Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 506. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 867  —  506. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987,
með síðari breytingum (vörugjald á jarðstrengi).

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


1. gr.

    Tollskrárnúmerið 8544.6000 fellur brott úr C-lið viðauka I.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með lagafrumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, með síðari breytingum, sem felur það í sér að tollskrárnúmerið 8544.6000 fellur brott úr C-lið viðauka I við lögin. Breytingin felur það í sér að 15% vörugjald sem lagt er á vörur í umræddu tollskrárnúmeri fellur niður. Undanfarin þrjú ár hafa tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum á tollskrárlið nr. 8544.6000 verið 108.844.044 kr. árið 2011, 126.632.362 kr. árið 2012 og 213. 512.533 kr. árið 2013.
    Undir tollskrárnúmerið 8544.6000 falla einangraðir rafmagnsleiðarar fyrir meira en 1000 V spennu. Er hér um jarðstrengi til raforkuflutnings að ræða sem eru valkostur á móti loftlínum. Efni í loftlínur til raforkuflutnings ber ekki vörugjald og verður því 15% vörugjaldið sem lagt er á jarðstrengina til þess að bjaga forsendur vals á milli jarðstrengja og loftlína allverulega, en talið er að allt að 5% kostnaðar við lagningu jarðstrengja geti stafað af vörugjaldinu. 1 Minni sjónmengun hlýst að jafnaði af jarðstrengjum en loftlínum. Geta þeir þannig oft reynst heppilegur kostur við lagningu háspennulína og er því með öllu ástæðulaust að heimta hærri gjöld af þeim en af loftlínuefni.

Neðanmálsgrein: 1
1     „Tillögur fulltrúa Landverndar og fulltrúa landeigenda í nefnd atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um raflínur í jörð“, 11. febrúar 2013, bls. 8. Fylgigagn með skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð. Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014 (þskj. 60, 60. mál).