Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1206  —  537. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Erni Ágústssyni
um þjóðhagslega hagkvæmni byggðaaðgerða.


     1.      Hefur farið fram mat eða rannsókn á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að styðja við byggðarlög?
    Fjölmargar ­rannsóknir hafa verið gerðar á ákveðnum aðgerðum sem gripið hefur verið til til stuðnings við byggðarlög og búsetu, sjá nánar 2. tölul.

     2.      Hefur farið fram mat á gagnsemi mismunandi byggðaaðgerða?

    Lagt hefur verið mat á framkvæmd og árangur einstakra byggðaaðgerða. Skýrslur, greinar og úttektir sem Byggðastofnun hefur unnið um efnið eða látið vinna fyrir sig er að finna á vef Byggðastofnunar.
    Eftirfarandi eru einstök dæmi:
    Gert hefur verið mat á árangri lánastarfsemi Byggðastofnunar og ýmsum aðgerðum sem ráðist hefur verið í af hálfu ríkisins á undanförnum árum, svo sem mótvægisaðgerðum vegna þorskaflaskerðingar sem gripið var til árið 2008. Einnig hefur farið fram mat á árangri vaxtarsamninga og verið er að leggja mat á árangur verkefnisins Brothættar byggðir. Einnig er unnið að mati á hverju hinir mismunandi „byggðapottar“ í sjávarútvegi hafa skilað og nýbúið er að gera skýrslu um svokallað aflamark Byggðastofnunar (Vífill Karlsson).
    Á árunum 2004–2009 fór fram viðamikil rannsókn á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi. Hún var unnin á grunni þingsályktunar frá 2003 af Byggðarannsóknastofnun Íslands fyrir iðnaðarráðuneytið og Byggðastofnun.
    Þá er ástæða til að benda á nýlega rannsókn á áhrifum Héðins­fjarðarganga sem unnin var af sérfræðingum við Háskólann á Akureyri undir heitinu Sam­göngubætur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðins­fjarðarganga á mannlíf á norðanverðum Tröllaskaga.
    Gerð var viðamikil úttekt á þátttöku Íslands í Norðurslóðaáætlun 2002–2006 og árangur af þeirri þátttöku metinn. Skrifstofa Norðurslóðaáætlunarinnar lét síðar framkvæma árangursmat fyrir áætlunartímabilið 2007–2013 sem kom út í september 2014. Þar var tekið úrtak verkefna og árangur þeirra metinn, áhrif verkefnanna á hlutaðeigandi samfélög og metnir þættir sem leiddu til árangurs verkefna.
    Mat hefur verið unnið á samfélagsáhrifum einstakra stórra framkvæmda, svo sem álvers í Reyðarfirði, Hvalfirði, á Keilisnesi og Dysnesi.
    OECD vann fyrir NORA (North Atlantic Cooperation) skýrsluna OECD Territorial Reviews: NORA Region 2011: The Faroe Islands, Greenland, Iceland and coastal Norway sem kom út árið 2011. Í skýrslunni er víðtækur samanburður á atvinnu- og byggðaþróun á framangreindum svæðum og snertir samanburðurinn að ýmsu leyti aðgerðir sem hafa áhrif á byggðaþróun.
    Þá má einnig nefna að Nordregio, sem er samnorræn rannsóknastofnun Norðurlandanna á sviði byggða­mála, hefur gert nokkrar skýrslur sem fjalla um byggðaþróun og byggðaaðgerðir á Norðurlöndunum og þar með talið Íslandi.