Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 5. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1137  —  5. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þóreyju S. Þórðardóttur og Þorbjörn Guðmundsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Björk Vilhelmsdóttur, Ellý Þorsteinsdóttur, Birgi Björn Sigurjónsson og Ásgeir Westergren frá Reykjavíkurborg, Ingvar Rögnvaldsson og Guðrúnu Jennýju Jónsdóttur frá ríkisskattstjóra, Ágúst Bogason frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Berg Þorra Benjamínsson og Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands og Jóhann Sigurbjörnsson og Þórnýju Sigmundsdóttur frá Samtökum leigjenda á Íslandi. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökum lífeyrissjóða, Persónuvernd, Reykjavíkurborg, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum leigjenda á Íslandi, Sveitarfélaginu Árborg, umboðsmanni skuldara og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Markmið þingsályktunartillögunnar er tvíþætt, þ.e. annars vegar að bregðast við erfiðu ástandi sem nú er á leigumarkaðnum og hins vegar að efla almennan leigumarkað til frambúðar. Tillagan felur í sér nánar tilgreindar aðgerðir í sex liðum sem ætlað er að bregðast við því ástandi sem uppi er í dag jafnframt því að horfa til framtíðar í húsnæðismálum landsmanna. Almennt hafa gestir og umsagnaraðilar verið jákvæðir í garð tillögunnar. Leigjendum hefur fjölgað jafnt og þétt frá hausti 2008 samhliða því sem leiga hefur hækkað umtalsvert. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru árið 2007 15,4% heimila í leiguhúsnæði á almennum markaði en 24,9% árið 2013. Á sama tímabili hefur hlutfall leigjenda á almennum markaði í lægsta tekjubilinu hækkað hraðar en í öðrum tekjubilum, eða úr 9,5% í 28,9%. Þá hækkaði einnig hlutfall heimila einhleypra með eitt eða fleiri börn úr 9,7% árið 2007 í 27,7% árið 2013. Ljóst er að aðgerða er þörf á leigumarkaði.
    Verkefnisstjórn á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra, sem unnið hefur að stefnumótun um framtíðarskipan húsnæðismála, skilaði ráðherra nýlega tillögum sínum. Í tillögum verkefnisstjórnarinnar er ákveðinn samhljómur við ýmis atriði í þingsályktunartillögunni. Má þar helst nefna innleiðingu húsnæðisbóta, stofnstyrki til leigufélaga og aukna hvata í skattkerfinu til að ýta undir langtímaleigu íbúðarhúsnæðis. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar vísar einnig til tillagna verkefnisstjórnar í áliti sínu á þingskjali 1070 um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar (484. mál).
    Í þingsályktunartillögunni er í 1. tölul. lagt til að ráðherra leggi fram frumvarp til laga um nýtt kerfi húsnæðisbóta sem ætlað er að koma í stað vaxta- og húsaleigubóta. Bent hefur verið á að misræmi sé nú á stuðningi ríkisvaldsins eftir búsetuformum þar sem meiri stuðningur hefur verið við kaupendur en leigjendur. Þegar hafa skref verið tekin til að jafna stöðu mismunandi búsetuforma og hvetur meiri hlutinn til þess að vinnu við breytingar á húsnæðisbótakerfi, er jafni stöðu fólks óháð búsetuformi, ljúki sem fyrst.
    Í 2. tölul. tillögunnar er lagt til að unnið verði að samkomulagi ríkisins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins um stofnstyrki til leigufélaga sem skuldbinda sig til langtímareksturs á leiguhúsnæði. Síðan er vikið að því að um geti verið að ræða að hluti styrkja verði í formi lóða, sbr. 3. tölul., og að styrkveitingar verði háðar ýmsum skilyrðum.
    Í 4. tölul. er lögð áhersla á að Íbúðalánasjóður sitji ekki til lengri tíma uppi með tómar eignir.
    Í 5. tölul. tillögunnar er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra gangist fyrir endurmati á byggingarreglugerð til að greiða fyrir byggingu minni íbúða til leigu. Hefur ráðherra þegar breytt reglugerðinni.
    Markmiðið með 6. tölul. tillögunnar er að auka framboð leiguhúsnæðis til langtímaleigu með breytingum á skattlagningu leigutekna. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir þess efnis að endurskilgreina þurfi hvað teljist langtímaleiga samhliða breytingum á skattlagningu leigutekna.
    Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lýst því yfir að á næstu vikum og mánuðum verði unnið að útfærslu tillagna verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og frumvörpum þar að lútandi.
    Í ljósi framangreinds og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem hér eru reifuð leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Elín Hirst og Páll Jóhann Pálsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. maí 2014.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form., frsm.
Þórunn Egilsdóttir. Björt Ólafsdóttir.
Guðbjartur Hannesson. Lilja Rafney Magnúsdóttir.