Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 253. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 464  —  253. mál.




Fyrirspurn



til fjármála- og efnahagsráðherra um stofnun Dróma hf.
og ráðstöfun eigna og réttinda SPRON.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Á hvaða lagaheimild byggðist:
                  a.      sá hluti 4. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON) sem kvað á um stofnun nýs dótturfélags SPRON, sem síðar varð Drómi hf., og yfirfærslu allra eigna og réttinda SPRON til hins nýja félags,
                  b.      5. og 6. tölul. sömu ákvörðunar þar sem skilanefnd SPRON og fleirum var falið að framkvæma og skrá yfirfærsluna?
     2.      Á hvaða grundvelli byggðist sú ákvörðun að skilanefnd SPRON stofnaði dótturfélagið Dróma hf. sem eignarhaldsfélag fremur en sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 og á hvaða heimild byggðist ráðstöfun eigna slitabúsins til slíks eignarhaldsfélags?
     3.      Á hvaða lagaheimild byggðist, og gegn hvaða endurgjaldi, sú ráðstöfun skilanefndar SPRON að veita félaginu Mýrarhlíð ehf. 0,25% eignarhlut í Dróma hf. og þar með sambærilega hlutdeild í eignum úr slitabúi SPRON samkvæmt samningi 26. maí 2009?
     4.      Á hvaða lagaheimild byggðist undirritun þáverandi ráðherra á samningi við skilanefnd Kaupþings banka í júlí 2009 þar sem því var heitið í 6. tölul. samningsskilmála að stjórnvöld mundu halda Kaupþingi banka og Arion banka skaðlausum vegna kröfu þess síðarnefnda á hendur Dróma og hverju nemur fjárhæð þeirrar ríkisábyrgðar sem af þessu leiðir?
     5.      Hefur ríkisábyrgð Arion banka hf. vegna yfirtöku innstæðna SPRON verið felld úr gildi til samræmis við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum eins og þær voru skýrðar nánar með dómi EFTA-dómstólsins 28. janúar 2013 í máli nr. E-16/11?
     6.      Á hvaða grundvelli byggðist sá hluti 1. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 sem kvað á um ráðstöfun skuldbindinga SPRON vegna innstæðna til Nýja Kaupþings banka hf. (nú Arion banka hf.) án þess að samsvarandi eignir fylgdu með, sbr. 4. tölul. sömu ákvörðunar?


Skriflegt svar óskast.