Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1080  —  625. mál.




Fyrirspurn



til heilbrigðisráðherra um lyf og greiðsluþátttökukerfi.

Frá Steinunni Þóru Árnadóttur.


1.      Hver yrði kostnaður ríkissjóðs af því að fella sýklalyf fyrir 18 ára og eldri undir greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum? Hefur ráðherra vilja til að gera slíka breytingu til að koma til móts við fólk sem þarf reglulega á sýklalyfjum að halda vegna endurtekinna sýkinga?
2.      Hver yrði kostnaður ríkissjóðs af því að breyta skráningu á hjálpartækjum sem eru fólki nauðsynleg til að taka inn lyf þannig að þau heyrðu undir greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum? Hefur ráðherra vilja til að gera slíka breytingu?
3.      Hyggst ráðherra auka sveigjanleika í útgáfu lyfjaskírteina og koma til móts við langveika einstaklinga sem hafa mikil útgjöld vegna lyfja sem þeir þurfa að nota að staðaldri vegna fylgikvilla sjúkdóma þannig að svokölluð núllmerkt lyf, svo sem sýklalyf, róandi og kvíðastillandi lyf, verkjalyf, svefnlyf og hægðalyf, geti fallið undir greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum?
4.      Hyggst ráðherra leggja til að lyf fari í lægra þrep virðisaukaskatts til að draga úr lyfjakostnaði einstaklinga?


Skriflegt svar óskast.