Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 725  —  220. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup
(innkaup á sviði öryggis- og varnarmála).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hrafn Hlynsson og Guðrúnu Ögmundsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Í frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um opinber innkaup þess efnis að ráðherra skuli mæla fyrir um innkaup á sviði varnar- og öryggismála í reglugerð. Gert er ráð fyrir að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og breytingar á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB verði innleiddar með reglugerð á grundvelli heimildarinnar.
    Ákvæði tilskipunar 2009/81/EB eru til þess fallin að stuðla að því að samræma evrópska löggjöf um innkaup á samningum á sviði varnar- og öryggismála og auðvelda samningsstofnunum innan Evrópska efnahagssvæðisins að fara í útboð á vöru-, þjónustu- og verksamningum á þessu sviði. Nefndin bendir þó á að engu síður munu samningar sem krefjast sérstaklega strangrar þagnarskyldu vera undanþegnir útboðsskyldu, ef það er réttlætanlegt á grundvelli almannaöryggis eða nauðsynlegt til að gæta mikilvægra öryggishagsmuna ríkisins.
    Tilskipun 2009/81/EB er að mestu leyti efnislega hliðstæð almennu innkaupatilskipuninni 2004/18/EB sem innleidd var með lögum nr. 84/2007 en víkur frá þeim reglum sem gilda um innkaup á sviði varnar- og öryggismála. Nefndin vekur athygli á að helstu nýmæli tilskipunarinnar eru annars vegar að samningskaup, að undangenginni auglýsingu, skuli vera það innkaupaferli sem að jafnaði skal nota við innkaup á varnar- og öryggisbúnaði og hins vegar að reglur tilskipunarinnar heimila að í útboðinu séu gerðar ítarlegar kröfur um afhendingar- og upplýsingaöryggi. Loks er með tilskipuninni kveðið á um breytingar á annars vegar 10. gr. áðurnefndrar tilskipunar 2004/18/EB og hins vegar tilskipun 2004/17/EB, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð 755/2007 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti. Snúa þær breytingar að beitingu viðmiðunarfjárhæða við útboð og gerð samninga.
    Nefndin vekur athygli á að fyrir nefndinni komu ekki fram neinar athugasemdir við efni frumvarpsins.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. mars 2014.



Frosti Sigurjónsson,


form.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir, frsm.


Pétur H. Blöndal.



Willum Þór Þórsson.


Árni Páll Árnason.


Guðmundur Steingrímsson.



Steingrímur J. Sigfússon.


Vilhjálmur Bjarnason.


Líneik Anna Sævarsdóttir.