Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 98. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 176  —  98. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Björk Vilhelmsdóttur
um hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu.


     1.      Hversu margir aldraðir eru á biðlista eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu og hversu margir þeirra eru með lögheimili í Reykjavík? Hver er framreiknuð þróun biðlista miðað við fyrirhugaða fjölgun hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu?
    Samkvæmt tölum frá embætti landlæknis voru 124 einstaklingar á biðlista á höfuðborgarsvæðinu í lok september. Þar af voru 85 frá Reykjavík. Meðalbiðlisti á höfuðborgarsvæðinu fyrir lok mars, júní og september var hins vegar 121, en var að meðaltali 100 á árinu 2012. Flutningsmöt eru ekki innifalin í þessum tölum.
    Í viðbót við þau hjúkrunarrými sem tekin hafa verið í notkun í ár er gert ráð fyrir að hjúkrunarrýmum fjölgi um 76 á árinu 2015, þótt dagsetning liggi ekki endanlega fyrir. Þar af er gert ráð fyrir 44 hjúkrunarrýmum í Boðaþingi í Kópavogi, 30 hjúkrunarrýmum á Seltjarnarnesi og tveimur hjúkrunarrýmum í Hafnarfirði. Þar sem ákvörðun um byggingu annarra hjúkrunarrýma liggur ekki fyrir er ekki gert ráð fyrir þeim í eftirfarandi yfirliti.
    Miðað við mannfjöldaspá höfuðborgarsvæðisins og áætlaða fjölgun hjúkrunarrýma er búist við að biðlistinn styttist í 78 á árinu 2015 en lengist síðan í 270 árið 2020 og verði um 576 árið 2025.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hyggst ráðherra standa við viljayfirlýsingu sem gerð var milli velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar 23. apríl sl. um uppbyggingu hjúkrunarrýma og þjónustu fyrir aldraða í Reykjavík?
    Þegar viljayfirlýsingin var undirrituð lágu engar áætlanir fyrir um fjármögnun framkvæmdanna en stofnkostnaður við byggingu heimilis af þessari stærðargráðu nemur um 2,5 milljörðum kr. og rekstrarkostnaður um 750–800 millj. kr. á ári. Fyrir liggja samningar við þrjú sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu hjúkrunarrýma samkvæmt leiguleið en framkvæmdir eru ekki hafnar. Eðlilegt er að byrja á að fylgja þeirri uppbyggingu eftir í stað þess að gefa aukin fyrirheit um uppbyggingu við Sléttuveg þar sem ekkert liggur fyrir um fjármögnun framkvæmda þar né rekstur.
     3.      Hversu margir sjúklingar liggja og hve lengi að meðaltali á Landspítalanum eftir að meðferð er lokið vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu?
    Árið 2013 hafa að jafnaði 47 sjúklingar beðið á Landspítalanum á degi hverjum eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu, eftir að meðferð á sjúkrahúsinu var lokið. Að meðaltali biðu sjúklingar í 50 daga á spítalanum. Um 23 sjúklingar hafa útskrifast frá LSH á hjúkrunarheimili að meðaltali hvern mánuð frá ársbyrjun 2013. Í hverjum mánuði bættust við 23–30 nýir sjúklingar sem höfðu lokið meðferð og hófu bið sína eftir plássi á hjúkrunarheimili.
    Rétt er að taka fram að síðar í þessum mánuði verða 40 hjúkrunarrými að Vífilsstöðum tekin í notkun, sbr. samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 27. september sl.