Ferill 716. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1288  —  716. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um augasteinsaðgerðir.


     1.      Hvernig hafa biðlistar eftir augasteinsaðgerðum þróast undanfarin tvö ár með tilliti til fjölda og biðtíma og hve margir einstaklingar eru nú á biðlista eftir slíkum aðgerðum?
    Í töflu hér á eftir eru upplýsingar frá embætti landlæknis um fjölda þeirra sem bíða eftir augasteinsaðgerð og áætlaðan biðtíma eftir aðgerð. Augasteinsaðgerðir eru framkvæmdar á Landspítala (LSH), Sjúkrahúsi Akureyrar (SAK) og tveimur einkastofum, Sjónlagi og Lasersjón.
    Fremri hluti töflunnar sýnir fjölda sem bíða þurfti lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð. Fyrsta mæling er frá október 2012 og sú siðasta frá febrúar 2015. Á þessu tímabili fór fjöldinn úr 1.220 í 2.861 samkvæmt tölum embættis landlæknis. Við samanburð þarf að gæta þess að talning breyttist árið 2015 þannig að farið var að miða alls staðar við fjölda aðgerða en fram að þeim tíma miðuðu einkastofur biðlista við fjölda einstaklinga. Sambærileg tala og fyrri árin vegna febrúar 2015 gæti verið um 2.360 á biðlista. Síðari hluti töflunnar sýnir áætlaða bið eftir aðgerð yfir sama tímabil.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hversu margir einstaklingar hafa undanfarin tvö ár greitt augasteinsaðgerðir sínar að fullu úr eigin vasa, hversu margir að hluta og hversu margir hafa fengið þær gerðar fyrir fé úr sam­eigin­legum sjóði landsmanna? Óskað er eftir sundurliðun og nákvæmu yfirliti yfir skiptingu kostnaðar.
     3.      Hversu hár er að meðaltali kostn­aður við augasteinsaðgerðir sem gerðar eru fyrir ríkisfé og hversu margar slíkar aðgerðir hafa verið gerðar undanfarin tvö ár?

    Einkafyrirtæki sem framkvæma augasteinsaðgerðir sem einstaklingar greiða að fullu úr eigin vasa, Lasersjón og Sjónlag, neituðu að gefa upplýsingar um aðgerðirnar. Svarið nær því aðeins til aðgerða sem gerðar eru fyrir fé úr sam­eigin­legum sjóði landsmanna, þ.e. með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Fjöldi einstaklinga sem gengist hefur undir aðgerð kemur fram í dálki 2 í eftirfarandi töflu. Hlutdeild einstaklinga í kostnaði við aðgerðir kemur fram í dálki 6. Tekið skal fram að kostnaðarhlutdeild er mismunandi eftir stöðu sjúkratryggðs (t.d. almennur eða örorklífeyrisþegi) og hvort viðkomandi er kominn með afsláttarskírteini þegar aðgerð er framkvæmd. Af þessum sökum getur kostnaðarhlutdeild verið mismunandi milli þjónustustuveitenda.
    Í dálki 3 í töflu kemur fram meðalkostn­aður aðgerða, annars vegar þeirra sem gerðar eru á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og hins vegar aðgerða sjúkrahúsa. Hluti aðgerða á SAK er gerður á samningi við SÍ og falla undir þann lið í töflunni. Hvort auga telst ein aðgerð og kemur fjöldi aðgerða fram í dálki 1 í töflu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða, og þá hverra, til að bæta aðgengi að augasteinsaðgerðum sem greiddar eru úr sam­eigin­legum sjóði landsmanna?
    Fjöldi augasteinsaðgerða ræðst af fjárheimildum fjárlaga hvert ár. Að óbreyttum fjárlögum fyrir árið 2015 verður ekki um fjölgun þessara aðgerða að ræða, en ráðuneytið skoðar nú leiðir til að bæta aðgengi að augasteinsaðgerðum með það að markmiði að stytta biðlista.