Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 372. máls.

Þingskjal 681  —  372. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, með síðari breytingum (skipun samráðsnefndar um veiðigjöld).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Alþingi kýs nefnd þingmanna úr öllum þingflokkum til að fjalla um fyrirhugaðar ákvarðanir veiðigjaldsnefndar um sérstakt veiðigjald. Störf í nefndinni eru ólaunuð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpinu er lagt til að breyting verði gerð á lögum um veiðigjöld þannig að fjöldi fulltrúa í samráðsnefnd þingmanna um veiðigjöld, sbr. 5. gr. laganna, ráðist af fjölda þingflokka á Alþingi en takmarkist ekki við fimm manns eins og nú er. Þá er tiltekið að störf í nefndinni séu ólaunuð.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012,
með síðari breytingum (skipun samráðsnefndar um veiðigjöld).

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að fjöldi fulltrúa í samráðsnefnd þingmanna um veiðigjöld skuli ráðast af fjölda þingflokka á Alþingi í stað þess að takmarka hann við fimm manns eins og núgildandi lög kveða á um. Ekki eru greidd sérstök nefndarlaun fyrir setu í nefndinni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.