Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 296  —  67. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um eftirlitsstjórnvöld/eftirlitsaðila.


     1.      Hvaða ríkisstofnanir, sem heyra undir ráðherra, gegna hlutverki eftirlitsstjórnvalda/ eftirlitsaðila? Svar óskast sundurliðað eftir málaflokkum og tegundum eftirlits.
    Eftirfarandi eftirlitsstofnanir eða eftirlitsaðilar heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra:
    –         Orkustofnun. Um eftirlitshlutverk Orkustofnunar, heimildir og úrræði er fjallað um í raforkulögum, nr. 65/2003, vatnalögum, nr. 15/1923, lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, og lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun.
    –         Samkeppniseftirlitið. Um hlutverk Samkeppniseftirlitsins, heimildir og úrræði er fjallað í samkeppnislögum, nr. 44/2005.
    –         Ferðamálastofa. Um hlutverk, heimildir og úrræði Ferðamálastofu er fjallað í lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005. Ferðamálastofa er ekki hefðbundið eftirlitsstjórnvald en þó segir í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 73/2005 að meðal verkefna Ferðamálastofu sé útgáfa leyfa, skráning á starfsemi og eftirlit með að skilyrðum leyfa sé fullnægt.
    –         Eftirlitsnefnd Félags fasteignasala. Um hlutverk, heimildir og úrræði eftirlitsnefndar Félags fasteignasala er fjallað í lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/ 2004.
    –         Endurskoðendaráð. Um hlutverk, heimildir og úrræði endurskoðendaráðs er fjallað í lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur.
    –         Ársreikningaskrá. Um hlutverk, heimildir og úrræði ársreikningaskrár er fjallað í lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Rétt er að geta þess að ársreikningaskrá er rekin af ríkisskattstjóra sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneyti en ákvarðanir skrárinnar eru kæranlegar til iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

     2.      Telur ráðherra þörf á því að yfirfara athugunar- og rannsóknarheimildir með það fyrir augum að samræma og bæta efni þeirra? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti að samræma eða bæta?
    Endurskoðun á athugunar- og rannsóknarheimildum eftirlitsaðila er stöðugt til umræðu í ráðuneytinu enda mikilvægt að vera vakandi fyrir því hvort ástæða sé til að endurskoða eftirlitsreglur, bæði til að styrkja eftirlit þar sem þess er þörf sem og til að einfalda eftirlit þegar þess er kostur. Ráðuneytinu berast oft ábendingar um það sem betur má fara í eftirliti eftirlitsaðila, bæði hvað varðar reglurnar sjálfar sem og því hvernig eftirliti á grundvelli gildandi reglna er sinnt og skoðar ráðuneytið allar slíkar ábendingar.
    Hvað varðar athugunar- og eftirlitsreglur þeirra eftirlitsaðila sem heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra vill ráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:
    Árið 2011 voru gerðar gagngerar breytingar til að efla og styrkja raforkueftirlit Orkustofnunar. Orkustofnun skilar iðnaðar- og viðskiptaráðherra árlegri skýrslu í samræmi við raforkulög, nr. 65/2003, um starfsemi raforkueftirlits. Í þeirri skýrslu, sem birt er á heimasíðu ráðuneytisins, er gerð grein fyrir starfsemi stofnunarinnar sem lýtur að eftirlitsþáttum með raforkufyrirtækjum. Þá var samkeppnislögum síðast breytt að efni til í febrúar árið 2011 en með þeim breytingum fékk Samkeppniseftirlitið auknar eftirlitsheimildir.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sett í gang vinnu við stefnumótun í ferðaþjónustu. Mun við þá vinnu m.a. vera fjallað um Ferðamálastofu og hlutverk hennar. Ekki er útilokað að niðurstaða þeirrar vinnu feli í sér breytingar á hlutverki Ferðamálastofu, þ.m.t. eftirlitshlutverki hennar.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna og skipa en í því frumvarpi er að finna tillögu ráðuneytisins að skipan mála varðandi eftirlit með fasteignasölum. Endurskoðun á athugunar- og eftirlitsheimildum eftirlitsnefndar Félags faseignasala hefur því nýlega farið fram.
    Ráðuneytið er að fara af stað með vinnu við yfirferð á lögum um endurskoðendur, m.a. vegna nýrra EES-reglna um endurskoðun. Við þá yfirferð verður tekin afstaða til þess hvort ástæða sé til að gera breytingar á athugunar- og eftirlitsheimildum endurskoðendaráðs.
    Í ráðuneytinu er í gangi vinna við endurskoðun á lögum um ársreikninga, m.a. vegna nýrra EES-reglna um ársreikninga. Við þá endurskoðun verður tekin afstaða til þess hvort ástæða sé til að gera breytingar á athugunar- og eftirlitsheimildum ársreikningaskrár.

     3.      Telur ráðherra þörf á að samræma og bæta framkvæmd eftirlits af hálfu eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila betur en nú er? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti helst að samræma eða bæta?
    Almennt séð leitar ráðuneytið leiða til að einfalda eftirlit eins og unnt er og gera það skilvirkt og markvisst. Í því efni má t.d. nefna að innan skamms verður lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, þar sem kveðið verður á um kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins og eftirlit Orkustofnunar með henni. Verði frumvarpið að lögum munu leyfisveitingaferlar vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku verða skýrari og einfaldari, sem og eftirlit með slíkum framkvæmdum. Jafnframt má geta þess að unnið er að endurskoðun á reglugerð nr. 550/2012, um mat á vegnum fjármagnskostnaði sem viðmið um leyfða arðsemi við ákvörðun tekjumarka sérleyfisfyrirtækja í flutningi og dreifingu á raforku. Markmið þeirra breytinga er að ákvarðanir verði traustari en nú er og óvissuþáttum og matsatriðum verði fækkað eins og kostur er.
    Að öðru leyti vísast til svars við 2. tölul. þar sem farið er yfir fyrirhugaða endurskoðun á regluverki um eftirlit.

     4.      Hafa einhver mistök átt sér stað við framkvæmd eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila síðustu ár? Ef svo er, hvers konar mistök var þá um að ræða?

    Það kerfi sem við búum við varðandi eftirlit gerir ráð fyrir að hægt sé að skjóta ákvörðunum eftirlitsaðila eftir atvikum til sérstakra áfrýjunar- eða úrskurðarnefnda eða til dómstóla. Almennt lítur ráðuneytið ekki á það sem mistök hjá eftirlitsaðila þó að ákvörðun hans sé snúið við hjá áfrýjunar- eða úrskurðarnefndum eða fyrir dómstólum. Geta að baki því legið ýmsar ástæður, t.d að vafi sé uppi um lagatúlkun eða að málsmeðferð eftirlitsaðila hafi í einhverjum tilfellum verið ábótavant. Ráðuneytið hefur ekki farið í sérstaka könnun á því hvort eftirlitsaðilar sem heyra undir málaflokka iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi gert einhvers konar mistök, t.d. við málsmeðferð. Slík rannsókn væri afar viðamikil enda um marga eftirlitsaðila og margar ákvarðanir að ræða.