Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 118. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 249  —  118. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Magnússyni
um heilbrigðisþjónustu við fanga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hyggst ráðherra grípa til aðgerða, og þá hvaða aðgerða, til að tryggja föngum bætta heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. geðheilbrigðisþjónustu, í kjölfar ábendinga Ríkisendurskoðunar til velferðarráðuneytisins frá mars 2010 og september sl.?

    Velferðarráðuneytið hefur farið yfir ábendingar Ríkisendurskoðunar og vinna er hafin við að koma þeim í framkvæmd. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að það sé almennt mat, bæði hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmanna og fangelsisyfirvalda, að heilbrigðismál fanga séu í viðunandi farvegi. Fram kemur að skerpa mætti ábyrgð heilbrigðisyfirvalda og bent er á aukna þörf fyrir þjónustu geðlækna og sálfræðinga.
    Á samstarfsvettvangi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Fangelsismálastofnunar og Fangelsisins á Litla-Hrauni hefur verið unnið að því að styrkja heilbrigðisþjónustu í fangelsum á Íslandi, jafnt á Litla-Hrauni sem og í öðrum fangelsum landsins. Ábendingar Ríkisendurskoðunar eru hér hafðar að fullu til hliðsjónar.
    Á vegum ráðuneytisins er unnið að gerð verklagsreglna um fyrirkomulag skráninga í sjúkraskrá til að tryggja enn betur öryggi og velferð þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Hér er m.a. rætt um eina sameiginlega sjúkraskrá þannig að eðlilegt flæði upplýsinga geti átt sér stað milli hinna ýmsu úrræða þar sem fangar eru vistaðir, en einnig um aðra þætti sem snúa að heilbrigðisþjónustu við fanga, einkum þjónustu geðlækna.
    Af hálfu ráðuneytisins hefur verið unnið að því að efla heilbrigðisþjónustu í fangelsum undanfarin ár og verður áfram unnið að því að skerpa stefnu og bæta úrræði fyrir þá sem vistast í fangelsum landsins og þurfa á þessari þjónustu að halda.