Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 178. máls.

Þingskjal 218  —  178. mál.



Frumvarp til laga

um Orkuveitu Reykjavíkur.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Orkuveita Reykjavíkur er sameignarfyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík, en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum. Fyrirtækið er sjálfstæður lögaðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald og sjálfstæða skattaðild. Eiganda er óheimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis sameigendanna. Eignaraðild getur breyst með sameiningu starfsemi, sbr. ákvæði 5. mgr. 2. gr., eða með samningi sameigenda.

2. gr.

    Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að eiga dótturfélög og eiga hlut í félögum.
    Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög stunda vinnslu, framleiðslu og sölu raforku og heits vatns og gufu og rekstur grunnkerfa, svo sem dreifiveitu rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og gagnaveitu, auk annarrar starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Einnig þá starfsemi aðra sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækjanna, sem og iðnþróun og nýsköpun.
    Aðgreining starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur frá starfsemi dótturfélaga skal vera í samræmi við ákvæði laga hverju sinni. Við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi.
    Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að framselja til dótturfélags einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu, sérleyfi til raforkudreifingar og einkarétt til starfrækslu vatnsveitu og fráveitu, enda uppfylli dótturfélögin skilyrði laga til að fara með þau leyfi.
    Heimilt er að sameina starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur eða dótturfélags þess við sambærilega starfsemi sem rekin er af sveitarfélögum eða öðrum opinberum aðilum eða fyrirtæki í opinberri eigu.

3. gr.

    Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að stofna til fjárhagslegra skuldbindinga til þarfa fyrirtækisins og gangast í ábyrgð fyrir greiðslum í sama skyni. Fjárhagslegar skuldbindingar sem njóta skulu ábyrgðar eigenda eru háðar samþykki þeirra sbr. 2. mgr.
    Hver eigandi Orkuveitu Reykjavíkur ber einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum fyrirtækisins sem veitt er eigendaábyrgð samkvæmt þessari grein og skal innbyrðis skipting ábyrgðar vera í réttu hlutfalli við eignarhluta hans í fyrirtækinu. Ábyrgð eigenda nær ekki til annarra skuldbindinga fyrirtækisins og getur hún ekki numið hærra hlutfalli en 80% af fjárþörf verkefnis sem veitt er eigendaábyrgð.
    Orkuveita Reykjavíkur skal greiða eigendum sínum árlegt ábyrgðargjald af þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem njóta eigendaábyrgðar. Ábyrgðargjald vegna lána til samkeppnisstarfsemi fyrirtækisins skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækið nýtur, á grunni ábyrgðar eigenda, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ábyrgðar.
    Ábyrgðargjald það sem Orkuveita Reykjavíkur greiðir skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án eigendaábyrgðar og skal gjaldið reiknað af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga.
    Komi fram beiðni um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti skulu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, eins og þau eru á hverjum tíma, eiga við um Orkuveitu Reykjavíkur með sama hætti og um félag með takmarkaða ábyrgð.

4. gr.

    Um heimildir Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga til gjaldtöku vegna dreifingar á raforku, reksturs vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu fer samkvæmt gildandi lögum á hverju sviði. Að öðru leyti setja stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnir dótturfélaga gjaldskrár vegna sölu á vörum og þjónustu fyrirtækjanna.
    Við það skal miðað að Orkuveita Reykjavíkur skili eðlilegri arðsemi miðað við það fjármagn sem á hverjum tíma er bundið í fyrirtækinu. Ákvörðun um ráðstöfun afkomu skal tekin á aðalfundi.

5. gr.

    Um skipan í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja skal kveðið á í sameignarsamningi eigenda eða samþykktum viðkomandi fyrirtækja.
    Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur skulu gera með sér sameignarsamning þar sem fram komi frekari ákvæði um fyrirtækið. Þar skal m.a. kveðið á um:
     a.      skipan stjórnar,
     b.      aðalfund og aðra fundi eigenda, þ.m.t. boðun, umfjöllunarefni, rétt til setu og meðferð eignarhluta í fyrirtækinu,
     c.      stjórnarfundi og verkefni stjórnar,
     d.      ráðningu forstjóra og annars starfsliðs,
     e.      prókúruumboð,
     f.      heimildir stjórnar og forstjóra til að skuldbinda fyrirtækið,
     g.      hlutverk og ábyrgð eigendanna og hvernig þátttaka þeirra í ákvörðunum um mikilvæg málefni og stefnumörkun skuli tryggð,
     h.      breytingar á sameignarsamningi.

6. gr.

    Ráðherra setur reglugerð um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Þar skal m.a. kveða á um orkuöflun, orkuveitu, orkusölu og viðbrögð við misnotkun.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð bera áfram, hvert um sig gagnvart kröfuhöfum, ótakmarkaða ábyrgð á þeim skuldbindingum sem sveitarfélögin stofnuðu til fyrir stofnun sameignarfyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur 1. janúar 2002, sbr. lög nr. 139/2001, með síðari breytingum.

II.

    Ábyrgðir eigenda á fjárhagslegum skuldbindingum, í samræmi við ákvæði laga nr. 139/2001, svo og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum Orkuveitu Reykjavíkur við stóriðjufyrirtæki, sem stofnað var til fyrir gildistöku laga nr. 144/2010, halda gildi sínu eins og til þeirra var stofnað þar til þær eru að fullu efndar. Greiða ber árlega ábyrgðargjald, sbr. 3 gr., af þeim fjárhagslegu skuldbindingum, svo og þar sem um er að ræða ábyrgð á skuldbindingum samkvæmt rafmagnssamningum Orkuveitu Reykjavíkur við stóriðjufyrirtæki, frá og með gildistöku laga nr. 144/2010.

III.

    Skipting rekstrarþátta á milli Orkuveitu Reykjavíkur og einstakra dótturfélaga hennar, í samræmi við kröfur raforkulaga, nr. 65/2003, með síðari breytingum, skal ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, dótturfélög hennar eða eigendur. Eignir og skuldir skulu færast yfir á skattalega bókfærðu verði. Við skiptingu skulu skattalegar skyldur og skattaleg réttindi, þ.m.t. yfirfæranlegt rekstrartap, skiptast á milli fyrirtækjanna í sama hlutfalli og eigið fé, samkvæmt reikningsskilum félaganna við gildistöku laga þessara.
    

IV.

    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er þeim lögaðilum sem til verða við uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur, uppfylla skilyrði og fengið hafa heimild ríkisskattstjóra til samsköttunar, heimilt að nýta yfirfæranlegt tap fyrri ára sem stafar af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur frá því fyrir samsköttun, svo fremi sem önnur skilyrði sem fram koma í lögum nr. 90/2003 séu uppfyllt.

V.

    Skjöl er varða eignaryfirfærslu á þeim fasteignum sem færast yfir til nýrra rekstrarfélaga á grundvelli laga þessara eru ekki gjaldskyld á grundvelli laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, eða annarra laga um stimpilgjald sem síðar kunna að verða lögfest.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1.     Forsaga og undirbúningur frumvarpsins.
    Hinn 14. desember 2001 voru á Alþingi samþykkt lög nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Með þeim lögum var veitt heimild til að Orkuveita Reykjavíkur, Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Borgarness yrðu sameinaðar og að stofnað yrði sameignarfyrirtæki um reksturinn. Í athugasemd með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 139/2001 eru raktar ástæður þess að setja þurfti sérlög um stofnun fyrirtækisins. Sömu rök eiga enn við, að breyttu breytanda.
    Orkuveita Reykjavíkur rekur fráveitu, hitaveitu, rafmagnsveitu og vatnsveitu, framleiðir og selur raforku og á dótturfélag sem rekur gagnaveitu. Veitustarfsemi fyrirtækisins fer nú fram í 20 sveitarfélögum en raforkusala um allt land.
    Eignarhlutir í Orkuveitu Reykjavíkur eru sem hér segir:
         Reykjavíkurborg 93,539%,
         Akraneskaupstaður 5,528%,
         Borgarbyggð 0,933%.
    Fyrirhugað er að um áramótin 2013–2014 verði gerðar breytingar á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur að því leyti að rekstri fyrirtækisins verði skipt upp í aðskilda þætti til samræmis við kröfur í raforkulögum, nr. 65/2003. Sú aðgerð kallar á breytingar á lögum nr. 139/2001 og þótti heppilegast, að höfðu samráði við Orkuveitu Reykjavíkur og eigendur hennar, að fella brott gildandi lög frá 2001 um stofnun fyrirtækisins og leggja fram frumvarp til nýrra heildstæðra laga um Orkuveitu Reykjavíkur. Það frumvarp sem hér er lagt fram gerir því Orkuveitu Reykjavíkur kleift að aðgreina samkeppnis- og sérleyfisþætti í rekstri sínum frá og með áramótum, auk þess sem nokkrar breytingar eru lagðar til á lögunum frá 2001 til einföldunar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með lögum nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, voru gerðar breytingar er varða rekstur dreifiveitna með það fyrir augum að tryggja hagsmuni þeirra sem njóta þjónustu þeirra. Þannig var m.a. gerð sú breyting á raforkulögum, nr. 65/2003, að kveðið var á um í 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. að dreifiveitu, þar sem fjöldi íbúa á dreifiveitusvæðum veitunnar er 10.000 eða fleiri, væri óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem henni væri nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt sérleyfum. Enn fremur að stjórn dreifiveitu skuli vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, flutning eða sölu raforku. Er hér um kröfu um svokallaðan fyrirtækjaaðskilnað að ræða, þ.e. um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. Áður hafði eingöngu verið krafist bókhaldslegs aðskilnaðar.
    Upphaflega var gert ráð fyrir að ákvæði 14. gr. raforkulaga, með framangreindri kröfu um uppskiptingu rekstrarþátta, kæmi til framkvæmda 1. júlí 2009. Í kjölfar beiðni frá Orkuveitu Reykjavíkur var gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga frestað til 1. janúar 2010 með samþykkt laga nr. 30/2009, um breytingu á raforkulögum. Með lögum nr. 142/2009, um breytingu á raforkulögum, var gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga, varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, frestað í annað sinn til 1. janúar 2011. Í báðum tilfellum var í greinargerð vísað til aðstæðna á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækja varðandi fjármögnun. Með bréfi, dags. 6. september 2010, fór eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur þess á leit við iðnaðarráðherra að framkvæmd 2.– 4. málsl. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, yrði frestað enn um sinn. Var það gert með lögum nr. 148/2010, til loka árs 2011. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, fór eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur svo þess enn á leit við iðnaðarráðherra að framkvæmd 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, yrði frestað, og var það gert með lögum nr. 175/2011, til 1. janúar 2014. Ákvæði 14. gr. raforkulaga, um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, hefur því verið frestað fjórum sinnum með vísan til aðstæðna á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna varðandi fjármögnun.     Ekki hefur þótt grundvöllur fyrir frekari frestun á gildistöku framangreinds ákvæðis raforkulaga. Uppskiptingu á starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur þarf því að vera lokið fyrir 1. janúar 2014 og hefur verið unnið að undirbúningi hennar um nokkurt skeið innan fyrirtækisins.
    Samkvæmt raforkulögum er gerð krafa um sjálfstæði dreifiveitna, þ.e. sérleyfisstarfsemi gagnvart samkeppnisstarfsemi, fyrirtækjaaðskilnað og sjálfstæði stjórnar dreifiveitu. Orkuveita Reykjavíkur rekur sem sérleyfisstarfsemi raforkudreifingu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu en sem samkeppnisstarfsemi framleiðslu og sölu raforku. Í dótturfélagi er rekin gagnaveita sem veitir fjarskiptaþjónustu til heimila og fyrirtækja um ljósleiðaranet.
    Í raforkutilskipunum Evrópusambandsins (2003/54/EB og 2009/72/EB), sem innleiddar hafa verið með raforkulögum nr. 65/2003, er gerð krafa um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, með fyrirtækjaaðskilnaði. Hins vegar kemur fram í þeim tilskipunum að aðildarríki geti valið að láta þá kröfu ekki ná til dreifiveitna sem þjóna færri en 100.000 tengdum viðskiptavinum. Með lögum nr. 58/2008 var því gengið lengra en ákvæði raforkutilskipana ESB kveða á um, að því leyti að krafan um fyrirtækjaaðskilnað, eins og hún er sett fram í 14. gr. raforkulaga, var látin ná til dreifiveitna þar sem fjöldi íbúa á dreifiveitusvæðinu er 10.000 eða fleiri. Um nánari ástæður þess vísast til athugasemda í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 58/2008.
    Til að Orkuveita Reykjavíkur geti mætt framangreindri kröfu 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, sbr. breytingalög nr. 58/2008, er nauðsynlegt að breyta lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, og veita fyrirtækinu heimild til að stofna dótturfélög til reksturs sérleyfisstarfsemi fyrirtækisins og tryggja að aðgreining rekstrarþátta í starfseminni sé í samræmi við ákvæði laga hverju sinni. Tilgangurinn með þeirri uppskiptingu sem verður á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur við gildistöku laganna er að tryggja sjálfstæði sérleyfisstarfsemi fyrirtækisins, til samræmis við kröfur raforkulaga, og að samkeppnisrekstur þess verði ekki niðurgreiddur af sérleyfisstarfseminni. Er sá tilgangur sérstaklega tilgreindur í frumvarpinu.
    Eins og að framan greinir var talið rétt við þau tímamót sem verða um áramót að fella brott gildandi lög frá 2001 og setja ný heildarlög um Orkuveitu Reykjavíkur. Það frumvarp sem hér er lagt fram kemur því í stað laga nr. 139/2001.
    
3.     Meginefni frumvarpsins.
    Í grunninn byggist frumvarpið á texta laga nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.
    Helsta nýmæli laganna er að skýrt er tekið fram að Orkuveitu Reykjavíkur sé heimilt að eiga dótturfélög og framselja til þeirra tilgreind sérleyfi eða einkaleyfi, enda er fyrirtækinu það nauðsynlegt til að uppfylla skilyrði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi. Við undirbúning frumvarpsins er gengið út frá eftirfarandi tillögu að framsetningu félagasamstæðu Orkuveitu Reykjavíkur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Gert er ráð fyrir að móðurfélagið hafi þann tilgang að hýsa stoðsvið, þ.e. þjónustu, fjármál, umhverfismál, gæðamál o.s.frv. Auk þess er gert ráð fyrir að auðlindir verði hýstar í sameignarfyrirtækinu. Af skattalegum ástæðum er gert ráð fyrir að stofnað verði opinbert hlutafélag, dótturfélag sameignarfyrirtækisins, sem hafi það hlutverk að vera eignarhaldsfélag tveggja opinberra hlutafélaga, annars vegar um sérleyfisstarfsemi (veitur) en hins vegar um samkeppnisstarfsemi (virkjanir og sala). Þriðja dótturfélagið, sem heyri beint undir sameignarfyrirtækið, hýsi skattfrjálsa starfsemi, vatns- og fráveitu. Í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga verði skipuð stjórn í hverju hinna opinberu hlutafélaga. Þá verði stjórn sameignarfyrirtækisins skipuð í samræmi við ákvæði sameignarsamnings eigenda þess, sbr. 5. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er, með sambærilegum hætti og í lögum nr. 139/2001, kveðið á um eigendur Orkuveitu Reykjavíkur, rekstrarform, tilgang og markmið fyrirtækisins, ábyrgðir á skuldbindingum fyrirtækisins, heimildir til gjaldtöku og skipan í stjórn. Ákvæði um stjórn fyrirtækisins, aðalfund, ráðningu og hlutverk forstjóra, og fleira er snýr að daglegum rekstri fyrirtækisins, er einfaldað nokkuð frá gildandi lögum og í frumvarpinu vísað til þess að um þau atriði skuli kveðið á í sameignarsamningi eigenda eða samþykktum viðkomandi fyrirtækja.
    Í frumvarpinu eru ákvæði til bráðabirgða sem ætlað er að tryggja að uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur muni, ein og sér, ekki hafa í för með sér skattalegar skuldbindingar sem ella hefðu ekki fallið til. Í bráðabirgðaákvæðunum felast ekki neinar skattalegar ívilnanir fyrir Orkuveitu Reykjavíkur eða fyrirhuguð dótturfélög, heldur er þeim ætlað að koma í veg fyrir fjárhagslegt óhagræði eða tjón af uppskiptingu. Sú framkvæmd sem lögð er til í bráðabirgðaákvæðum er í samræmi við þann hátt sem hafður var uppi við uppskiptingu annarra orkufyrirtækja hérlendis og er ekki til þess fallin að gera stöðu fyrirtækjanna sem verða til við skiptinguna sterkari en hún hefði ella verið.

4. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrir liggur úttekt á fjárhagslegum áhrifum uppskiptingar Orkuveitu Reykjavíkur og mat á áhættum í tengslum við uppskiptingu, sem unnið var af rýnihópi á vegum eigenda. Í þeirri úttekt kemur fram að tvær meginforsendur, sem snúa að frumvarpi þessu, eru fyrir því að uppskiptingin sem slík leiði ekki til óásættanlegrar aukningar áhættu fyrir eigendur. Annars vegar að Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum verði heimil samsköttun að uppfylltum skilyrðum 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hins vegar að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði uppskiptri samstæðu heimilt að nýta yfirfæranlegt tap fyrri ára sem stafar af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur frá því fyrir samsköttun.

5. Samráð.
    Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna framangreindra skattalegra álitamála og er í bráðabirgðaákvæðum að finna ákvæði sem tryggja eiga að hin lögþvingaða uppskipting sem verður á Orkuveitu Reykjavíkur 1. janúar 2014 hafi, ein og sér, ekki í för með sér skattalegar skyldur sem ella hefðu ekki fallið til.
    Við gerð frumvarpsins var haft náið samráð við Orkuveitu Reykjavíkur og eigendur fyrirtækisins. Jafnframt var haft samráð við Orkustofnun og fjármála- og efnahagsráðuneytið.

    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Orkuveita Reykjavíkur sé sameignarfyrirtæki í eigu þriggja sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar. Um eignarhlutföllin er fjallað í almennum athugasemdum. Nokkur umræða hefur verið um hvort sameignarfyrirtæki sé eðlilegt rekstrarform, í ljósi þess að ekki gilda almenn lög um slík félög. Meginröksemdin fyrir því að halda óbreyttu félagsformi á fyrirtækinu snýr að lánveitendum fyrirtækisins. Óvarlegt þykir, í ljósi þess að Orkuveita Reykjavíkur er skuldsett fyrirtæki, að breyta rekstrarformi félagsins og skapa mögulega með því óvissu, ekki síst meðal erlendra lánardrottna. Í grunninn byggist ákvæðið því á 1. gr. laga nr. 139/2001.
    

Um 2. gr.

    Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um hlutverk Orkuveitu Reykjavíkur og heimildir fyrirtækisins. Að hluta til er um nýmæli að ræða en að öðru leyti er ákvæðið endurtekning á efnisatriðum úr 1. og 2. gr. laga nr. 139/2001.
    Í 1. mgr. er tekið fram að fyrirtækinu sé heimilt að eiga dótturfélög, enda er fyrirtækinu það nauðsynlegt til að uppfylla skilyrði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er gert ráð fyrir að sérleyfisrekstur og samkeppnisrekstur verði aðskildir í dótturfélögum sem verði hliðsett, þ.e. systurfélögum. Undir sameignarfyrirtækinu Orkuveitu Reykjavíkur verði stofnað hlutafélag, sem eigi slík dótturfélög, eins og nánar er lýst í almennum athugasemdum. Með því næst samsköttun dótturfélaga sem rekin verða sem opinber hlutafélög, en samsköttun hlutafélaga með sameignarfyrirtæki er óheimil samkvæmt lögum.
    Í 2. mgr. er fjallað um þá starfsemi, sem fyrirtækinu er heimilt að stunda. Heimildin er þrengd frá gildandi lögum, þar sem gert er ráð fyrir að hluti verkefna fyrirtækisins geti verið viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Lagt er til að sú heimild verði felld út. Reglan um 80% vísar til þess að hvert verkefni verður að vera a.m.k. að 20% hlutum fjármagnað án ábyrgðar eigenda, miðað við fjárþörf verkefnis.
    Ákvæði 3. mgr. er til áréttingar á tilgangi þeirrar uppskiptingar sem verður á Orkuveitu Reykjavíkur við gildistöku laganna, þ.e. að tryggja sjálfstæði sérleyfisstarfsemi fyrirtækisins og að samkeppnisrekstur þess verði ekki niðurgreiddur af sérleyfisstarfseminni.
    Starfsemi sú sem fjallað er um í 4. mgr. er rekin af Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við heimildir í viðkomandi lögum og samkomulagi við sveitarstjórnir. Lagt er til að veitt verði lagaheimild sem tryggi að dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, sem stofnað verður í samræmi við áskilnað raforkulaga um uppskiptingu orkufyrirtækja, geti tekið við einkaleyfum Orkuveitu Reykjavíkur til starfrækslu hitaveitu, sérleyfi til raforkudreifingar og einkarétt til starfrækslu vatnsveitu og fráveitu, enda uppfylli fyrirtækið skilyrði laga til að fara með þau leyfi. Lög heimila sveitarfélögum að framselja einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu og einkarétt reksturs vatns- og fráveitu til fyrirtækja að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skv. 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. nr. 32/2004, um vatnsveitur sveitarfélaga, og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er sveitarfélögum heimilt að fela stofnun eða félagi sem að meiri hluta er í eigu sveitarfélaga skyldur sínar. Þá segir jafnframt í 2. mgr. 31. gr. orkulaga að hitaveita sem starfar á grundvelli einkaleyfis skuli ávalt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila. Þar sem dótturfélög OR, sem munu reka sérleyfisstarfsemi fyrirtækisins, verða ekki í beinni eigu þeirra sveitarfélaga sem eiga OR, er mikilvægt að í lögum sé tekið fram að fyrirtækinu verði heimilt að framselja dótturfyrirtækjum sínum einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu, sérleyfi til raforkudreifingar og einkarétt til starfrækslu vatnsveitu og fráveitu. Þá er einnig gert ráð fyrir að dótturfélög taki við útgefnum leyfum til Orkuveitu Reykjavíkur vegna framkvæmda og rekstrar á viðkomandi starfssviði, svo sem nýtingarleyfum, virkjanaleyfum og starfsleyfum en ekki þurfi að sækja um þau að nýju.
    Í 5. mgr. er kveðið á um heimild til að sameina starfsemi fyrirtækisins eða dótturfélaga þess og sambærilega starfsemi sem rekin er af sveitarfélögum eða öðrum opinberum aðilum eða fyrirtæki í opinberri eigu. Gæti þarna t.d. verið um að ræða sameiningu við vatnsveitu sveitarfélags. Ákvæðið tekur eingöngu til sameiningar fyrirtækisins eða dótturfélaga við sambærilega starfsemi, sem þegar er rekin innan þess, en ekki til þess að skilja tiltekna starfsemi frá fyrirtækinu. Um slíkar ákvarðanir er kveðið á í sameignarsamningi.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um ábyrgðir eigenda á skuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur. Efnislega er ákvæðið sams konar og 2.–4. mgr. 1. gr. laga nr. 139/2001, með síðari breytingum.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er Orkuveitu Reykjavíkur heimilt að stofna til fjárhagslegra skuldbindinga til þarfa fyrirtækisins og gangast í ábyrgð fyrir greiðslum í sama skyni. Fjárhagslegar skuldbindingar, sem njóta skulu ábyrgðar eigenda, eru háðar samþykki þeirra sbr. 2. mgr. þessarar greinar. Þarna er áréttuð heimild til Orkuveitu Reykjavíkur til að takast á hendur fjárhagslegar skuldbindingar án þess að þær njóti ábyrgðar eigenda og að ekki sé til staðar neins konar sjálfvirk ábyrgð eigenda fyrirtækisins á skuldbindingum þess, heldur þurfi í hvert sinn sem eigendur taka á sig ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum að leita samþykkis þeirra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um einfalda og hlutfallslega ábyrgð hvers eiganda fyrirtækisins á fjárhagslegum skuldbindingum fyrirtækisins sem njóta eigendaábyrgðar. Er þar eingöngu um að ræða þær skuldbindingar sem eigendur hafa tekið sérstaka ákvörðun um að bera ábyrgð á. Með einfaldri ábyrgð er átt við að ekki verður gengið að ábyrgðarmanni, eigendasveitarfélögum í sameignarfyrirtækinu, fyrr en fullreynt er að aðalskuldari, í þessu tilviki Orkuveita Reykjavíkur, sé ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Kröfuhafi þarf að færa sönnur fyrir ógjaldfærni sameignarfyrirtækisins, t.d. með árangurslausu fjárnámi, áður en hann getur gengið að ábyrgðaraðilum. Hvert eigendasveitarfélag ber ábyrgð á skuldbindingum sameignarfyrirtækisins í samræmi við eignarhlutfall þess.
    Í 3. og 4. mgr. er gerð grein fyrir ábyrgðargjaldi því sem Orkuveitu Reykjavíkur er gert að greiða eigendum vegna þeirra ábyrgða sem eigendur takast á hendur vegna fjárhagslegra skuldbindinga samkeppnishluta samstæðunnar. Ábyrgðargjaldinu er ætlað að jafna þann mun sem kann að vera á lánskjörum með og án eigendaábyrgðar.
    Í lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, er að finna þær almennu reglur sem gilda um ríkisábyrgðir. Lögin taka ekki til ábyrgða eigenda Orkuveitu Reykjavíkur á skuldbindingum fyrirtækisins, en eru höfð til hliðsjónar.
    Í kjölfar rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á fyrirkomulagi eigendaábyrgða, var óháður aðili fenginn til að meta hæfilegt ábyrgðargjald vegna fjárhagslegra skuldbindinga Orkuveitu Reykjavíkur vegna samkeppnisstarfsemi fyrirtækisins. Úttekt þess aðila leiddi í ljós að hæfilegt ábyrgðargjald, með samanburði á lánskjörum með og án ábyrgðar eigenda, vegna þáverandi fjárhagsskuldbindinga væri að meðaltali 0,48% á ári. Varðandi fjárhagslegar skuldbindingar sem stofnað verður til eftir gildistöku laganna ber að meta hæfilegt ábyrgðargjald með sama hætti og að framan greinir með samanburði á lánskjörum með og án ábyrgðar eigenda á þeim tíma sem stofnað er til hinnar fjárhagslegu skuldbindingar. Nánar er fjallað um þessi atriði í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 144/2010, um breytingu á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.
    

Um 4. gr.

    Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um gjaldtökuheimildir Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga, sem í sumum tilvikum eru lögbundnar. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að gjaldskrár séu settar af stjórnum viðkomandi fyrirtækja á grundvelli stefnumörkunar eigenda. Arðgreiðslur og ákvörðun arðs er í sumum tilvikum lögbundin, t.d. á það við um dreifingu rafmagns, sbr. ákvæði raforkulaga. Í þeim tilvikum sem ekki er um slíkt að ræða er ákvörðun um arðgreiðslur og ráðstöfun arðs í höndum stjórnar viðkomandi fyrirtækis.

Um 5. gr.

    Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um skipun stjórnar og efni sameignarsamnings. Þykir eðlilegt að í lögum sé einungis kveðið á um þau efnisatriði sem skuli vera í sameignarsamningi en útfærslan sé í samningnum sjálfum. Í 3. og 4. gr. gildandi laga nr. 139/2001 er nánar kveðið á um þau atriði sem nú er gert ráð fyrir að tekið sé á í sameignarsamningi, en óþarfi þykir að hafa svo ítarlega útfærslu í lögum.
    

Um 6. gr.

    Þar sem Orkuveita Reykjavíkur, og eftir uppskiptingu fyrirtækisins, dótturfélög þess, fer með lögbundin verkefni og einkaleyfisstarfsemi þykir rétt að réttindi og skyldur séu nánar útfærð í reglugerð. Í gildi er reglugerð um Orkuveitu Reykjavíkur nr. 297/2006, með síðari breytingum, sem rétt þykir að verði endurskoðuð í ljósi breytinga sem verða á fyrirtækinu eftir uppskiptingu þess. Í 6. gr. frumvarpsins er því lagt til að í reglugerð skuli kveða á um ýmis atriði er varða starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur, t.d. orkuöflun, orkuveitu, orkusölu og viðbrögð við misnotkun.

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Ákvæðið er sams konar og ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 139/2001. Sérstaklega er kveðið á um að ótakmörkuð ábyrgð eigendasveitarfélaga Orkuveitu Reykjavíkur, á skuldbindingum sem stofnað var til fyrir stofnun sameignarfyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur, standi óbreytt, að svo miklu leyti sem þær skuldbindingar eru enn við lýði.
    

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Ákvæðið er sams konar og ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 139/2001. Í því er kveðið á um að ábyrgðir eigenda haldist óbreyttar eins og til þeirra var stofnað á hverjum tíma.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Áætlað er að núverandi rekstur Orkuveitu Reykjavíkur muni fara fram í a.m.k. þremur aðskildum lögpersónum þar sem a.m.k. tvö þeirra verða í eigu dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur. Í ákvæðinu er lagt til að heimilt verði að færa eignir Orkuveitu Reykjavíkur til hinna nýju rekstrarfélaga án þess að það leiði til neinnar skattlagningar, hvorki fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, eigendur eða hin nýju félög. Þannig skal vera heimilt að færa eignir á verði sem svarar til fyrningargrunna í skattskilum Orkuveitu Reykjavíkur á uppskiptingardegi, 1. janúar 2014. Er þetta í samræmi við sjónarmið að baki 52. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ástæður þess að lagt er til að skiptingin verði með þessum hætti er að hér er um að ræða lögþvingaðan aðskilnað rekstrarþátta og óeðlilegt talið að staða Orkuveitu Reykjavíkur versni við aðskilnaðinn frá því sem nú er, í skattalegu tilliti.
    Jafnframt er lagt er til að yfirfæranlegt rekstrartap Orkuveitu Reykjavíkur skiptist milli hinna nýju félaga í samræmi við bókfært eigið fé sem verður til staðar í reikningsskilum félaganna á uppskiptingardegi. Þannig mun hluti yfirfæranlegs rekstrartaps verða eftir í Orkuveitu Reykjavíkur, en hluti þess skiptast milli hinna tveggja nýju rekstrarfélaga sem taka við skattskyldum rekstri fyrirtækisins.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Hér er lagt til að hinum nýju rekstrarfélögum verði heimilt að nýta yfirfæranleg rekstrartöp fyrri ára, sem til staðar eru við skiptingu, í samsköttun með móðurfélagi sínu þó að því gefnu að hin almennu skilyrði 55. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, um eignarhaldstíma og hlutafjáreign, verði uppfyllt á hverjum tíma.

Um ákvæði til bráðabirgða V.

    Í ákvæðinu er lagt til að skráning nýs eiganda fasteigna í þinglýsingarbókum sýslumanna skapi ekki skyldu til greiðslu stimpilgjalda, enda talið að slíkur lögþvingaður aðskilnaður eigi ekki að leiða til meiri fjárútláta í tengslum við nauðsynlegar breytingar á skráningum en eðlilegt getur talist.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um Orkuveitu Reykjavíkur.

    Gert er ráð fyrir að þann 1. janúar 2014 muni framkvæmd 1. mgr. 14. gr. raforkulaga nr. 65/2003 taka gildi en hún snýr að aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. Ákvæði þetta var samþykkt á Alþingi árið 2008 með lögum nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, en þau lög fólu m.a. í sér breytingu á raforkulögum. Gildistöku þess hefur í fjórgang verið frestað á síðustu árum en upphaflega átti það að koma til framkvæmda 1. júlí 2009. Samkvæmt ákvæðinu er gerð krafa um sjálfstæði dreifiveitna, þ.e. sérleyfisstarfsemi gagnvart samkeppnisstarfsemi, fyrirtækjaaðskilnað og sjálfstæði stjórnar dreifiveitu. Orkuveita Reykjavíkur rekur sem sérleyfisstarfsemi raforkudreifingu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu en sem samkeppnisstarfsemi framleiðslu og sölu raforku. Tilefni þess að frumvarp þetta er lagt fram er því að gera það kleift að unnt verði að framkvæma fyrrgreinda uppskiptingu fyrirtækisins um nk. áramót í samræmi við 14. gr. raforkulaga auk þess sem um er að ræða almenna uppfærslu og einföldun á texta frá lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Í grunninn byggist frumvarpið á þeim lögum um fyrirtækið en þó er lögð til sú breyting að skýrar er kveðið á um heimild Orkuveitu Reykjavíkur til að eiga dótturfélög, enda sé fyrirtækinu það nauðsynlegt til að uppfylla skilyrði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi. Gert er ráð fyrir að samkeppnisrekstur fyrirtækisins verði rekinn í dótturfélagi og að sérleyfisrekstur verði í einu eða fleiri dótturfélögum, eftir því sem best hentar. Þá er í frumvarpinu kveðið á um eigendur Orkuveitu Reykjavíkur, rekstrarform, tilgang og markmið fyrirtækisins, ábyrgðir á skuldbindingum fyrirtækisins, heimildir til gjaldtöku og skipan í stjórn. Auk þess eru ákvæði um stjórn fyrirtækisins, aðalfund, ráðningu og hlutverk forstjóra, og fleira er snýr að daglegum rekstri fyrirtækisins einfaldað nokkuð frá núgildandi lögum.
    Í bráðabirgðaákvæðum frumvarpsins eru lögð til ýmis ákvæði sem ætlað er að tryggja að uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur muni, ein og sér, ekki hafa í för með sér skattalegar skuldbindingar sem ella hefðu ekki fallið til. Í bráðabirgðaákvæði III kemur m.a. fram að áætlað sé að núverandi rekstur Orkuveitu Reykjavíkur muni fara fram í a.m.k. þremur aðskildum lögpersónum þar sem a.m.k. tvær þeirra verða í eigu dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur. Í ákvæðinu er því m.a. lagt til að heimilt verði að færa eignir Orkuveitu Reykjavíkur til hinna nýju rekstrarfélaga án þess að það leiði til neinnar skattlagningar fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, eigendur né hin nýju félög. Ástæðan fyrir þessu er sú að þar sem um þvingaðan aðskilnað rekstrarþátta sé að ræða sé óeðlilegt talið að staða Orkuveitu Reykjavíkur versni frá því sem nú er, í skattalegu tilliti. Í bráðabirgðaákvæði IV er lagt til að tveimur hinna nýju rekstrarfélaga verði heimilt að nýta yfirfæranleg rekstrartöp fyrri ára, sem til staðar eru við skiptingu, í samsköttun með móðurfélagi sínu þó að því gefnu að hin almennu skilyrði 55. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, sem snýr að eignarhaldstíma og hlutafjáreign, verði uppfyllt á hverjum tíma. Þá er í bráðabirgðaákvæði V gert ráð fyrir að þinglýsing eignarheimilda þeirra fasteigna sem færast yfir til hinna nýju rekstrarfélaga skuli ekki vera stimpilskyld á grundvelli laga nr. 36/1978, um stimpilgjald.
    Gera má ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu muni ekki hafa í för með sér skattskyldu fyrir Orkuveituna umfram það sem nú er og að áhrif frumvarpsins á tekjur ríkisins verði því lítil sem engin. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það muni hafa fjárhagsleg áhrif í för með sér fyrir ríkissjóð.