Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 112. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 298  —  112. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn
frá Vigdísi Hauksdóttur um læknisfræðinám.


     1.      Hefur hagkvæmni þess verið skoðuð að nýta Sjúkrahúsið á Akureyri til læknisfræðikennslu?
    Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, er Sjúkrahúsið á Akureyri kennslusjúkrahús sem veitir jafnframt almenna og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu í sínu heilbrigðisumdæmi. Sjúkrahúsið annast starfsnám háskólanema í heilbrigðisvísindagreinum við Háskólann á Akureyri, auk þess sem það tekur þátt í starfsnámi annarra háskólanema á heilbrigðissviði í samvinnu við Landspítala, Háskóla Íslands og aðrar heilbrigðisstofnanir og skóla. Jafnframt taka nýútskrifaðir læknar frá Háskóla Íslands svokallað „kandídatsár“ við Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Umfram það sem að framan greinir hefur ekki verið kannað sérstaklega hvort sjúkrahúsið hafi bolmagn til að taka við fleiri nemendum í starfsnám. Það mun þó verða kannað nánar í samráði við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Sjúkrahúsið á Akureyri.

     2.      Telur ráðherra að Háskólinn á Akureyri og Sjúkrahúsið á Akureyri geti uppfyllt kröfur um læknanám sem yrði sambærilegt því sem er í Háskóla Íslands og á Landspítalanum?
    Það er mat ráðuneytisins að Sjúkrahúsið á Akureyri og Háskólinn á Akureyri geti ekki, við núverandi aðstæður, uppfyllt kröfur um læknanám sambærilegt því sem er í Háskóla Íslands og á Landspítalanum. Ef af yrði þyrfti margt að skoða, t.d. hvaða kröfur yrðu gerðar til sjúkrahússins og hverju þyrfti að breyta svo að það gæti orðið fullgilt háskólasjúkrahús. Sjúkrahúsið á Akureyri sinnir t.d. ekki jafnmörgum sérgreinum og Landspítalinn og það takmarkar möguleika þess sem háskólasjúkrahúss. Auk þess má benda á að læknanám er mjög dýrt nám og því þyrfti að auka verulega fjármagn til Háskólans á Akureyri og Sjúkrahússins á Akureyri. Að framansögðu telur ráðuneytið óraunhæft að opna læknadeild við Háskólann á Akureyri.

     3.      Er ekki rétt að fjölga læknanemum á ári hverju um helming, úr 48 í 96, í ljósi stöðu heilbrigðismála hér á landi?

    Fjöldi ársnema í læknisfræði sem miðað er við í framlögðu fjárlagafrumvarpi ár hvert hefur farið úr 280 fyrir árið 2001 í 340 fyrir árið 2014. Út frá þessum fjölda er reiknað sérstakt kennsluframlag. Yrði ársnemum í læknisfræði fjölgað um helming ár hvert mundi slík ákvörðun óhjákvæmilega kalla á niðurskurð í fjárveitingum til annarra greina á háskólastigi nema Alþingi samþykkti sérstakt framlag vegna fjölgunarinnar. Einnig koma til álita atriði eins og takmörkuð aðstaða Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri til þess að mennta læknanema á hverjum tíma og sá fjöldi lækna sem kýs að starfa ekki á Íslandi að sérnámi loknu þar sem betri kjör bjóðast erlendis.
    Um þessar mundir stunda um 150 einstaklingar grunnnám í læknisfræði erlendis, langflestir í Ungverjalandi (87) og Slóvakíu (42), og er þá miðað við upplýsingar frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, en þetta er sá fjöldi sem þiggur námslán.