Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 528. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 889  —  528. mál.
Viðbót.




Tillaga til þingsályktunar


um millilandaflug um Vestmannaeyja- og Ísafjarðarflugvöll.


Flm.: Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason,
Elín Hirst, Unnur Brá Konráðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir,
Páll Jóhann Pálsson, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Bjarnason,
Páll Valur Björnsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að tryggja að á Vestmannaeyja- og Ísafjarðarflugvelli verði nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþega- og fragtflugvélum og vélum í ferjuflugi sem hafa nú heimild til þess að fljúga um völlinn.

Greinargerð.

    Flugvellirnir í Vestmannaeyjum og á Ísafirði gegna mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi rekstur flugvallanna og uppbyggingu á svæðunum til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið. Ljóst er að staðsetningar flugvallanna bjóða upp á mikla möguleika til aukinnar umferðar ferðamanna og á Ísafirði eru möguleikar til að sinna þjónustu við fragtflug og við störf vísindamanna á austurströnd Grænlands. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að ákvæði viðeigandi reglugerða verði uppfyllt og tryggt að til staðar sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan þeirri þjónustu sem eftirspurn er eftir.
    Í janúar 2008 unnu Flugstoðir greinargerð að beiðni sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila til að kanna möguleika á að gera flugvellina á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og Höfn að millilandaflugvöllum og til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að slíkt gæti orðið að veruleika og hver kostnaðurinn við breytingar af þessu tagi gæti verið. Í greinargerðinni kemur fram að gera þarf endurbætur á öryggis- og eftirlitsþáttum á umræddum flugvöllum þannig að hægt verði að taka á móti minni farþegaflugvélum í millilandaflugi og vélum í ferjuflugi. Í greinargerðinni eru möguleikar og kostnaðaráhrif þessara ráðstafana metin en í aðalatriðum eru þrjár reglugerðir sem taka þarf tillit til. Gera þarf örlitlar breytingar á viðauka I við reglugerð um útlendinga, nr. 53/2003, og bæta flugvellinum í Vestmannaeyjum og á Ísafirði við lista yfir skilgreindar landamærastöðvar. Auk þess þarf að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 464/2007 um flugvelli vegna mannvirkja og vegna öryggisstjórnunarkerfis og flugvallarskírteinis og skilyrði reglugerðar nr. 361/2005 um flugvernd.
    Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 464/2007 skulu millilandaflugvellir falla undir flokkinn flugvöllur I. Vestmannaeyja- og Ísafjarðarflugvöllur falla nú undir flokkinn skráðir lendingarstaðir. Þegar flugvöllur er fluttur úr flokknum lendingarstaður til áætlunarflugs upp í flugvöll í flokki I og skilgreindur sem millilandaflugvöllur hafa ákvæði framangreindra reglugerða fyrst og fremst áhrif á kostnað. Kröfur reglugerðar nr. 464/2007 til mannvirkja felur einkum í sér stofnkostnað vegna mannvirkja, svo sem öryggissvæða. Kostnaður vegna krafna reglugerðar nr. 464/2007 til gæða- og öryggisstjórnunarkerfis og flugvallarskírteinis hlýst af starfsliði til að vinna við verkefnin, bæði á vellinum sjálfum og hjá miðlægum deildum Isavia. Stofnkostnaður sem hlýst af þeim kröfum sem gerðar eru í reglugerð nr. 361/2005 er vegna vopnaleitarbúnaðar, breytinga á aðstöðu o.fl. auk þess sem kostnaðarauki er vegna viðbótarstarfsliðs við vopnaleit og umsýslu vegna flugverndar, bæði á flugvellinum sjálfum sem og hjá miðlægum deildum Isavia.
    Sem lið í þeirri vinnu sem lögð er til hér er rétt að Samgöngustofu verði sem fyrst falið að leita leiða til þess að flugvellirnir í Eyjum og á Ísafirði verði áfram lendingarstaðir enda þótt takmarkað millilandaflug verði heimilað til þessara flugvalla. Með því móti er komist hjá umtalsverðum kostnaði vegna mannvirkja og aðstöðu. Að öðrum kosti verði umræddir flugvellir styrktir eins og lagt er til í þessari tillögu. Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að ráðist verði í þá vinnu sem fyrst til að treysta enn frekar ferðaþjónustu og atvinnulíf í Eyjum og Ísafirði og nágrenni.