Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1020  —  588. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eflingu brothættra byggða og byggðafestu veiðiheimilda.


Flm.: Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Steinunn Þóra Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vinna framtíðarstefnumörkun um eflingu brothættra byggða í samráði við Byggðastofnun og helstu hagsmunaaðila.
    Til grundvallar stefnumörkuninni fyrir minni sjávarbyggðir verði lögð verulega aukin byggðafesta veiðiheimilda og metið hversu miklum veiðiheimildum er nauðsynlegt að ráðstafa til þessa. Hliðsjón verði höfð af þeirri reynslu sem fengist hefur af ráðstöfun og notkun þeirra veiðiheimilda sem Byggðastofnun hefur haft til meðferðar.
    Skoðað verði hvaða stuðningsúrræðum vænlegast væri að beita til að skapa aukna byggðafestu í brothættum byggðum þar sem landbúnaður, matvælaiðnaður, ferðaþjónusta eða önnur atvinnustarfsemi hefur skapað, eða er líklegust til að skapa, stöðugleika og vaxtarmöguleika og gerð grein fyrir því hvernig heppilegast væri að koma slíkum stuðningi við þannig að hann beri tilætlaðan árangur.
    Stefnt verði að því að framvegis verði sérstök aðgerðaáætlun um eflingu brothættra byggða samþætt áherslum hins opinbera í byggða­málum. Ráðherra leggi fram slíka áætlun í formi þingsályktunartillögu í fyrsta sinn við upphaf haustþings 2015.

Greinargerð.

    Með þessu þingmáli eru lögð drög að skipulegum aðgerðum í þágu svonefndra brothættra byggða, þ.e. þeirra byggða sem einkennast af viðvarandi fólksfækkun, einhæfu atvinnulífi, fækkun starfa og hækkandi meðalaldri íbúanna. 1 Hugtakið tekur þannig yfir þær byggðir landsins sem standa veikast og mest hætta er á að leggist af.
    Árið 2012 hófst á Raufar­höfn tilraunaverkefni undir heitinu „brothættar byggðir“ með aðild heimamanna, Byggðastofnunar og fleiri aðila. Árið eftir var efnt til sambærilegra verkefna í þremur ­sveitarfélögum í viðbót, Skaftárhreppi, Breiðdalshreppi og Bíldudal. 2 Vinnulagið sem beitt er í verkefnum sem unnin eru undir formerkjum brothættra byggða byggist á lýðræðislegri nálgun og hugmyndum um valdeflingu. Í þessu felst að leitað er frumkvæðis og hugmynda heimamanna á hverjum stað og falast eftir mati þeirra á þörf fyrir aðgerðir og vali á viðfangsefnum. Reynsla, þekking og þarfir heimafólks vega því þungt þegar að forgangsröðun viðfangsefna kemur. Þannig verða hugmyndir heimamanna, stefnumið þeirra og vilji forsendur ráðstafana sem gripið er til.
    Þegar í hlut eiga brothættar byggðir sem eiga afkomu sína undir veiðum og vinnslu sjávarfangs blasir við að hlutdeild í aflaheimildum er brýn forsenda þess að byggðirnar eigi sér lífvænlega framtíð. Byggðakvóti, sem felst í aflaheimildum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutar árlega til stuðnings tilteknum byggðarlögum, hefur getað komið brothættum byggðum að notum í vissum tilfellum. Forsendur úthlutunar byggðakvóta eru að um sé að ræða minni byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og eru háð veiðum og/eða vinnslu á ­botnfiski eða byggðarlög sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað afla í viðkomandi byggðarlögum. Það er skilyrði að um sé að ræða byggðarkjarna sem liggja að sjó og þar sem veiðar og vinnsla sjávarafla skipta verulegu máli. Minni byggðarlög eru þau þar sem voru færri en 2.000 íbúar 1. desember 2013, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 651 frá 4. júlí 2014 um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2014/2015. Byggðakvóta má einnig úthluta til fiskiskipa að uppfylltum tilteknum skilyrðum, sbr. reglugerð nr. 652 frá 4. júlí 2014 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015.
    Eins og framanritað ber með sér er úthlutun byggðakvóta ráðstöfun sem gripið er til í viðlögum, þegar í óefni er komið með atvinnu og framfærslu fólks á tilteknum svæðum og nauðsynlegt þykir að afstýra vandræðum sem geta stafað af náttúrulegum orsökum, svo sem aflabresti, en einnig af mannavöldum eins og þeim þverbresti kvótakerfisins að unnt er að flytja aflaheimildir í einni svipan úr einum stað í annan án þess að minnsta tillit sé tekið til heimafólks sem missir viðurværi sitt eins og af völdum skyndilegra hamfara. Samfélagið mun vafalaust alltaf hafa þörf fyrir úrræði á borð við núverandi byggðakvóta til að bregðast við áföllum og erfiðleikum í atvinnurekstri en vitanlega er ekki haldbært að byggja framtíð nokkurs byggðarlags á tíma- og aðstæðubundinni viðlagahjálp heldur verður að finna leiðir til að skjóta traustum stoðum undir atvinnustarfsemina þannig að búseta verði lífvænleg til lengri tíma litið. Þar mun byggðafesta veiðiheimilda skipta miklu fyrir byggðarlög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Löngu er orðið brýnt að ganga svo frá málum að hlutskipti byggða sem nú eru brotnar eða brothættar vegna skorts á aflaheimildum verði bætt svo um munar með úthlutun varanlegrar hlutdeildar í hinni sam­eigin­legu sjávarauðlind.
    Ekki eru allar brothættar byggðir við sjávarsíðuna eða þannig settar að byggðafastar aflaheimildir gætu orðið til að styrkja grundvöll búsetu þar. Verður þá að leita annarra leiða. Verkefnið „brothættar byggðir“ leiðir m.a. til þess að smám saman verður til þekking á þeim úrræðum sem duga best til að efla og styrkja byggðarlög sem glíma við lágar tekjur og viðvarandi fólksfækkun. Einnig er unnt að sækja þekkingu og reynslu til annarra landa sem fást við svipaðar aðstæður en víðast hvar í Evrópu er framkvæmd byggðastefnu meðal mikilvægustu verkefna stjórnvalda, miklu fé er varið til þessa málaflokks og skal því ráðstafað í samræmi við skilgreindar forsendur og markmið. 3
    Þróunin í framkvæmd byggðastefnu og stuðningi við byggðarlög í hnignun hefur orðið sú að auka hlutdeild heimamanna í mótun og framkvæmd þeirra aðgerða sem gripið er til. Ráðstafanir til að treysta grundvöll byggða og bæta hag íbúanna geta m.a. falist í auknum tækifærum til menntunar, t.d. með fjar- og dreifnámi, fjárfestingu í innviðum, styrkjum til nýfjárfestinga í atvinnutækjum, markaðsrannsóknum, gerð rekstraráætlana og ráðgjöf vegna stofnunar fyrirtækja og stuðningi við tekjumyndandi og tekjuaukandi nýbreytni í rekstri sem þegar er stundaður.
    Við öllum blasir hve mikilvægt það er að þeir atvinnu- og tekjumöguleikar sem er að finna í tilteknum byggðum verði nýttir þar eins og unnt er íbúunum til hagsbóta og ráðstafanir í byggða­málum hljóta jafnan að miðast við þessa forsendu. Tekjumyndandi aðstaða eða rekstur sem byggist á ferðamennsku er t.d. augljós kostur á þeim svæðum þar sem ferðaiðnaður er, eða getur orðið, tekjuskapandi. Sums staðar eru líkur á að aukin jarðyrkja, skógrækt eða önnur nýsköpun í búnaðarháttum geti reynst hagstæður kostur fyrir tiltekið byggðarlag og íslenskt samfélag í heild, annars staðar getur léttur iðnaður reynst góður kostur.
Neðanmálsgrein: 1
1     Vefsíða Byggðastofnunar: www.byggdastofnun.is/is/brothaettar-byggdir/framtid-fyrir-brothaettar-byggdir (sótt 19.2.2015).
Neðanmálsgrein: 2
2     Byggðaþróun á Íslandi. Stöðugreining 2013. Fylgirit með stefnumótandi byggðaáætlun 2014–2017. Byggðastofnun [Sauðárkrókur] 2013, bls. 13–17.
Neðanmálsgrein: 3
3     Sbr. t.d. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1303/2013, frá 17. desember 2013, um sam­eigin­leg ákvæði um Byggðaþróunarsjóð Evrópu, Félagsmálasjóð Evrópu og Samheldnisjóðinn, Dreifbýlisþróunarsjóð evrópsks landbúnaðar, Sjávarútvegssjóð Evrópu og um almenn ákvæði um Byggðaþróunarsjóð Evrópu, Félagsmálasjóð Evrópu, Samheldnisjóðinn og Sjávarútvegssjóð Evrópu og um niðurfellingu reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1083/2006.