Ferill 810. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1644  —  810. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar


     1.      Hvenær er von á skýrslu sem leggur mat á hagsmuni Íslands af EES-samningnum sem boðað var að ráðherra mundi kynna haustið 2014?
    Gert er ráð fyrir að skýrslan verði kynnt á komandi hausti.

     2.      Hvaða aðilar hafa verið fengnir til að vinna skýrsluna?
    Grunnvinna við skýrsluna hefur verið unnin í utanríkisráðuneytinu. Samráð um efnistök hefur verið haft við samráðshóp aðila vinnumarkaðar. Auk þess hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands verið fengin til að vinna úttekt varðandi tollaívilnanir í viðskiptum við ESB samkvæmt EES-samningnum.

     3.      Hvernig standa markmið ríkisstjórnarinnar um að innleiðingarhalli EES-gerða sé undir 1% á fyrri hluta árs 2015 og að á sama tíma sé ekkert dómsmál fyrir EFTA-dómstólnum vegna skorts á innleiðingu EES-gerða?
    Í frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA sem birt var 14. apríl 2014 kom fram að innleiðingarhalli í lok október 2014 hafi verið 2,8%. Niðurstöður frammistöðumatsins sem miðar við stöðuna í lok apríl 2015 hafa ekki verið birtar en gert er ráð fyrir að staða Íslands verði um 2% innleiðingarhalli.
    Til meðferðar við EFTA-dómstólinn eru nú alls fimm mál Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi vegna skorts á innleiðingu.