Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 720  —  465. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að fordæma pyndingar leyniþjónustu Bandaríkjanna.


Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason, Óttarr Proppé,
Helgi Hrafn Gunnarsson, Össur Skarphéðinsson, Ögmundur Jónasson,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Jón Þór Ólafsson,
Brynhildur Pétursdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir,
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Róbert Marshall.


    Alþingi ályktar að fordæma harðlega pyndingar sem leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur staðið fyrir og bandarísk stjórnvöld látið viðgangast frá hryðjuverkaárásunum 11. september 2001.


Greinargerð.

    Öldungadeild Bandaríkjaþings birti nýverið skýrslu sem lýsir hrottalegum pyndingum á mönnum sem fangelsaðir voru í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 og framkvæmdar hafa verið undir stjórn CIA. Í skýrslunni er lýst hræðilegri meðferð á fólki á öllum aldri af báðum kynjum og ýmsu þjóðerni. Meðal annars er því lýst hvernig föngum var haldið vakandi, jafnvel í heila viku, stundum standandi, stundum með handleggi hlekkjaða fyrir ofan höfuð. Sumum föngum var gefinn vökvi í gegnum endaþarm, án læknisfræðilegrar nauðsynjar. Var þetta framkvæmt með offorsi, sem leiddi í a.m.k. einu tilviki til skemmda á endaþarmi. Einum fanga, Majid Khan, var gefinn matur í gegnum endaþarm; hummus, pastasósu, hnetum og rúsínum var maukað saman og troðið inn um endaþarm. Gul Rahman var haldið vakandi í tvo sólarhringa. Hann var látinn þola ærandi hávaða í algeru myrkri og einangrun, settur í kaldar sturtur og hlekkjaður við vegg í stellingu sem neyddi hann til að leggjast á kalt gólf. Föt voru tekin af honum til að refsa honum fyrir að vera ósamvinnuþýður og var hann einungis í peysu en nakinn fyrir neðan mitti. Vegna þessarar ómannúðlegu meðferðar lést Gul Rahman úr ofkælingu. Tveir fangar með fótbrot, einn með tognaðan ökkla og einn með gervifót voru hlekkjaðir standandi og haldið vakandi þar til heilbrigðisstarfsfólk á vegum CIA úrskurðaði að þeir gætu ekki staðið lengur í fæturna.
    Pyndingar eru meðal allra alvarlegustu glæpa og hafa verið skilgreindar svo af alþjóðasamfélaginu og í alþjóðalögum. Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland og Bandaríkin eiga aðild að, segir í 7. gr. að enginn maður skuli sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Um pyndingar er einnig fjallað í Samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri og ómannlegri meðferð eða refsingu. Ísland og Bandaríkin eru bundin af þeim samningi en samkvæmt honum eru pyndingar algjörlega óafsakanlegar í hvaða tilgangi sem er og alþjóðasamfélaginu er falin mikil sam­eigin­leg ábyrgð á því að koma í veg fyrir pyndingar og láta sækja þá til saka sem eru sekir um slíka glæpi.
    Flutningsmenn þessarar tillögu telja afar brýnt að sú hræðilega meðferð á fólki sem lýst er í fyrrgreindri skýrslu verði fordæmd um heim allan og mælast til þess að Alþingi Íslendinga bregðist skjótt við og fordæmi þessi grimmdarverk með formlegum og opinberum hætti. Alþingi hefur áður, á 135. löggjafarþingi, fordæmt mannréttindabrot og ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu (sjá 107. mál á því þingi). Með þessari tillögu er lagt til að slík fordæming verði ítrekuð í ljósi nýrra upplýsinga sem fram hafa komið með hinni nýju skýrslu.