Ferill 787. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1610  —  787. mál.
Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (nauðasamningar).

Frá meiri hluta efnahags- og við­skipta­nefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Tómas Brynjólfsson, Eirík Áka Eggertsson, Leif Arnkel Skarphéðinsson, Harald Steinþórsson, Hafdísi Ólafsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Má Guðmundsson, Arnór Sighvatsson, Rannveigu Júníusdóttur, Ragnar Á. Sigurðarson, Guðmund Sigurbergsson, Hrafnhildi Sæberg Þorsteinsdóttur og Kristjönu Jónsdóttur frá Seðlabanka Íslands, Benedikt Gíslason og Sigurð Hannesson úr framkvæmdahópi um afnám fjármagnshafta, Ásu Ólafsdóttur frá Háskóla Íslands, Ásgeir Jónsson og Hersi Sigurgeirsson frá Háskóla Íslands, Ara Skúlason og Gústaf Steingrímsson frá hagfræðideild Landsbankans, Jón Bjarka Bentsson frá greiningardeild Íslandsbanka, Önnu H. Ingimundardóttur og Hrafn Steinarsson frá greiningardeild Arion banka, Steinunni Guðbjartsdóttur og Pál Eiríksson frá slitastjórn Glitnis, Herdísi Hallmarsdóttur og Kristin Bjarnason frá slitastjórn LBI, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, Þröst Ríkharðsson, Theodór S. Sigurbergsson og Þórarin Þorgeirsson frá slitastjórn Kaupþings, Sigrúnu Guðmundsdóttur frá slitastjórn Saga Capital, Berglindi Svavarsdóttur og Daða Bjarnason frá slitastjórn SPB hf., Hlyn Jónsson og Jóhann Pétursson frá slitastjórn SPRON, Árna Ármann Árnason, Ágúst Kristinsson og Evu B. Helgadóttur frá slitastjórn Byrs sparisjóðs, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Björn B. Björnsson og Mörtu Blöndal frá Við­skipta­ráði Íslands, Þorbjörn Guðmundsson, Bryndísi Ásbjörnsdóttur og Ólaf Sigurðsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Önnu Mjöll Karlsdóttur og Jón Þór Sturluson frá Fjármálaeftirlitinu, Þorstein Víglundsson frá Samtökum atvinnulífsins, Almar Guðmundsson frá Samtökum iðnaðarins, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Aðalstein Hákonarson frá ríkisskattstjóra, Óttar Guðjónsson frá Lánasjóði sveitarfélaga, Óttar Pálsson og Odd Ástráðsson frá LOGOS lögmannsþjónustu, Gunnlaug Júlíusson og Karl Björnsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ingvar Rögnvaldsson frá ríkisskattstjóra og Helga Áss Grétarsson frá Háskóla Íslands.
    Umsagnir um málið bárust frá Akin Gump LLP og LOGOS lögmannsþjónustu, Alþýðusambandi Íslands, Bankasýslu ríkisins, Fjármálaeftirlitinu, InDefence, Íslandsbanka, Lánasjóði sveitarfélaganna, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, slitastjórn Byrs sparisjóðs, slitastjórn Glitnis, slitastjórn Kaupþings, slitastjórn LBI, slitastjórn SPB, slitastjórn SPRON og Við­skipta­ráði Íslands.

Um efni frumvarpsins og vinnu nefndarinnar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ásamt breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, og lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að auðvelda slitastjórnum að ljúka slitum fjármálafyrirtækja með nauðasamningum við kröfuhafa. Frumvarpinu er um leið ætlað að vera liður í skipulegri losun fjármagnshafta og er í samræmi við það markmið að við þá losun verði efnahags- og fjármálastöðugleika ekki ógnað.
    Í XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem fjallar um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja, er kveðið á um ýmis frávik frá málsmeðferðarreglum um nauðasamninga eins og þær birtast í 3. þætti laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Við samningu frumvarpsins og jafnframt þeirra breytingartillagna sem nefndin leggur til var horft til þeirrar fordæmalausu stöðu sem slitabú hinna föllnu fjármálafyrirtækja hafa staðið frammi fyrir og þess flækjustigs sem blasir við kröfuhöfum þeirra þegar kemur að því að þeir fái kröfum sínum fullnægt. Með frumvarpinu er því lagt til að málsmeðferðarreglur um gerð nauðasamninga fjármálafyrirtækja verði einfaldaðar nokkuð og Seðlabanka Íslands um leið veitt heimild til þess að veita viðtöku verðmætum í formi svokallaðs stöðugleikaframlags úr hendi fjármálafyrirtækja sem lokið hafa slitameðferð með staðfestum nauðasamningi. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi um stöðugleikaskatt, sem lagt er fram með sama markmið að leiðarljósi, þ.e. að hægt verði að afnema fjármagnshöft án þess að efnahags- og fjármálastöðugleika verði ógnað.
    Í vinnu nefndarinnar hafa fjölmörg atriði frumvarpsins verið tekin til skoðunar og í samræmi við eftirfarandi sjónarmið sem komu fram eru lagðar til ákveðnar breytingar á frumvarpinu. Vinna nefndarinnar hefur, með hliðsjón af þeim hagsmunum sem eru til staðar, tekið mið af sjónarmiðum um að tryggja að nauðasamningsferli fjármálafyrirtækja verði sem skilvirkast en þó með þeim hætti að ekki sé gengið á rétt minni kröfuhafa og að forsendum um efnahagslegan stöðugleika verði ekki vikið til hliðar.

Ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis í slitum.
A-liður 1. gr. – ábyrgðarleysi.
    Fyrir nefndinni kom fram ábending um að millivísanir í 1. og 2. málsl. a-liðar 1. gr. frumvarpsins væru rangar og ætlunin hafi verið vísa til 4. málsl. 2. mgr. Leggur nefndin þess vegna til breytingu því til leiðréttingar.
    Á fundi nefndarinnar með fulltrúum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kom fram að við gerð frumvarpsins var talið rétt að kveða skýrt á um heimild kröfuhafafundur til að samþykkja ábyrgðarleysi slitastjórnarmanna í tengslum við tilteknar ráðstafanir við gerð nauðasamnings. Í samræmi við reglur um vernd minni hluta kröfuhafa var þó ekki talið rétt að svipta þá sem greiða atkvæði gegn slíkum ráðstöfunum möguleikanum til að reyna á rétt sinn. Það gætu þeir sem samþykktu nauðasamning eða greiddu ekki atkvæði hins vegar ekki gert.
    Í umsögnum slitabúanna er gerð athugasemd við að ákvæði þetta gangi ekki lengra en hér er lagt til með því að kveða ekki ein­göngu á um ábyrgðarleysi slitastjórna heldur einnig skaðleysi þeirra. Af hálfu nefndarinnar er í þessu sambandi áréttað að ákvæðinu ekki ætlað að takmarka vald meiri hluta kröfuhafafundar samkvæmt gildandi lögum til þess að taka ákvörðun um skaðleysi og/eða tryggja slitastjórn skaðleysi vegna mögulegra málsókna vegna ákvarðana eða starfa hennar, ef til þeirra kemur. Einnig má hafa í huga að með ýmsum öðrum ráðstöfunum, t.d. samningum við kröfuhafa, kann að vera hægt að ná þeim markmiðum sem um ræðir í umsögnum slitabúanna.

C-liður 1. gr. – heimild fjármálafyrirtækis í slitum til lántöku og viðmið um hagsmuni kröfuhafa.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að til þess að geta lokið nauðasamningi gætu fjármálafyrirtæki í slitum þurft að afla fjármuna til þess að greiða forgangskröfuhöfum. Að mati nefndarinnar gætu slíkar ráðstafanir talist eðlilegar með hliðsjón af sérstöku eðli þeirra skipta sem um ræðir. Nefndin leggur því til að slitastjórnir fái heimild til gangast undir frekari fjárskuldbindingar sé það til hagsbóta fyrir kröfuhafa og í tengslum við nauðasamning. Nefndin leggur til breytingu á ákvæðinu sem endurspeglar framangreind sjónarmið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin áréttar að ef fjármálafyrirtæki í slitameðferð fer með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki gildir 29. gr. a laga nr. 161/2002 um slíkar lánveitingar. Þá geta lánveitingarnar fallið undir reglur laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og felur heimildin ekki í sér undantekningu frá þeim lögum.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um tilvísun c-liðar 1. gr. frumvarpsins til „hagsmuna kröfuhafa“. Umsagnaraðili benti á að enginn mælikvarði væri lagður til skýringar á umræddu hugtaki. Það er mat nefndarinnar að slíkt mat sé í höndum slitastjórnar og eftir atvikum kröfuhafafundar. Því má m.a. telja að ráðstöfun á eignum og réttindum fjármálafyrirtækis teljist þjóna hagsmunum kröfuhafa ef hún er samþykkt á kröfuhafafundi sem boðið er til í samræmi við ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Lok slitameðferðar fjármálafyrirtækja.
C-liður 2. gr. – tímaviðmið um atkvæðamagn vegna framsals krafna.
    Nefndin fjallaði um breytingar sem lúta að ákvörðun á atkvæðisrétti um frumvarp að nauðasamningi vegna framsals krafna. Frumvarpið mælir fyrir um að í stað þess að miðað sé við þrjá mánuði fyrir frestdag, sbr. 4. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sé miðað við stöðu krafna á þeim degi sem um ræðir í 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki. Í tilviki fjármálafyrirtækja var frestdagur ákveðinn sérstaklega með lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. einnig 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008, um breytingu á lögum nr. 161/2002.
    Reglum um frestdag við gjaldþrotaskipti er ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhafar misnoti reglur um atkvæðamagn við kosningu um frumvarp að nauðasamningi á kostnað annarra kröfuhafa með því að framselja kröfur, eða hluta þeirra, t.d. í þeim tilgangi að fjölga höfðatöluatkvæðum, þannig að kröfu sem einungis hefði átt að fylgja eitt höfðatöluatkvæði fylgja eftir framsalið tvö atkvæði. Með tillögu frumvarpsins um að færa fyrrgreint tímamark fram að þeim degi þegar bú fjármálafyrirtækis er tekið til slita var tekið mið af því að erfitt gæti verið að greina og staðreyna framsal krafna á hendur fjármálafyrirtæki í slitum þremur mánuðum fyrir frestdag. Í umsögnum slitastjórna voru færð fram efnisleg rök fyrir því að tímamarkið verði fært enn framar. Það markast ekki síst af þeirri staðreynd að kröfur á hendur búunum hafa gengið kaupum og sölum í mun meira mæli en áður hefur þekkst við slit eða nauðasamningsumleitanir íslenskra fyrirtækja og í sumum tilvikum kann að vera ómögulegt að greina hver hafi farið með kröfur á hendur fjármálafyrirtækjum fram að þeim tíma að kröfuhafi lýsti kröfu við slitin.
    Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum, þ.e. um tilgang þeirrar reglu sem um ræðir og erfiðleika við að staðreyna eignarhald krafna á frestdegi, leggur nefndin til þá breytingu á frumvarpinu að miðað verði stöðu krafna við lok kröfulýsingarfrests.

D-liður 2. gr. – atkvæði fjárvörslusjóða og atkvæðamagn að baki samþykki fyrir nauðasamningi.
    Umsagnir um d-lið 2. gr. frumvarpsins lutu að tveimur atriðum, annars vegar að sambandi milli hlutfalls þeirra sem samþykkja nauðasamning fjármálafyrirtækis með atkvæðum sínum og eftirgjafar krafna og hins vegar að heimildum rétthafa skuldabréfa í vörslu fjárvörslusjóða til að greiða atkvæði um nauðasamning fjármálafyrirtækis. Á fundum nefndarinnar voru rædd ýmis sjónarmið tengd framangreindum atriðum.
    Meginreglan við nauðasamninga er sú að nauðasamningur telst samþykktur ef honum er greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöf samningskrafna á að nema samkvæmt frumvarpinu, með tiltekinni undantekningu, sbr. 49. gr. laga um nr. 21/1991.
    Af hálfu slitastjórnar eins fjármálafyrirtækis var bent á að í tilviki þess fyrirtækis, og einnig annarra minni fjármálafyrirtækja í slitameðferð, væri endurheimtuhlutfall lágt og því þyrfti jafnvel 95% atkvæða til að nauðasamningur yrði samþykktur. Svo hátt hlutfall getur gert verulega torvelt að afla samþykkis fyrir nauðasamningi, þrátt fyrir að meginþorri kröfuhafa sé honum samþykkur og hann sé til hagsbóta fyrir alla kröfuhafa. Með þessu móti sé litlum minni hluta veitt neitunarvald gagnvart miklum meiri hluta kröfuhafa miðað við fjárhæðir, jafnvel þótt engin skynsamleg rök búi að baki synjuninni. Að mati fyrrnefndrar slitastjórnar felst í þessu óásættanleg niðurstaða með tilliti til hagsmuna kröfuhafa í heild. Í þessu samhengi er einnig rétt að líta til þess að almennt fá smáir kröfuhafar meira í sinn hlut að tiltölu vegna áskilnaðar um lágmarksgreiðslu sem lögð er til í frumvarpinu. Með hliðsjón af vernd fyrir minni hluta kröfuhafa sem er að finna í reglum um samspil eftirgjafar og kröfu til hlutfalls atkvæða telur nefndin þó ráðlegt að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Nefndin leggur því til reglu um að 90% kröfuhafa miðað við kröfufjárhæð nægi ætíð til samþykktar frumvarpi að nauðasamningi, jafnvel þótt fyrirhugaðar afskriftir nemi meira en 90% af heildarköfum í búinu.
    Í umsögnum slitastjórna fjármálafyrirtækja og þeirra sem sinna hagsmunagæslu fyrir kröfuhafa var einnig bent á ákveðin álitamál sem tengjast atkvæðum rétthafa skuldabréfa í vörslu fjárvörslusjóðs. Fyrir nefndinni var rakið að í aðdraganda fjármálahrunsins gáfu íslensk fjármálafyrirtæki út skuldabréf undir lögsögu New York fylkis í Bandaríkjunum. Um var að ræða stórar skuldabréfaútgáfur undir sérstökum útgáfurömmum þar sem tíðkast að sérhæfðir fjárvörslusjóðir (e. trusts) séu vörsluaðilar svokallaðra heildarskuldabréfa (e. global notes) sem síðan framselja hluta af réttindum skuldabréfanna til rétthafa (e. beneficial owners). Slíkir fjárfestar eiga ekki kröfu á útgefanda skuldabréfsins heldur á fjárvörslusjóðinn.
    Í dómi Hæstaréttar frá 12. október 2011 í máli nr. 398/2011 voru þær réttarreglur sem eiga við um fjárvörslusjóði samkvæmt íslenskum rétti í tilviki heildarskuldabréfa skýrðar. Fjárvörslusjóðum er rétt að hafa uppi kröfu gagnvart slitabúum á grundvelli skuldabréfsins en einstakir rétthafar geta ekki haft uppi kröfu hver fyrir sig.
    Fyrir nefndinni voru rakin sjónarmið um að sökum réttaróvissu í útgáfuríki heildarskuldabréfanna er ólíklegt að þeir aðilar sem fara málefni fjárvörslusjóða, svokallaðir vörslumenn (e. trustee), muni greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækja. Í þessu ljósi er eðlilegt að heimila rétthöfum, sem hafa sannarlega hagsmuni af niðurstöðu atkvæðagreiðslu um nauðasamning, að fara með atkvæðisrétt á grundvelli umboðs frá fjárvörslusjóði. Nefndin leggur því til breytingu þess efnis.
    Efnislega felur tillaga nefndarinnar í sér að í tilviki rétthafa heildarskuldabréfa ræðst atkvæðismagn hvers og eins þeirra, miðað við kröfufjárhæð, af hlutdeild þeirra í heildarskuldabréfinu. Sömu sjónarmið gilda um höfðatöluatkvæði, en rétt er að árétta að rétthafar fara einungis allir saman með eitt slíkt atkvæði við atkvæðagreiðslu.

1. mgr. f-liðar 2. gr. – mat Seðlabanka Íslands á áhrifum nauðasamnings á stöðugleika.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um að mat Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum nauðasamnings og því hvort hann hafi áhrif á stöðugleika í gengis- og peningamálum og á fjármálastöðugleika er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að tryggja eftir því sem mögulegt er að slit fallinna fjármálafyrirtækja tefli ekki efnahagslegum stöðugleika í tvísýnu.
    Mat Seðlabanka Íslands ræðst af lögbundnu hlutverki hans samkvæmt lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, og laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Nefndin bendir á að orðalag 1. mgr. f-liðar 2. gr. frumvarpsins verður ekki skilið öðruvísi en svo að það sé mat slitastjórnar fjármálafyrirtækis hvort vottorðs Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum o.fl. sé aflað fyrir eða eftir samþykkt frumvarps að nauðasamningi. Hér skal þess þó getið að ef breytingar eru gerðar á nauðasamningnum eftir að vottorð Seðlabanka Íslands liggur fyrir þarf að afla annars vottorðs frá Seðlabanka Íslands í framangreindum tilgangi. Benda má á að í 4. mgr. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki kemur fram að ef frumvarp að nauðasamningi fæst ekki samþykkt eða kröfu um staðfestingu hans er hafnað skuli slitastjórn óska eftir gjaldþrotaskiptum. Í þessu sambandi er rétt að benda á að fáist frumvarp að nauðasamningi samþykkt og síðar staðfest af héraðsdómi fer um eignir fyrirtækisins eftir ákvæðum nauðasamningsins. Með staðfestingu nauðasamnings fjármálafyrirtækis lýkur því formlega slitameðferð þess og slitastjórn lýkur þar með störfum.
    Nefndin áréttar þann skilning sinn að við mat á undanþágubeiðnum slitastjórna verði litið til markmiða um efnahagslegan stöðugleika og almannahag. Af því leiðir að hvorki verði gengið á gjaldeyrisforðann né lífskjör almennings skert. Nefndin áréttar einnig að í samræmi við gjaldeyrislög skulu undanþágur bankans aðeins veittar að höfðu samráði við ráðherra og að undangenginni kynningu ráðherra á efnahagslegum áhrifum þeirra fyrir efnahags- og við­skipta­nefnd.

Breytingar á tekjuskattslögum.
    Í samræmi við ábendingar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti leggur nefndin til tvenns konar tímabundnar breytingar á ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með nýju ákvæði til bráðabirgða við þau. Í fyrsta lagi tilgreinir ákvæðið atriði sem ekki ber að telja til tekna við ákvörðun tekjuskatts og í öðru lagi er um að ræða breytingu sem varðar afmörkun skattstofns við ákvörðun sérstaks fjársýsluskatts.
    Breytingin í a-lið ákvæðisins felur í sér að eftirgjöf skulda eða annarra skuldbindinga sem fer fram í tengslum við gerð nauðasamninga lögaðila og sem gerð er gegn því að skuldari láti kröfuhafa í té hlutafé í sjálfum sér sem gagngjald skuli ekki teljast til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015. Sérstaklega er áréttað að með ákvæðinu teljist eftirgjöf skulda og móttaka hlutafjár í hinu skuldsetta félagi hvorki til skattskyldra tekna hjá skuldara né kröfuhafa. Staða þeirra rekstraraðila sem fá eftirgefnar skuldir er í flestum tilvikum með þeim hætti að rekstrartap er umtalsvert og gengur á móti tekjufærslunni. Við þær aðstæður kemur því í raun ekki til neinnar skattlagningar vegna tekjufærslu á eftirgefnum skuldum. Gert er ráð fyrir að rekstrartap ársins og yfirfært tap vegna fyrri ára verði alltaf jafnað fyrst á móti tekjufærslu áður en til þess kemur að tekjur vegna eftirgjafar skulda verði undanþegnar skattskyldu í samræmi við tillögu frumvarpsins.
    Breytingin í b-lið felst í því að kveða jafnframt á um það að við ákvörðun álagningarstofns vegna sérstaks fjársýsluskatts skuli ekki taka tillit til tekna sem myndast við almenna eftirgjöf skulda í tengslum við lok slitameðferðar skattaðila skv. 103. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Benda má á að breytingin skv. a-lið tekur einungis til þess að ekki skuli telja til tekna hjá kröfuhafa og skuldara tekjur sem kynnu að myndast við eftirgjöf skulda gegn afhendingu hlutabréfa í hinu skuldsetta félagi.
    Nefndin áréttar að þessar tímabundnu breytingar eru lagðar til í því skyni að greiða fyrir vinnu við gerð nauðasamninga þeirra aðila sem verða skattskyldir samkvæmt frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt.

Réttur til að koma að kröfum eftir lok kröfulýsingarfrests.
    Nefndin hefur farið yfir athugasemdir sem bárust vegna 2. og 3. mgr. f-liðar 2. gr. frumvarpsins, en með þeim var m.a. lagt til að frestur til að lýsa kröfum skv. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., við slit fjármálafyrirtækja yrði styttur. Nefndin telur að fara verði varlega við breytingu á almennum lagareglum eins og óskað er eftir með nefndum athugasemdum þar sem lagt er til að felldur verði niður réttur kröfuhafa til að koma að síðbúinni kröfu sinni. Slík breyting kynni að hafa í för með sér ýmis álitamál.
    Skilja mátti tillögur umsagnaraðila með þeim hætti að kröfur skv. 1.–2. og 4.–6. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 skyldu falla niður við slitin, lyki þeim með nauðasamningi, auk þess sem gerð var tillaga um enn frekari skerðingu krafna með sérstökum kröfulýsingarfresti sem lyki 15. júlí 2015 í kjölfar setningar laganna. Að mati nefndarinnar standa ekki rök til þess að breyta almennum reglum laga á þá lund að kröfur af framangreindum toga falli niður, enda er staðan önnur þegar slitum er lokið með nauðasamningi. Tilvist lögaðila sem er til slita lýkur ekki með gerð nauðasamnings og úthlutun samkvæmt honum ólíkt því sem á við um gjaldþrotaskipti. Sama á við um tillögu um sérstakan lokafrest til að lýsa eignarréttar- eða búskröfum við slit fjármálafyrirtækja.
    Í umsögnum var einnig teflt fram þeim sjónarmiðum að mikilvægt sé að vissa liggi fyrir því sem fyrst um hvort kröfur muni berast við slitin og áður en atkvæði verða greidd um frumvarp að nauðasamningi. Að gættum framangreindum sjónarmiðum um vernd kröfuhafa er fallist á að koma til móts við framangreind sjónarmið með tillögu sem lýtur að því að kröfur sem stofnast hafa fyrir tiltekinn tíma og sem beint verður til slitastjórnar verði að vera lýst með sannanlegum hætti fyrir slitastjórn eftir reglum gjaldþrotaskiptalaga. Hins vegar skal áréttað að í tillögunni felst engin efnisbreyting á ákvæði 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Tillögunni er ætlað að taka af öll tvímæli um að kröfum sem stofnast hafa fyrir 1. september 2014 verði að lýsa fyrir slitastjórn fyrir 15. ágúst 2015 vilji kröfuhafi styðja sig við 1. eða 5. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991. Komi slík krafa fram fyrir 15. ágúst 2015 verður þvínæst að meta hvort hún uppfylli þau skilyrði sem um getur í ákvæðinu, þ.e. annars vegar að fyrir liggi tilskilið samþykki annarra kröfuhafa sem fram koma í 1. tölul. eða hins vegar að kröfunni hafi m.a. verið lýst án ástæðulausra tafa eins og fram kemur í 5. tölul. ákvæðisins. Einnig er áréttað að með breytingunni er ekki verið að rýmka hugtakið „án ástæðulausra tafa“ í 5. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., eins og það hefur verið skýrt í dómafordæmum Hæstaréttar.

Ráðstöfun stöðugleikaframlaga.
    Á fundum nefndarinnar var einnig fjallað um 4. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir heimild fyrir Seðlabanka Íslands til þess að taka á móti hvers kyns fjárhagslegum verðmætum í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta, svonefndum stöðugleikaframlögum.
    Ákvæði 2. mgr. 34. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, gerir ráð fyrir að hagnaður Seðlabankans renni til ríkissjóðs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ef stöðugleikaframlög gengju fyrst til Seðlabankans og féllu síðan ríkissjóði í skaut á þeim grundvelli yrði meðferð og ráðstöfun þeirra ekki bundin sömu takmörkunum og fram koma í 2. mgr. 1. gr. frumvarps til laga um stöðugleikaskatt (þskj. 1400, 786. mál). Nefndin taldi því nauðsynlegt að gera breytingar á 4. gr. frumvarpsins í ljósi markmiða þessa frumvarps og frumvarpsins um stöðugleikaskatt.
    Í frumvarpi um stöðugleikaskatt og nefndaráliti um það kemur fram að mikilvæg forsenda þess að markmiðum frumvarpsins verði náð er að þeim fjármunum sem renna í ríkissjóð við skattlagninguna verði ráðstafað í samræmi við markmið um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Nefndin áréttar að sömu sjónarmið eiga einnig við um stöðugleikaframlag það sem 4. gr. frumvarps þessa fjallar um.
    Að baki heimild Seðlabanka Íslands til að taka á móti stöðugleikaframlagi liggja þannig ekki sjónarmið um tekjuöflun fyrir ríkissjóð heldur er tilgangurinn sá að tryggja að afnám hafta ógni ekki stöðugleika efnahagskerfisins.
    Í samræmi við framangreind sjónarmið leggur nefndin því til breytingu á 4. gr. frumvarpsins á þann veg að þau verðmæti sem Seðlabankinn veitir viðtöku í formi stöðugleikaframlags renni í ríkissjóð, en þau verði hjá bankanum til varðveislu, og að meðferð og ráðstöfun þeirra verði að samrýmast markmiði um stöðugleika og vera hagað í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um stöðugleikaskatt. Einnig er lagt til að ráðherra verði heimilt að fela sérhæfðum aðila, sem starfar í umboði bankans, að annast vörslu verðmætanna og umsýslu með þau, í ljósi þess að innlausn þeirra getur tekið tíma.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Í áliti þessu er talað fyrir hönd nefndarinnar í heild, enda eru Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason samþykkir því sem þar kemur fram þótt þeir kjósi að skila séráliti til að skýra nánar viðhorf sín.
    Birgitta Jónsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður hún málið.

Alþingi, 2. júlí 2015.

Sigríður Á. Andersen,
frsm.
Frosti Sigurjónsson,
form.
Guðmundur Steingrímsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Unnur Brá Konráðsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason.
Willum Þór Þórsson.