Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 37  —  37. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um þjóðgarð á miðhálendinu.

Flm.: Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir,
Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir,
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.

    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að láta undirbúa friðlýsingu miðhálendis Íslands sem þjóðgarðs.
    Ráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi 2016 og stefnt verði að stofnun þjóðgarðsins árið 2018.

Greinargerð.

I.

    Miðhálendi Íslands markast af einstöku samspili eldvirkni og jökla. Það liggur á möttulstrók við skil Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekans sem gerir það eitt eldvirkasta svæði jarðar. Eldvirknin hefur skapað stórbrotin eldfjöll á borð við dyngjuna Skjaldbreið og móbergsstapann Herðubreið. Uppstreymi vatns á háhitasvæðum, svo sem á Torfajökli, myndar heillandi hveri og litríkar útfellingar. Jarðlög og steingervingar bera vitni um jarðsögu Íslands og loftslag og lífríki fyrr á tíð.
    Jökulsorfið berg ber merki íshulu landsins á ísöld. Enn eru á miðhálendinu einir stærstu jöklar jarðar utan heimsskautasvæðanna. Frá jöklunum renna vatnsmikil fljót sem hafa grafið hrikaleg gljúfur og steypast niður í mikilfenglegum fossum, þar á meðal í Dettifossi, aflmesta fossi landsins.
    Tegundir flóru og fánu á miðhálendinu eru fáar. Þó eru þar mikilvæg varpsvæði og vatnasvið fyrir tilteknar tegundir fugla og fiska. Í Þjórsárverum eru til dæmis helstu varpstöðvar heiðagæsa. Torfajökulseldstöðin er einstök á bæði lands- og heimsvísu og hafa hugmyndir verið uppi um að skrá svæðið við Torfajökul á heimsminjaskrá UNESCO, menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Frá árinu 2011 hefur svæðið verið á yfirlitsskrá um menningar- og náttúruminjar Íslands, sem lögð er fyrir nefnd UNESCO um arfleifð þjóða heims.     Óblíð náttúra hefur takmarkað ágang manna á miðhálendið í gegnum aldirnar. Þar eru enn ein síðustu stóru óbyggðu víðerni Evrópu þar sem unnt er að njóta náttúrunnar án greinilegra merkja mannsins. Ekki er þó sjálfgefið að svo haldist áfram. Verklegar framkvæmdir á borð við virkjanir, háspennulínur og vegi, efnistaka, óstýrð ásókn ferðamanna og akstur utan vega geta hæglega valdið óafturkræfum spjöllum.
    Það er á ábyrgð núlifandi Íslendinga að standa vörð um þetta magnaða svæði í þágu núlifandi og komandi kynslóða Íslendinga og heimsins alls. Jafnframt er mikilvægt að aðgengi almennings að svæðinu sé tryggt. Með tillögu þessari er lagt til að miðhálendið verði gert að þjóðgarði allra Íslendinga í þessu skyni.

II.

    Meðal markmiða laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, sem taka eiga gildi 15. nóvember 2015, er að standa vörð um óbyggð víðerni landsins, sbr. e-lið 3. gr. laganna. M.a. í þeim tilgangi er ráðherra veitt heimild til að friðlýsa landsvæði, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Stofnun þjóðgarðs er sú tegund friðlýsingar sem sameinar best markmið um náttúruvernd og aðgang almennings. Í 2. mgr. 47. gr. laga nr. 60/2013 segir að slík friðlýsing skuli miða að því að vernda heildstæð náttúruleg vistkerfi, jarðminjar, landslag og menningarminjar sem einkenna svæðið og tryggja aðgang almennings að því til útivistar og til þess að kynnast náttúru og sögu svæðisins. Leggja skuli áherslu á fræðslu og upplýsingar í þessu skyni.
    Almennt er litið svo á að fyrsti þjóðgarður heims hafi orðið til 1872 með stofnun Yellowstone-þjóðgarðsins í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hugmyndir um stofnun þjóðgarðs bárust hingað til lands í upphafi síðustu aldar. Guðmundur Davíðsson, síðar þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, birti tímaritsgreinar á 2. og 3. áratug aldarinnar þar sem hann mælti fyrir því að koma á fót þjóðgarði á Þingvöllum. Af því varð 1930 þegar Þingvellir voru friðlýstir sem helgistaður allra Íslendinga samkvæmt lögum um friðun Þingvalla, nr. 59/1928. Friðlýst land á Þingvöllum var stækkað til muna með núgildandi lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004.
    Árið 1956 tóku gildi fyrstu heildstæðu lög um náttúruvernd á Íslandi, lög nr. 48/1956. Þau heimiluðu friðlýsingu landsvæða sem væru ríkiseign og sérstæð um landslag, gróðurfar eða dýralíf í því skyni að varðveita þau með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að þeim. Slík svæði nefndust þjóðvangar eða þjóðgarðar. Sú afmörkun á þjóðgarðshugtakinu hefur í grófum dráttum haldist í síðari löggjöf um náttúruvernd. Með lögum nr. 93/1996 varð þó sú breyting að heimilað var að gera landsvæði í einkaeign að þjóðgarði ef sérstakar ástæður mæltu með því og um það næðist samkomulag við landeiganda.
    Fyrstur þjóðgarða á Íslandi sem stofnaður var á grundvelli laga um náttúruvernd var þjóðgarðurinn í Skaftafelli, sbr. reglugerð um þjóðgarðinn í Skaftafelli í Öræfum, nr. 229/1968. Stofnaður var þjóðgarður í Jökulsárgljúfrum 1973 með reglugerð um þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum, nr. 216/1973. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 2001, sbr. reglugerð um þjóðgarðinn Snæfellsjökul, nr. 568/2001.
    Á 122. og 123. löggjafarþingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendi Íslands er hefðu innan sinna marka helstu jökla og aðliggjandi landsvæði (406. og 16. mál). Tillagan leiddi af sér þingsályktun um Vatnajökulsþjóðgarð frá 10. mars 1999. Eftir umfangsmikla undirbúningsvinnu voru sett lög um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007. Vatnajökulsþjóðgarður var formlega stofnaður 2008, með reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 608/2008. Þjóðgarðurinn í Skaftafelli og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfri urðu hluti af hinum nýja þjóðgarði.
    

III.

    Í umsögn þrettán náttúruverndarsamtaka frá 11. nóvember 2011 um drög að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var lagt til að stofnaður yrði þjóðgarður á miðhálendi Íslands. Í umsögninni var fjallað um einstæða náttúru hálendisins. Bent var á að óspillt víðerni hálendisins löðuðu marga erlenda ferðamenn til landsins og að víðtækur stuðningur væri meðal íslensks almennings við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Sá stuðningur var áréttaður í skoðanakönnun sem Gallup vann fyrir Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands í mars 2015. Þar lýstu 61,4% svarenda sig hlynnt stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Aðeins 12,4% sögðust andvíg henni. Á landsfundi Samfylkingarinnar í mars 2015 var lýst yfir stuðningi við tillögur náttúruverndarsamtaka um þjóðgarð á miðhálendinu. Með tillögu þessari til þingsályktunar er tekið undir með þessum áskorunum.
    Í tillögunni felst m.a. að útilokuð verði frekari uppbygging virkjana og háspennulína sem ekki fellur að verndarhlutverki þjóðgarðsins, samgöngur á svæðinu miðist fyrst og fremst við verndargildi þjóðgarðsins og þarfir gesta hans, beit verði bundin við tiltekin svæði og stýrt í samræmi við beitarþol þeirra og mannvirki vegna ferðaþjónustu og annarrar landnýtingar og rannsóknarstarfs verði takmörkuð sem unnt er við jaðar þjóðgarðsins.
    Ákjósanlegt er að miðhálendið allt verði ein skipulags- og stjórnunarheild með aðild sveitarfélaga, ríkisstofnana á sviði náttúruverndar og félagasamtaka almennings. Mikilvægt er að unnin verði verndaráætlun fyrir miðhálendið í heild, líkt og hefur þegar verið gert vegna Vatnajökulsþjóðgarðs á grundvelli III. kafla laga um Vatnajökulsþjóðgarð og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð. Æskilegt er að verndaráætlunin taki mið af alþjóðlegum viðmiðunum um þjóðgarða og friðlýst svæði frá Alþjóðanáttúruverndarsambandinu (IUCN, International Union for Conservation of Nature and Natural Resources) og fjalli m.a. um verndarþörf, kosti fyrir útivist og ferðaþjónustu og aðra nýtingu sem samræmist náttúruvernd og truflar ekki starfsemi þjóðgarðsins.
    Rétt er að stofnun þjóðgarðsins verði undirbúin í samráði við landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta, þar á meðal aðila í ferðaþjónustu og frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar og útivistar, sbr. 39. gr. laga nr. 60/2013. Mikilvægt er þó að friðlýsingin verði á forsendum náttúrunnar sjálfrar með sjálfbærni að leiðarljósi.
    Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu verður stigið veigamikið skref í átt til verndunar íslenskrar náttúru. Jafnframt verður aðgangur almennings að svæðinu tryggður. Staðinn verður vörður um langtímahagsmuni nærliggjandi byggða og þjóðarinnar allrar af ferðaþjónustu á hálendinu, enda yrði þjóðgarðurinn sá langstærsti í Evrópu og unnt að kynna á alþjóðavettvangi og markaðssetja sem óraskað víðerni og dýrmætt náttúrusvæði á heimsvísu. Með þjóðgarði má því tryggja varðveislu hinna miklu náttúruverðmæta miðhálendisins og stuðla að því að merkileg náttúra verði sjálfbær uppspretta atvinnu, arðs og upplifunar fyrir alla.