Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 433. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 979  —  433. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni
um aðlögun að Evrópusambandinu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða breytingar sem orðið hafa á lögum á málefnasviði ráðherra eða á stofnunum sem heyra undir hann frá 2009 má rekja til aðlögunar að Evrópusambandinu?
     2.      Hvaða breytingar voru eingöngu vegna aðildarumsóknar og viðræðna við ESB?
     3.      Hvaða breytingar urðu á sama tíma fyrst og fremst vegna aðildar Íslands að EES?


    Ekki hafa verið gerðar breytingar á lögum sem rekja má til aðlögunar að Evrópusambandinu frá árinu 2009. Hins vegar fór mikill tími starfsmanna í alls konar greiningarvinnu á gerðum og löggjöf Evrópusambandsins. Jafnframt þessu var unnið að undirbúningi samningsmarkmiða í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamálum. Sama gildir um matvæli og dýraheilbrigði. Þá var einnig unnið að því að greina hvernig stofnanauppbygging á nefndum málasviðum þyrfti að vera til að fullnægja kröfum Evrópusambandsins, en þeirri vinnu var ekki lokið þegar ferlinu var hætt. Hjá stofnunum ráðuneytisins fór einnig fram undirbúningur á sambærilegum sviðum til að mæta kröfum vegna hugsanlegrar aðildar og raunar einnig til að uppfylla ýmis skilyrði EES-samningsins. Evrópusambandið veitti talsverða fjármuni til þessara verkefna í formi IPA-styrkja til að undirbúa breytingar á stofnunum.
    Engar breytingar hafa verið gerðar á lögum eða stofnunum á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eingöngu vegna aðildarumsóknar og viðræðna við ESB.
    Frá árinu 2009 hafa eftirfarandi lagabreytingar átt sér stað á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem rekja má til aðildar Íslands að EES:
          Með lögum nr. 143/2009, um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða, voru breytingar gerðar á eftirfarandi lögum; lögum nr. 93/1995, um matvæli, lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum (nú lög um slátrun og sláturafurðir), lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða (nú lög um sjávarafurðir) og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Ríkisstjórn hafði heimilað staðfestingu á sex ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar (nr. 133/2007, 134/2007, 135/2007, 136/2007, 137/2007 og 138/2007 frá 26. október 2007) sem fólu í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Efnislega var um að ræða endurskoðun á undanþágu Íslands frá I. kafla í viðauka I við EES-samninginn og upptöku löggjafar Evrópusambandsins um matvæli og fóður inn í EES- samninginn. Með þessum lagabreytingum var mögulegt að innleiða þessa löggjöf ESB í landsrétt.
          Með lögum nr. 31/2012 var lögum nr. 93/1995, um matvæli, breytt þannig að ráðherra var veitt heimild til að víkja frá einstökum ákvæðum laganna í tilteknum tilvikum, þ.e. þegar um er að ræða aðila sem framleiða og markaðssektja matvæli þar sem starfsemi er ekki samfelld heldur tilfallandi, framleiðendur sem framleiða og markaðssetja frumframleiðsluvörur í litlu magni beint til neytenda eða til staðbundins smásölufyrirtækis sem afhendir matvæli beint til neytenda, framleiðendur sem framleiða og markaðssetja vörur, sem eru unnar úr eigin frumframleiðslu, beint til neytenda, enda sé um takmarkaða, árstíðabundna eða tilfallandi starfsemi að ræða, og framleiðendur sem framleiða matvæli með aðferðum sem er hefð fyrir hérlendis. Í þessu tilviki var ekki um innleiðingu löggjafar Evrópusambandsins að ræða en lagabreytingin var til samræmis við reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004, um hollustuhætti í matvælaiðnaði, og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004, um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu.
          Með lögum nr. 76/2012, um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum, voru breytingar gerðar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA um innflutningseftirlit dýraafurða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.