Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 129  —  127. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fríverslunarsamning við Japan.


Flm.: Össur Skarphéðinsson, Vilhjálmur Bjarnason, Óttarr Proppé,
Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hjörvar,
Kristján L. Möller, Valgerður Bjarnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning fríverslunarsamnings við Japan á grundvelli yfirlýsinga japönsku ríkisstjórnarinnar um að auka hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum.


Greinargerð.

    Tillaga sama efnis var flutt á síðasta þingi (458. mál) en er nú endurflutt í breyttri mynd.
    Ísland hefur ekki samning um fríverslun við Japan. Þó eru umtalsverð viðskipti milli ríkjanna. Samkvæmt Hagstofu Íslands nam verðmæti útflutnings Íslands til Japans árið 2013 hálfum tólfta milljarði kr. og þar af var andvirði sjávarafurða næstum 8 milljarðar kr. Á sama tímabili nam verðmæti innflutnings frá Japan til Íslands 8,5 milljörðum kr. Þessar tölur sýna að mikill ávinningur yrði af fríverslunarsamningi sem gerður væri á sama grunni og fyrri samningar Íslands um fríverslun sem jafnan byggjast á algeru tollfrelsi fyrir sjávarafurðir.
    Japan er ekki síst mikilvægur markaður fyrir íslenskar afurðir úr sjávarútvegi. Árið 2013 var andvirði útfluttra sjávarafurða næstum 8 milljarðar kr., eða 2/ 3 útflutnings Íslendinga til Japans. Íslendingar hafa m.a. selt þangað karfa, grálúðu, lax og loðnu auk þess sem þar hafa þróast markaðir fyrir nýja framleiðslu, svo sem loðnuhrogn. Allt sjávarfang frá Íslandi ber toll. Fríverslunarsamningur er því sérstaklega mikilvægur fyrir sjávarútveg á Íslandi.
    Frá Japan flytja Íslendingar inn margvíslegar gæðavörur sem greiða þarf toll af þótt mikilvægur hluti innflutnings – eins og bifreiðar – sé tollfrjáls. Tollfrelsi hefði því í för með sér bætt skilyrði fyrir innflutning íslenskra afurða til Japan og yrði íslenskum neytendum til hagsbóta við kaup á japönskum vörum hér á landi. Sama á að sjálfsögðu við um japanska neytendur. Fríverslunarsamningur milli landanna mundi því bæta lífskjör þjóðanna beggja með lægra vöruverði og aukinni framleiðslu og veltu í viðskiptum.
    Japönsk stjórnvöld hafa á síðasta áratug opnað viðskipti sín við útlönd smám saman með því að ráðast í gerð fríverslunarsamninga eins og margar aðrar þjóðir. Það er m.a. viðbrögð við töfum á Doha-ferlinu innan GATT sem átti á alþjóðavísu að leiða til almennrar lækkunar tolla (m.a. varðandi sjávarafurðir) og afnáms viðskiptahindrana. Opnunin er liður í viðleitni Japana til að styrkja samkeppnishæfni sína.
    Undir forustu Shinzo Abe hefur núverandi ríkisstjórn, sem tók við völdum í desember 2012, lagt fram enn skýrari og víðtækari áform um opnun á viðskiptum við umheiminn en hinar fyrri. Það er liður í áætlun hennar til að brjóta upp þá stöðnun sem hefur einkennt efnahagslíf Japans í ríflega tvo áratugi. Abe forsætisráðherra hefur skilgreint efnahagsstefnu sína sem „örvarnar þrjár“ með vísun í forna bogfimi japönsku samúræjanna. Þær felast í sveigjanlegri peningastefnu, þar sem peningamagn í umferð er aukið, stórauknum fjárfestingum í innviðum, og áætlun um gagngerar kerfisbreytingar. Undir „þriðju örina“ falla áform um að auka verulega hlut fríverslunar. Hún nær nú aðeins yfir tæpan fimmtung utanríkisviðskipta en stjórnvöld stefna að því að auka hlut hennar í 80% af milliríkjaversluninni.
    Í þessu felst tækifæri fyrir Ísland. Það er áréttað með þeirri stefnu sem japönsk stjórnvöld fylgja varðandi fríverslunarsamninga. Í pólitískri yfirlýsingu, sem birt er á heimasíðu japanska utanríkisráðuneytisins undir heitinu „Basic Policy on Comprehensive Economic Partnerships“ er tekið fram að Japan sækist sérstaklega eftir samningum við þjóðir sem hafa miklar auðlindir innan vébanda sinna. Sökum fiskimiða og orkuauðlinda fellur Ísland í þann flokk. Á báðum sviðum hafa löndin átt farsælt viðskiptasamband.
    Japan hefur þegar lokið 14 fríverslunarsamningum við ýmis ríki og ríkjabandalög í sínum heimshluta, síðast Ástralíu síðastliðið sumar, og nú standa yfir viðræður um fleiri. Athygli vekur að eitt evrópskt ríki sem þar að auki tilheyrir EFTA, Sviss, hefur þegar lokið gerð tvíhliða samnings við Japan án atbeina EFTA. Samningar um fríverslun eru jafnframt í gangi við Evrópusambandið. Af sjónarhóli íslenskra hagsmuna er því brýnt að Ísland hefji fyrr en seinna viðræður um fríverslun við Japan til að halda samkeppnisstöðu sinni. Einu gildir hvort ríkisstjórnin beitir sér fyrir því að fríverslun við Japan verði tryggð fyrir atbeina EFTA eða ráðist verði í gerð tvíhliða samnings milli ríkjanna.
    Í kjölfar aukinnar opnunar Japan undir forustu Shinzo Abe forsætisráðherra munu mörg ríki freista samninga við Japani um fríverslun. Verði bið á því að knýja á um samninga af Íslands hálfu gæti það lent í langri biðröð af ýmsum ástæðum. Þar má nefna smæð íslenska markaðarins sem veldur því að stærri hagsmunir knýja á um fríverslun af Íslands hálfu en Japans. Sömuleiðis knýja ekki jafn sterkir hagsmunir á um fríverslun af hálfu Japana og okkar þar sem svo háttar til að stærri hluti af þeirra útflutningi en okkar nýtur tollfrelsis.
    Íslendingar þurfa því að beita sterkum rökum þegar þeir setja fram formlegar óskir um fríverslun við Japan. Þau felast m.a. í eftirfarandi: Milli viðskiptalífs landanna hafa um langt skeið verið sterk og traust tengsl sem er bæði tímabært og eðlilegt að hefja á nýtt stig með fríverslun. Við höfum gert fríverslunarsamning við Alþýðulýðveldið Kína og í ljósi jafnvægis er eðlilegt að Japanir og Íslendingar staðfesti tengsl sín með formlegri fríverslun. Misvægið varðandi hinn tollfrjálsa hlut ríkjanna í útflutningi sín á milli kallar sömuleiðis á fríverslun til að leiðrétta þá skekkju. Mestu skiptir þó að Japan og Ísland eru gróin vinaríki með svipaðar áherslur á reglur réttarríkisins, mannréttindi og lýðræði. Að staðaldri eiga ríkin nána samvinnu í hópi svipað þenkjandi ríkja innan alþjóðastofnana. Í samskiptum slíkra vinaríkja á stærð ekki að skipta máli varðandi óskir um fríverslun heldur grundvallarafstaðan um frelsi.
    Rétt er að geta þess að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Shinzo Abe um þjóðaröryggi, „National Security Strategy of Japan,“ sem Takao Makino, varautanríkisráðherra Japans, afhenti fulltrúum stjórnmálaflokkanna á fundi í Alþingishúsinu 7. júlí sl., kemur fram að styrking fríverslunar er hluti af nýrri öryggisstefnu Japana. Sú öryggisstefna felur líka í sér nálgun gagnvart Norður-Atlantshafsbandalaginu í ljósi stöðunnar við Suður-Kínahaf, eins og ræða Abes forsætisráðherra 6. maí sl. í heimsókn til höfuðstöðva bandalagsins bar vitni um. Innan bandalagsins, sem tekur afstöðu á grundvelli órofa samþykkis (e. „consensus“), skipta tengsl og gagnkvæmur skilningur einstakra bandalagsríkja gagnvart þriðju ríkjum máli. Væntanlega gefa Japanir því gaum þegar íslenska ríkisstjórnin óskar eftir auknum tengslum milli ríkjanna.
    Í ljósi þess að annað EFTA-ríki hefur þegar lokið fríverslunarsamningi við Japan er fyllilega tímabært að Ísland óski viðræðna um fríverslun. Í sama ljósi standa tæpast gild rök gegn slíkri ósk. Þó má í því samhengi rifja upp að Japan hefur ekki fallist á að gera loftferðasamning við Ísland, eitt Norðurlandaríkjanna, þrátt fyrir áralanga viðleitni af Íslands hálfu. Íslendingar þurfa því að setja fram ósk um fríverslun við Japan af festu og ákveðni.