Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 909  —  530. mál.
Viðbót við 3. tölul.




Fyrirspurn


til innanríkisráðherra um aðgerðir gegn mansali.

Frá Svandísi Svavarsdóttur.


     1.      Hvaða aðili eða aðilar bera ábyrgð á því að fórnarlömb mansals fái þá aðstoð hér á landi sem þeim ber samkvæmt alþjóðasamningum?
     2.      Eru gerðar ráðstafanir hér á landi til að grennslast fyrir um það hvort mansal viðgangist á landinu og hvort hér sé fólk sem selt hefur verið mansali hingað? Ef svo er, í hverju eru þær ráðstafanir fólgnar?
     3.      Hafa stjórnvöld samvinnu og samráð um mansalsmál við félagasamtök sem gæta velferðar og réttinda einstaklinga, svo sem mannúðarsamtök á borð við Rauða krossinn og Stígamót, verkalýðsfélög og mannréttindasamtök á borð við Amnesty International og Mannréttindaskrifstofu Íslands? Ef svo er, í hverju felst samvinnan? Ef svo er ekki, hvaða skýringar eru á því?
     4.      Til hvaða ráðstafana hafa íslensk stjórnvöld gripið til að tryggja að hérlendis sé starfað í samræmi við markmið samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali sem tók gildi 1. júní 2012?
     5.      Hvaða verkferlar eru í gildi varðandi viðbrögð við grun um mansal og rannsókn mansalsmála hér á landi? Hvaða stofnanir eru þátttakendur í mansalsrannsóknum og viðbrögðum við grun um mansal? Hvernig er tryggt að öllum sem hlut eiga að máli sé kunnugt um skyldur sínar í þessum efnum og þekki til þeirra aðgerða sem ber að grípa til við grun um mansal?
     6.      Hversu oft hefur vaknað grunur um mansal á síðustu fimm árum hjá þeim aðilum sem ber að fylgjast með á þessu sviði? Til hvaða aðgerða hefur verið gripið vegna gruns um mansal? Hversu margir einstaklingar hafa verið skráðir sem möguleg fórnarlömb mansals, sundurliðað eftir kynjum?
     7.      Hafa fallið dómar í mansalsmálum og þá a) hversu margir og hvenær, b) hversu margir þeirra hafa varðað konur og hversu margir karla?
     8.      Hversu miklu fé hefur verið varið til verkefna sem tengjast mansali í samræmi við gildandi mansalsáætlun hvert ár frá og með 2010?
     9.      Er tryggt að samstarf sé á milli þeirra aðila sem vinna gegn vændi og þeirra sem vinna gegn mansali, eins og gert er ráð fyrir í mansalsáætlun og alþjóðlegum samningum? Ef svo er, hvernig er samstarfinu háttað? Ef svo er ekki, hvaða skýringar eru á því?
     10.      Hversu margir liðir í gildandi mansalsáætlun hafa komist til framkvæmda? Hversu margir liðir í aðgerðaáætlun gegn mansali hafa ekki komist til framkvæmda og hvaða skýringar eru á því? Er áformað að endurskoða eða uppfæra aðgerðaáætlun gegn mansali?
     11.      Hver er staða svonefnds mansalsteymis sem komið var á fót þegar aðgerðaáætlun gegn mansali var samþykkt?
     12.      Hve mikið fé þarf til að unnt verði að framkvæma aðgerðaáætlun gegn mansali til fulls að mati ráðuneytisins? Mun ráðuneytið tryggja að sú upphæð renni til verkefnisins?


Skriflegt svar óskast.