Ferill 822. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1627  —  822. mál.




Beiðni um skýrslu



frá fjármála- og efnahagsráðherra um niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána.



Frá Katrínu Jakobsdóttur, Árna Páli Árnasyni, Birgittu Jónsdóttur, Róbert Marshall,
Svandísi Svavarsdóttur, Katrínu Júlíusdóttur, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur,
Oddnýju G. Harðardóttur, Brynhildi Pétursdóttur og Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána þar sem eftirfarandi spurningum verði svarað:
     1.      Hvernig skiptist heildarupphæð þeirrar fjárhæðar sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga milli beinnar höfuðstólslækkunar á fasteignaveðlánum einstaklinga og frádráttarliða, svo sem fasteignaveðkrafna án veðtrygginga, vanskila og greiðslujöfnunarreikninga?
     2.      Hverjir eru frádráttarliðirnir og hver er skiptingin milli þeirra í krónum talið?
     3.      Hvert er heildarhlutfall beinnar höfuðstólslækkunar, þ.e. lækkunar höfuðstóls að undanskildum frádráttarliðum, af verðtryggðum fasteignaveðlánum?
     4.      Hvernig dreifist heildarupphæðin sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra húsnæðislána eftir tekjum á milli allra framteljenda árið 2014, hvort sem þeir nutu lækkunar eða ekki? Hvert er hlutfall heildarupphæðarinnar sem skiptist niður á tekjubil hvers tíunda hluta fyrir sig, miðað við eignir á árinu 2014? Hver er fjöldi framteljenda á bak við hvert tekjubil?
     5.      Hvernig dreifist heildarupphæðin sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra húsnæðislána á milli allra framteljenda árið 2014 eftir hreinum eignum, þ.e. eignum umfram skuldir? Hvert er hlutfall heildarupphæðarinnar sem skiptist niður á eignabil hvers tíunda hluta fyrir sig, miðað við eignir á árinu 2014? Hver er fjöldi framteljenda á bak við hvert eignabil?

Greinargerð.

    Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda. Hinn 11. nóvember 2014 lagði Katrín Jakobsdóttir fram fyrirspurn í 15 liðum um niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána (371. mál). Tæpum mánuði seinna barst „svar“ fjármála- og efnahagsráðherra þar sem engri spurningu var svarað efnislega en svörum lofað á vorþingi með framlagningu sérstakrar skýrslu ráðherra um aðgerðina. Málið olli nokkru uppnámi á Alþingi og svaraði ráðherra í kjölfarið fimm af 15 spurningum þingmannsins 29. janúar. Beðið var eftir frekari svörum í fimm mánuði til viðbótar og 29. júní sl. birti fjármála- og efnahagsráðherra svo loks skýrslu sína um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðisveðlána (809. mál).
    Skýrslan svarar því miður ekki öllum þeim spurningum sem settar voru fram í fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur tæpum átta mánuðum áður. Sérstaklega vantar svör við 1., 2. og 3. tölul. fyrirspurnarinnar og er hér leitast við að fá loksins svör við þessum spurningum. Að auki er farið fram á upplýsingar um hlutfall skuldaniðurfærslunnar eftir eignastöðu og eftir tekjum miðað við árið 2014, en upplýsingar þar að lútandi ættu nú í sumar að geta verið unnar úr skattframtölum fyrir það ár.