Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 13  —  13. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki
og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.


Flm.: Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller,
Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og hrinda í framkvæmd eftirfarandi aðgerðum í því skyni að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði:
     1.      Aukin fjárfesting í tækni- og hugverkafyrirtækjum.
              a.      Fjármála- og efnahagsráðherra undirbúi og flytji frumvarp til laga þar sem kveðið verði á um auknar heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum.
              b.      Gert verði ráð fyrir fjárveitingu í fjárlögum fyrir árið 2015 til að beita sértækum ívilnunum vegna nýfjárfestinga sem miða m.a. að því að auka fjárfestingar í rannsóknar- og þróunarverkefnum og þjálfun starfsfólks. Íslandsstofu verði falið að markaðssetja og kynna slíkar ívilnanir, hér á landi og erlendis, í samráði við Samtök iðnaðarins.
              c.      Byggð verði upp upplýsingaveita í samstarfi við hagsmunaaðila um tækni- og hugverkafyrirtæki sem leita eftir fjárfestum.
              d.      Iðnaðar- og viðskiptaráðherra móti fjárfestingarstefnu fyrir grænan fjárfestingarsjóð í samráði við Samtök iðnaðarins og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Lögð verði áhersla á fjárfestingar í tækni- og hugverkafyrirtækjum á sviði umhverfistækni eða visthæfra lausna.
     2.      Breytingar á skattalögum.
              a.      Fjármála- og efnahagsráðherra undirbúi og flytji frumvarp til laga um skattaívilnun til handa einstaklingum sem annars vegar fjárfesta beint í litlum og meðalstórum fyrirtækjum og hins vegar í fjárfestingarsjóðum sem fjárfesta í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
              b.      Fjármála- og efnahagsráðherra undirbúi og flytji frumvarp til laga um lækkun tryggingagjalds.
     3.      Efling verk- og tæknináms.
                  Mennta- og menningarmálaráðherra hrindi í framkvæmd aðgerðaáætlun um eflingu verk- og tæknináms á Íslandi með það að markmiði að nemendum í slíku námi fjölgi.

Greinargerð.

    Helsti vandi íslensks efnahagslífs nú er kyrrstaða og einangrun sem leiðir af höftum og veikum gjaldmiðli. Áhersla núverandi ríkisstjórnar hefur verið sú að draga til baka margháttað frumkvæði ríkisstjórnar jafnaðarmanna í uppbyggingu stoðkerfis tækni- og atvinnuþróunar. Þess vegna er brýn þörf á að snúa vörn í sókn.
    Fyrsta mál þingflokks Samfylkingarinnar nú við upphaf þingvetrar er því að efla stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði. Flutningsmenn leggja til aðgerðir sem miða að því að skjóta fjölbreyttari stoðum undir atvinnulíf á Íslandi þannig að til verði vel launuð störf um allt land. Tillaga þessi byggist á tillögum sem lagðar voru fyrir tækni- og hugverkaþing 2013 af Samfylkingunni en þær hlutu 1., 2. og 3. verðlaun þegar stjórnmálaflokkarnir kepptu nafnlaust um hylli gesta.
    Í tillögu þessari er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin undirbúi og hrindi í framkvæmd nánar greindum tillögum með það að markmiði að efla nýsköpun og atvinnulíf í landinu.

Rýmri fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í óskráðum félögum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra undirbúi og flytji frumvarp til laga um auknar heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum. Samkvæmt gildandi lögum getur lífeyrissjóður fjárfest fyrir allt að 20% af hreinni eign sinni í óskráðum verðbréfum. Þetta hlutfall var áður 10% en var hækkað í 20% með lögum nr. 171/2008, um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þegar hlutfallið var hækkað þóttu aðstæður á markaði gera það að verkum að fjárfestingarkostir lífeyrissjóða innan lands hefðu minnkað verulega eins og fram kom í athugasemdum við frumvarpið sem varð að þeim lögum. Einnig kom fram að hlutföll eignasafna lífeyrissjóða hefðu riðlast þannig að hlutfall óskráðra bréfa hefði vaxið hjá mörgum þeirra vegna ástandsins á fjármálamarkaði. Því þótti eðlilegt að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin með hækkun hlutfallsins.
    Á 141. löggjafarþingi lagði þáverandi fjármálaráðherra fram frumvarp (625. mál) þar sem lagt var til að hlutfallið yrði hækkað tímabundið í 25%. Fram kom í athugasemdum við það frumvarp að við bankahrunið hefði lífeyrissjóðakerfið orðið fyrir miklu tjóni og fjárfestingar sjóðanna í ýmsum skráðum verðbréfum orðið illa úti. Hlutfall óskráðra bréfa hefði því aukist töluvert. Einnig kom fram í athugasemdunum að framboð skráðra hlutabréfa á Íslandi hefði aukist nokkuð frá 2008 en það væri þó enn mjög lítið. Bent var á að meira framboð væri á skráðum skuldabréfum og því þætti fyrirsjáanlegt að erfitt yrði fyrir lífeyrissjóði að festa mikið af því fé sem streymdi inn í sjóðina í skráðum verðbréfum á næstunni. Því var talið rétt að leggja til aukið svigrúm til kaupa á óskráðum verðbréfum en lagt til að slík heimild yrði tímabundin í ljósi þess að unnið væri að endurskoðun lagaákvæða um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna.
    Frumvarpið varð ekki að lögum en hér er lagt til að ráðherra undirbúi lagafrumvarp til auka hlutfallið t.d. í 25% og eftir atvikum gæti sú heimild verið tímabundin. Slík lagabreyting mundi auka fjárfestingarmöguleika lífeyrissjóða en þeir eru nú takmarkaðir hér á landi. Smærri fyrirtæki ættu að njóta góðs af breytingum og þá mundi fjölbreytni í atvinnulífinu aukast og fleiri ný störf verða til.

Sértækar ívilnanir vegna nýfjárfestinga.
    Flutningsmenn telja ámælisvert af hálfu ríkisstjórnarinnar að lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, hafi fallið úr gildi. Hér er lagt til að í fjárlögum fyrir árið 2015 verði gert ráð fyrir fjárheimild til að hvetja til nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefnum og þjálfun starfsfólks í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hér er bæði átt við innflutning nýrrar tækni og þekkingar gegnum beinar erlendar fjárfestingar og uppbyggingu fyrirtækja í vexti. Flutningsmenn gera ráð fyrir því að ívilnanirnar verði í anda IV. kafla laga nr. 99/2010 þar sem kveðið var á um almennar ívilnanir, ívilnanir vegna þjálfunarkostnaðar nýfjárfestinga, ívilnanir vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja, ívilnanir vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefnum og ívilnanir vegna umhverfistengdra fjárfestingarverkefna. Þá verði Íslandsstofu falið að markaðssetja og kynna, hér á landi og erlendis, hinar sértæku ívilnanir að höfðu samráði við Samtök iðnaðarins. Eðlilegt er að þar verði byggt á ímynd Íslands á sviði nýsköpunar, þekkingar og sjálfbærni.

Upplýsingaveita.
    Lagt er til að byggð verði upp upplýsingaveita um tækni- og hugverkafyrirtæki sem leita eftir fjárfestum. Eins og fram kemur í tillögugrein skal haft samráð við hagsmunaaðila og er þar t.d. átt við Íslandsstofu, Klak, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Rannís. Slík upplýsingaveita gæti einnig miðlað upplýsingum um fyrirkomulag skattalegra hvata vegna fjárfestinga einstaklinga í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hinar sérstöku aðstæður sem skapast hafa hér á landi í kjölfar hruns fjármálakerfisins og í skjóli fjármagnshafta birtast m.a. í því að til er umtalsvert fjármagn sem leitar í einsleita ávöxtunarkosti. Til eru bæði einstaklingar og fagfjárfestar sem eru tilbúnir til að leggja hluta fjármuna sinna í áhættumeiri fjárfestingar. Stundum kviknar líka áhugi hjá þeim erlendu einstaklingum sem hingað koma vegna stærri fjárfestingarverkefna á fjárfestingum í smærri sérhæfðum fyrirtækjum. Brýnt er að upplýsingar um fjárfestingarkosti í tækni- og hugverkafyrirtækjum séu aðgengilegar.

Fjárfestingarstefna græna fjárfestingarsjóðsins.
    Lagt er til að iðnaðar- og viðskiptaráðherra móti fjárfestingarstefnu græna fjárfestingarsjóðsins og setji honum reglur en fjárveiting til hans var samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2013. Lögð verði áhersla á fjárfestingar hans í tækni- og hugverkafyrirtækjum á sviði umhverfistækni eða visthæfra lausna. Flutningsmenn vænta þess að ráðherra hafi samráð Samtök iðnaðarins og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Breyting á skattalögum.
    Lagt er til að undirbúið verði frumvarp til laga um breytingu á skattalögum annars vegar til að skapa hvata fyrir einstaklinga til að leggja fé til minni fyrirtækja og hins vegar í því skyni að lækka tryggingagjald.
    Við setningu laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, var kveðið á um heimild skattaðila til að draga frá skattskyldum tekjum kaupverð hlutabréfa í nýsköpunarfyrirtækjum. Um þetta giltu ákveðin skilyrði en í sama skyni voru gerðar breytingar á lögum um tekjuskatt. Með lögum nr. 165/2010 var heimildin felld brott vegna athugasemdar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
    Flutningsmenn telja brýnt að bæta aðgang lítilla og meðalstórra fyrirtækja að áhættufé. Fjárfesting í sprota- og nýsköpunar- eða smærri fyrirtækjum er í eðli sínu oft ótrygg fjárfesting. Því mundi skattafsláttur til einstaklinga sem leggja þeim til hlutafé draga úr áhættu þeirrar fjárfestingar og stuðla að auknum fjárfestingum.
    Í frétt sem birtist á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytis í apríl 2013 kom fram að unnið væri að útfærslu skattafsláttarkerfis fyrir einstaklinga sem væri ætlað að styðja við lítil fyrirtæki í vexti en slíkt kerfi þyrfti að standast ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Jafnframt liggur fyrir greinargerð starfshóps um skattaívilnanir til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti frá desember 2013. Flutningsmenn telja brýnt að lagt verði fram frumvarp í þessa veru sem fyrst.
    Lækkun tryggingagjalds er mikið hagsmunamál fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Launakostnaður er í flestum tilvikum stærsti kostnaðarliður þeirra og lækkun mundi skila sér í aukinni getu þeirra til að fjárfesta í nýjum verkefnum, auka rannsóknar- og þróunarstarf og fjölga störfum.

Efling verk- og tæknináms.
    Lagt er til að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að undirbúa og hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um eflingu verk- og tæknináms á Íslandi. Markmið áætlunarinnar verði að fjölga nemendum sem stunda verk- og tækninám hér á landi til að svara aukinni eftirspurn atvinnulífsins eftir starfsfólki með verk- og tæknimenntun. Flutningsmenn telja að nemendum í verk- og tækninámi í framhaldsskólum mætti fjölga úr 33% í 40% og í háskólum úr 9% í 16% fyrir árið 2020. Þá telja flutningsmenn að við ráðstöfun fjár til menntamála eigi að setja fjárveitingar til verk- og tæknináms í forgang.
    Atvinnulífið kallar í vaxandi mæli eftir starfsfólki með verk- og tæknimenntun og fram hefur komið að eftirspurn sé langt umfram framboð. Vaxtargreinar í atvinnulífinu geta bætt við sig þúsundum starfsmanna með menntun í verk- og tæknigreinum en til þess þurfa fleiri nemendur að mennta sig í slíkum greinum.
    Flutningsmenn telja rétt að gert verði ráð fyrir eftirfarandi atriðum í áætluninni: Í fyrsta lagi að hvatningarátak verði sett af stað sem verði beint að ungu fólki sem hyggur á framhaldsnám og forráðamönnum þess. Þá fari árlega fram verk- og tækninámssýning (messa) með kynningu á námsbrautum í verk- og tæknigreinum og atvinnutækifærum að námi loknu sem verði undirbúin af starfshópi stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og skólayfirvalda Mikilvægt er að stjórnvöld efni til samstarfs við Samtök atvinnulífsins um skipulega kynningu á störfum í tæknifyrirtækjum á öllum skólastigum.
    Í öðru lagi að vægi verk- og tæknináms í grunnskólum verði aukið og aðgengi allra nemenda að verklegri aðstöðu verði tryggt. Einnig að efnt verði til samstarfs grunnskóla, framhaldsskóla á sviði verkmenntunar og fyrirtækja um að setja á fót og nýta smiðjur og verkstæði til verklegrar kennslu í öllum skólahverfum og umdæmum. Jafnframt verði náms- og starfsráðgjöfum gefinn kostur á að afla sér aukinnar þekkingar um inntak og mikilvægi verk- og tæknináms fyrir atvinnulíf og samfélag.
    Í þriðja lagi verði bætt úr brýnni þörf fyrir nýjar leiðir í framhaldsnámi í iðn-, verk- og tæknigreinum fyrir þá sem lokið hafa starfsnámi á framhaldsskólastigi. Í slíku framhaldsnámi verði lögð áhersla á aukna faglega sérhæfingu, stjórnun, nýsköpun og þróun á starfsvettvangi. Sérstök áhersla verði lögð á að tryggja að nemendur í verk- og tækninámi hafi jafna möguleika til framgangs í námi og nemendur í bóknámsgreinum og skipulega verði rutt úr vegi hindrunum sem mætt hafa nemendum í starfsnámi vegna skipulags menntakerfisins á liðnum árum.
    Í fjórða lagi að gerði verði greining á þörfum atvinnulífs fyrir menntað vinnuafl. Slík greining verði höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um vinnumarkaðsaðgerðir og framboð á menntun. Ísland á að taka virkan þátt í greiningum Starfsmenntastofnunar Evrópu á menntunarþörf vinnumarkaðar.