Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 615. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1236  —  615. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 (rusl á almannafæri, sektir).


Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Elín Hirst, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson,
Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Öllum sem fara um hálendið og þjóðvegi landsins er óheimilt að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri nema í þar til gerð ílát. Brot á ákvæði þessu varðar refsingu, sbr. 90. gr.

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 90. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Það varðar mann sektum að lágmarki 100.000 kr. ef hann brýtur ákvæði 2. mgr. 17. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Rusl sem er fleygt á víðavangi er augljóst lýti á umhverfinu. Með því að láta slíkt framferði óáreitt sköðum við þau verðmæti sem felast í íslenskri náttúru. Erlendis er þekkt að greiða þarf háar sektir fyrir að henda rusli á víðavangi.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði aðgerðir til að halda náttúrunni hreinni og stuðla að bættu hugarfari.