Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 119. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 122  —  119. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aukinn sýnileika og bætta ímynd Alþingis á samfélagsmiðlum.


Flm.: Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Brynhildur Pétursdóttir,
Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að móta stefnu fyrir Alþingi um notkun samfélagsmiðla til að auka sýnileika Alþingis með það að leiðarljósi að auka upplýsingaflæði til borgaranna og bæta ímynd Alþingis.


Greinargerð.

    Mikið hefur verið rætt um ásýnd og virðingu Alþingis á undanförnum missirum og hefur traust landsmanna til stofnunarinnar aldrei mælst minna. Mikilvægt er að Alþingi hafi rödd og sé sýnilegt þar sem fólkið í landinu er á hverjum tíma og þýðingarmikið er að stofnun eins og Alþingi leggi áherslu á að vera lifandi, lagi sig að breyttum aðstæðum og sé hluti af samfélaginu. Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að auka sýnileika Alþingis út á við, bæta upplýsingaflæði til borgaranna og þannig stuðla að bættri ímynd þingsins.
    Íslendingar eru í hópi netvæddustu þjóða heims og eru um 95% landsmanna tengd netinu á einn eða annan hátt, auk þess hafa þeir verið þjóða iðnastir við að nýta sér samfélagsmiðla. Samfélagsmiðlar er samheiti yfir netmiðla sem eiga það sameiginlegt að byggjast fyrst og fremst á gagnvirkum samskiptum þeirra sem nota miðilinn. Ýmsir slíkir miðlar hafa náð útbreiðslu hér á landi, svo sem Facebook, YouTube, Google+, Flickr og Twitter. Um 70% Íslendinga eru skráð fyrir Facebook-síðu auk þess sem yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga á aldrinum 18–39 ára er með slíka síðu.
    Þessir miðlar eru löngu orðnir viðurkenndir staðir til að koma upplýsingum á framfæri og stöðugt fleiri notendur samfélagsmiðla sækja fréttir, afþreyingu og samskipti hvers konar á slíka samskiptamiðla. Upp eru að spretta kynslóðir sem lesa ekki dagblöð, tímarit, netfréttamiðla eða horfa á sjónvarpsfréttir. Þessir einstaklingar lifa og hrærast á samfélagsmiðlum. Stofnanir og fyrirtæki sem ekki nýta sér slíka miðla eru að missa af tækifæri til að ná til fjölda fólks. Samskiptamiðlar opna leið til að koma á beinum samskiptum við borgarana og eiga við þá ákveðið samtal. Það er mikilvægt að hlusta og aukið aðgengi almennings að Alþingi sem stofnun er til þess fallið að auka traust.
    Það er margt sem mælir með því að Alþingi skoði möguleika á að nota samfélagsmiðla til samskipta og upplýsingamiðlunar. Með notkun samfélagsmiðla er hægt að stuðla að jákvæðri ímynd, t.d. væri hægt að vísa til umfjöllunar og frétta annarra miðla um Alþingi. Vissulega verður að gæta hlutleysis við val á slíku fréttaefni, líkt og gert er við val á efni sem birtist á heimasíðu Alþingis í dag. Á samfélagsmiðlum er hins vegar hægt að koma upplýsingum á framfæri hratt og milliliðalaust. Heimasíða Alþingis er hafsjór fróðleiks og þar er mikið magn af upplýsingum sem hægt væri að koma til almennings með aðgengilegum hætti, samfélagsmiðlarnir gætu verið góð leið til að leiða notendur á vefinn og vísa á þær upplýsingar sem þar má nálgast. Auðveldlega er hægt að koma á framfæri almennum fréttum frá starfinu, samhliða birtingu á heimasíðu. Slíkir miðlar eru kjörinn vettvangur til að miðla myndum af því fjölbreytta starfi sem fram fer á vegum þingsins. Einnig er ljóst að samfélagsmiðlar eru hentugur staður til að vekja athygli á tilvist ýmissa gagna sem eru á vef Alþingis, t.d. ræður, ferill þingmála, þingskjöl, fundargerðir nefnda, nefndarálit og svo mætti lengi telja.
    Tillagan gerir ráð fyrir að útbúin verði sérstök stefna fyrir Alþingi um notkun samfélagsmiðla. Í stefnunni verður útlistað hvernig Alþingi getur best nýtt sér slíka miðla til að hrinda framangreindum markmiðum í framkvæmd hið fyrsta. Einnig þyrfti að gera drög að leiðbeiningarreglum um hvernig starfsfólki beri að umgangast miðilinn og hvernig best væri að hrinda verkefninu í framkvæmd eins fljótt og skilvirkt og kostur er.
    Athygli er vakin á því að Stjórnarráðið hefur þegar lagst í slíka vinnu og skilaði vinnuhópur um samfélagsmiðla og upplýsingastefnu Stjórnarráðsins skýrslu í maí 2012. 1 Nokkur ráðuneyti eru nú þegar orðin sýnileg á samfélagsmiðlum. Önnur dæmi þar sem notkun samfélagsmiðla hefur bætt ímynd og ásýnd opinberra stofnana er t.d. lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem hefur haldið úti Facebook-síðu með góðum árangri. Það er mat lögreglunnar að auk þess að bæta ásýnd embættisins hafi tilraunin sýnt að hægt er að nota miðilinn í starfi embættisins, þar á meðal í forvarnaskyni, með því að dreifa upplýsingum, viðvörunum, leiðbeiningum og öðru slíku, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir slys, afbrot og aðrar ófarir. Lögreglan hefur einnig nýtt sér þessa miðla til þess að óska eftir aðstoð almennings, t.d. við að hafa uppi á týndum einstaklingum, eigendum þýfis og jafnvel eftirlýstum brotamönnum. Auk þess sem notkun samfélagsmiðla hefur skilað sér í auknu aðgengi almennings að lögreglunni. Öll þessi notkun hefur gefið góða raun. 2 Annað gott dæmi um árangursríka notkun á samfélagsmiðli er dagbók borgarstjóra þar sem 35 þúsund manns fylgjast á beinan hátt með daglegum verkum borgarstjóra. Þessu hefur verið gríðarlega vel tekið og aukið aðgengi hins almenna borgara að borgarstjóra og opnað alla umræðu. Enda þótt sú síða sé rekin af meðlimum stjórnmálaflokks sýnir hún glögglega hvernig samfélagsmiðlar geta virkað til að brúa bilið milli kjörinna fulltrúa og íbúa. Hlutverk Alþingis á samfélagsmiðlum væri einna helst að gefa almennum borgurum innsýn í þau verk sem unnin eru á Alþingi með hlutlausum hætti, veita upplýsingar og umfram allt brúa bilið milli þings og þjóðar.
    Lögð er áhersla á að vinna við stefnu Alþingis um notkun samfélagsmiðla verði hafin sem fyrst og verði birt fullbúin á vef Alþingis.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/tillogur-vinnuhops-samfelagsmidlar.pdf
Neðanmálsgrein: 2
2     www.sky.is/item/1607-l%C3%B6greglan-og-samf%C3%A9lagsmi%C3%B0lar