Ferill 602. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1049  —  605. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um meðferð einkamála,
lögum um meðferð sakamála, lögum um aðför,
lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum
um dómstóla (einföldun réttarfars).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „dómsuppsögu“ í 1. málsl. kemur: samningu dóms.
     b.      Á eftir orðunum „gefur út kvaðningar og tilkynningar“ í 2. málsl. kemur: heldur þing til uppkvaðningar dóms.

2. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    6. Nú er meðferð máls endanlega lokið fyrir héraðsdómi og tekur þá dómstjóri ákvörðun um afhendingu afrits skv. 1. mgr. eða kveður upp úrskurð skv. 5. mgr.

3. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    1. Við hvern héraðsdómstól skal haldin skrá yfir þau mál sem koma þar til úrlausnar samkvæmt lögum þessum.
    2. Dómstólaráð setur nánari reglur um:
     a.      málaskrár,
     b.      þingbækur, þar á meðal rafræna færslu þeirra,
     c.      búnað til hljóðritunar og myndupptöku í þinghöldum,
     d.      dómabækur,
     e.      varðveislu málsskjala, hljóðritana og myndupptöku,
     f.      aðgang að endurritum af dómum og úr þingbók, svo og að framlögðum skjölum, þ.m.t. brottnám upplýsinga úr þeim,
     g.      form og frágang dómskjala, þar á meðal hámarkslengd stefnu og greinargerðar stefnda.

4. gr.

    1. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    1. Dómari getur ákveðið að eigin frumkvæði eða eftir ósk annars aðila eða beggja að skipta sakarefni þannig að fyrst verði dæmt sérstaklega um tiltekin atriði máls meðan önnur atriði þess hvíla og bíða þess að verða dæmd.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr.“ í lok 1. mgr. kemur: 3. mgr.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  2. Ef matsbeiðandi óskar getur dómari ákveðið að matsmaður þurfi ekki að semja skriflega matsgerð skv. 1. mgr. heldur skuli hann mæta fyrir dóm áður en aðalmeðferð fer fram, leggja þar fram skrifleg svör við matsspurningum sem til hans er beint í matsbeiðni og gefa skýrslu um niðurstöðu matsins, sbr. 2. mgr. 65. gr. Áður en matsmaður afhendir matsbeiðanda svörin og kemur fyrir dóm er honum rétt að krefjast greiðslu skv. 3. mgr.

6. gr.

    65. gr. laganna orðast svo:
    1. Að kröfu aðila ber matsmanni að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði sem tengjast henni. Ef matsmaður hefur ekki skilað skriflegri matsgerð er honum skylt að koma fyrir dóm að kröfu matsbeiðanda, leggja þar fram skrifleg svör við matsspurningum án rökstuðnings og skýra frá niðurstöðu mats, svo og að svara spurningum um atriði sem tengjast því. Nú hefur dómari kvatt til meðdómsmenn eftir að matsmaður kom fyrir dóm og getur aðili þá krafist þess að matsmaður komi að nýju fyrir dóm til skýrslugjafar.
    2. Ákvæðum VIII. kafla verður beitt um skýrslugjöf matsmanns eftir því sem þau geta átt við.

7. gr.

    Við 2. mgr. 99. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Krefjist stefndi þess að máli verið vísað frá dómi er honum heimilt að leggja fram greinargerð einungis um þá kröfu, enda sé hún lögð fram innan fjögurra vikna frá þingfestingu málsins. Nú verður máli ekki vísað frá dómi og ber þá dómara að veita stefnda sérstakan frest til að leggja fram greinargerð um efnisvarnir.

8. gr.

    Við 3. mgr. 112. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í stað skriflegs úrskurðar getur dómari látið við það sitja að skrá úrskurðarorð í þingbók og færa munnlega rök fyrir niðurstöðu sinni nema úrskurður feli í sér lokaniðurstöðu máls. Ef úrskurður er kærður til æðra dóms skal dómari semja skriflegan úrskurð samkvæmt framansögðu.

9. gr.

    1. mgr. 113. gr. laganna orðast svo:
    1. Ef útivist hefur orðið af hálfu stefnda, hann hefur ekki skilað greinargerð, kröfur stefnanda eru þess efnis að unnt er að fullnægja þeim með aðför og dómari telur málatilbúnaði stefnanda í engu áfátt þannig að taka megi kröfur hans til greina, sbr. 1. mgr. 96. gr., má dómari ljúka máli með því að rita á stefnu að dómkröfurnar séu aðfararhæfar, svo og ákvörðun um málskostnað. Á sama hátt má dómari með áritun fallast á að lögveðréttur verði staðfestur til tryggingar kröfunum. Dómari getur um leið leiðrétt augljósar villur í stefnu til samræmis við þau skjöl sem stefnandi byggir á í málinu. Einnig getur dómari vísað málinu frá með áritun á stefnu ef gallar eru á því sem varða án nokkurs vafa frávísun þess án kröfu. Ef stefnandi unir ekki þeirri ákvörðun dómara getur hann krafist þess innan tveggja vikna að úrskurður gangi um frávísunina. Verði máli ekki lokið með framangreindum hætti skal kveðinn upp dómur eða úrskurður eftir almennum reglum.

10. gr.

    Við e-lið 1. mgr. 114. gr. laganna bætist: þó aðeins að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar máli.

11. gr.

    Í stað orðsins „uppkvaðningu“ í 2. málsl. 2. mgr. 115. gr. laganna kemur: samningu.

12. gr.

    Í stað orðanna „Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 157. gr.“ í 5. mgr. 137. gr. laganna kemur: endurupptökunefndar samkvæmt lögum um dómstóla, sbr. 1. mgr. 167. gr.

13. gr.

    147. gr. laganna orðast svo:
    1. Héraðsdómari sendir kæruna til Hæstaréttar og gagnaðila þess sem kærir svo fljótt sem verða má nema hann kjósi sjálfur að fella kærðan úrskurð úr gildi.
    2. Ef héraðsdómari hefur ekki samið úrskurð skriflega, sbr. 3. mgr. 112. gr., skal hann gera það innan viku og afhenda þeim sem kærir. Dómara er jafnan heimilt að láta skriflegar athugasemdir sínar um kæruefni fylgja málsgögnum til Hæstaréttar.
    3. Sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn skal senda Hæstarétti, innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi, þau gögn málsins í fjórriti, sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Hann skal þá einnig, ef hann kýs, afhenda Hæstarétti skriflega greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á. Hann skal samtímis afhenda gagnaðila eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. Gögnum skal fylgja skrá um þau og skulu þau vera í því horfi, sem Hæstiréttur mælir fyrir um.
    4. Nú afhendir sá er kærir úrskurð eða dómsathöfn ekki greinargerð, ef því er að skipta, og kærumálsgögn til Hæstaréttar innan þess frests sem greinir í 3. mgr. þessarar greinar og verður þá ekki frekar af máli.
    5. Kæranda er heimilt að byggja á nýjum sönnunargögnum og skal þá farið að svo sem segir í 2. mgr. 145. gr.
    6. Hæstiréttur setur nánari reglur um frágang málsgagna í kærumálum.

14. gr.

    148. gr. laganna orðast svo:
    Þegar sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn hefur afhent Hæstarétti málsgögn skal gagnaðilinn eiga þess kost að skila innan viku til Hæstaréttar skriflegri greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á. Telji hann skorta á að kærandi hafi afhent Hæstarétti þau gögn máls sem þörf sé á til að leysa úr kæruefninu getur hann látið fylgja greinargerð sinni þau málsgögn sem hann telur vanta. Kjósi gagnaðili að afhenda gögn af sinni hálfu skal það gert í því horfi sem Hæstiréttur mælir fyrir um.

15. gr.

    1. mgr. 149. gr. laganna orðast svo:
    1. Þegar vika er liðin frá því að kærumálsgögn bárust Hæstarétti getur rétturinn lagt dóm á kæruefnið, en jafnan skal þó athuga skjöl sem berast síðar frá aðilum svo framarlega sem málinu er þá ekki lokið.

16. gr.

    2. mgr. 167. gr. laganna orðast svo:
    2. Aðili getur ekki sótt um endurupptöku máls skv. 1. mgr. nema einu sinni. Að öðru leyti getur aðili ekki afsalað sér rétti til að beiðast endurupptöku.

II. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.
17. gr.

    Í stað orðsins „dómsuppsögu“ í 1. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: samningu dóms.

18. gr.

    Í stað 3. málsl. 9. gr. laganna komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú þarf að taka skýrslu af brotaþola, yngri en 15 ára, og skal það þá gert í sérútbúnu húsnæði fyrir skýrslutöku af börnum nema hagsmunir brotaþolans krefjist þess að annar háttur verði á hafður. Enn fremur getur dómari ákveðið að skýrsla skuli tekin af vitni, yngri en 15 ára, í slíku sérútbúnu húsnæði.

19. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú er meðferð máls endanlega lokið fyrir héraðsdómi og tekur þá dómstjóri ákvörðun um afhendingu afrits skv. 1. og 3. mgr. eða kveður upp úrskurð skv. 6. mgr.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 17. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „færslu þeirra á tölvu“ í b-lið kemur: rafræna færslu þeirra.
     b.      Í stað orðsins „myndbandsupptöku“ í c-lið kemur: myndupptöku.
     c.      Í stað orðanna „myndbanda og mynddiska“ í e-lið kemur: myndupptöku.
     d.      Orðin „birtingu dóma og annarra dómsúrlausna, til dæmis á vefsíðum dómstóla“ í f-lið falla brott.
     e.      Við bætist nýr liður, svohljóðandi: form og frágang dómskjala, þar á meðal hámarkslengd ákæru og greinargerðar ákærða.

21. gr.

    Síðari málsliður 3. mgr. 38. gr. laganna orðast svo: Dómstólaráð skal setja reglur um tímagjald sem tekið skal mið af við ákvörðun þóknunar.

22. gr.

    Síðari málsliður 3. mgr. 48. gr. laganna orðast svo: Dómstólaráð skal setja reglur um tímagjald sem tekið skal mið af við ákvörðun þóknunar.

23. gr.

    Á eftir orðunum „innan 30 daga eftir að það hefur“ í 1. málsl. 3. mgr. 150. gr. laganna kemur: sannanlega borist honum eða.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 161. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „sekt“ í a-lið kemur: sex mánaða fangelsi.
     b.      Í stað orðanna „sex mánaða“ í b-lið kemur: eins árs.

25. gr.

    Við 3. mgr. 181. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í stað skriflegs úrskurðar getur dómari látið við það sitja að skrá úrskurðarorð í þingbók og færa munnlega rök fyrir niðurstöðu sinni nema úrskurður lúti að aðgerðum skv. IX.–XIV. kafla eða feli í sér lokaniðurstöðu máls. Ef úrskurður er kærður til æðra dóms skal dómari semja skriflegan úrskurð samkvæmt framansögðu.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 183. gr. laganna:
     a.      Við d-lið bætist: án þess að gerð sé grein fyrir framburði ákærða og vitna nema að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar máls.
     b.      E-liður orðast svo: við hvaða sönnunargögn og rök ákæra sé studd og andsvör ákærða við þeim eftir því sem þörf krefur.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 185. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó nægir að lesa upp dómsorð ef mál hefur verið dæmt skv. 1. mgr. 164. gr.
     b.      Í stað orðsins „þann“ í 2. málsl. kemur: framangreindan.

28. gr.

    Í stað 1. málsl. 1. mgr. 194. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef héraðsdómari hefur ekki samið úrskurð skriflega, sbr. 3. mgr. 181. gr., skal hann gera það innan viku eftir að hann fær vitneskju um kæru. Telji dómari annmarka vera á kæru getur hann gefið kæranda skamman frest til að lagfæra hana.

29. gr.

    Við 211. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú er dómfelldi látinn og getur þá endurupptökunefnd orðið við beiðni maka, barna, foreldra eða systkina hins látna um endurupptöku máls enda sé einhverju skilyrða 1. mgr. fullnægt og sérstaklega standi á. Sá sem fer fram á endurupptöku nýtur eftir því sem við á sömu réttarstöðu og dómfelldi við meðferð beiðninnar hjá nefndinni.

30. gr.

    1. mgr. 213. gr. laganna orðast svo:
    Ef beiðni um endurupptöku er ekki hafnað þegar í stað samkvæmt því sem í 3. mgr. 212. gr. segir skulu hún og gögnin, sem henni fylgdu, send til gagnaðila og hann krafinn um skriflega greinargerð um viðhorf sín til hennar innan tiltekins frests. Hafi dómfelldi borið fram beiðnina og staðið sjálfur að henni getur endurupptökunefnd þó fyrst skipað honum lögmann og gefið honum kost á að gera beiðni á nýjan leik. Við frekari meðferð beiðni um endurupptöku er nefndinni skylt að skipa dómfellda eða ákærða lögmann til að gæta réttar hans ef hann óskar eftir því. Nefndin ákveður þóknun lögmanns vegna starfa hans fyrir henni og er sú ákvörðun endanleg.

III. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum.
31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Á sama hátt má dómari ljúka máli með ákvörðun ef aðfararbeiðni er að öllu leyti tekin til greina.
     b.      Á eftir orðunum „ályktunarorð úrskurðar“ í 2. mgr. kemur: eða ákvörðun.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.
32. gr.

    Við 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laganna bætist: enda berist héraðsdómara krafa lánardrottins um gjaldþrotaskipti innan þriggja mánaða frá því áskorunin var birt skuldara.

V. KAFLI
Breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum.
33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: ásamt þeim úrlausnum héraðsdómstóla sem við eiga hverju sinni.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við útgáfu dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari eftir reglum sem rétturinn setur.

34. gr.

    Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, svohljóðandi:
    Dómar héraðsdómstóla skulu gefnir út, sbr. þó 2. mgr. Um tilhögun útgáfunnar fer eftir ákvörðun dómstólaráðs að fengnu samþykki ráðherra.
    Héraðsdómar í einkamálum sem varða viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna og umgengni við þau, skulu ekki gefnir út. Við útgáfu annarra dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari. Í því skyni skal í dómum í sakamálum gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur, nema um sé að ræða börn. Einnig skal gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða er til. Þegar nöfnum er haldið leyndum skal jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið. Dómstólaráð skal setja nánari reglur um hvaða dómar skuli ekki gefnir út og hvernig standa skuli að brottnámi upplýsinga úr öðrum dómum.

35. gr.

    1. mgr. 34. gr. laganna orðast svo:
    Endurupptökunefnd er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem tekur ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í héraði eða Hæstarétti.

36. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 32. gr. skal beitt um kröfur um gjaldþrotaskipti sem berast héraðsdómi eftir gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið af réttarfarsnefnd að tilhlutan innanríkisráðherra. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum réttarfarslaga. Nánar tiltekið eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, lögum um aðför, nr. 90/1989, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og lögum um dómstóla, nr. 15/1998. Miðar frumvarpið einkum að því að auka skilvirkni við afgreiðslu dómsmála með því að einfalda reglur og auka afköst og hraða við meðferð mála. Byggja margar af þeim breytingum sem lagðar eru til á tillögum frá starfshópi á vegum dómstólaráðs sem sendar voru ráðuneytinu til frekari skoðunar. Hafði starfshópurinn það hlutverk að skoða hvar í réttarfarslögum eða innri reglum dómstólanna mætti koma við aukinni einföldun og skilvirkni við rekstur dómsmála þannig að leiddi til hagræðingar. Samhliða þessu eru gerðar nokkrar tillögur um breytingar til samræmingar og lagfæringar á nokkrum ákvæðum réttarfarslaga. Þá eru lagðar til breytingar er varða skýrslutöku af börnum þar sem lagt er til að skýrslutaka af brotaþolum á barnsaldri fari ávallt fram í sérútbúnu húsnæði utan dómhúss nema hagsmunir brotaþola kalli á annað. Þá er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um heimild til að birta héraðsdóma opinberlega sem og að settar verði reglur um afmáningu viðkvæmra upplýsinga úr þeim. Við samningu frumvarpsins hafði réttarfarsnefnd samráð við Hæstarétt, dómstólaráð, Dómarafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands og gafst þessum aðilum kostur á að koma að sínum sjónarmiðum við samningu frumvarpsins. Jafnframt var frumvarpið sent þessum aðilum til umsagnar. Bárust umsagnir frá laganefnd Lögmannafélags Íslands og Dómarafélagi Íslands um ýmsar greinar frumvarpsins. Einnig voru ákvæði frumvarpsins er vörðuðu endurupptökunefnd send nefndinni til umsagnar og barst umsögn frá henni. Þá var frumvarpið sent til umsagnar hjá UNICEF og barst umsögn frá samtökunum. Frumvarpið var loks kynnt á heimasíðu ráðuneytisins og þar gefinn kostur á að koma að athugasemdum við það. Í framhaldi af því barst umsögn frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Leiddu framangreindar umsagnirnar allar til nokkurra breytinga á frumvarpinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í 3. mgr. 4. gr. laganna er fjallað um verkefni meðdómsmanna. Er þar tekið fram að meðdómsmenn taki þátt í málsmeðferð og dómsuppsögu og að þeir hafi sömu réttindi og beri sömu skyldur og dómsformaður. Í b-lið þessarar greinar er lagt til að dómsformaður fjölskipaðs dóms í einkamáli skuli einn halda dómþing þegar dómur er kveðinn upp í málinu skv. 3. mgr. 115. gr. laganna. Er þetta jafnframt í samræmi við 3. mgr. 5. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Til að forðast misskilning er jafnframt lagt til í a-lið að í stað orðsins „dómsuppsögu“ í fyrri málslið 3. mgr. 4. gr. laganna komi „samningu dóms“.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að ný málsgrein bætist við 14. gr. laganna þess efnis að dómstjóri hlutaðeigandi héraðsdómstóls skuli, þegar meðferð máls er endanlega lokið í héraði, t.d. með uppkvaðningu héraðsdóms, taka ákvörðun um afhendingu afrits í stað þess dómara sem fór með málið, enda kann það að vera vandkvæðum bundið, sérstaklega ef nokkur tími er liðinn frá því að máli lauk. Ef máli hefur verið vísað frá héraðsdómi með úrskurði telst meðferð þess ekki endanlega lokið fyrr en kærufrestur er liðinn eða frávísunarúrskurðurinn hefur verið staðfestur af æðra dómi.

Um 3. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að tekið verði upp sams konar ákvæði í 1. mgr. 15. gr. laga um meðferð einkamála og er í 1. mgr. 17. gr. laga um meðferð sakamála þar sem mælt er fyrir um að við hvern héraðsdómstól skuli haldin skrá yfir þau mál sem koma til úrlausnar samkvæmt lögunum.
    Lagt er til í greininni að það nýmæli komi í f-lið 2. mgr. 15. gr. laga um meðferð einkamála að dómstólaráð setji reglur um aðgang að endurritum, þar á meðal um það hvaða upplýsingar skuli numdar brott úr endurritunum vegna brýnna einka- eða almannahagsmuna. Þá er gerð tillaga um að dómstólaráði verði veitt heimild til að setja reglur um form og frágang dómskjala, sbr. g-lið, en viljað hefur brenna við að þessu tvennu væri ábótavant. Sérstaklega er kveðið á um að ráðið geti sett reglur um hámarkslengd stefnu og greinargerðar stefnda, en færst hefur í aukana á síðustu árum að aðilar hafi virt að vettugi fyrirmæli e-liðar 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála um að lýsing málsatvika og málsástæðna skuli vera gagnorð og gert grein fyrir þessu hvoru tveggja í löngu máli í stað þess að láta það bíða málflutnings.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga um meðferð einkamála getur dómari ákveðið að skipta sakarefni þannig að fyrst verði dæmt sérstaklega um tiltekið atriði máls, t.d. um bótaskyldu, meðan önnur atriði þess hvíla og bíða þess að verða dæmd. Getur þetta haft í för með sér mikið hagræði, ekki aðeins fyrir aðila máls, heldur einnig fyrir dómara, og þar með létt álagi af dómstólunum. Er því lagt til með þessari grein frumvarpsins að dómari geti ákveðið að grípa til þessa úrræðis að eigin frumkvæði án þess að annar hvor málsaðili eða báðir óski þess eins og áskilið er í núgildandi lögum. Í samræmi við hina óskráðu reglu íslensks réttarfars um andmælarétt aðila væri þó rétt að dómari gæfi þeim kost á að tjá sig um þá fyrirætlun sína að skipta sakarefni með þessum hætti áður en til þess kæmi.

Um 5. gr


    Sum einkamál eru þess eðlis, svo sem mál þar sem krafist er skaðabóta vegna galla á fasteign eða lausafé sem selt hefur verið, að ekki er unnt að leggja dóm á þau nema fyrir liggi mat sérfróðs manns sem dómkvaddur hefur verið til að láta í ljós álit á því hvort hið selda sé haldið galla og þá hver sé orsök gallans og hve mikið muni kosta að bæta úr honum. Skv. 1. mgr. 63. gr. laga um meðferð einkamála skal matsmaður semja rökstudda matsgerð þar sem þau sjónarmið eru greind sem álit hans er reist á. Eðli máls samkvæmt er kostnaður við að afla slíkrar skriflegrar matsgerðar allhár og stundum ekki í neinu samræmi við þá fjárhagslegu hagsmuni sem í húfi eru. Af þeim sökum er lagt til í þessari grein frumvarpsins að í stað þess að matsmaður þurfi í öllum tilvikum að skila skriflegri og ítarlegri matsgerð, eins og kveðið er á um í 1. mgr. 63. gr. laganna, geti dómari að ósk matsbeiðanda ákveðið að hann skuli mæta fyrir dóm áður en aðalmeðferð fer fram og leggja þar einungis fram skrifleg svör við spurningum, einni eða fleiri, sem til hans hefur verið beint í matsbeiðni. Þessi aðferð verður því aðeins viðhöfð að afdráttarlausum og skýrum spurningum sé beint til matsmanns af hálfu matsbeiðanda. Ákveði dómari að verða við beiðni um mat án þess að matsmaður þurfi að skila skriflegri matsgerð er gert ráð fyrir að hann leggi þess í stað fram stutt og gagnorð svör við matsspurningum á dómþingi. Því næst gefi hann skýrslu fyrir dómi þar sem hann geri munnlega grein fyrir niðurstöðu matsins og svari síðan spurningum dómara og málsaðila um atriði sem því tengjast, svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 65. gr. laganna. Með þessu móti ætti kostnaður við mat að verða miklum mun minni en ella yrði ef samin væri skrifleg matsgerð, svo sem nú er undantekningarlaust áskilið, auk þess sem þessi einfaldari aðferð við framkvæmd mats ætti að flýta fyrir málsmeðferð. Þá er gert ráð fyrir að matsmaður afhendi matsbeiðanda svör sín við matsspurningum áður en hann kemur fyrir dóm eins og um skriflega matsgerð væri að ræða. Til að taka af öll tvímæli er tekið fram að áður en matsmaður geri það eigi hann rétt á að fá kostnað við matið greiddan úr hendi matsbeiðanda eins og hann ætti annars tilkall til ef honum væri ætlað að skila skriflegri matsgerð, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 63. gr. laganna. Yrði krafist yfirmats í því tilviki sem hér er gerð tillaga um leiðir af 64. gr. laganna að það skal framkvæmt á sama hátt og undirmat að því frátöldu að yfirmatsmenn skulu vera fleiri en undirmatsmenn.

Um 6. gr.


    Þær breytingar sem hér eru lagðar til leiðir af b-lið 5. gr. frumvarpsins. Í samræmi við meginregluna um forræði málsaðila á sönnunarfærslu í einkamálum er lagt til að áskilið verði að matsmaður sem dómkvaddur hefur verið án þess að þurfa að skila skriflegri matsgerð komi því aðeins fyrir dóm til að gefa skýrslu að matsbeiðandi sem kostað hefur matið krefjist þess. Sjái matsbeiðandi ekki ástæðu til þess verður því ekki af skýrslugjöf matsmanns. Jafnframt er hnykkt á því að matsmaður skuli einungis leggja fram skrifleg svör við matsspurningum án þess að þeim fylgi neinn rökstuðningur í skriflegu formi.

Um 7. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála skal stefndi leggja fram skriflega greinargerð ef hann kýs að halda uppi vörnum og fjalla þar jöfnum höndum um forms- og efnisvarnir sínar. Ef mál er flókið úrlausnar og umfangsmikið getur greinargerðin orðið ærið löng og er þetta verklag þá til þess fallið að auka vinnu dómara og draga mál á langinn. Algengt er að auk sýknu og annarra krafna sem lúta að efni málsins krefjist stefndi þess að því verði vísað frá dómi. Sé slík krafa höfð uppi getur það sparað dómara jafnt sem málsaðilum tíma og fyrirhöfn ef stefndi ætti þess kost að skila sérstakri greinargerð um hana án þess að færa jafnframt rök fyrir efnisvörnum sínum fyrr en þá síðar ef frávísunarkröfunni yrði hafnað. Af þeim sökum er gerð tillaga um að tekin verði upp í málsgreinina heimild til handa stefnda til að skila fyrst í stað greinargerð eingöngu um slíka kröfu, þó með því skilyrði að greinargerðin verði ekki lögð síðar fram en fjórum vikum frá þingfestingu málsins. Ella væri hætta á að meðferð þess drægist á langinn og sú hagkvæmni sem að er stefnt snerist þar með upp í andhverfu sína. Ef stefndi virti ekki tímamörkin yrði honum skylt að skila greinargerð í einu lagi, svo sem verið hefur, og bæri dómara þá að gæta þess að heildarfrestur hans til að skila geinargerð yrði ekki lengri en ella hefði orðið. Eðli máls samkvæmt væri dómara skylt að veita stefnda sérstakan frest til að leggja fram greinargerð um efnisvarnir ef hann hefði áður lagt fram greinargerð um frávísunarkröfuna eina og svo færi að málinu yrði ekki vísað frá dómi, svo sem tekið er fram í niðurlagi ákvæðisins.

Um 8. gr.


    Í 3. mgr. 112. gr. laga um meðferð einkamála er svo fyrir mælt að sé leyst úr atriðum sem varða rekstur máls með úrskurði, svo sem ef málsaðila greinir á um þau og ágreiningsefnið sætir kæru til æðra dóms, sbr. 1. og 2. mgr. sömu greinar, skuli dómari jafnan færa rök fyrir niðurstöðu sinni. Það að dómari þurfi að leysa úr sérhverjum slíkum ágreiningi með rökstuddum úrskurði getur haft það í för með sér að fresta þurfi meðferð máls í stað þess að unnt sé að kveða úrskurðinn upp þegar í stað, svo sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. 112. gr. Í því skyni að hraða málsmeðferð er lagt til að dómari fái heimild til að kveða upp úrskurð með því að skrá úrskurðarorð í þingbók án þess að skriflegur rökstuðningur fylgi, heldur nægi þess í stað að hann færi munnlega rök fyrir niðurstöðu sinni í þinghaldi. Þessari heimild yrði þó ekki beitt ef úrskurður fæli í sér lokaniðurstöðu máls, svo sem ef máli væri vísað frá dómi. Ef úrskurður dómara yrði síðar kærður til æðra dóms væri hins vegar óhjákvæmilegt að dómari gengi frá úrlausn sinni í skriflegu úrskurðarformi eins og nú er kveðið á um í 3. mgr. 112. gr., sbr. einnig 13. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. 113. gr. laga um meðferð einkamála er kveðið á um heimild dómara til að ljúka máli með áritun á stefnu í stað þess að kveða upp formlegan dóm eða úrskurð í því, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Hér er lagt til að þessi heimild dómara til að ljúka máli á svo einfaldan hátt verði rýmkuð á tvo vegu. Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði með áritun á stefnu að fallast á staðfestingu lögveðréttar til tryggingar aðfararhæfum kröfum sem þar eru hafðar uppi og í öðru lagi að máli megi vísa frá með slíkri áritun, að því tilskildu að þeir gallar séu á málatilbúnaði stefnanda að þeir mundu án nokkurs vafa leiða til frávísunar málsins af sjálfsdáðum. Í síðarnefnda tilvikinu er gerð tillaga um að stefnandi geti innan tveggja vikna frá því að málinu var vísað frá dómi með einfaldri áritun dómara krafist að formlegur úrskurður gangi um frávísunina. Að auki hafa nokkrar breytingar verið gerðar á orðalagi málsgreinarinnar sem þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 10. gr.


    Í því skyni að stuðla að því að dómar verði stuttir og glöggir eins og boðið er í 3. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála er lagt til að tekið verði fram í e-lið ákvæðisins að aðeins skuli gerð grein fyrir þeim málsástæðum og lagarökum aðila sem þörf krefur hverju sinni til úrlausnar máli. Samkvæmt því ætti t.d. að geta þeirrar málsástæðu stefnda að krafa stefnanda væri fyrnd ef á kröfuna yrði fallist. Í því tilviki væri hins vegar óþarft að geta annarra röksemda af hálfu stefnda fyrir sýknu ef þær hefðu enga þýðingu fyrir úrlausn málsins vegna þess að málið væri dæmt á þeim grundvelli að krafan væri fyrnd.

Um 11. gr.


    Hér er um að ræða sömu breytingu og lögð er til í a-lið 1. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.


    Með breytingunni er einungis verið að lagfæra orðalag þannig að í stað þess að vísað sé til Hæstaréttar sé vísað til endurupptökunefndar og 157. gr. í stað 167 gr. og er bætt úr því hér.     

Um 13. gr.


    Breytingu þá sem ráðgerð er leiðir af breytingunni á formi úrskurða skv. 8. gr. frumvarpsins. Ef úrskurður dómara er kærður til Hæstaréttar er gert ráð fyrir að hann skuli, innan viku frá því að honum barst kæran, ganga frá úrskurðinum á þann hátt sem boðið er í fyrri hluta 3. mgr. 112. gr. laga um meðferð einkamála hafi hann ekki þegar gert það.
    Þá er lagt til að sá sem kærir úrskurð eða aðra dómsathöfn skuli sjálfur senda Hæstarétti þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Með þessu er í hagræðingarskyni létt umtalsverðum kostnaði og fyrirhöfn af héraðsdómstólunum. Í því sambandi skal tekið fram að þegar máli er skotið til Hæstaréttar með áfrýjun kemur það í hlut aðila að taka saman og fjölfalda gögn málsins fyrir réttinn. Tillagan felur því í sér samræmingu á hvernig staðið skuli að málskoti hvort sem það er gert með kæru eða áfrýjun. Gert er ráð fyrir því að rétturinn sjálfur mæli fyrir um í hvaða horfi gögn skuli vera með því að setja reglur um frágang gagna. Þetta er sama fyrirkomulag og á við um frágang gagna þegar héraðsdómi er áfrýjað, sbr. 4. mgr. 156. gr. laga um meðferð einkamála. Samhliða því að kærandi sendir Hæstarétti gögn kærumáls bæri honum að afhenda gagnaðila eitt eintak gagnanna og greinargerðar ef því er að skipta, svo sem fram kemur í 3. málsl. nýs ákvæðis sem lagt er til að komi í 3. mgr. 147. gr. laganna. Við þetta mundi hlutverk héraðsdómara breytast þar sem gert er ráð fyrir að hann þyrfti eftirleiðis einungis að senda kæru sem honum bærist til Hæstaréttar sem og til gagnaðila þess sem kærði.

Um 14. gr.


    Í samræmi við breytta skipan um að aðilar afhendi Hæstarétti gögn kærumáls er gert ráð fyrir að gagnaðili þess sem kærir geti látið fylgja greinargerð sinni til réttarins þau gögn kærumáls sem hann telur að þurfi að vera fyrir hendi við úrlausn þess en kærandi hefur ekki séð ástæðu til að láta fylgja kærunni til Hæstaréttar. Er þetta í samræmi við meginreglu réttarfars um jafnræði málsaðila.

Um 15. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar sem leiðir af því að gögn í kærumálum berist Hæstarétti frá aðilum máls. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 16. gr.


    Hér er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að einungis sé unnt að óska einu sinni eftir endurupptöku óáfrýjaðs máls. Er þar með lagt til að orðalag ákvæðisins sé samræmt við ákvæði 2. mgr. 169. gr. þar sem kveðið er á um að einungis sé unnt að óska einu sinni eftir endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti.

Um 17. gr.


    Hér er lögð til sama orðalagsbreyting og í a-lið 1. gr. og 11. gr. frumvarpsins og þarfnast greinin ekki frekari skýringa.

Um 18. gr.


    Samkvæmt 3. málsl. 9. gr. laga um meðferð sakamála getur dómari ákveðið að tekin skuli skýrsla af barni, yngra en 15 ára, í sérútbúnu húsnæði á öðrum stað en á föstum þingstöðum ef það þykir æskilegra með tilliti til hagsmuna barnsins. Hér er lagt til að mælt verði fyrir um það í lögum að skýrslutaka af brotaþola, yngri en 15 ára, t.d. af brotaþola kynferðisbrots, skuli að jafnaði fara fram í sérútbúnu húsnæði fyrir skýrslutöku af börnum sem sé staðsett annars staðar en í dómhúsi, en þá aðstöðu er nú að finna í svonefndu barnahúsi. Einungis verði unnt að gera undantekningu frá þessari meginreglu ef hagsmunir brotaþolans krefjist þess, svo sem að þess sé ekki kostur að koma við skýrslutöku í hinu sérútbúna húsnæði nema með verulegu óhagræði fyrir barnið. Sem dæmi um slíkt má nefna að þurfi að flytja barnið og aðstandendur þess um langan veg til skýrslutöku getur falist í því mikið hagræði fyrir barnið og minna rask á högum þess að taka af því skýrslu t.d. í sérútbúnu húsnæði hjá hlutaðeigandi dómstól eða á nálægri lögreglustöð. Rökin fyrir þessari breytingu eru einkum þau að talið er æskilegra fyrir svo ungt barn, sem grunur leikur á að hafi verið brotið á, að skýrsla sé tekin af því í slíku umhverfi, fjarri dómsölum. Ef gera á undantekningu frá þessu fyrirkomulagi verður slík ákvörðun að vera byggð á því að hagsmunum barnsins sé betur borgið með því að gera undantekningu frá þessari meginreglu. Eftir sem áður er svo gert ráð fyrir að dómari geti ákveðið að skýrsla tekin af vitni, yngra en 15 ára, t.d. af barni sem talið er að hafi verið sjónarvottur að heimilisofbeldi, skuli fara fram í sérútbúnu húsnæði utan dómhúss. Rétt er að vekja athygli á því að um skýrslutöku af börnum, yngri en 15 ára, hvort sem um er að ræða brotaþola eða önnur vitni, gilda sérákvæði í 2. og 3. mgr. 123. gr. laga um meðferð sakamála. Þar er m.a. kveðið á um að dómari geti kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutökuna og er það dómarans að ákveða hver það skuli vera, enda stýrir hann þessu þinghaldi sem öðrum, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna.

Um 19. gr.


    Í greininni er lögð til sams konar breyting og í 2. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda við það ákvæði.

Um 20. gr.


    Lagt er til breytt orðalag á nokkrum stafliðum 2. mgr. 17. gr. laga um meðferð sakamála til samræmis við samsvarandi ákvæði sem gert er ráð fyrir að tekin verði upp í 2. mgr. 15. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Þá leiðir breytingu á f-lið 2. mgr. 17. gr. laganna af 34. gr. frumvarpsins. Loks er lagt til að hliðstætt ákvæði verði tekið upp í nýjan staflið, g-lið, og gerð er tillaga um í 3. gr.

Um 21. gr.


    Í þessari grein er lagt til að numið verði brott það ákvæði að ráðherra kveði á um tímagjald sem miða skuli við þegar verjendum er ákveðin þóknun fyrir störf sín. Ákvæðinu var breytt í þetta horf með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þykir rétt að breyta ákvæðinu til fyrra horfs og mæla fyrir um að ákvörðun þóknunar taki framvegis mið af reglum dómstólaráðs um þetta efni.

Um 22. gr.


    Hér er um að ræða sams konar tillögu varðandi ákvörðun þóknunar til handa réttargæslumönnum brotaþola og gerð er í 21. gr.

Um 23. gr.


    Með lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, var það gert að skilyrði að sektarboð hefði verið birt sakborningi með formlegum hætti eins og kveðið er á um í 156. gr. laganna til þess að lögreglustjóri gæti sent héraðsdómara málið til ákvörðunar sektar og vararefsingar, en skv. 3. mgr. 115. gr. a eldri laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 31/1998, var nægilegt að sektarboðið hefði sannanlega borist sakborningi þótt það hefði gerst á óformlegri hátt. Lagt er til að ákvæðið verði fært í fyrra horf að þessu leyti til að auðvelda afgreiðslu þessara mála. Þess skal getið að hafi máli verið lokið með þessum einfalda hætti á sakborningur þess jafnan kost, innan fjögurra vikna frá því að honum varð kunnugt um sektarákvörðun, að málið verði tekið upp á ný skv. 5. mgr. 150. gr. laganna um meðferð sakamála telji hann sig hafa fram að færa varnir sem gætu hafa haft áhrif á málsúrslit.

Um 24. gr.


    Í 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála er að finna heimild fyrir dómara til að leggja efnisdóm á mál, ef um útivist er að ræða af hálfu ákærða, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal að refsing fari ekki fram úr sektum nema ákærði hafi áður komið fyrir dóm og játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök, en í því tilviki má dæma hann í allt að sex mánaða fangelsi. Hér er gerð tillaga um að þessi skilyrði verði rýmkuð þannig að eftir a-lið málsgreinarinnar verði unnt að dæma ákærða í allt að sex mánaða fangelsi, án þess að hann hafi komið fyrir dóm, og eftir b-lið í allt að eins árs fangelsi, ef hann hefur áður játað brot fyrir dómi, að því tilskildu að dómari telji framlögð gögn nægileg til sakfellingar. Ef þessi breyting næði fram að ganga væri þess kostur að afgreiða fjölda minni háttar mála, svo sem ölvunarakstursmál, með þessum hætti, en slíkt mundi spara héraðsdómstólum fyrirhöfn og flýta fyrir afgreiðslu mála hjá þeim. Þessi breyting ætti ekki bitna á réttaröryggi sakborninga ef tekið er tillit til þess að frumskilyrði fyrir því að máli verði lokið með útivistardómi er að ákærða hafi áður verið birt ákæra og fyrirkall um að mæta fyrir dómi við þingfestingu máls, þar sem koma verður fram að málið kunni að verða dæmt að honum fjarstöddum. Að auki getur ákærði leitað eftir endurupptöku mál sem dæmt hefur verið á þennan hátt eftir XXIX. kafla laga um meðferð sakamála ef hann telur að brotinn hafi verið á sér réttur við meðferð málsins eða hann hafi hlotið rangan dóm.

Um 25. gr.


    Hér er gerð tillaga um sams konar breytingu á formi úrskurða í sakamálum og gerð er í 9. gr. frumvarpsins um form úrskurða í einkamálum. Þó er gert ráð fyrir að úrskurðum um gæsluvarðhald og aðrar þvingunarráðstafanir skv. IX.–XIV. kafla laga um meðferð sakamála skuli ávallt fylgja skriflegur rökstuðningur.

Um 26. gr.


    Með það að markmiði að greiða fyrir því að dómar verði stuttir og glöggir eins og áskilið er í 2. mgr. 183. gr. laga um meðferð sakamála er lagt til að gerðar verði breytingar á orðalagi d- og e-liðar í þeirri málsgrein. Í fyrsta lagi er lagt til að tekið verði fram að í dómi skuli ekki gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna nema að því leyti sem þörf krefji til úrlausnar máls. Þetta þýðir að almennt ætti ekki að vísa til framburðar ákærða og vitna hjá lögreglu nema í undantekningartilvikum og þá til skýringar og fyllingar því sem fram kemur hjá þeim við skýrslugjöf fyrir dómi, sbr. meginregluna í 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð sakamála um að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, svo og 3. mgr. 122. gr. laganna, sbr. 3. mgr. 114. gr. þeirra. Jafnframt ætti ekki að víkja að framburði vitnis fyrir dómi ef hann hefði enga þýðingu við úrlausn málsins. Þá er í öðru lagi kveðið á um að fram þurfi að koma í dómi við hvaða sönnunargögn og rök ákæra sé studd, en ekki einstök ákæruatriði eins og nú er. Með þessu móti væri unnt að vísa til röksemda og sönnunargagna í einu lagi í dómi ef sakargiftir eru sama eðlis eins og oft er raunin. Einnig er gert ráð fyrir að andsvör ákærða við röksemdum og sönnunarfærslu ákæruvaldsins verði aðeins reifuð að því marki sem þörf krefur við úrlausn málsins.

Um 27. gr.


    Í 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála er svo fyrir mælt að játi ákærði skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök og dómari telji ekki ástæðu til að draga játninguna í efa skuli hann að jafnaði þá þegar taka málið til dóms. Þótt dómur í slíku máli skuli vera einfaldur að allri gerð, svo sem ráðið verður af 4. mgr. 183. gr. laganna, tekur yfirleitt nokkurn tíma að ganga frá honum. Þar sem í 3. mgr. 185. gr. er fortakslaust kveðið á um að dómur verði ekki birtur fyrir ákærða nema honum standi til boða endurrit dómsins er því sjaldnast unnt að birta dóm í játningarmáli í sama þinghaldi og málið er tekið til dóms, enda þótt þá liggi oftast nær fyrir hver viðurlög við brotinu verða. Þetta er bagalegt þar sem skylt er að boða ákærða til nýs þinghalds til uppkvaðningar dóms og eftir atvikum birta honum dóminn. Til þess að komast hjá því og gera dómara kleift að taka málið til dóms og birta ákærða dóminn í sama þinghaldi, ef til vill að loknu stuttu þinghléi þar sem dómari tekur ákvörðun um viðeigandi viðurlög fyrir brotið, er lagt til að dómur í slíku máli teljist nægilega birtur fyrir ákærða með því að dómsorðið sé lesið upp, enda þótt endurrit sjálfs dómsins standi honum þá ekki til boða.

Um 28. gr.


    Þessa grein leiðir af breytingu á formi úrskurða skv. 25. gr. frumvarpsins og þarfnast hún ekki frekari skýringa.

Um 29. gr.


    Í 211. gr. laga um meðferð sakamála er kveðið á um skilyrði fyrir endurupptöku þeirra mála. Þar er ekki gert ráð fyrir að mál verði endurupptekið í þeim tilfellum þegar dómfelldi er látinn. Í sérstökum tilvikum geta verðið efni til að heimila aðstandendum að óska endurupptöku máls þegar dómfelldi er látinn og má nefna að slíka heimild er að finna í norskum rétti. Hér er lagt til að maka, börnum, foreldrum eða systkinum hins látna verði heimilt að óska eftir endurupptöku sakamáls. Rétt þykir að binda þessa heimild við nánustu aðstandendur dómfellda. Þegar leitað er endurupptöku á þessum grundvelli verður einhverju af þeim skilyrðum sem talin eru í 1. mgr. 211. gr. að vera fyrir hendi. Jafnframt verður að gera kröfu til þess að sérstaklega standi á til þess að heimilt verði að endurupptaka mál við þessar aðstæður. Við mat á því hvort fallist verði á endurupptöku skiptir máli hvort langur tími hefur liðið frá því að dómur gekk. Því lengra sem liðið er frá dómi þeim mun þyngri rök þarf til að fallist verði á endurupptöku og ekki kemur til álita að endurupptaka fjörgömul mál. Þá mælir það með endurupptöku vegna látins manns ef fallist verður á endurupptöku mála annarra sem eru á lífi og hlotið hafa dóm vegna sama máls.

Um 30. gr.


    Þegar ákvæðum laga um meðferð sakamála um endurupptöku óáfrýjaðs máls og máls sem dæmt hafði verið í Hæstarétti var breytt með lögum nr. 15/2013, þar sem sérstakri stjórnsýslunefnd, endurupptökunefnd, var fengið það hlutverk að taka ákvörðun um endurupptöku slíkra mála í stað Hæstaréttar, láðist að taka fram hver skyldi taka ákvörðun um þóknun lögmanns dómfellda eða ákærða vegna starfa hans fyrir nefndinni. Eðlilegast er að endurupptökunefnd ákveði þóknunina og jafnframt að ákvörðunin sé endanleg þannig að hún verði hvorki borin undir ráðherra né dómstóla. Að auki eru lagðar til breytingar á orðalagi 1. mgr. 123. gr. laganna um meðferð sakamála svo að hún verði skýrari, en þær fela ekki í sér neinar efnisbreytingar frá núgildandi lögum.

Um 31. gr.


    Með þessari grein er lagt til að héraðsdómari geti afgreitt aðfararbeiðni, sem sætir meðferð skv. 13. kafla laga um aðför, nr. 90/1989, með ákvörðun ef beiðnin er að öllu leyti tekin til greina. Þetta er einfaldari afgreiðsla en að kveða upp rökstuddan úrskurð og greiðir fyrir úrlausn þessara mála. Þetta verður ekki talið koma niður á réttaröryggi gerðarþola og má geta þess að afgreiðsla af þessu tagi á sér hliðstæðu í 113. gr. laga um meðferð einkamála við úrlausn mála þar sem útivist hefur orðið af hálfu stefnda.

Um 32. gr.


    Með lögum nr. 95/2010 var lögfest heimild til að taka bú skuldara til gjaldþrotaskipta á þeim grundvelli að ógjaldfærni hans hefði verið leidd í ljós með því að ekki væri sinnt áskorun lánardrottins um að skuldari lýsti því yfir skriflega að hann væri greiðslufær, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti, o.fl. Markmiðið með þessari heimild var að leitast við að greiða fyrir því að bú skuldara yrði tekið til skipta ef skilyrði þess væru að öðru leyti fyrir hendi. Þessi heimild lánardrottins til að krefjast gjaldþrotaskipta er þó ekki bundin neinum tímatakmörkum eins og á við um gjaldþrotaskipti á grundvelli árangurslausrar kyrrsetningar, löggeymslu eða fjárnáms, en þá verður gerðin að hafa farið fram á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 65. gr. laganna. Engin efni eru til að heimild lánardrottins sé rýmri að þessu leyti þegar hann krefst gjaldþrotaskipta á grundvelli þess að skuldari sinni ekki áskorun um að lýsa yfir að hann sé greiðslufær. Er því lagt til að sú heimild verði bundin því að krafa um gjaldþrotaskipti berist héraðsdómi innan þriggja mánaða frá því áskorunin var birt skuldara.

Um 33. gr.


    Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er svo fyrir mælt að dómþing skuli að jafnaði háð í heyranda hljóði og í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er boðið að dóm skuli kveða upp í heyranda hljóði. Í samræmi við þessa meginreglu réttarfars um opinbera málsmeðferð hefur tíðkast allt frá stofnun Hæstaréttar Íslands að dómar hans séu birtir opinberlega ásamt viðeigandi úrlausnum héraðsdómstóla. Allt frá árinu 1935 hefur verið kveðið á um það í lögum, nú síðast í 2. mgr. 11. gr. laga um dómstóla, að dómar Hæstaréttar skuli gefnir út, en með a-lið þessarar greinar er lagt til að sú skipan verði lögfest að þær úrlausnir héraðsdómstóla, hvort sem eru dómar eða úrskurðir, sem til úrlausnar eru fyrir réttinum hverju sinni skuli jafnframt gefnir út. Þegar dómar Hæstaréttar hafa verið birtir hefur verið venja að nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um mikilvægustu almannahagsmuni á borð við öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari. Hefur þá verið fylgt óformlegum reglum sem myndast hafa um það efni. Með b-lið er gerð tillaga um að framvegis setji Hæstiréttur um þetta formlegar reglur sem birtar verði þannig að ljóst sé eftir hverju er farið þegar slíkar viðkvæmar upplýsingar eru fjarlægðar.

Um 34. gr.


    Í lögum hefur ekki verið kveðið á um útgáfu héraðsdóma með sama hætti og hæstaréttardóma. Eftir að héraðsdómstólarnir hófu að birta dóma og jafnvel úrskurði sína á vefsíðum hefur verið farið eftir ólíkum reglum í því efni frá einum dómstól til annars. Á síðari árum hefur dómstólaráð leitast við að samræma þessar reglur, en ekki tekist það sem skyldi, m.a. vegna þess að engar lagareglur hafa gilt um hvort og þá hvaða úrlausnir héraðsdómstóla skuli gefnar út og við hvaða sjónarmið skuli styðjast við að afmá úr þeim viðkvæm atriði sem eðlilegt er að leynt skuli fara með tilliti til einka-, fjárhags- og viðskiptahagsmuna einstaklinga og lögpersóna eða þýðingarmikilla almannahagsmuna á borð við öryggi ríkisins og varnarmál. Með þessari grein er lagt til að úr þessu verði bætt. Í fyrsta lagi verði svo fyrir mælt, í samræmi við meginregluna um opinbera málsmeðferð fyrir dómi, að dómar héraðsdómstóla skuli að meginstefnu gefnir út, sbr. 1. mgr. Vakin skal athygli á því að með þessu er ekki gert ráð fyrir að úrskurðir um margvísleg efni sem kveðnir eru upp í héraði verði gefnir út og mundi það því aðeins verða gert að þeim yrði skotið til Hæstaréttar, sbr. 29. gr. frumvarpsins. Útgáfa héraðsdóma getur eftir sem áður verið í formi birtingar dómanna á vefsíðum dómstólanna og er lagt til að um tilhögun útgáfunnar fari eftir ákvörðun dómstólaráðs að fengnu samþykki ráðherra. Í 2. mgr. er að finna undantekningar frá fyrrgreindri meginreglu. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að héraðsdómar í einkamálum sem varða viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna og umgengni við þau, skuli ekki gefnir út. Þeir mundu því aðeins verða gefnir út ef þeim yrði skotið til Hæstaréttar. Þá er í öðru lagi lagt til að við útgáfu annarra héraðsdóma skuli nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari, en áþekk regla gildir þegar endurrit af dómum og öðrum úrlausnum eru afhent öðrum en aðilum máls, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála og 3. mgr. 16. gr. laga um meðferð sakamála. Í því skyni að gæta þessara brýnu einka- og almannahagsmuna er gerð tillaga um að í dómum í sakamálum skuli gætt nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, jafnt einstaklinga sem lögpersónur, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur nema í þeim tilvikum þegar sakfelldi er barn. Einnig skuli gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða er til. Slíkt kæmi þó ekki að neinu haldi nema jafnframt væru afmáð önnur atriði úr dómi sem tengt geta aðila, aðra menn og lögpersónur við sakarefnið, svo sem heimilisfang þeirra og atvinnu ef um það væri að ræða. Í niðurlagi 2. mgr. er lagt til að fela dómstólaráði að setja nánari reglur um hvaða dómar skuli ekki gefnir út samkvæmt framansögðu og hvernig standa skuli að brottnámi upplýsinga úr öðrum dómum.

Um 35. gr.


    Í 1. mgr. 34. gr. laga um dómstóla er kveðið á um að endurupptökunefnd sé sjálfstæð stjórnsýslustofnun. Ekki er í lögskýringargögnum að finna ástæðu fyrir því að kveðið sé á um að nefndin sé stofnun. Verður ekki önnur ályktun dregin af lögskýringargögnum en að ætlunin hafi verið að kveða á um að nefndin nyti fulls sjálfstæðis og hlutleysis í störfum sínum og væri undanþegin stjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra. Er hér því lagt til að orðalag ákvæðisins verði fært til samræmis við þá stöðu sem nefndin hefur, þ.e. að vera sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd en ekki stofnun með forstöðumann. Er þá skýrt kveðið á um að nefndin lýtur ekki stjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra við meðferð einstakra mála.

Um 36. gr.


    Ákvæði frumvarpsins um gildistöku þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála,
lögum um meðferð sakamála, lögum um aðför, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.
og lögum um dómstóla (einföldun réttarfars).

    Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að auka skilvirkni við afgreiðslu dómsmála með því að einfalda reglur og auka hraða í málsmeðferð. Samhliða því eru gerðar nokkrar tillögur um breytingar til samræmingar og lagfæringar á nokkrum ákvæðum réttarfarslaga. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða skýrslutökur af börnum þar sem lagt er til að skýrslutökur fari ávallt fram í sérútbúnu húsnæði utan dómhúss nema hagsmunir brotaþola kalli á annað. Þá verði skýrt kveðið á um hver taki ákvörðun um þóknun til lögmanns dómfellda eða ákærða en hér er um að ræða skýringar á ákvæðum sem þegar eru í gildi. Þá er í frumvarpinu lagt til að sérstaklega verði kveðið á um heimildir til birtinga á niðurstöðum héraðsdóma og að settar verði reglur um afmáningu viðkvæmra upplýsinga. Dómar héraðsdóms hafa hingað til verið birtir en hins vegar hafa ekki verið fyrir hendi lagaákvæði um slíka birtingu eða hvernig fara skuli með birtingu á viðkvæmum upplýsingum.
    Í frumvarpinu er sem fyrr segir gert ráð fyrir að skýrslutökur yfir börnum yngri en 15 ára skuli að jafnaði fara fram í sérútbúnu húsnæði sem sé staðsett annars staðar en í dómhúsi. Á höfuðborgarsvæðinu fara flestar skýrslutökur nú þegar fram í Barnahúsi. Víða á landsbyggðinni hefur þótt hentugra að fá sérfróðan aðila frá Barnahúsi til að taka skýrslu í sérútbúnu húsnæði dómstólsins heldur en að senda alla aðila málsins til höfuðborgarinnar með ærnum tilkostnaði og raski. Í núgildandi lögum er heimild fyrir dómara til að láta skýrslutökur yfir börnum fara fram í sérútbúnu húsnæði utan dómhúss en í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði skýrar á um að þetta sé skylda nema þegar það er mat dómara að hagsmunir barnsins krefjist þess að skýrslutökur fari fram annars staðar. Ekki er gert ráð fyrir að þessar breytingar hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, enda er sérútbúin aðstaða þegar til staðar á nokkrum stöðum á landsbyggðinni.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að numið verði á brott það ákvæði að ráðherra kveði á um tímagjald sem miða skuli við þegar verjendum og réttargæslumönnum brotaþola er ákveðin þóknun fyrir störf sín. Ákvæðinu var breytt í þetta horf með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, og var gert ráð fyrir að árlegur sparnaður yrði um 90 m.kr. á ári vegna þeirra breytinga. Með þessum aðgerðum var tímagjaldið lækkað úr 11.200 kr. í 10.000 kr. og hefur það staðið óbreytt síðan. Þessi ráðstöfun var gerð m.a. sökum þess að opinber málskostnaður hafði verið verulega umfram heimildir fjárlaga árum saman og tókst með því og öðrum ráðstöfunum að draga úr þeim halla árin 2010 og 2011 en síðan hefur hann farið vaxandi og er orðinn meiri en áður. Halli hefur verið á þessum málaflokki samfellt frá árinu 2007 og nemur uppsafnaður halli á þessu tímabili liðlega 1 milljarði kr. á föstu verðlagi.
    Reglugerð sem sett var á grundvelli ákvæða um heimild ráðherra til ákvörðunar tímagjaldsins var í september felld úr gildi og áttu þá viðmiðunarreglur dómstólaráðs að taka við eins og áður hafði verið. Raunin hefur orðið sú að einhverjir dómarar telja heimild dómstólaráðs til setningar slíkra reglna ekki nógu trausta og hafa því ekki verið að fylgja viðmiðunarreglunum. Þá telja lögreglustjórar nauðsynlegt að fá skýra heimild til að fylgja reglum dómstólaráðs. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir snúið verði til fyrra horfs með því að dómstólaráð setji reglur um tímagjald sem taka skal mið af við ákvörðun þóknunar. Engin ákvæði eru þó sett um viðmið eða forsendur fyrir ákvörðun tímagjaldsins né hámark þess. Í dómstólaráði eiga sæti fimm menn og þar af eru fjórir löglærðir dómarar en einn fulltrúi sem ekki skal vera starfandi dómari.
    Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er ekki ljóst hvort dómstólaráð muni hækka viðmiðunarfjárhæðina eða hversu mikið hún verði hækkuð komi til þess. Verði það úr að dómstólaráð hækki fjárhæðina mun það auka kostnað ríkissjóðs vegna sakamála og áætlar ráðuneytið að hækkun gjaldsins um hverjar 1.000 kr. muni auka kostnað ríkissjóðs um 50 m.kr. frá því sem nú er. Hækki gjaldið í 15.000 kr. yrði kostnaðarauki ríkissjóðs samkvæmt þessu um 250 m.kr. og 500 m.kr. ef gjaldið yrði hækkað í 20.000 kr. Kostnaður ríkissjóðs vegna þessara verkefna hefur verið greiddur af fjárlagalið 06-231, málskostnaður í opinberum málum. Í ríkisreikningi 2013 voru gjöld þessa fjárlagaliðar tæpir 1,2 milljarðar kr. og hefur verið mikill rekstrarhalli á liðnum árum eins og áður segir en lögfræðikostnaður er um helmingur af útgjöldum liðarins.
     Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins væri ekki heppilegt að hverfa frá því fyrirkomulagi að framkvæmdarvaldið hafi forræði um tímagjald verjenda í sakamálum, sem tekið var upp að vel athuguðu máli með hliðsjón af tillögum nefndar á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins en nefndin gerði ítarlega athugun á þessum og öðrum útgjaldaþáttum opinbers málskostnaðar til að gera ráðuneytinu betur kleift að draga úr útgjaldavexti í þessum málaflokki. Við ákvörðun gjalda af þessum toga getur ráðherra tekið mið af almennum verðlagsforsendum fjárlaga sem lagðar eru til grundvallar fjárheimildum hverju sinni. Hins vegar eru dæmi um það á árum áður að dómstólaráð hækkaði tímagjaldið mjög verulega og án tillits til fjárheimilda, eða t.d. um 20% árið 2002 og um 13% árið 2005.
    Útgjaldaáhrif frumvarpsins snúa fyrst og fremst að því að gert er ráð fyrir að dómstólaráð, í stað ráðherra, ákvarði framvegis tímagjald verjenda og réttargæslumanna. Telja má allnokkrar líkur á því að tímagjaldið verði hækkað frá því sem nú er. Gangi það eftir má gera ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna málskostnaðar í opinberum málum geti aukist umtalsvert en sem fyrr segir er áætlað að hækkun gjaldsins um hverjar 1.000 kr. geti aukið kostnað ríkissjóðs vegna þessara mála um 50 m.kr. Ekki er þó hægt að segja fyrir um hver kostnaðaráhrifin verða þar sem ekki liggur fyrir hvort eða þá hversu mikil gjaldskrárhækkunin verður. Að öðru leyti verður ekki séð að frumvarp þetta muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.