Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 202. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 255  —  202. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um flutning stjórnsýslu um málefni hreindýra til hreindýraráðs.


Flm.: Valgerður Gunnarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að hefja undirbúning að flutningi stjórnsýslu um málefni hreindýra til hreindýraráðs.

Greinargerð.

    Í upphafi var tilgangurinn með innflutningi hreindýra að efla íslenskan landbúnað. Fjárkláði og lungnaveiki herjuðu á sauðfé landsmanna upp úr 1760 og á tíu árum fækkaði fé um meira en helming. Því var leitað nýjunga í búskap og þóttu hreindýrin álitlegur kostur þar sem þau þyldu vel óblíða veðráttu í öðrum löndum. Á 20. öld kom að nýju fram áhugi á hreindýrabúskap, m.a. í kjölfar þess að mæðiveikin herjaði á sauðfé. En sem fyrr varð ekkert úr slíkum áformum. Dýrin lifa því villt um mestallt Austurland og eru veidd af skotveiðimönnum sem kaupa sér leyfi til veiðanna.
    Hreindýraráð starfar skv. 14. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sbr. lög nr. 100/2000 og nr. 164/2002. Við sameiningu nokkurra stofnana umhverfisráðuneytis í Umhverfisstofnun árið 2003 færðist stjórn veiðanna frá hreindýraráði til veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra skipar fjóra menn í hreindýraráð til fjögurra ára í senn. Formaður er skipaður án tilnefningar, Búnaðarsamband Austurlands og Búnaðarsamband Austur- Skaftafellssýslu tilnefna einn fulltrúa hvort og sveitarfélög á veiðisvæði hreindýra einn fulltrúa.
    Með þeirri breytingu sem gerð var árið 2003 var dregið úr vægi hreindýraráðs og hlutverk þess breyttist. Hlutverk ráðsins er nú að vera Umhverfisstofnun og ráðherra til ráðgjafar um vernd, veiðar og nýtingu hreindýrastofnsins. Fulltrúum Náttúrustofu Austurlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Ráðið skal ár hvert gera tillögu til Umhverfisstofnunar um skilgreiningu ágangssvæða hreindýra, árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða.
    Samkvæmt framangreindu heyra umsýsla og málefni hreindýra og hreindýraveiða undir yfirstjórn Umhverfisstofnunar. Vöktun á hreindýraveiðum er í höndum Náttúrustofu Austurlands. Starfsmaður hreindýraráðs sem haft hafði aðsetur á Egilsstöðum frá 1992 varð við breytinguna 2003 að starfsmanni Umhverfisstofnunar og heyrir undir veiðistjórnunarsvið hennar sem er til húsa á Akureyri. Starfshlutfall þessa starfsmanns er 75% og er hann enn með aðsetur á Egilsstöðum. Hreindýraráð hafði áður töluvert meiri áhrif á málaflokkinn en við tilkomu Umhverfisstofnunar var umsjón tekin úr höndum hreindýraráðs. Hvatt hefur verið til þess að umsýsla og stjórn hreindýraveiða skuli flutt til Austurlands og sjá margir hreindýraráð sem vettvang með yfirstjórn. Færa má sterk rök fyrir því að við skipulags- og lagabreytinguna árið 2003 hafi stjórn hreindýraveiða og eftirlit með hreindýrastofninum að miklu leyti verið flutt úr heimabyggð og boðleiðir verið lengdar. Í stað hins austfirska hreindýraráðs er Umhverfisstofnun komin inn í skipuritið og málefni hreindýra heyra undir veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar og boðleiðin t.d. frá landeiganda til ráðherra því löng. Þegar þörf hefur verið á að kaupa utanaðkomandi þjónustu í tengslum við hreindýrastofninn hefur stofnunin leitast við að kaupa hana í héraði eftir því sem þekking og aðstæður leyfa. Sérstaða Austurlands hvað varðar hreindýr er einstök. Það að færa stjórnsýslu aftur til hreindýraráðs mundi auka þjónustu og árangur á málefnasviðinu, sérstaklega með hliðsjón af hagkvæmni og nýtingu fagþekkingar. Hreindýr voru í öndverðu gefin bændum á Íslandi og hafa þau frá árinu 1936 eingöngu haft búsetu á Austurlandi. Þó að enginn eigi hreindýrin frekar en villta fugla, þá hafa landeigendur ráðstöfunarrétt á veiðum á landareign sinni samkvæmt landslögum. Arði af hreindýraveiðum er jafnframt deilt út eftir ágangi dýranna og hagsmunir heimamanna því augljósir. Í ljósi þessa hlýtur að teljast eðlilegt að stjórn hreindýraveiða sé að stærstum hluta í höndum Austfirðinga og stjórnsýsla vegna dýranna skapi störf heima í héraði þó svo að umhverfis- og auðlindaráðherra fari með yfirumsjón málaflokksins.