Ferill 486. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 942  —  486. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um yfirlýsingu um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er áætlaður kostnaður við yfirlýsingu um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem ráðherra undirritaði ásamt forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, formanni Læknafélags Íslands og varaformanni Skurðlæknafélags Íslands 8. janúar sl. og hvenær er áætlað að sá kostnaður falli til?

    Yfirlýsingu um uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu frá 8. janúar sem fyrirspyrjandi vísar til er ætlað að leiða fram sameiginlega sýn aðila á viðfangsefninu og er því markmiðsyfirlýsing. Í henni felst að stjórnvöld og læknar eru sammála um að vinna að einstökum markmiðum innan heilbrigðiskerfisins sem miði að því að gera íslenska heilbrigðisþjónustu fyllilega samanburðarhæfa við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum með tilliti til fjármagns, gæða og aðbúnaðar. Yfirlýsingin er í átta liðum og tekur í meginatriðum til eftirtalinna þriggja atriða. Í fyrsta lagi er fjárhagslega hliðin, svo sem fjárheimildir, fjármögnun og nýting fjármagns þar sem skipulag stofnana, verkaskipting þeirra og rekstrarform geta skipt máli. Í öðru lagi eru þættir sem varða aðbúnað sjúklinga og starfsfólks eins og aðstaða, vinnufyrirkomulag og launakjör. Í þriðja lagi snýr yfirlýsingin að samstarfi og samvinnu aðila sem að heilbrigðisþjónustu koma um stefnumörkun í málaflokknum.
    Til að ná settum markmiðum yfirlýsingarinnar þurfa hlutaðeigandi aðilar að ná samstöðu um þau verkefni sem ráðist verður í, arðsemismeta og forgangsraða. Ljóst má vera að hér er horft til nokkuð langs tímabils í undirbúningi og framkvæmd en að hluta hefur nú þegar verið hafist handa. Má í því sambandi benda á aukin fjárframlög til heilbrigðismála sem komu fram í gildandi fjárlögum og fjárlögum 2014. Unnið er að áhersluverkefnum heilbrigðisráðherra sem ganga undir heitinu „Betri heilbrigðisþjónusta“ og snúa m.a. að þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu, sameiningu heilbrigðisstofnana og fækkun þeirra og samtengingu rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu. Að lokum má einnig nefna nýundirritaða kjarasamninga við lækna. Allar þessar aðgerðir falla vel að markmiðum yfirlýsingarinnar.
    Af framansögðu má vera ljóst að útfærsla yfirlýsingarinnar liggur ekki fyrir. Til stendur að ráða verkefnisstjóra sem m.a. er ætlað að samtvinna áherslur yfirlýsingarinnar við verkefnið „Betri heilbrigðisþjónusta“. Fjárhagsleg áhrif yfirlýsingarinnar á ríkissjóð eða aðra aðila sem að málinu koma liggja því ekki fyrir. Eigi að síður má minna á að í svari velferðarráðherra við fyrirspurn frá Birnu Lárusdóttur um fyrirhugaða uppbyggingu Landspítala á 141. löggjafarþingi (407. mál) kemur fram áætlaður heildarkostnaður íslenska ríkisins við slíka byggingu.