ákvæðum 3. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað annars málsliðar 1. mgr.:
        „Hins vegar,
        –    ef upptaka á listflutningi, öðru vísi en í hljóðriti, er gefin út á löglegan hátt eða henni miðlað til almennings á löglegan hátt á þessu tímabili renna réttindin þó út 50 árum eftir fyrsta útgáfudag eða fyrsta dag miðlunar til almennings, eftir því hvor dagurinn er á undan,
        –    ef upptaka á listflutningi í hljóðriti er gefin út á löglegan hátt eða henni miðlað til almennings á löglegan hátt á þessu tímabili renna réttindin þó út 70 árum frá fyrsta útgáfudegi eða fyrsta degi miðlunar til almennings, eftir því hvor dagurinn er á undan.“,
    b)     í öðrum og þriðja málslið 2. mgr. skal talan „70“ koma í stað tölunnar „50“,
    c)    eftirfarandi málsgreinar bætist við:
        „2a. Listflytjandinn getur slitið samningnum, þar sem hann yfirfærir eða framselur réttindi sín á upptökum af listflutningi sínum til framleiðanda hljóðrita (hér á eftir „samningur um yfirfærslu eða framsal“), ef framleiðandi hljóðritsins býður ekki fjölfölduð afrit þess til sölu í nægjanlegu magni eða lætur ógert að gera slíkt hljóðrit aðgengilegt almenningi, um þráð eða þráðlaust, 50 árum frá því að hljóðritið var löglega gefið út eða, ef slík útgáfa fórst fyrir, 50 árum frá því að henni var löglega miðlað til almennings, með þeim hætti að almenningur geti nálgast hana frá stað og á tíma sem hver einstaklingur velur sér. Beita má réttinum til að slíta samningnum um yfirfærslu og framsal ef framleiðandinn, innan árs frá því að listflytjandinn tilkynnti honum um þá ætlun sína að slíta samningnum um yfirfærslu og framsal samkvæmt málsliðnum hér á undan, framkvæmir hvoruga af þeim nýtingarleiðum, sem þar um getur í málsliðnum. Listflytjandinn má ekki afsala sér réttinum til samningsslita. Þegar hljóðrit inniheldur upptöku af listflutningi margra listflytjenda geta þeir slitið samningum sínum um yfirfærslu og framsal í samræmi við viðeigandi landslög. Ef samningnum um yfirfærslu eða framsal er slitið samkvæmt þessari málsgrein skulu réttindi framleiðanda hljóðritsins í hljóðritinu falla úr gildi.
        2b. Þar sem samningur um yfirfærslu eða framsal gefur listflytjandanum réttindi til að krefjast einnar greiðslu þóknunar skal listflytjandinn hafa heimild til að hljóta árlega viðbótarþóknun frá framleiðanda hljóðritsins fyrir hvert heilt ár beint í kjölfar 50. ársins frá löglegri útgáfu hljóðritsins eða, ef ekki er um slíka útgáfu að ræða, 50. ársins frá því að henni var löglega miðlað til almennings. Listflytjandinn má ekki afsala sér réttindunum til að hljóta þessa árlegu viðbótarþóknun.
        2c. Heildarfjárhæðin sem framleiðendur hljóðrita leggja til hliðar vegna árlegrar greiðslu viðbótarþóknunarinnar, sem um getur í 2. mgr. b, skal samsvara 20% tekna, sem framleiðandi hljóðrita hlaut árið áður en viðkomandi greiðsla er innt af hendi, af endurútgáfu, dreifingu og notkun á umræddu hljóðriti beint í kjölfar 50. ársins frá því að hún var löglega útgefin eða, ef ekki er um slíka útgáfu að ræða, 50. ársins frá því að henni var löglega miðlað til almennings.
        Aðildarríkin skulu tryggja að framleiðendum hljóðrita sé gert skylt að veita listflytjendum, sem eiga rétt á árlegri viðbótarþóknun, sem um getur í 2. mgr. b, allar upplýsingar sem nauðsynlegar geta verið í því skyni að tryggja greiðslu þeirrar þóknunar, sé þess óskað.
        2d. Aðildarríkin skulu tryggja að innheimtusamtök hafi umsjón með réttinum til að hljóta árlega viðbótarþóknun eins og um getur í 2. mgr. b.
        2e. Þar sem listflytjandi á rétt á endurteknum greiðslum skal hvorki draga fyrirframgreiðslur né samningsbundinn frádrátt kostnaðar frá greiðslum til listflytjandans í kjölfar 50. ársins frá því að hljóðritið var löglega útgefið eða, ef slík útgáfa var ekki gerð, 50. ársins frá því að henni var löglega miðlað til almennings.“
3)     Eftirfarandi málsgreinar bætist við 10. gr.:
    „5.     Ákvæði 1. mgr. til 2. mgr. e í 3. gr., í þeirri útgáfu sem er í gildi þann 31. október 2011, skulu gilda um upptökur á listflutningum og hljóðritum með tilliti til þeirra sem listflytjandinn og framleiðandi hljóðrita njóta enn verndar fyrir, með skírskotun til ákvæðanna í þeirri útgáfu sem gildir 30. október 2011, þann 1. nóvember 2013 og einnig upptökur af listflutningum og hljóðritum sem verða til frá þeim degi.
    6. Ákvæði 7. mgr. 1. gr. skulu gilda um tónsmíðar með texta, þar sem a.m.k. tónsmíðin eða textinn er varinn 1. nóvember 2013 í einu aðildarríki hið minnsta og um tónsmíðar með texta sem verða til frá þeim degi.
    Fyrsta undirgrein þessarar málsgreinar gildir með fyrirvara um alla nýtingu sem á sér stað fyrir 1. nóvember 2013. Aðildarríki skulu samþykkja nauðsynleg ákvæði til að vernda sérstaklega áunnin réttindi þriðju aðila.“
4)     Eftirfarandi grein bætist við:
     „10. gr. a
     Umbreytingarráðstafanir
    1.     Samningur um yfirfærslu eða framsal sem gerður er fyrir 1. nóvember 2013 skal talinn hafa áhrif fram yfir þann tíma sem listflytjandinn nýtur ekki lengur verndar, ef skýrar upplýsingar finnast ekki í samningnum um hið gagnstæða, með skírskotun til 1. mgr. 3. gr. þeirrar útgáfu sem er í gildi 30. október 2011.
    2.     Aðildarríkin geta kveðið á um að samningar um yfirfærslu eða framsal sem veita listflytjanda rétt til endurtekinna greiðslna og eru gerðir fyrir 1. nóvember 2013 í kjölfar 50. ársins frá löglegri útgáfu hljóðritsins eða, ef slík útgáfa var ekki gerð, 50. ársins frá því að henni var löglega miðlað til almennings.“

2. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. nóvember 2013. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða að þeim fylgi slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3. gr.
Skýrslugjöf

1.     Framkvæmdastjórnin skal, fyrir 1. nóvember 2016, leggja fram skýrslu fyrir Evrópuþingið, ráðið og efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins um beitingu þessarar tilskipunar í ljósi þróunar stafræna markaðarins ásamt, ef við á, tillögu um frekari breytingar á tilskipun 2006/116/EB.
2.     Eigi síðar en 1. janúar 2012 skal framkvæmdastjórnin leggja fyrir Evrópuþingið, ráðið og efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins skýrslu þar sem metin er möguleg þörf á að lengja verndartíma réttinda listflytjenda og framleiðenda í hljóð- og myndmiðlageiranum. Framkvæmdastjórnin skal, ef við á, leggja fram tillögu um frekari breytingu á tilskipun 2006/116/EB.

4. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

5. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 27. september 2011.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK M. DOWGIELEWICZ
forseti. forseti.

_______

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 265, 11.10.2011, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 3
(1)    Stjtíð. ESB C 182, 4.8.2009, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 4
(2)    Afstaða Evrópuþingsins frá 23. apríl 2009 (Stjtíð. ESB C 184 E, 8.7.2010, bls. 331) og ákvörðun ráðsins frá 12. september 2011.
Neðanmálsgrein: 5
(3)    Stjtíð. ESB L 372, 27.12.2006, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 7
(2)    Stjtíð. ESB L 376, 27.12.2006, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.