Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1285  —  625. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur
um lyf og greiðsluþátttökukerfi.


     1.      Hver yrði kostn­aður ríkissjóðs af því að fella sýklalyf fyrir 18 ára og eldri undir greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum? Hefur ráðherra vilja til að gera slíka breytingu til að koma til móts við fólk sem þarf reglulega á sýklalyfjum að halda vegna endurtekinna sýkinga?
    Sýklalyf í flokki J01 falla undir greiðsluþátttökukerfið án takmarkana fyrir börn undir 18 ára aldri. Sýklalyf í flokki J01 eru 0-merkt, þ.e. án greiðsluþátttöku hjá fullorðnum. Þó er hægt að sækja um lyfjaskírteini þegar um endurteknar sýkingar eða meðferð í lengri tíma er að ræða og falla lyfin þá undir greiðsluþátttökukerfi lyfja á sama hátt og önnur lyf.
    Miðað við kostnaðartölur frá 2014 yrði kostn­aðurinn á bilinu 300–350 millj. kr. ef sýklalyf í flokki J01 yrðu felld undir greiðsluþátttökukerfið án takmarkana.
    Að svo stöddu eru engar breytingar fyrirhugaðar á þessu fyrirkomulagi þar sem það rúmast ekki innan þeirra fjárheimilda sem fjárlög heimila.

     2.      Hver yrði kostn­aður ríkissjóðs af því að breyta skráningu á hjálpartækjum sem eru fólki nauðsynleg til að taka inn lyf þannig að þau heyrðu undir greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum? Hefur ráðherra vilja til að gera slíka breytingu?
    Í núverandi greiðsluþátttökukerfi getur mjög mikill kostn­aður fallið á notendur heilbrigðisþjónustu svo að þungbært getur orðið fyrir hinn sjúkratryggða. Hinn 28. ágúst 2013 var skipuð nefnd undir formennsku Péturs H. Blöndal alþingismanns sem falið var að gera tillögu að nýju greiðsluþátttökukerfi. Hugsunin á bak við nýtt greiðsluþátttökukerfi er fyrst og fremst að koma í veg fyrir þetta með því að þak verði sett á kostnað þeirra sem þurfa á mikilli þjónustu að halda. Líta má á nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja sem fyrsta skref í átt til heildstæðrar breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga.
    Í eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir þau hjálpartæki sem falla undir reglugerð nr. 1155/ 2013 um styrki vegna hjálpartækja og snýr að lyfjatöku. Sjá má heiti tækis, hlutfall greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í tækjum, fjölda samþykkta/virkra notenda með innkaupaheimild fyrir tækjunum á árunum 2013 og 2014 svo og útgjöld sjúkratrygginga árin 2013 og 2014 sundurliðað eftir tækjum.








Yfirlit yfir hjálpartæki sem falla undir reglugerð nr. 1155/2013
um styrki vegna hjálpartækja og snýr að lyfjatöku.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Út frá töflunni má reikna með að hlutur notenda í þessum hjálpartækjum hafi verið um 13% árið 2014 eða 85 millj. kr. Í greiðsluþátttökukerfi lyfja eru notendagjöld þrepaskipt eftir því hve mikið er keypt yfir árið, 100%, 15% eða 7,5% (0% með skírteini). Ekki er unnt að sjá nákvæmlega fyrir í hvaða þrepum notendur hjálpartækjanna mundu lenda nema með samkeyrslu kennitalna.
    Ráðherra telur eðlilegt að horft sé til framangreindra þátta við gerð nýs greiðsluþátttökukerfis.

     3.      Hyggst ráðherra auka sveigjanleika í útgáfu lyfjaskírteina og koma til móts við langveika einstaklinga sem hafa mikil útgjöld vegna lyfja sem þeir þurfa að nota að staðaldri vegna fylgikvilla sjúkdóma þannig að svokölluð núllmerkt lyf, svo sem sýklalyf, róandi og kvíðastillandi lyf, verkjalyf, svefnlyf og hægðalyf, geti fallið undir greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum?
    Skv. 1., 5. og 6. tölul. 11. gr. reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnað, nr. 313/2013, er Sjúkratryggingum Íslands m.a. heimilt samkvæmt umsókn frá lækni sjúkratryggðs að ákvarða einstaklingsbundna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna kaupa á lyfjum í eftirfarandi tilvikum:
    –        Þegar sjúkratryggðum er brýn nauðsyn að nota um lengri tíma lyf sem sjúkratryggingar greiða ekki. Sjúkratryggingum Íslands er þá heimilt að taka þátt í lyfjakostnaði viðkomandi skv. 4. og 6. gr.
    –        Þegar sjúkratryggður af brýnum læknisfræðilegum ástæðum þarf að nota til dæmis húðkrem, augndropa, vítamín eða sambærilegar vörur, er Sjúkratryggingum Íslands heimilt að taka þátt í kostnaði viðkomandi skv. 4. og 6. gr.
    –        Þegar sjúkratryggður af brýnum læknisfræðilegum ástæðum þarf að nota lyf sem veitt hefur verið undanþága fyrir, þ.e. lyf án markaðsleyfis og lyf með markaðsleyfi en hefur ekki verið markaðssett, skv. 7. mgr. 7. gr. lyfjalaga eða forskriftarlyf læknis. Sjúkratryggingum Íslands er þá heimilt að taka þátt í lyfjakostnaði viðkomandi skv. 4. og 6. gr.
    Þessi reglugerðarákvæði veita verulegan sveigjanleika í útgáfu lyfjaskírteina m.a. til að koma til móts við langveika einstaklinga sem hafa mikil útgjöld vegna lyfja sem þeir þurfa að nota að staðaldri vegna fylgikvilla sjúkdóma, svo sem sýklalyf, róandi og kvíðastillandi lyf, verkjalyf, svefnlyf og hægðalyf. Ráðherra útilokar ekki að gera frekari breytingar til að koma til móts við langveika einstaklinga með mikil útgjöld.

     4.      Hyggst ráðherra leggja til að lyf fari í lægra þrep virðisaukaskatts til að draga úr lyfjakostnaði einstaklinga?

    Við þær breytingar sem gerðar voru á virðisaukaskatti um síðustu áramót var rætt um þennan möguleika en ekki varð af því. Ráðherra mun taka þetta mál aftur upp þegar næst verða ræddar breytingar á virðisaukaskattskerfinu.
    Virðisaukaskattur á lyfjum lækkaði um síðustu áramót úr 25,5% í 24%. Auk þess voru þök á árlegum hámarkskostnaði og greiðsluþrep lækkuð um 10% samkvæmt reglugerð sem ráðherra gaf út og tók gildi 1. janúar sl. Þak á árlegum hámarkskostnaði lyfjanotenda lækkaði hjá almennum notendum úr 69.416 kr. í 62.000 kr. og hjá börnum og lífeyrisþegum og ungmennum yngri en 22 ára úr 46.277 kr. í 41.000 kr.
    Jafnframt því sem hámarksþök lyfjakostnaðar á tólf mánaða tímabili lækkaði um 10% lækkuðu að sama skapi fjárhæðir afsláttarþrepa í lyfjagreiðslukerfinu. Full greiðsluþátttaka almenns lyfjanotanda sem miðaðist við 24.075 kr. en lækkaði niður í 22.000 kr. og hjá börnum og lífeyrisþegum fór þessi fjárhæð úr 16.050 kr. í 14.500 kr. Lyfjagreiðslukerfið miðast við að notendur borgi lyf sín að fullu þar til ákveðinni fjárhæð eða 1. þrepi er náð, en þá greiða sjúkratryggingar 85% af verði lyfjanna á móti 15% hlutdeild sjúklings upp að næsta þrepi og eftir það greiða sjúkratryggingar 92,5%% af verði lyfjanna á móti 7,5% hlutdeild sjúklings þar til hámarksárþökum er náð. Það sem eftir lifir ársins greiða sjúkratryggingar 100% af lyfjakostnaði umfram hámarksþakið.