Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 381. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1011  —  381. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni
um umfang netverslunar.


     1.      Hversu umfangsmikil var netverslun Íslendinga á síðasta ári hérlendis og erlendis í fjárhæðum talið?
a. Netverslun erlendis.
     Rafrænar vörur. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra nam skattskyld velta erlendra aðila, 1 sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá skv. 35. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 2 vegna sölu á rafrænum vörum og þjónustu samtals 457.372.085 kr. á árinu 2013.
Velta (krónur) 25,5% 7% Samtals
Erlend netverslun með rafrænar vörur 422.633.687 34.738.398 457.372.085

     Áþreifanlegar vörur. Ekki reyndist unnt að fá upplýsingar um innflutning vegna netverslunar sérstaklega hjá embætti tollstjóra. 3 Innflutningur einstaklinga gegnum póstverslun er þó að langstærstum hluta vörur sem keyptar eru í netverslun. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nam verðmæti innflutnings einstaklinga 4 á vörum gegnum póstverslun 5 2.552.774.419 kr. við komu til landsins á árinu 2013. Langstærstur hluti þessara vara var sem fyrr segir vegna netverslunar en einhver hluti innflutningsins er þó vegna annars konar verslunar, svo sem sendingar frá vinum eða ættingjum erlendis sem ekki falla undir skilgreiningu á gjafasendingum og eru því tollskyldur varningur.

b. Netverslun hérlendis.
    Samanlögð velta innlendra aðila vegna smásölu póstverslana eða um netið nam 1.438.317.210 kr. á árinu 2013 samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. 6
Velta (krónur) 25,5% 7% Undanþegin Samtals
Innlend netverslun 1.171.746.392 150.844.229 115.726.589 1.438.317.210

    Hér er ekki unnt að aðgreina hvort kaupandi hafi lagt inn pöntun með pósti, í gegnum síma eða um netið. Fjöldi pantana með tveimur fyrri aðferðunum er þó líklega hverfandi.
     2.      Hverjar voru skatttekjur af þessari verslun?
a. Netverslun erlendis.
     Rafrænar vörur. Á árinu 2013 nam álagning á netverslun hjá aðilum sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá skv. 35. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 109.974.876 kr.
Útskattur 25,5% Útskattur 7% Innskattur Álagning
Erlend netverslun með rafrænar vörur

107.771.595

2.431.684 228.403 109.974.876

    Áþreifanlegar vörur. Einungis fengust upplýsingar um skatttekjur af póstverslun frá tollmiðlun Íslandspósts hf. Verðmæti sendinganna nam 1.158.953.648 kr. á árinu 2013 og námu heildargjöld vegna þeirra 398.371.082 kr.

b. Netverslun hérlendis.
    Álagning á innlenda netverslun nam 14.850.464 kr. á árinu 2013.
Skattskyld velta Útskattur Innskattur Álagning
Innlend netverslun

1.322.590.621

309.354.426 294.503.962 14.850.464


     3.      Er netverslun inni í vísitölu neysluverðs?
    Vægi útgjaldaliða í vísitölu neysluverðs byggist á rannsókn á útgjöldum heimila. Samkvæmt leiðbeiningum Eurostat skal taka útgjöld til netverslana með í útgjaldarannsókninni. Í leiðbeiningunum segir að kaup á vörum á netinu skuli mælast í vísitölu heimalands þess sem pantar vöruna en kaup á þjónustu á netinu, svo sem tónleikamiðar og þess háttar, skuli mælast í vísitölu þess lands þar sem þjónustunnar er neytt. Netverslun er því inni í vísitölu neysluverðs.

Viðauki.
    Eftirfarandi er umfjöllun um innflutning einstaklinga á árinu 2013 sem ekki fór fram með póstverslun, en leiða má að því líkur að stór hluti þessa innflutnings hafi verið vegna netverslunar. Samkvæmt upplýsingum frá embætti tollstjóra námu skatttekjur af öllum vöruinnflutningi á einstaklingskennitölur 855.393.140 kr. á árinu 2013. 7
VSK 25,5% VSK 7% Tollar Vörugjöld Samtals
Vöruinnflutningur einstaklinga 630.701.998 16.406.478 103.148.043 105.136.621 855.393.140

    Skatttekjur af vöruinnflutningi á einstaklingskennitölur sem ekki bera vsk-númer námu 144.824.541 kr. á árinu 2013.
VSK 25,5% VSK 7% Tollar Vörugjöld Samtals
Vöruinnflutningur einstaklinga 77.117.022 9.571 1.615.786 66.082.162 144.824.541

    Ekki er hægt að afmarka með nákvæmari hætti hversu stór hluti af heildarinnflutningi á einstaklingskennitölur er vegna netverslunar. Þær tölur sem hér koma fram ættu þó að gefa ágæta vísbendingu um heildarmyndina.
Neðanmálsgrein: 1
1     Erlendir aðilar sem selja rafrænt afhenta þjónustu til Íslands.
Neðanmálsgrein: 2
2     Ríkisskattstjóri býr einungis yfir upplýsingum um skil vegna sölu á vörum og þjónustu sem seld er með rafrænum hætti hjá þeim erlendu aðilum sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá.
Neðanmálsgrein: 3
3     Tölvukerfi tollsins aðgreinir ekki vörur sem keyptar eru á vefnum og fluttar til landsins frá öðrum sendingum til landsins.
Neðanmálsgrein: 4
4     Allur vöruinnflutningur á einstaklingskennitölur. Innan þessa hóps gætu verið einstaklingar með fyrirtæki á sinni kennitölu.
Neðanmálsgrein: 5
5     Póstafgreitt og annað afgreitt í tollkerfi, svo sem DHL.
Neðanmálsgrein: 6
6     Ríkisskattstjóri hefur upplýsingar um umfang innlendrar netverslunar með bæði rafrænar vörur og áþreifanlegar vörur.
Neðanmálsgrein: 7
7     Tollar og gjöld innfluttra vara á einstaklingskennitölum sem tollafgreiddar voru árið 2013.