Ferill 784. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1597  —  784. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um móttökustöð fyrir hælisleitendur.


     1.      Er hafinn undir­búningur að uppbyggingu móttökustöðvar fyrir hælisleitendur að norrænni fyrirmynd?
    Útlendingastofnun gerir ráð fyrir að opna tímabundna móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd um miðjan júlí nk. Móttökumiðstöðin er liður í tilrauna- og þróunarverkefni innanríkisráðuneytisins og Útlendingastofnunar um að koma á einni komugátt fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og er mikilvægur þáttur í aukinni skilvirkni og mannúð í málefnum umsækjenda um vernd hér á landi. Útlendingastofnun hefur þegar tekið á leigu húsnæði að undangengnu útboði. Markmiðið er að vinna að betri nýtingu fjármagns, einfalda verkferla, samþætta hlutverk stofnana sem koma að greiningarvinnu og móttöku og um leið bæta aðstæður og um­hverfi þeirra sem hingað koma í leit að vernd.
    Að lokinni dvöl í móttökumiðstöð er gert ráð fyrir að fólkið fari til þeirra sveitarfélaga sem eru með samning við Útlendingastofnun um umönnun á biðtímanum, sem í dag eru Reykjanesbær og Reykjavíkurborg.
    Framtíðarfyrirkomulag þessara mála mun m.a. ráðast af þeirri reynslu sem verkefnið leiðir af sér.
    Þá er rétt að geta þess að þverpólitísk þingmannanefnd skipuð af innanríkisráðherra vinnur að gerð frumvarps til nýrra útlendingalaga sem mun verða lagt fyrir Alþingi á komandi haustþingi. Í drögum að frumvarpinu er m.a. að finna ítarlegri ákvæði um móttökumiðstöð og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd en er í núgildandi lögum.

     2.      Ef svo er, hefur verið gerð tímaáætlun um uppbygginguna og hefur kostn­aður við framkvæmdina verið metinn?
    Kostnaðargreining fyrir varanlega móttökumiðstöð liggur ekki fyrir að svo stöddu en sem fyrr segir er stofnun slíkrar miðstöðvar liður í umbótum í móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd og mikilvægur þáttur í aukinni skilvirkni og mannúð hér á landi. Markmiðið er m.a. að vinna að betri nýtingu fjármagns með því að gera íslenskt móttökukerfi skilvirkara og auka gæði þess kerfis sem tekur á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd. Ein komugátt tryggir skilvirkari afgreiðslu umsókna, komið verður á samræmdu og miðlægu mati á aðstæðum hvers umsækjanda, m.a. hættumati á þeim einstaklingum sem hingað koma, auk þess sem betri rannsókn á fyrri stigum málsmeðferðar stuðlar að því að auknar líkur séu á því að stjórnvald komist að réttri niðurstöðu og ekki þurfi að koma til óþarfa kærumeðferðar. Gert er ráð fyrir að varanleg móttökumiðstöð verði stofnuð á næsta ári, 2016, að loknu útboði. Tilkoma slíkrar móttökumiðstöðvar mun fela í sér ákveðinn stofnkostnað sem mun skila sér til baka með aukinni skilvirkni og auknum gæðum í málsmeðferð. Áætlað er að nákvæm kostnaðargreining varanlegs móttökuúrræðis og undir­búningur fyrir útboð þess efnis liggi fyrir í haust.
    Árangur og reynsla af tilraunaverkefni um móttökumiðstöð til eins árs verður lagður til grundvallar við mat á kostnaði og umfangi móttökumiðstöðvar til framtíðar.