Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 284  —  149. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um sjúkraflug.


     1.      Hversu margar sjúkraflugsferðir fer Landhelgisgæslan á ári?
    Starfsemi Landhelgisgæslunnar fellur undir innanríkisráðuneyti. Leitað var upplýsinga varðandi þætti er snúa að Landhelgisgæslunni hjá stofnuninni. Samkvæmt þeim hefur stofnunin farið um 88 sjúkraflug á ári að meðaltali undanfarin fjögur ár (2010–2013). Árið 2013 voru sjúkraflug 89. Framangreindar upplýsingar eiga við sjúkraflug innan lands sem sinnt er alfarið með þyrlum. Í stöku tilfellum flytur flugvél Landhelgisgæslunnar sjúklinga í aðgerðir erlendis. Árið 2013 voru slík sjúkraflug óvenju mörg eða alls fimm, sum ár sinnir flugvél Landhelgisgæslunnar engu sjúkraflugi.

     2.      Hversu margar sjúkraflugsferðir fer Mýflug á ári?
    Undanfarin fjögur ár hefur Mýflug farið að meðaltali um 460 sjúkraflug á ári. Árið 2013 voru sjúkraflug Mýflugs 470.

     3.      Hversu margar sjúkraflugsferðir fer sjúkraflugvél Isavia á ári?
    Flugvél Isavia TF-FMS er aðalvaraflugvél Mýflugs vegna samnings um sjúkraflug. Nokkuð mismunandi er milli ára hversu mikið vélin er notuð. Árin 2010–2012 var vélin notuð á bilinu 16–56 sinnum á ári. Árið 2013 var vélin notuð 72 sinnum, sem skýrist af því að aðalsjúkraflugvél Mýflugs, TF-MYX, fórst 5. ágúst 2013 og tók þá TF-FMS tímabundið við hlutverki aðalsjúkraflugvélar.

     4.      Hvað kostar samningurinn við Mýflug á ári?
    Samkvæmt samningi um sjúkraflug greiða Sjúkratryggingar Íslands Mýflugi fastagjald og gjald fyrir einstök flug. Sjúkrahús greiða Mýflugi fyrir millistofnanaflutninga með flugi. Alls kostaði samningur Sjúkratrygginga Íslands við Mýflug 296 millj. kr. árið 2013, þar af voru greiðslur frá sjúkrahúsum um 45 millj. kr.

     5.      Hvað kostar rekstur flugdeildar Landhelgisgæslunnar á ári?
    Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni kostaði rekstur flugdeildar 2.002 millj. kr. á árinu 2013. Flest verkefni flugdeildar teljast sjúkraflug eða leit og björgun. Af 195 útköllum á árinu 2013 voru 89 vegna sjúkraflugs.

     6.      Hefur ráðherra látið gera hagkvæmnisathugun samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar á því hvort hagkvæmast sé fyrir ríkissjóð að Landhelgisgæslan annist allt sjúkraflug?

    Heilbrigðisráðherra hefur ekki látið gera slíka athugun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá ágúst 2013 er ábending til innanríkisráðuneytis um slíka hagkvæmnisathugun. Þar segir á bls. 5: „Innanríkisráðuneyti þarf að skoða með formlegum hætti hvort aðkoma Landhelgisgæslu Íslands að almennu sjúkraflugi á Íslandi er raunhæfur og framkvæmanlegur kostur. Vinna ætti langtímaáætlun um starfsemi Landhelgisgæslu Íslands um land allt og raunhæfa áætlun um kostnað sem fylgir mögulegum breytingum.“