Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 276. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 530  —  276. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um kaup ríkisins á Grímsstöðum á Fjöllum.


Flm.: Ögmundur Jónasson, Svandís Svavarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita eftir samningi um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og tryggja þannig að jörðin verði þjóðareign.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 141. löggjafarþingi (þskj. 301, 269. mál) af Guðfríði Lilju Grétarsdóttur en var ekki tekin til umfjöllunar. Hún er því endurflutt óbreytt. Tillögunni fylgdi svofelld greinargerð:
    „Mikil umræða hefur spunnist í tengslum við áform erlendra auðmanna að festa kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og öðru jarðnæði í landinu. Þetta varð m.a. til þess að um 150 einstaklingar sendu frá sér svohljóðandi áskorun til Alþingis og ríkisstjórnarinnar undir yfirskriftinni Grímsstaðir á Fjöllum verði þjóðareign:
    „Stjórnvöldum ber að standa vörð um eignarhald og umráð landsmanna yfir óbyggðum Íslands og þar með bújörðum sem teygja sig inn á hálendið eða hafa sérstöðu í huga þjóðarinnar af landfræðilegum, sögulegum og menningarlegum ástæðum. … Við skorum á Alþingi og ríkisstjórn að marka skýra stefnu í þessa veru og ákveða hvaða jarðir í eigu ríkisins skuli aldrei selja og að ríkið muni kaupa hliðstæðar jarðir til að tryggja að þær haldist í þjóðareign.“
    Margt mælir með því að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum sem eru í þjóðlendujaðrinum. Ríkið á þegar tvær jarðir suður af Grímsstöðum, Víðidal og Möðrudal, og um fjórðung af Grímsstöðum á Fjöllum. Þá skal tekið undir það sem fram kemur í framangreindri áskorun að æskilegt sé að mótuð verði stefna varðandi eignarhald og umráð yfir óbyggðum og þá sérstaklega bújörðum sem teygja sig inn á hálendið. Þróunin í þessum efnum hefur verið mikið til umræðu að undanförnu og afhjúpað hversu brýnt er að móta stefnu til framtíðar og betrumbæta regluverkið í heild sinni hvað varðar eignarhald og umráðarétt yfir landi. Um ítarlegri umfjöllun og reifun á mikilvægi þess að endurskoða allt regluverk er snýr að eignarhaldi og umráðarétti yfir landi hérlendis og hversu áríðandi er að glata ekki óskoruðum yfirráðum yfir dýrmætum landsvæðum skal bent sérstaklega á greinargerð í 17. máli frá 141. löggjafarþingi.
    Þangað til þessi nauðsynlega heildarendurskoðun hefur farið fram verður að koma jörðum á borð við Grímsstaði á Fjöllum í skjól svo að tryggt sé að yfirráðin yfir landinu glatist ekki til frambúðar.“