Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 280. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 636  —  280. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur
um menningarminjar og græna hagkerfið.


     1.      Hver er stefnumótun ráðuneytisins hvað varðar húsfriðunarverkefni, verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða, fornleifar og málefni græna hagkerfisins?
    Minjastofnun Íslands vinnur að stefnumótun á sviði húsverndar og fornminjaverndar í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar, nr. 80/2012. Skrifstofa menningararfs í forsætisráðuneytinu tók til starfa 1. febrúar 2014 og mun í samráði við Minjastofnun vinna að mótun stefnu á þessu sviði. Á skrifstofunni er þegar hafin vinna við undirbúning að mótun stefnu á sviði menningararfs og menningarminja, verndun þjóðminja og þjóðarverðmæta og verður þar höfð umsjón með framkvæmd hennar. Það felur í sér verndun húsa, mannvirkja og menningartengdrar byggðar. Á verksviði skrifstofunnar verða jafnframt samskipti við stofnanir, söfn, sveitarfélög, félagasamtök og einstaklinga hér á landi og utan lands. Skrifstofan mótar m.a. stefnu að því er varðar opinberan stuðning við verndun menningararfs, einstakra minja og heildar menningarminja. Lögð verður áhersla á samvinnu skrifstofu menningarmála í mennta- og menningarmálaráðuneyti og skrifstofu menningararfs í forsætisráðuneytinu að málefnum menningar og menningararfs.

     2.      Hvaða verkefni af fyrrgreindum toga hefur ráðuneytið þegar styrkt á kjörtímabilinu? Hver er fjárhæð hvers styrks og hvað er áætlað að styrkja hvert verkefni um háa fjárhæð alls fram að verklokum?
    Minjastofnun Íslands fer með samningagerð, útgreiðslu og eftirlit með þeim verkefnum sem fyrirspurn þessi lýtur að í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar og voru fjármunir sem ætlaðir eru til styrkjanna fluttir frá forsætisráðuneytinu til Minjastofnunar. Að öllum skilyrðum Minjastofnunar uppfylltum verður 175 millj. kr. ráðstafað til eftirtalinna verkefna af liðnum 01-281 Atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa, sem er ekki í fjárlögum ársins 2014, og 30 millj. kr. af liðnum 01-305 Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl.
     Varðveisla bátsins kútters Sigurfara, Akranesi (5 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Akraneskaupstaðar til varðveislu bátsins. Kútterinn var smíðaður í Englandi 1885, keyptur til Íslands 1897 og gerður út til handfæraveiða á Faxaflóa fyrstu áratugi 20. aldar. Árið 1920 var hann seldur til Færeyja þar sem kútterinn var gerður út til 1970. Jón M. Guðmundsson, prestur og safnamaður á Akranesi, stóð fyrir því að kútterinn var keyptur aftur til landsins 1974 og stendur hann nú á safnasvæðinu á Akranesi. Kútterinn er einstakur í sinni röð og hefur mikið minjagildi fyrir Akranes og safnastarf þar. Sem safngripur nýtist hann í menningarferðaþjónustu. Það er mikilvægt að halda við þekkingu á smíði gamalla báta hérlendis og skynsamlegt að nýta kútterinn til að halda þeirri þekkingu við. Það hefur menntunargildi í þágu varðveislu trébáta og skipa á Íslandi. Kútter Sigurfari er eini kútterinn sem hefur verið varðveittur af fyrri tíðar þilskipum Íslendinga og því mikilvægur á landsvísu. Hann hefur markað spor í sögu safnastarfs á Íslandi í fjóra áratugi. Sigurfari er auk þess eina seglskipið sem varðveist hefur hér á landi frá þýðingarmiklu skeiði í sögu íslensks sjávarútvegs, svokallaðri skútuöld. Árið 2011 var gefin út Samantekt starfshóps um kútter Sigurfara. Starfshópurinn var skipaður af Akranesstofu f.h. eignaraðila Byggðasafnsins að Görðum og sat m.a. fulltrúi Þjóðminjasafns Íslands í starfshópnum. Gert er ráð fyrir að stuðst verði við niðurstöður og tillögur starfshópsins við framkvæmd verkefnisins. Verkefnið á að einkennast af nýrri sýn í kjölfar vinnu starfshóps frá 2011. Kútterinn er mjög illa farinn, liggur undir skemmdum og hefur verið unnið að endurgerð hans lengi. Ástandið er orðið mjög bágborið og er í raun hættulegt að fara um borð. Það má ekki dragast að bjarga honum frá eyðileggingu þannig að hann geti gegnt hlutverki í safnastarfi á Akranesi. Með verkefninu er stuðlað að því að þekking á þessari tegund skipasmíði sé viðhaldið og muni nýtast til frekari verkefna á því sviði. Báturinn er eitt helsta tákn safnasvæðisins á Akranesi og mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu. Iðnaðarmenn á Vesturlandi fá vinnu við byggingu skýlisins og viðgerð og viðhald kúttersins. Þannig má miðla handverksþekkingu og nýta reynslu sem fengist hefur annars staðar í tengslum við viðgerðir trébáta, svo sem á Ísafirði og Siglufirði. Þekkingu á tréskipasmíði er viðhaldið og mun nýtast til frekari verkefna á því sviði. Með styrkveitingunni gefst tækifæri til að skipuleggja vandlega þær áherslur sem miðað verði við í framtíðarvarðveislu safngripsins. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Verndarsvæði í miðbæ Reykjavíkur (2 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Minjastofnunar sem mun annast samningsgerð við sérfræðinga vegna verksins. Um er að ræða undirbúningsverkefni sem tengist stefnumörkun í mótun verndarsvæða í byggð og beinist það að gerð þrívíddarlíkana af endurbyggingu húsa í miðbæ Reykjavíkur og umhverfi þeirra. Þrívíddarmyndir og líkön einfalda alla stefnumörkunarvinnu í húsvernd, svo sem mat og ákvarðanatöku um hvaða leiðir skuli farnar. Þau geta verið til þess fallin að einfalda túlkun á verndunarþáttum fyrir skipulagsyfirvöld og fyrir iðnaðarmenn og sérfræðinga sem munu vinna með viðhald byggðarinnar í framtíðinni. Til fróðleiks má benda á að eignir á verndarsvæðum erlendis eru eftirsóknarverðar og hefur virði þeirra aukist eftir að hverfin voru skilgreind sem verndarsvæði. Í nýlega samþykktu aðalskipulagi Reykjavíkur er m.a. áhersla lögð á húsvernd í gamla bænum í Reykjavík, innan Hringbrautar, og er ráðgert að verkefnið verði unnið í nánu samstarfi við Reykjavíkurborg. Húsverndarstefna er mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustu í Reykjavík. Þá mun verkefnið veita sérfræðingum í gerð þrívíddarlíkana atvinnu og mun að auki halda við þekkingu og þróun í gerð slíkra líkana í þágu húsverndar. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð í samráði og samvinnu við forsætisráðuneytið og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Hús leikfélags Dalvíkur (Ungó) (10 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Dalvíkurbyggðar til viðgerða á steyptum útveggjum og endurnýjun glugga í upprunalegri gerð. Húsið, sem er steinsteypt, var reist 1930. Ungó var byggt af ungmennafélögum og dregur nafn sitt af því, UNGÓ, þó að það gengi líka undir nafninu samkomuhús, enda lengi aðalsamkomuhús Dalvíkur; leikfimihús, bíó, leik- og ballhús. Einnig voru haldnar þar aðrar samkomur, basarar, fundir og annað það sem varð til þess að kalla íbúana saman. Með tímanum hafa önnur hús leyst UNGÓ af hólmi og hefur húsið fyrst og fremst verið notað sem leikhús undanfarna áratugi. Sótt var um styrk í húsafriðunarsjóð árið 2000 og fékkst ekki styrkur þá. Aftur var sótt 2012 og leyfði staða sjóðsins ekki úthlutun þá þótt verkefnið þætti verðugt. Árið 2013 var veittur styrkur úr sjóðnum upp á 500.000 kr. til endurbóta á ytra byrði. Hann var ekki nýttur það ár og óskað eftir frestun á greiðslu hans til 2014. Ungó hefur sérstakt gildi fyrir samfélagið á Dalvík þar sem mjög fá gömul hús eru í bænum. Húsið hefur menningarsögulegt gildi fyrir samfélagið sem vettvangur samkomuhalds og menningarlífs á staðnum um árabil og er verðugt menningarsögulegt húsverndarverkefni yngri mannvirkja á landsvísu. Fjármagnið verður veitt til viðgerða á steyptum útveggjum og endurnýjun glugga í upprunalegri gerð. Ástand hússins er orðið mjög bágborið en húsið er mikilvægt og áberandi í ásýnd Dalvíkur. Leikfélag Dalvíkur hefur rekið húsið um árabil og fengið til þess styrk frá sveitarfélaginu en viðhald hefur setið á hakanum vegna fjárskorts. Nú hefur verið ákveðið að endurbyggja húsið og færa útlit þess í upprunalegt horf og er gert ráð fyrir fjármunum til þess í fjárhagsáætlunum Dalvíkurbyggðar, bæði fyrir árið 2013 og í þriggja ára áætlun. Áformað er að húsið verði áfram leikhús en menningarráð Dalvíkurbyggðar er með í skoðun frekari nýtingu þess og þá einnig í tengslum við Sigtún sem er annað hús í eigu sveitarfélagsins. Það hús er sambyggt UNGÓ. Nýting hússins tengist m.a. uppbyggingu menningarviðburða á Dalvík. Iðnaðarmenn fá vinnu við endurgerð hússins og þjálfun í viðgerð gamalla húsa sem byggð eru úr steinsteypu. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Lúðvíkshús í Neskaupstað (10 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Fjarðabyggðar til endurbyggingar hússins. Húsið er timburhús frá árinu 1881 sem var flutt að Nesgötu 20 árið 1885. Húsið er á skrá samkvæmt þjóðskrá frá árinu 1885 og síðara byggingarár skráð 1886. Maður að nafni Ole Ibs Hansen frá Flekkefjord í Noregi kom með húsið tilhöggvið frá Noregi árið 1881 og reisti það á Nesströnd. Húsið mun hafa verið notað í sambandi við nótalögn og er talið að íbúðarpláss hafi verið á efri hæðinni en neðri hæðin að mestu óinnréttuð. Árið 1885 keypti Sveinn borgari Sigfússon húsið og flutti það út á Neseyri þar sem húsið var endurbyggt og innréttað sem verslun og íbúðarhús. Var það aðalverslunin á Nesi á þessum tíma. Um 1897 varð Lúðvík Sigurðsson útgerðarmaður eigandi að húsinu. Bjó hann þar og var að auki með heimaverslun. Einnig mun hann hafa rekið skóvinnustofu uppi á lofti hússins. Fékk húsið þá nafnið Lúðvíkshús. Áhugamannafélag sem heitir vinir gamla Lúðvíkshússins hefur unnið að björgun hússins og hefur verið lögð fram áætlun um hvernig verkið skuli unnið og um tilheyrandi kostnað. Sótt var um styrk til húsafriðunarsjóðs árið 2010. Þá var veittur A-styrkur að upphæð 350.000 kr. sem fékkst frestað til 2011. Einnig var sótt um styrk árið 1998 til húsafriðunarsjóðs og voru þá veittar 300.000 kr. en sá styrkur féll niður. Húsið er yfir 100 ára gamalt og því friðað. Það er elsta húsið í Neskaupstað og eitt fárra húsa sem varðveist hefur frá upphafi byggðar á Norðfirði. Það er því afar mikilvægt fyrir sögu svæðisins. Fyrirhugað er að miða endurbyggingu hússins við upphaflegt útlit að utan sem að innan. Sótt er um styrk til viðgerðar á ytra byrði, þ.m.t. gluggum. Verkefnið hefur mikið menningarsögulegt og húsverndargildi fyrir svæðið. Verkefnið er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn á svæðinu. Það gæti nýst til að þjálfa iðnaðarmenn í gömlu handverki sem beitt er við endurgerð og viðgerðir gamalla húsa en lítið hefur verið um slík verkefni á svæðinu. Endurbygging hússins telst einnig stuðningur við menningarstarfsemi á staðnum þar sem listamenn munu fá aðstöðu í húsinu fyrir starfsemi sína. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Steinsteypt fjárrétt í Norðfjarðarsveit (2 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Fjarðabyggðar til endurbyggingar steinsteyptrar fjárréttar í Norðfjarðarsveit. Upp úr miðri síðustu öld var töluvert um að réttir væru steinsteyptar. Einungis fáar slíkar standa enn og er þetta ein þeirra. Réttin hefur minjagildi fyrir landbúnaðarsögu héraðsins og er enn í notkun sem eykur gildi hennar í því samhengi. Viðgerð á réttinni hófst fyrir þremur árum en þá var hún verulega illa farin af veðrun og steypa í veggjum farin að molna. Taka þurfti ákvörðun um að gera við réttina eða rífa í því skyni að byggja nýja á staðnum. Þar sem þetta er ein fárra steinsteyptra fjárrétta sem enn eru í notkun var ákveðið að lagfæra réttina. Búið er að gera við 6 dálka af 15 í réttinni á síðustu þremur árum. Nú stendur til að halda viðgerðum áfram og ljúka eins miklu og unnt er. Verkefnið er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn á svæðinu og réttin mun áfram nýtast við sauðfjárbúskap. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð í samráði og samvinnu við forsætisráðuneytið og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Veghleðslur á Breiðdalsheiði (5 millj. kr.). Um er að ræða viðgerðir á friðuðum veghleðslum á Breiðdalsheiði. Fjármagninu verður ráðstafað til Fljótsdalshéraðs til skráningar veghleðslna, varða og annarra minja sem tengjast vegagerð og til viðgerða á hleðslum. Heimildir eru samdóma um að veghleðslurnar séu frá því fyrir 1900 og vísbendingar eru um að hleðslurnar séu jafnvel nokkuð eldri, enda er í sóknarlýsingu Eydalasóknar frá árinu 1873 fjallað um nýlegar vegbætur á þessari leið. Gömlu veghleðslurnar eru vel varðveittar minjar um handverk og samgöngumannvirki fyrri tíma sem eru líklega að stofni til frá um 1870. Þær eru því merkar samgönguminjar. Verkefnið skapar atvinnu fyrir fornleifafræðinga og hleðslumann á svæðinu. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Svarta pakkhúsið á Flateyrarodda (2 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Ísafjarðarkaupstaðar til lagfæringar á ytra byrði hússins. Húsið er elsta húsið á Flateyri, líklega byggt um 1856 og því friðað. Síðasta byggingarár er skráð 1868. Það er byggt af Hjálmari Jónssyni verslunarmanni til geymslu á saltfiski og stóð fyrir aftan verslunarhúsnæði sem hann átti á Flateyrarodda og rak sem fiskgeymsluhús. Í desember 2011 var húsið flutt á nýjan stað við aðalgötu bæjarins. Pakkhúsið var notað fram á síðari hluta 20. aldar. Húsið er í eigu Ísafjarðarbæjar og fyrir liggur uppmæling af húsinu, teikningar, skýrsla um ástand þess og kostnaðaráætlun vegna endurbóta. Árið 1998 var sótt um styrk til húsafriðunarsjóðs að upphæð 200.000 kr. Styrkur virðist ekki hafa verið greiddur. 1999 var veittur styrkur sem var greiddur árið 2000 að upphæð 150.000 kr. Árið 2008 fékk húsið samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar 2 millj. kr. sem frestað var til ársins 2009 – áfram til 2010 og síðan til ársins 2011. Sótt var um styrk í húsafriðunarsjóð árið 2012 – staða sjóðsins leyfði ekki úthlutun að sinni þótt verkefnið væri verðugt. Verkefnið er mikilvægt húsverndarverkefni á Vestfjörðum, enda um að ræða elsta húsið á Flateyri. Það tengist einnig verslunarsögu svæðisins og í raun landsins alls. Húsið var flutt á núverandi stað árið 2011 og frá þeim tíma hófst endurbygging hússins. Húsið hefur verið nýtt til sýninga þótt viðgerð á því sé ekki lokið. Árið 2013 var opnuð sýning um ýmsan fróðleik um harðfisk og skreið í máli og myndum. Er sýningin fyrsta skrefið í að pakkhúsið verði sýningarhús sem gæti styrkt safnatengda starfsemi á svæðinu. Með styrkveitingu nú verður unnið að lokaáfanga viðgerðar á húsinu sem er mikilvægt fyrir samfélagið og verndun hússins. Framkvæmdin skapar atvinnu fyrir iðnaðarmenn á svæðinu. Húsið er þegar í notkun sem sýningarhús og tengist því m.a. uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu á svæðinu. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Þrívíddarlíkön, fimm bæir á Vestfjörðum (10 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Ísafjarðarbæjar og nýtt til að gera nákvæm þrívíddarlíkön af gömlu bæjarkjörnum þorpanna fimm sem tilheyra Ísafjarðarbæ: Ísafirði, Hnífsdal, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Verkefnið er hluti af mun stærra verkefni sem felst í því að teikna upp hvernig bæirnir gætu litið út eftir endurbyggingu húsa og gatna. Í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar er áhersla lögð á hverfisvernd í gömlu bæjarkjörnunum á þeim svæðum sem til stendur að gera líkan af. Verkefnið er mikilvægt tæki í vinnu við stefnumörkun í húsavernd á svæðinu. Það snýst um verndarsvæði í byggð, uppbyggingu með sýnilegum endurbótum og aukningu á virði byggðar á svæðum sem hafa átt erfitt uppdráttar undanfarið. Í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008– 2020 er áhersla á hverfisvernd í gömlu bæjarkjörnunum þar sem áhersla er lögð á að gera svæðin aðlaðandi með verndun gamalla húsa og annarra einkenna sem og snyrtilegu umhverfi. Gert er ráð fyrir því að á hverfisverndarsvæðunum byggist upp þéttur, líflegur og aðlaðandi kjarni með fjölbreyttri verslun, þjónustu og íbúðarbyggð. Þar segir jafnframt að hús sem eru byggð fyrir 1918 og eru uppistandandi skulu gerð upp að utan samkvæmt rammaskipulagi. Miða skal við upprunalegt útlit eða það útlit sem viðheldur verndargildi hússins sem best. Verkefnið mun veita sérfræðingum í gerð þrívíddarlíkana vinnu og einnig iðnaðarmönnum á svæðinu í tengslum við viðgerð húsa og lagfæringu á umhverfinu. Bætt umhverfi og endurgerð hús efla möguleika á nýjum atvinnutækifærum í mörgum húsanna fyrir íbúana. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Austur-Meðalholt Gaulverjabæjarhreppi í Flóa (10 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Íslenska bæjarins ehf. en með styrknum verður félaginu gert kleift að ganga frá húsnæðinu og opna safn eða fræðslumiðstöð um íslenska torfhúsaarfinn. Bærinn að Austur- Meðalholtum er varðveittur í þeirri mynd sem hann hefur verið í frá lokum 19. aldar og byrjun 20. aldar. Austur-Meðalholt í Flóa er dæmigerður bær eins og þeir tíðkuðust á Suðvesturlandi og Suðurlandi á þessum tíma. Bærinn er einn örfárra torfbæja sem enn er uppistandandi á Suðurlandi í heillegri mynd. Hann hefur fágætisgildi en er jafnframt mikilvægur hluti af sögu torfhúsa á Íslandi almennt. Miðlun aðstandenda verkefnisins um handverk vegna viðhalds íslenskra torfhúsa og þjálfun manna í handverkinu eru afar mikilvæg. Til stendur að opna sýningaraðstöðu í nýbyggingu á svæðinu þar sem aðstaða verður fyrir sýningu og námskeiðahald tengt íslenskum torfbyggingararfi. Bærinn er mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu í þessum hluta Suðurlands og jafnframt er verkefnið liður í að viðhalda verkkunnáttu í gerð og viðhaldi íslenskra torfhúsa og miðlun upplýsinga um handverkið. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Landbúnaðarsafn Íslands ses., Hvanneyri (10 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Landbúnaðarsafns Íslands ses. til flutnings safnsins í gamla fjósið á Hvanneyri (Halldórsfjós). „Halldórsfjós“ var teiknað og hannað af Guðjóni Samúelssyni og reist í skólastjóratíð Halldórs Vilhjálmssonar árið 1928. Á þeim tíma var það eitt glæsilegasta mannvirki landsins, stórt og vandað, enda byggt fyrir 80 gripi. Gamla fjósið á Hvanneyri er mikilvægur hluti skólasögu á Hvanneyri og markar verulega breytingu á búskaparháttum landsmanna. Með flutningnum er þessari merku byggingu gefið verðugt framtíðarhlutverk þar sem gerð er grein fyrir sögu landbúnaðar á Íslandi, landbúnaðartæki sýnd og saga hússins sögð. Auk þess sem ætlunin er að efla starfsemi Landbúnaðarsafnsins á Hvanneyri í fjósinu. Á landbúnaðarsafninu er að finna heildstæðar upplýsingar um þróun landbúnaðartækja á Íslandi og eru safngripirnir afar mikilvægir fyrir sögu landbúnaðar hérlendis. Starfsemi þess er samofin menntunarstarfsemi Landbúnaðarháskólans og hefur menntunargildi á sínu sviði. Verkefnið mun veita iðnaðarmönnum og hönnuðum vinnu meðan á uppbyggingunni stendur. Í framhaldinu verður það atvinnuskapandi m.a. á sviði safnastarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu á svæðinu. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Gamla apótekið á Akureyri, Aðalstræti 4 (15 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Minjaverndar hf. til viðhalds á Gamla apótekinu á Akureyri. Gamla apótekið var byggt árið 1859. Húsið er friðlýst með ákvörðun ráðherra frá árinu 2003. Jóhannes P. Thorarensen reisti húsið árið 1859, þremur árum áður en Akureyrarkaupstaður var stofnaður. Hús þetta var eitt það stærsta og veglegasta sem risið hafði í bænum. Kjallari var manngengur, en slíkt þótti lúxus í þá daga, og lofthæð var meiri en almennt tíðkaðist. Lengd og breidd hússins var einnig mikil, þannig að húsið var rýmra en tíðkaðist með íbúðarhús. Þá stóð húsið hærra uppi en önnur hús í bænum og var því afar áberandi. Teiknari hússins, Jón Chr. Stephanson, var menntaður í Danmörku og mun húsið vera undir miklum áhrifum þaðan. Stór kvistur og sneiðingar á göflum gefa húsinu sérstakan svip og líkist það einna helst 18. aldar steinhlöðnum byggingum landsins, svo sem Stjórnarráðshúsinu fljótt á litið. Apótek var í húsinu allt til ársins 1929 en síðan þá hefur húsið verið íbúðarhús. Nú eru þrjár íbúðir í húsinu en trúlega hafa þær verið fleiri í gegnum tíðina. Húsinu hefur verið haldið vel við en er gjörbreytt frá fyrstu gerð. Upprunalega var það timburklætt með stórum sexrúðugluggum og skrautlegum palli framan við. Um 1950 var húsið forskalað og gluggapóstum breytt. Gamla apótekið var á sínum tíma eitt glæsilegasta húsið í innbænum á Akureyri en húsið hefur mjög látið á sjá í seinni tíð. Varðveislugildi hússins er mikið. Sögulegt og menningarlegt gildi svo og byggingarlistarlegt gildi enda um friðlýst hús að ræða. Það getur orðið einn helsti gullmoli húsa á Akureyri að endurbyggingu þess lokinni þar sem það mun blasa við hátt í brekku þegar ekið er vestur yfir pollinn. Nákvæmar teikningar liggja fyrir og samþykktar teikningar og áætlun um endurbyggingu hússins á þessu ári. Sótt hefur verið um styrk til viðgerðar hússins til húsafriðunarsjóðs allt frá árinu 1990, en það fjármagn sem hægt hefur verið að veita til verkefnisins hefur engan veginn nægt til lagfæringanna. Árið 1990 voru veittar 222.000 kr. Árið 1991 300.000 kr. Árið 2003 var veittur styrkur að upphæð 500.000 kr. sem greiddur var út árið 2004. Árið 2004 var veittur styrkur að upphæð 500.000 kr. sem var greiddur út það ár. Árið 2005 500.000 kr. styrkur sem var greiddur sama ár. Árið 2006 500.000 kr. sem var frestað til 2007 en féll síðan niður árið 2008. Nú er sótt um fjármagn til gluggaísetningar og viðgerðar á ytra byrði. Verðugt verkefni á friðlýstu húsi sem nauðsynlegt er að veita stuðning. Endurbygging hússins skapar atvinnu fyrir handverksmenn. Hún er mikilvægur liður í eflingu innbæjarins á Akureyri sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Kvíabekkur við Húsavík (10 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Norðurþings til viðhalds á Kvíabekk og endurbyggingar grjóthleðslu gamla torfbæjarins. Áætlað byggingarár timburhússins á Kvíabekk er 1891. Áður skráð byggingarár er 1921 en samkvæmt heimildum er það byggt árið 1930. Húsið þjónaði sem íbúðarhús ábúenda Kvíabekks frá byggingu (1921–1930) til um 1970. Torfbærinn Kvíabekkur var upphaflega byggður 1893 og stendur hann enn á ljósmynd frá 1921. Hann er löngu fallinn. Grjóthleðsla gamla torfbæjarins stendur enn við húsið. Árið 1975 var Kvíabekkur gerður að hluta nýstofnaðs skrúðgarðs og þjónar húsið nú sem afdrep fyrir starfsmenn garðsins. Húsið hefur gildi sem vitnisburður um byggðamynstur og búskaparhætti fyrri tíðar innan þess svæðis sem nú er þéttbýli Húsavíkur. Gamla torfhúsið er farið. Varðveislugildi þess felst í grjóthleðslu sem er enn við timburhúsið. Verkefnið sem sótt er um styrk vegna felst í viðhaldi á timburhúsinu og endurbyggingu grjóthleðslu gamla torfbæjarins. Sótt var um í húsafriðunarsjóð árið 2011 vegna timburhússins. Staða sjóðsins leyfði ekki úthlutun þá þótt verkefnið væri verðugt. Styrkur fékkst árið 2012 sem nemur 100.000 kr. en féll niður í janúar 2013. Árið 2013 voru veittar 300.000 kr. í styrk sem frestað var til ársins 2014. Verkefnið er atvinnuskapandi verkefni fyrir iðnaðarmenn á svæði þar sem nauðsynlegt er að styðja við þekkingu á verklagi við viðgerð friðaðra og friðlýstra húsa og fjölgun manna sem geta tekið slík verkefni að sér. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Múlakot í Fljótshlíð (10 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Rangárþings eystra til varðveislu menningarminja í Múlakoti í Fljótshlíð. Í Múlakoti er bær sem byggður var í áföngum á árunum 1898 til 1930. Múlakot í Fljótshlíð hefur sérstakt menningarsögulegt gildi sem einn elsti gisti- og greiðasölustaður héraðsins sem jafnframt var sveitaheimili og aðsetur Ólafs Túbals. Ólafur var þjóðkunnur listamaður og dvöldu margir þekktir listamenn í Múlakoti á fyrri hluta síðustu aldar. Framsækið og listhneigt fólk hefur í gegnum tíðina sett svip sinn á staðinn. Síðustu gestir eru skráðir í dagbókum á árunum 1980–1985. (Eyðibýli á Íslandi, 1. bindi, bls. 107). Við bæinn er sögulegur skrúðgarður sem kenndur er við Guðbjörgu Þorleifsdóttur, frumkvöðul og aðalræktanda garðsins. Bæjarhúsin mynda bakgrunn við garð Guðbjargar sem er einn elsti einkagarður landsins. Uppmælingar og áætlun um endurbyggingu hússins liggja fyrir og til stendur að stofna sjálfseignarstofnun um varðveislu minja í Múlakoti. Fyrir liggur tillaga að friðlýsingu staðarins. Múlakot hefur fengið styrki úr húsafriðunarsjóði sem hafa beinst að áætlanagerð um varðveislu staðarins. Árið 2010 var veittur A-styrkur að upphæð 400.000 kr. og aftur 300.000 kr. árið 2013. Árið 2013 var veittur styrkur úr húsafriðunarsjóði að upphæð 2 millj. kr. vegna aðkallandi viðgerða á elsta hluta hússins en rof var komið í þakið og var það að falla. Nú er sótt um styrk til viðgerða á elsta hluta hússins. Verkefnið er mjög verðugt og nauðsynlegt að bjarga þessum menningarverðmætum sem eru mikilvægar jafnt fyrir svæðið sem Ísland allt. Verkefnið er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn og gæti orðið til þess að efla ferðaþjónustu á svæðinu. Múlakot getur að auki orðið mikilvægur viðkomustaður ferðamanna í Fljótshlíðinni þar sem leið margra liggur um í dag. Áætlanir eru um að húsið verði nýtt undir sýningu um sögu staðarins og tengsl hans við íslenska listasögu. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Gamlabúð í Keflavík (5 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Reykjanesbæjar til viðhalds og viðgerðar á Gömlubúð í Keflavík. Gamlabúð var reist af H. P. Duus kaupmanni í Keflavík árið 1871 í dansk-íslenskum stíl með klassísku ívafi. Húsið er timburhús úr bindingsverki með hlöðnum kjallara og portbyggðu risi. Á framhlið er framskotinn kvistur í miðju og eru þar inngöngudyr. Húsið er klætt listasúð og eru á því sexrúðugluggar. Húsið er mjög upprunalegt að formi og hefur ekki verið mikið endurnýjað. Allir viðir eru upprunalegir og heillegir fyrir utan nokkrar brunaskemmdir sem þó eru aðeins á yfirborðinu. Þar var verslun á hæðinni og íbúð faktors í risi. Húsið var lengi í eigu útgerðarmanna og fiskvinnslufyrirtækja. Síðustu áratugina hefur húsið staðið autt og í niðurníðslu. Húsið er einn af hornsteinum elstu byggðar í Keflavík og hefur verið mikilvægt kennileiti í bæjarmyndinni. Fyrir liggur tillaga Minjastofnunar um friðlýsingu ytra borðs hússins og upprunalegra innviða þess. Árið 1997 brann húsið nokkuð illa að innan, líklega af völdum íkveikju. Árið eftir hóf þáverandi eigandi, Birgir Guðnason, að endurbyggja húsið undir stjórn Páls V. Bjarnasonar arkitekts. Í þeim áfanga var sett upprunaleg timburklæðning á húsið og nýir gluggar að mestu. Timburklæðningin er farin að láta á sjá og þarfnast viðgerðar. Þak hússins lekur og er brýn nauðsyn á að skipta um það. Reykjanesbær er núverandi eigandi hússins og hyggst endurbyggja það á næstu árum. Óvíst er um notkun hússins en það mun þó verða nýtt í opinbera þágu. Árið 2003 veitti húsafriðunarsjóður verkefninu 75.000 kr. styrk sem féll niður. Árið 2004 var veittur styrkur upp á 75.000 kr. en frestað til ársins 2005. Hins vegar virðist sá styrkur hafa fallið niður. Árið 2013 var veittur styrkur að upphæð 1 millj. kr. til að styðja við viðgerð hússins. Viðgerð á ytra byrði hússins nú er verðugt verkefni vegna mikilvægis hússins og fyrirhugaðrar friðlýsingar. Verkefnið verður atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn og mun styrkja menningar- og safnastarfsemi á svæðinu til lengri tíma litið. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Fischershús Keflavík (10 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Reykjanesbæjar til viðhalds og viðgerða á Fischersbúð. Árið 1877 varð Waldimar Fischer eigandi miðverslunar í Keflavík. Er það sami Fischer og Fischersund í Reykjavík er nefnt eftir. Keflavíkurverslun Fischers er talin vera fyrsta lágvöruverðsverslunin. Fischer byggði húsið 1880– 1881 og er það tvíloftað úr bindingsverki og klætt listasúð með skífuþaki í anda Alþingishússins sem byggt var sama ár. Í húsinu var verslunin á neðri hæð en faktorinn bjó á efri hæðinni. Húsið var síðan lengi í höndum útgerðarmanna og fiskvinnslufyrirtækja og reyttust af því fjaðrirnar smám saman. Varðveislugildi hússins er mikið enda glæsilegt hús sem byggt var af miklum metnaði á sínum tíma. Vandað var til byggingar hússins og var það fyrsta tvíloftaða húsið í Keflavík. Húsið var flutt tilsniðið frá Danmörku og var á sínum tíma talið eitt reisulegasta húsið á öllu Suðurlandi. Hver spýta var merkt áður en húsinu var pakkað niður og það síðan reist í Keflavík. Sótt er um fjármagn til viðhalds og viðgerða á gluggum og til klæðningar utanhúss. Um er að ræða hús sem er afar mikilvægt bæði fyrir sögu Keflavíkur og verslunarsögu á Íslandi. Húsið hefur látið mjög á sjá í seinni tíð og því mun viðgerð á m.a. útveggjum þess hafa mikið gildi fyrir bæjarmynd Keflavíkur. Fyrir liggur tillaga Minjastofnunar á friðlýsingu á ytra borði hússins, upprunalegra innviða, búðarinnréttingar og hlaðinna steinveggja á lóð. Sótt hefur verið um styrk fyrir þetta verkefni allt frá árinu 1999 í húsafriðunarsjóð en fenginn styrkur var ekki í samræmi við kostnað verkefnisins og var styrkur því ekki þeginn fyrr en 2013 þegar veittur var 5 millj. kr. styrkur til verkefnisins. Árið 1999 er veittur A-styrkur að upphæð 200.000 kr. Sá styrkur virðist ekki hafa verið greiddur. Árið 2000 fékkst 100.000 kr. styrkur en virðist ekki hafa verið greiddur. Árið 2002 fékkst 250.000 kr. styrkur sem ekki var greiddur út. Árið 2003 fengust 75.000 kr. sem féllu niður. Árið 2004 voru veittar 75.000 kr. sem var frestað til ársins 2005. Árið 2013 voru veittar 5 millj. kr. og var 1,5 millj. kr. frestað til 2014. Um er að ræða mikilvægt verkefni sem hefur gildi fyrir svæðið og húsvernd almennt. Það er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn á svæðinu. Áform eru um að í húsinu verði m.a. lista- og handverksmiðstöð. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Gæruhúsið: Flutningur frá Akureyri til Siglufjarðar (20 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Síldarminjasafns Íslands ses. til flutnings Gæruhússins frá Akureyri til Siglufjarðar og uppsetningu þess þar. Áætlað byggingarár hússins er 1882. Áður skráð byggingarár er 1900. Gæruhúsið er að stofni til gamalt pakkhús rúmlega 300 fm að grunnfleti sem var byggt á Patreksfirði í lok 19. aldar. Það var flutt til Akureyrar árið 1946 fyrir Kjötiðnaðarstöð KEA. Talið er víst að húsið hafi átt „viðdvöl“ á Siglufirði í mörg ár á fyrri hluta 20. aldar. Ljósmynd sem tekin var á Siglufirði á þriðja áratugnum sýnir hús sem líkist mjög Gæruhúsinu. Svo vill til og styður mjög „Siglufjarðardvölina“ að húsið stendur á athafnalóð KEA, Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri, sem rak þar síldarsöltunarstöð um áratugi. Sá staður er nánast sá sami og nú stendur til að endurreisa húsið á. Árið 2000 komst það í eigu Þjóðminjasafns Íslands en verður nú eign Síldarminjasafnsins. Hugmyndin er að nota hluta hússins fyrir sýningarsal og hluta þess sem verkstæði til lagfæringa á safngripum. Húsið verður hluti af safnsvæði Síldarminjasafnsins á Siglufirði. Með því er varðveisla hússins tryggð til frambúðar. Fyrir liggur uppmæling, tillögur að viðgerðum og kostnaðaráætlun og hyggst Síldarminjasafnið sjá um viðgerðir á húsinu. Húsafriðunarsjóður veitti 1 millj. kr. styrk árið 2013 vegna flutnings frá Akureyri til Siglufjarðar. Verkefnið nú beinist fyrst og fremst að uppbyggingu hússins á Siglufirði og frágangi þess að utan. Verkefnið er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn. Í framhaldinu verða til verkefni á sviði safnastarfs, svo sem við hönnun sýninga. Húsið mun verða kærkomin viðbót við safnasvæðið. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Eyðibýlaverkefnið og Jórvík (10 millj. kr.). Fjármagnið verður veitt Skógrækt ríkisins til viðgerðar á ytra byrði eyðibýlisins Jórvík. Eyðibýlaverkefnið beinist að því að velja eyðibýli m.a. í eigu Skógræktarinnar, gera þau upp og nýta í framtíðinni sem sumardvalarhús til útleigu. Bærinn Jórvík í Breiðdal er eitt eyðibýlanna. Það er járnklætt timburhús byggt 1928 af bræðrum sem þar bjuggu. Þeir nutu aðstoðar nokkurra völundarsmiða af svæðinu við að reisa húsið. Búið var í Jórvík til 1965 og voru ábúendur þekktir fyrir snyrtimennsku. Viðgerð á húsinu í Jórvík hófst 2011 með því að endurbyggja innri stafn, styrkja undirstöður og loka húsinu svo það yrði ekki fyrir frekari skemmdum. Árið 2012 var lokið við að handgrafa upp veggi baka til og ljúka við viðgerð á burðarvirki og rétta af allt húsið. Lagðir voru inn stofnar fyrir vatn, skólp, dren og stífingar. Húsið verður endurbyggt eins og það var upphaflega í góðu samstarfi við Minjastofnun og eigandann Skógrækt ríkisins. Bærinn Jórvík í Breiðdal er mikilvægt dæmi um staðbundna húsagerð í sveit á Suðausturhorni landsins, eitt fárra slíkra sem enn stendur. Það stendur innan skógræktarjarðar og hefur mikið gildi fyrir umhverfi sitt.
Árið 1997 veitti húsafriðunarsjóður A-styrk til Jórvíkur að upphæð 75.000 kr. Sótt var um 2002 og 2008 en enginn styrkur fékkst. Árið 2009 var veittur A-styrkur að upphæð 200.000 kr. og greiddar út 100.000 kr. árið 2010. Afgangi var frestað til ársins 2011 en hann féll niður í janúar 2012. Árið 2011 fékkst 1 millj. kr. (einnig var sótt um til viðgerðar á Lindarbakka sem ekki er á fasteignaskrá en stendur í túninu hjá Jórvík) og árið 2012 fékkst 1 millj. kr. til endurbóta á ytra byrði. Árið 2013 var samþykktur styrkur að upphæð 400.000 kr. en honum var frestað til 2014. Árið 2014 var veitt framlag upp á 400.000 kr. en ekki urðu verklegar framkvæmdir vegna þess að grjóthleðslumaður gat ekki komið. Styrknum var því frestað til 2014. Upphæðir sem fengust voru mun lægri en kostnaðaráætlun verkefnisins og er það ástæða þess að styrkir féllu niður eða voru fluttir á milli ára. Um er að ræða mjög áhugavert hús og verkefnið almennt, þar sem Íslendingum og erlendum ferðamönnum mun gefast kostur á að leigja eyðibýli til sumardvalar. Í Jórvík er fyrst og fremst stefnt að því að nýta húsið sem dvalarstað fyrir göngufólk og aðra ferðamenn sem heimsækja skógræktarsvæðið að Jórvík. Mikil vinna hefur verið lögð í að koma Jórvík til fyrra horfs. Jórvík er fyrsta húsið í eyðibýlaverkefninu sem unnið er að viðgerð á. Verkefnið er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn á svæðinu og þáttur í eflingu ferðamennsku. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Stríðsárasafnið á Reyðarfirði (6 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Stríðsárasafnsins á Reyðarfirði til viðgerða á bragga/bröggum safnsins. Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði var stofnað árið 1995. Það hefur að meginmarkmiði að skrá og miðla sögu stríðsáranna 1939–1945 og er stefnan að miðla ekki einungis upplýsingum um stríðsárin á Reyðarfirði heldur á landinu öllu. Það er til húsa í bragga frá stríðsárunum en á Reyðarfirði reis braggahverfi fyrir um 4.000 hermenn auk þjónustubygginga og varnarmannvirkja. Á safninu hefur verið lögð áhersla á söfnun og miðlun ljósmynda en einnig eru þar varðveitt farartæki og ýmsir munir. Braggaþyrping stríðsárasafnsins á Reyðarfirði er heillegt dæmi um stríðsminjar hérlendis. Byggingarnar eru þáttur í að veita komandi kynslóðum innsýn í lífið á stríðsárunum og áhrif hersetunnar á íslenskt þjóðlíf. Sótt var um fjármagn til viðgerðar á bragga. Um er að ræða nýtt verkefni sem er verðugt að styrkja vegna mikilvægis minjastaðarins og safnsins. Verkefnið er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn og fólk sem starfar á sviði menningarmála á svæðinu. Stríðsárasafnið er nú þegar mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu í Fjarðabyggð. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Húsið Ingólfur á Selfossi (5 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Sveitarfélagsins Árborgar til gerðar sökkuls fyrir húsið Ingólf og flutning þess. Húsið Ingólfur var byggt 1926 og var sjöunda húsið sem reist var á Selfossi sem þá var hin nýja byggð við Ölfusárbrú. Guðlaugur Þórðarson frá Vatnsnesi í Grímsnesi og kona hans, Guðríður Eyjólfsdóttir frá Hvammi í Landsveit, reistu húsið en þau voru á þeim tíma með veitingarekstur í Tryggvaskála. Húsið var smíðað hjá Dvergi í Hafnarfirði og kom austur tilhöggvið. Sigmundur Stefánsson á Eyrarbakka var yfirsmiður. Um er að ræða eitt elsta húsið á svæðinu og er mikilvægt til að styrkja götumynd Selfoss út frá verndarsjónarmiðum. Húsið var flutt af grunni sínum 2007. Það var flutt á Eyrarbakka í september 2013 vegna kvikmyndatöku. Í október sama ár var það flutt þaðan í Nýjabæ í Sandvíkurhreppi. Ráðgert er að setja það á sína gömlu lóð við Eyraveg 1 á Selfossi. Verkefnið beinist að gerð sökkuls undir húsið og flutning þess. Endurbygging hússins tengdist mótun skipulagshugmynda á miðsvæði Selfoss þar sem unnið verður út frá eldri götumyndum. Ráðgert er að setja húsið á gömlu lóð þess við Eyraveg á Selfossi. Um er að ræða nýtt verkefni sem verðugt er að styrkja vegna uppbyggingar miðbæjar Selfoss þar sem tekið er tillit til sögu bæjarins. Verkefnið er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn svæðisins. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Mikligarður Hornafirði (15 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Sveitarfélagsins Hornafjarðar til viðgerðar á ytra byrði Miklagarðs og endurnýjunar á upprunalegri gluggagerð. Mikligarður var reistur sem verstöð á árunum 1919–24. Um 1945 voru beitingaskúrar við vesturenda hússins rifnir og þriggja hæða steinsteypt hús reist í staðinn. Mikligarður gegnir mikilvægu hlutverki í útgerðarsögu Austfirðinga sem og í sögu og uppbyggingu hafnar- og athafnasvæðis við Hafnarvík og Heppu, elsta hluta Hafnar. Mikligarður er í nokkuð góðu ástandi. Brunavarnir eru hins vegar í ólestri og ástand raflagna slæmt. Fyrir liggur áætlun um viðgerðir og endurbætur á húsinu. Mikligarður hefur umtalsvert menningarsögulegt gildi sem tenging við atvinnusögu á Höfn og er órjúfanlegur hluti af umhverfinu við Hafnarvík og Heppu. Húsið er atvinnusöguleg heimild og býður upp á möguleika til margs konar nota. Fyrirhugað er að nýta húsið sem grunnsafn Hornafjarðarsafna en að neðri hæðin verði nýtt fyrir skapandi greinar og frumkvöðlastarfsemi. Verkefnið beinist að viðgerð á ytra byrði og endurnýjun upprunalegrar gluggagerðar. Árið 2000 voru veittar 200.000 kr. í A-styrk til að vinna áætlun um viðgerð hússins. Árið 2004 voru veittar 250.000 kr. í A-styrk. Árið 2005 var veittur styrkur að upphæð 700.000 kr. en þeim styrk var frestað fram til 2007. Árið 2007 var veittur styrkur að upphæð 500.000 kr. Árið 2008 var veitt 1 millj. kr. í verkefnið samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar. Árið 2009 var 1 millj. kr. veitt en styrknum var frestað til ársins 2010. Miðað við upprunalega gerð hússins hafa margar breytingar átt sér stað, bæði utan og innan húss, en viðráðanlegt er að færa útlit hússins til upphaflegs horfs. Lagt er til að húsið verði fært til upprunalegs horfs að utan. Að innan verður reynt að halda því sem upprunalegt er af fremsta megni. Endurgert verður húsið mikil prýði fyrir bæjarfélagið og til þess fallið að styrkja þá heildarmynd sem verið er að vinna að á svæðinu. Verkefnið er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn. Ýmsar hugmyndir eru uppi um notkun á Miklagarði, m.a. að í framtíðinni geti húsið nýst undir safna- og sýningarstarfsemi, vinnusali og verslanir handverks og listamanna, fiskbúð og humarsetur. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Góðtemplarahúsið (Gúttó) á Sauðárkróki (10 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Sveitarfélagsins Skagafjarðar til viðgerðar á Góðtemplarahúsinu (Gúttó) á Sauðárkróki. Um er að ræða friðað hús, byggt árið 1897, sem tengist m.a. leiklistarstarfsemi á Sauðárkróki. Húsið er eina samkomuhús góðtemplara (ásamt Gúttó í Hafnarfirði) sem enn stendur í upphaflegri mynd. Það á sér afar merka leiklistar- og tónlistarsögu og er mikilvægur þáttur í menningarsögu svæðisins. Húsið tengist einnig eflingu mannlífs og menningar í elsta hluta Sauðárkróks. Um er að ræða nýtt verkefni sem beinist að viðgerðum á gluggum og klæðningu. Verkefnið er atvinnuskapandi fyrir iðnaðarmenn á svæðinu. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Skipasmíðastöð Austurlands (15 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Tækniminjasafns Austurlands til viðgerðar á ytra byrði Skipasmíðastöðvar Austurlands. Húsið er byggt í mörgum áföngum. Fyrst (1881) var það hús Norðmannsins Svendsen sem pöntunarfélag Fljótsdæla keypti 1885. Það skemmdist í aurskriðu. Árið 1887 keypti Garðarsfélagið húsið og hóf umsvifamikla starfsemi. Byggt var við báða enda og síðan bættust við tvö einslaga hús tengd á langveggjum, nokkurs konar burstahús. Þau voru síðan sameinuð undir eitt þak í geysistórt iðnaðar- og verslunarhús (836 fm). Hafnarsjóður eignaðist húsið 1901, geymdi þar m.a. kol. Árið 1941 keypti Skipasmíðastöð Austfjarða húsið og smíðaði þar fimmtán þilfarsbáta, auk fjölda smábáta. Frá 1973–93 var þar trésmiðja sem stundaði bátaviðgerðir og smíðaði húsaeiningar og innréttingar í stálbáta Vélsmiðju Seyðisfjarðar til 1993. Lengst af var þar einnig byggingarvöruverslun. Í húsinu eru gamlar uppgerðar trésmíðavélar sem eru nýttar töluvert. Skipasmíðastöðin er einstakt dæmi um stórt iðnaðarhús úr timbri frá byrjun síðustu aldar sem nýst hefur allt til dagsins í dag. Nauðsynlegt er að endurbyggja húsið. Stefnt er að því að endurgerð taki mið af húsinu eins og það er og hefur verið í gegnum tíðina, þ.e. atvinnuhúsnæði frá síðustu öld og því fundið hlutverk við hæfi. Vinna við og vinnsla á efni til endurgerðar skipasmíðastöðvarinnar fari fram í húsinu sjálfu. Skipasmíðastöðin, með trésmiðju sinni, getur orðið miðstöð endurgerðar og viðhalds á húsum safnsins og annarra gamalla húsa á Seyðisfirði og víðar. Enn fremur nýtist verkstæði Skipasmíðastöðvarinnar ásamt Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar og slippnum til viðhalds á gömlum bátum landsmanna. Verkefnið beinist að viðgerð á ytra byrði hússins. Húsið á sér langa styrkjasögu og ætti að vera hægt að ljúka viðgerð á árinu 2014. Greitt var frá fjárlaganefnd árið 2005 1 millj. kr.; árið 2006 2 millj. kr.; árið 2007 4 millj. kr.; árið 2008 4 millj. kr.; árið 2009 1,5 millj. kr.; árið 2010 1 millj. kr. Húsið er hluti af sögu Seyðisfjarðar og setur óneitanlega svip sinn á umhverfið. Ekki eru mörg hús sem þessi til á landinu og er varðveislugildi þess mikið. Í húsinu eru stór opin rými sem nýtast munu við uppbyggingu tækniminjasafnsins. Viðgerð hússins veitir iðnaðarmönnum atvinnu. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Galtastaðir fram í Hróarstungu (4 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Þjóðminjasafns Íslands til viðgerðar og viðhalds á torfbæ að Galtastöðum fram í Hróarstungu. Torfbærinn að Galtastöðum fram er einn fárra alþýðubæja sem varðveist hafa frá 19. öld og er hann af svokallaðri Galtastaðagerð sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja heldur á rætur í fornugerð. Varðveislugildi hans er einstakt. Í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði. Í bænum er fjósbaðstofa, reist 1882 af Jóni Magnússyni snikkara. Fyrr á tímum mun hafa verið tvíbýlt á jörðinni og stóðu þá tvær baðstofur að baki núverandi húsa. Bærinn hefur verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1976 og í eigu safnsins síðan 1993. Auk þess sem bærinn sjálfur er af sjaldgæfri gerð þá er um að ræða einn fárra torfbæja á Íslandi þar sem menningarlandslagið umhverfis bæinn hefur varðveist. Fyrirhugað er að verja fjármagninu til að hanna, smíða og setja upp loftræstibúnað í bæinn til að tryggja varðveislu hans. Bærinn er byggður úr lífrænu efni, torfi og timbri, sem er viðkvæmt gagnvart frosti og raka. Ef ekki er unnt að halda torfbæjum frostlausum yfir vetrarmánuðina er hætta á að veggir frjósi og frostspringi. Slíkar skemmdir kalla á kostnaðarsamar viðgerðir. Til að koma í veg fyrir frostskemmdir og til að halda jöfnu hita- og rakastigi í torfbæjum, sem einnig er nauðsynlegt til að varðveita torf, timbur og gripi, er ætlunin að setja loftræstibúnað í bæinn. Um er að ræða nýtt mikilvægt verkefni á staðnum sem mun leggja til reynslu í þágu varðveislu torfhúsa um allt land. Drög hafa verið lögð að hönnun loftræstikerfis og verður búnaðurinn smíðaður hérlendis. Uppsetning hans skapar atvinnu fyrir hönnuði, blikksmiði, trésmiði og rafvirkja. Unnið verður að undirbúningi og framkvæmdum á þessu ári þannig að í haust verði unnt að taka búnaðinn í notkun. Verkefni við húsasafn Þjóðminjasafns Íslands eru atvinnuskapandi, bæði til skamms og langs tíma litið. Þau eru mjög fjölbreytt í eðli sínu og taka m.a. til hefðbundinna viðhaldsverka, svo sem viðgerða torfveggja og timburvirkis torfhúsa, málunar og tjörgunar og uppsetningar brunaöryggiskerfa og loftræstikerfa. Bærinn að Galtastöðum hefur mikið gildi vegna upprunaleika minjanna og er viðgerð unnin með forvörslusjónarmið að leiðarljósi. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.
     Þverá í Laxárdal (4 millj. kr.). Fjármagninu verður ráðstafað til Þjóðminjasafns Íslands til viðgerðar og viðhalds á Þverá í Laxárdal. Þverárbærinn var reistur á seinni hluta nítjándu aldar af Jóni Jóakimssyni snikkara og bónda á staðnum. Í framhúsaröð eru tvær stofur, hvor til sinnar handar við bæjardyr. Samtengd skemma er við aðra stofuna en þó ekki gegnt á milli. Skammt sunnan við bæinn er önnur stakstæð skemma. Inn af bæjargöngum er eldhús til annarrar handar og búr til hinnar en innst er baðstofa. Inn af eldhúsi eru önnur göng til fjóss og brunnhúss. Á Þverá er margt hugvitsamlega gert, t.d. er lækur leiddur gegnum brunnhús innst í bænum svo að heppileg kæling fengist til geymslu á matvælum. Jafnframt var stutt að fara eftir rennandi vatni. Í gamla torfbænum var Kaupfélag Þingeyinga, elsta kaupfélag landsins, stofnað árið 1882. Þjóðminjasafn Íslands tók bæinn í sína vörslu árið 1968 og var fljótlega hafist handa við viðgerðir og hlaut Þjóðminjasafnið nokkurn fjárstyrk til viðgerða frá kaupfélögunum. Gert var við lambhús árið 1998 og ný torfþekja sett á framhúsin árið 2002. Torfbærinn á Þverá er einn fárra torfbæja sem er uppistandandi á Íslandi og afar mikilvægur sem dæmi um torfbæ af norðlenskri gerð á kirkjustað. Fjöldi útihúsa eru enn uppistandandi, mörg þeirra í góðu ásigkomulagi. Fyrirhugað er að verja fjármagninu til að hanna, smíða og setja upp loftræstibúnað í bæinn til að tryggja varðveislu hans. Hafa verður í huga að bærinn er byggður úr lífrænu efni, torfi og timbri, sem er viðkvæmt gagnvart frosti og raka. Ef ekki er unnt að halda torfbæjum frostlausum yfir vetrarmánuðina er hætta á að veggir frjósi og frostspringi. Slíkar skemmdir kalla á kostnaðarsamar viðgerðir. Til að koma í veg fyrir frostskemmdir og til að halda jöfnu hita- og rakastigi í torfbæjum, sem einnig er nauðsynlegt til að varðveita torf, timbur og gripi, er ætlunin að setja loftræstibúnað í bæinn. Um er að ræða nýtt, mikilvægt verkefni á staðnum. Drög hafa verið lögð að hönnun loftræstikerfis og verður búnaðurinn smíðaður hérlendis. Uppsetning hans skapar atvinnu fyrir hönnuði, blikksmiði, trésmiði og rafvirkja. Unnið verður að undirbúningi og framkvæmdum á þessu ári þannig að í haust verði unnt að taka búnaðinn í notkun. Verkefni við húsasafn Þjóðminjasafns Íslands eru atvinnuskapandi, bæði til skamms og langs tíma litið. Þau eru mjög fjölbreytt í eðli sínu og taka m.a. til hefðbundinna viðhaldsverka svo sem viðgerða torfveggja og timburvirkis torfhúsa, málunar og tjörgunar og uppsetningar brunaöryggiskerfa og loftræstikerfa. Minjastofnun Íslands var falið að annast samningsgerð og í framhaldi af því útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.

     3.      Hvaða skriflegu verklagsreglur eru í gildi í ráðuneytinu um úthlutun styrkja til sérhvers fyrrgreinds málaflokks?
    Ný skrifstofa menningararfs tók til starfa í forsætisráðuneytinu 1. febrúar sl. og vinnur skrifstofan nú að stefnumótun og m.a. að tillögum um skiptingu 190 millj. kr. af fjárlagaliðnum 01-305 Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Að öðru leyti er vísað til svars við 1. tölul.

     4.      Hefur ákvörðun um þau verkefni sem þegar hafa hlotið styrk í öllum tilfellum byggst á skriflegum umsóknum frá styrkþegum? Hafa styrkir verið auglýstir og þá hvar? Hvernig eru jafnræðisreglur tryggðar?
    Ákvarðanir sem teknar voru árið 2013 um að veita styrki af liðnum 01-281 Atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa, sem ekki er í fjárlögum ársins 2014, og 30 millj. kr. af liðnum 01-305 Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. byggðust á fyrirliggjandi gögnum og/eða fyrirliggjandi umsóknum um styrki. Faglegt mat var unnið í forsætisráðuneytinu m.a. í samráði við Minjastofnun Íslands, formann húsafriðunarnefndar og Þjóðminjasafn Íslands.

     5.      Hvernig fer faglegt mat á verkefnum fram innan ráðuneytisins? Hvaða kröfur eru gerðar til verkefna, umsækjenda og þeirra sem vinna verkin? Hvaða sérfræðingar meta þær umsóknir sem ráðuneytið fær? Hver er faglegur bakgrunnur þeirra?
    Sjá svar við 3. og 4. tölul.

     6.      Hvernig skarast styrkveitingar ráðuneytisins við verkefni húsafriðunarnefndar og Minjastofnunar Íslands og hvernig er samstarfi við þá aðila háttað?
    Ákvarðanir um veitingu styrkja sem fjallað er um í fyrirspurn þessari eru teknar að höfðu samráði við opinbera fagaðila á þessu sviði, sbr. svar við 4. tölul. Minjastofnun Íslands fer með samningsgerð og útgreiðslu að uppfylltum skilyrðum í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.

     7.      Hver vinnur skilamat og hvaða kröfur eru gerðar til þess?
    Minjastofnun Íslands fer með samningagerð, útgreiðslu og eftirlit með þeim verkefnum sem fyrirspurn þessi lýtur að í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar og voru fjármunir sem ætlaðir eru til styrkjanna fluttir frá forsætisráðuneytinu til Minjastofnunar. Skilyrði vegna styrkja munu í samræmi við verklagsreglurnar koma skýrt fram í samningi sem gerður er við hvern og einn styrkþega. Í verklagsreglum Minjastofnunar er gert ráð fyrir því að starfsmenn stofnunarinnar fari jafnframt á framkvæmdastaði eftir því sem nauðsynlegt þykir og stofnunin hefur eftirlit með framkvæmdum meðan á þeim stendur. Komi í ljós að framkvæmdir séu ekki í samræmi við samninga er greiðsla fryst og endurgreiðslu styrks krafist ef ástæða þykir til þess.

     8.      Er samstarf við þá aðila sem sinna þessum málum fyrir hönd sveitarfélaganna? Ef svo er, hvernig fer það fram?
    Minjastofnun Íslands og Þjóðminjasafn Íslands eru í samskiptum við sveitarfélög um verkefni þar sem það á við.

     9.      Hvaða verkefni fengu úthlutað samkvæmt liðnum 01-305 Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. (165,5 millj. kr.) í fjáraukalögum fyrir árið 2013?
    Fjármunum af fjárlagaliðnum 01-305 Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. (165,5 millj. kr.) var ráðstafað með eftirfarandi hætti árið 2013:

Fjáraukalög 2013 165.500.000
Millifært til forsætisráðuneytisins vegna nýrra verkefna 15.500.000
Millifært til Þjóðminjasafns Íslands vegna öryggisvörslu minja 80.000.000
Millifært til Minjastofnunar Íslands vegna sameiningarkostnaðar 40.000.000
Millifært til Minjastofnunar Íslands vegna styrkja 30.000.000 *
Staða 31.12.2013
    

Neðanmálsgrein: 1
*     Þeim fjármunum sem millifærðir voru til Minjastofnunar vegna styrkja verður að öllum skilyrðum uppfylltum varið til hluta þeirra verkefna sem talin eru upp í svari við 2. tölul.