Ferill 121. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 121  —  121. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Össur Skarphéðinsson,
Helgi Hrafn Gunnarsson, Helgi Hjörvar, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var fyrst flutt á 141. þingi (236. mál) og kom þá til umfjöllunar í atvinnuveganefnd. Nefndin afgreiddi málið frá sér og skilaði nefndaráliti þar sem mælt var með samþykkt þess en það kom ekki til endanlegrar afgreiðslu þingsins. Tillagan var einnig flutt á 142. löggjafarþingi (17. mál) og enn fremur á 143. þingi (20. mál) og var þá vísað til utanríkismálanefndar en var ekki afgreitt þaðan. Enn var þingsályktunartillagan lögð fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi (559. mál) en kom þá ekki til umræðu. Tillagan er endurflutt óbreytt með eftirfarandi greinargerð sem hefur fylgt henni frá upphafi:
    „Stjórnmálasamband Íslands og Ísraels á sér nokkuð langa sögu og hafa viðskipti milli þjóðanna farið vaxandi. Þannig hefur innflutningur á vörum frá Ísrael nær tvöfaldast á sl. fimm árum: Samkvæmt tölum frá Hagstofunni nam innflutningur þaðan 562,6 millj. kr. árið 2007 og 1.020,7 millj. kr. árið 2011 og reikna má með að hann verði ekki minni á árinu 2012.
    Víða um heim hafa stjórnvöld og neytendur vaknað til vitundar um að hluti útflutningsvara frá Ísrael eigi uppruna sinn ekki að rekja til svæða innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Ísraelsríkis – en þá er miðað við landamæri ríkisins frá 1948 – heldur til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu, en þær eru einkum á vesturbakka Jórdanar og í austurhluta Jerúsalemborgar. Þessum byggðum hefur farið fjölgandi undanfarin ár og er íbúafjöldi í þeim kominn yfir hálfa milljón, enda þótt þær stríði gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum, úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag og fjölda ályktana Sameinuðu þjóðanna.
    Eins og gefur að skilja hefur þessi þróun skaðað lífskjör Palestínumanna en ekki má heldur vanmeta hversu umdeildar þær eru meðal ísraelskra borgara. Núverandi stjórnvöld í Ísrael virðast þó fylgja þeirri stefnu að taka aukið land og vatnsból frá Palestínumönnum undir byggðir landnema. Af þeim sökum hafa þær reynst einn helsti þröskuldurinn í vegi frekari friðarviðræðna fyrir botni Miðjarðarhafs auk þess sem reglulega kemur til átaka milli landnema og Palestínumanna sem verða að sjá af ræktarlöndum sínum.
    Ísland hefur aldrei – ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar – viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta Ísraelsríkis. Það ætti því ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem framleiddar eru í landnemabyggðunum. Nokkur lönd hafa þegar hafið vinnu við samningu reglugerðar þess efnis að upprunamerking þessara vara verði umræddar landnemabyggðir en ekki Ísrael. Í Danmörku birti matvæla-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið reglugerð 5. október 2012 um hvernig eigi að merkja vörur frá landnemabyggðum. 1 Í Bretlandi, Suður-Afríku og fleiri löndum virðist málið hins vegar enn vera í undirbúningi og/eða umsagnarferli.
    Meðal þeirra ásakana, sem stjórnvöld í þessum löndum hafa orðið að bregðast við, er að með þessu sé ætlunin að draga úr viðskiptum við Ísrael. Þessu hefur m.a. viðskipta- og iðnaðarráðherra Suður-Afríku, Rob Davies, hafnað og bent á að það sé skylda þarlendra stjórnvalda að framfylgja lögum um neytendavernd með þessum hætti, enda sé í þeim kveðið á um að uppruni vara skuli tilgreindur. Sem meðlimur í Sameinuðu þjóðunum geti Suður-Afríka ekki viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta af Ísraelsríki og því sé ekki hægt að tilgreina Ísrael sem upprunaland vara sem framleiddar eru þar. Í þessu sambandi má geta þess að í Sviss hafa stórmarkaðakeðjurnar Migros og Coop haft frumkvæði að því að sérmerkja vörur frá landnemabyggðum og upplýst að það sé til þess að veita viðskiptavinum fullnægjandi upplýsingar um vörurnar sem í boði eru en ekki til þess að hvetja þá til þess að sniðganga ísraelskar vörur.
    Með þeim ráðstöfunum sem þessi þingsályktunartillaga kallar eftir yrði íslenskum neytendum gert kleift að taka sjálfir ákvörðun um hvort þeir vilja styðja efnahagslíf á ólöglegum landnemabyggðum á hernumdu svæðunum í Palestínu. Ekki er víst að sérmerking slíkra vara muni hafa mikil áhrif á viðskipti Íslands og Ísraels, heldur ættu þær frekar að gera vörur sem skráðar eru sem ísraelskar afurðir síður tortryggilegar.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Frelsissamtök Palestínumanna (PLO) hafa gert með sér bráðabirgðafríverslunarsamning sem tók gildi 1. júlí 1999 (sjá fylgiskjal). Tilgangurinn með gerð bráðabirgðasamningsins við PLO var að tryggja jafnvægi milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við löndin við sunnanvert Miðjarðarhaf. Þá var samningurinn talinn mikilvægur hlekkur í stuðningi við friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs. Skemmst er frá því að segja að samningurinn hefur ekki verið virkur sem skyldi og viðskipti EFTA við heimasvæði Palestínumanna eru takmörkuð. Heildarviðskiptin námu einungis 33,6 milljónum bandaríkjadala árið 2011. Þá hefur því verið haldið fram að Ísrael komi í reynd í veg fyrir að Palestínumenn nái að fullnusta þennan samning og njóta þeirra fríðinda sem honum fylgja því að landsvæði Palestínumanna sé sundurrist af múrum sem koma í veg fyrir það að þeir geti yrkt land sitt og eðlilegir vöruflutningar geti farið fram.“


Fylgiskjal.


BRÁÐABIRGÐASAMNINGUR
MILLI
RÍKJA FRÍVERSLUNARSAMTAKA EVRÓPU
OG
FRELSISSAMTAKA PALESTÍNU (PLO) FYRIR HÖND
ÞJÓÐARRÁÐS PALESTÍNU


FORMÁLSORÐ

Lýðveldið Ísland, furstadæmið Liechtenstein, konungsríkið Noregur, ríkjasambandið Sviss (hér á eftir nefnd EFTA-ríkin)
og
Frelsissamtök Palestínu (PLO) fyrir hönd þjóðarráðs Palestínu (hér á eftir nefnd palestínsk yfirvöld),
1.           sem hafa í huga mikilvægi þeirra tengsla sem eru milli EFTA-ríkjanna og palestínskra yfirvalda, einkum yfirlýsinguna um samvinnu sem var undirrituð í Genf í desember 1996, og eiga þá ósk að styrkja þessi tengsl og koma þannig á nánum og varanlegum tengslum,
2.           sem vísa til þess ásetnings síns að stuðla á virkan hátt að efnahagssamruna Evrópu og Miðjarðarhafslanda og lýsa sig tilbúin til að leita sameiginlegra leiða og aðferða til að styrkja þá þróun,
3.           sem árétta stuðning sinn við fjölflokkalýðræði er byggist á lögum, mannréttindum, þar með réttindum þeirra sem tilheyra minnihlutahópum, og grundvallarfrelsi og vísa til meginreglna sáttmála Sameinuðu þjóðanna,
4.           sem hafa í huga mikilvægi friðarviðræðna í Mið-Austurlöndum er miða að finna varanlega lausn á grundvelli ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 242 og 338,
5.           sem hafa í huga réttindi og skyldur samkvæmt alþjóðasamningum sem þau hafa undirritað og mikilvægi Óslóarsamninganna,
6.           sem æskja þess að skapa hagstæð skilyrði fyrir þróun og fjölbreytni í viðskiptum sín á milli og aukna samvinnu, bæði viðskiptalega og efnahagslega, á sviðum þar sem samningsaðilarnir eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta, á grundvelli jafnréttis, gagnkvæms ávinnings, jafnræðis og þjóðaréttar,
7.           sem vísa til aðildar EFTA-ríkjanna að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og skuldbindinga þeirra um að framfylgja réttindum og skyldum sem leiðir af samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, að meðtöldum meginreglunum um bestukjarameðferð og innlenda meðferð, og vísa jafnframt til þess markmiðs palestínskra yfirvalda að gerast aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni,
8.           sem einsetja sér að stuðla að eflingu fjölþjóðaviðskiptakerfis og þróa frjálsari viðskipti sín á milli í samræmi við reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar,
9.           sem hafa það í huga að ekkert ákvæði þessa samnings megi túlka þannig að það leysi samningsaðila undan skuldbindingum sínum samkvæmt öðrum alþjóðasamningum,
10.           sem eru staðráðin í að beita þessum samningi með það að markmiði að varðveita og vernda umhverfið og tryggja hagkvæmustu nýtingu auðlinda í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun,
11.           sem eru þess fullviss að samningur þessi muni stuðla að stærra og samstilltara fríverslunarsvæði samningsaðila í Evrópu og við Miðjarðarhafið og vera mikilvægt framlag til samruna þessara svæða,
12.           sem hafa í huga hve þróun efnahags- og félagsmála samningsaðilanna er mislangt á veg komin og að nauðsynlegt er að stuðla enn fremur að bættum efnahagslegum og félagslegum aðstæðum á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu,
13.           sem lýsa sig reiðubúin til að skoða möguleika á að þróa og efla, innan valdsviðs hvors um sig, efnahagsleg samskipti sín svo þau nái til sviða sem þessi samningur tekur ekki til,
14.           sem eru sannfærð um að þessi samningur myndi viðeigandi ramma fyrir upplýsinga- og skoðanaskipti um þróun efnahagsmála og viðskipti og skyld málefni,
15.           sem eru sannfærð um að þessi samningur skapi skilyrði sem stuðli að tvíhliða og marghliða samskiptum þeirra á sviði efnahagsmála, einkum að því er varðar viðskipti og fjárfestingar,
16.           sem gera sér grein fyrir að endurskoða ætti þennan samning og framkvæmd hans í ljósi þróunar efnahagslegra samskipta á alþjóðavettvangi og friðarviðræðna í Mið-Austurlöndum,
17.           HAFA ÁKVEÐIÐ, í samræmi við markmið þessi, að gera með sér svohljóðandi bráðabirgðasamning (hér á eftir nefndur samningurinn):

1. gr.
Markmið

1.           EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld skulu koma á fríverslunarsvæði í samræmi við ákvæði samnings þessa.
2.           Samningur þessi, sem byggist á viðskiptasamböndum milli markaðshagkerfa og á því að lýðræði og mannréttindi séu virt, miðar að því:
       a)      að efla, með auknum gagnkvæmum viðskiptum, samfellda þróun efnahagslegra samskipta EFTA-ríkjanna og palestínskra yfirvalda og stuðla þannig, bæði í EFTA-ríkjunum og á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu, að framþróun efnahagsmála, betri lífs- og atvinnuskilyrðum og aukinni framleiðni og fjárhagslegum stöðugleika;
       b)      að skapa eðlileg samkeppnisskilyrði í viðskiptum milli samningsaðilanna og greiða fyrir viðskiptum milli hlutaðeigandi yfirráðasvæða og koma í veg fyrir að sett sé viðskiptahöft gagnvart öðrum viðskiptaaðilum;
       c)      að stuðla þannig, með afnámi viðskiptahafta, að efnahagslegum samruna Evrópu og Miðjarðarhafslanda og samfelldri þróun og aukningu alþjóðaviðskipta.

2. gr.
Gildissvið

    Samningurinn tekur til:
       a)      vara sem heyra undir 25. – 97. kafla í samræmdri vörulýsingar- og vöruheitaskrá (ST), að undanskildum þeim vörum sem skráðar eru í I. viðauka,
       b)      vara sem tilgreindar eru í bókun A, að teknu viðeigandi tilliti til fyrirkomulags þess sem kveðið er á um í þeirri bókun,
       c)      fisks og annarra sjávarafurða eins og kveðið er á um í II. viðauka,
sem upprunnar eru í EFTA-ríki eða á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu.

3. gr.
Upprunareglur og samvinna um tollaframkvæmd

1.           Í bókun B er kveðið á um upprunareglur og fyrirkomulag á samvinnu stjórnvalda.
2.           Samningsaðilarnir skulu gera viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal um endurskoðun af hálfu sameiginlegu nefndarinnar og fyrirkomulag á samvinnu stjórnvalda, til að tryggja að ákvæði 4. gr. (Innflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif), 5. gr. (Fjáröflunartollar), 6. gr. (Útflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif), 7. gr. (Magntakmarkanir á innflutningi eða útflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif), 12. gr. (Innlendir skattar og reglugerðir) og 21. gr. (Endurútflutningur og alvarlegur vöruskortur) samningsins og bókunar B séu framkvæmd á samræmdan og skilvirkan hátt og til að draga svo sem unnt er úr þeim formkröfum sem gerðar eru í viðskiptum, og til að finna lausn á þeim vandamálum sem af framkvæmd ákvæðanna leiðir þannig að allir geti vel við unað.
3.           Á grundvelli endurskoðana sem um getur í 2. mgr. skulu samningsaðilarnir taka ákvörðun um viðeigandi ráðstafanir.

4. gr.
Innflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif

1.           Engir nýir innflutningstollar eða gjöld sem hafa samsvarandi áhrif skulu lögð á viðskipti milli EFTA-ríkjanna og Vesturbakkans og Gaza-svæðisins.
2.           Frá og með gildistöku samningsins skulu EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld afnema alla innflutningstolla á framleiðsluvörum, sem upprunnar eru í EFTA-ríki eða á Vestubakkanum og Gaza-svæðinu, og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif.

5. gr.
Fjáröflunartollar

    Ákvæði 4. gr. (Innflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif) gilda þar að auki um fjáröflunartolla.

6. gr.
Útflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif

1.           Engir nýir útflutningstollar eða gjöld sem hafa samsvarandi áhrif skulu lögð á viðskipti milli EFTA-ríkjanna og Vesturbakkans og Gaza-svæðisins.
2.           EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld skulu, frá og með gildistöku þessa samnings, afnema alla útflutningstolla á framleiðsluvörum, sem upprunnar eru í EFTA-ríki eða á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu, og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif.

7. gr.
Magntakmarkanir á innflutningi eða útflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif

1.           Engar nýjar magntakmarkanir skulu settar á innflutning eða útflutning né ráðstafanir gerðar sem hafa samsvarandi áhrif í viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Vesturbakkans og Gaza-svæðisins.
2.           EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld skulu, frá og með gildistöku þessa samnings, afnema magntakmarkanir á innflutningi eða útflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif.

8. gr.
Almennar undantekningar

    Samningurinn kemur ekki í veg fyrir að leggja megi bönn eða höft á innflutning, útflutning eða umflutning vöru sem réttlætist af almennu siðgæði, allsherjarreglu eða almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra, gróður- eða umhverfisvernd, vernd þjóðarverðmæta er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, verndun hugverka, reglum um meðferð á gulli og silfri eða verndun takmarkaðra náttúruauðlinda, séu slíkar ráðstafanir gerðar í tengslum við takmarkanir á framleiðslu eða neyslu innanlands. Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðilanna.

9. gr.
Ríkiseinkaréttur

1.           EFTA-ríkin skulu tryggja aðlögun á ríkiseinkarétti í viðskiptum með þeim undanþágum sem er mælt fyrir um í bókun C þannig að ríkisborgurum EFTA-ríkja og Palestínumönnum af Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu verði ekki mismunað að því er varðar skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara við gildistöku þessa samnings. Þessar vörur skulu keyptar og markaðssettar á viðskiptalegum forsendum.
2.           Palestínsk yfirvöld skulu smám saman aðlaga ríkiseinkarétt í viðskiptum þannig að eigi síðar en við lok 31. desember 2001 verði Palestínumönnum af Vesturbakkanum og Gaza- svæðinu og ríkisborgurum EFTA-ríkjanna ekki mismunað að því er varðar skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara. Sameiginlegu nefndinni verður tilkynnt um ráðstafanir sem eru gerðar í því skyni að koma þessum markmiðum til framkvæmda.
3.           Ákvæði þessarar greinar gilda um allar stofnanir sem þar til bær yfirvöld samningsaðilanna nota samkvæmt lögum eða í reynd, beint eða óbeint, til að hafa eftirlit með, ráða eða hafa umtalsverð áhrif á inn- eða útflutning milli samningsaðilanna. Þessi ákvæði skulu einnig gilda um einkarétt sem ríkið hefur veitt öðrum aðilum.

10. gr.
Tæknilegar reglugerðir

    Samningsaðilarnir skulu ræða, innan sameiginlegu nefndarinnar, nánari samvinnu um afnám tæknilegra viðskiptahindrana. Samvinnan skal vera á sviði tæknilegra reglugerða, stöðlunar og samræmismats.

11. gr.
Viðskipti með landbúnaðarafurðir

1.           Samningsaðilarnir lýsa sig reiðubúna, að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samstilltri þróun viðskipta með landbúnaðarafurðir.
2.           Til að ná þessum markmiðum hefur hvert EFTA-ríki gert tvíhliða samning við palestínsk yfirvöld um ráðstafanir til að greiða fyrir viðskiptum með landbúnaðarafurðir.
3.           Samningsaðilar skulu beita reglum sínum um hollustuhætti eða plöntuheilbrigði án mismununar og skulu ekki gera nýjar ráðstafanir sem gætu torveldað viðskipti óþarflega.

12. gr.
Innlendir skattar og reglugerðir

1.           Samningsaðilarnir skulu leggja á innlenda skatta og önnur gjöld og beita innlendum reglugerðum í samræmi við III. gr. Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti frá 1994 og aðra viðeigandi samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
2.           Útflytjendur skulu ekki njóta hærri endurgreiðslu á innlendum sköttum en nemur beinum og óbeinum sköttum á vörur sem eru fluttar út til yfirráðasvæðis samningsaðila.

13. gr.
Greiðslur og yfirfærslur

1.           Engar hömlur má leggja á greiðslur tengdar viðskiptum milli EFTA-ríkis og Vesturbakkans og Gaza-svæðisins eða yfirfærslur á slíkum greiðslum til yfirráðasvæðis samningsaðila þar sem kröfuhafi er búsettur.
2.           Samningsaðilarnir skulu forðast að takmarka, með höftum í gjaldeyrisviðskiptum eða með stjórnsýsluathöfnum, veitingu, endurgreiðslu eða móttöku lána til skamms eða meðallangs tíma vegna viðskipta sem íbúi á yfirráðasvæði samningsaðila á hlut að.
3.           Ekki skal gera takmarkandi ráðstafanir vegna yfirfærslna í tengslum við fjárfestingar, sérstaklega ekki vegna heimsendingar fjárhæða sem hafa verið notaðar til fjárfestingar eða endurfjárfestingar og hvers konar tekna af þeim.

14. gr.
Opinber innkaup

1.           Samningsaðilarnir telja það vera ófrávíkjanlegt markmið samnings þessa að auka frjálsræði á opinberum innkaupamörkuðum sínum á grundvelli jafnræðis og gagnkvæmni.
2.           Samningsaðilarnir skulu hafa með sér samvinnu í því skyni innan ramma sameiginlegu nefndarinnar.

15. gr.
Vernd hugverka

1.           Samningsaðilunum ber að gera ráðstafanir til að veita og tryggja nægilega og árangursríka vernd hugverkaréttar í samræmi við ströngustu alþjóðlega staðla. Þeir skulu samþykkja og gera nægilegar og árangursríkar ráðstafanir til að verja þennan rétt gegn brotum, einkum eftirlíkingu og ólöglegri nýtingu.
2.           Samningsaðilarnir skulu hafa með sér samvinnu um málefni er varða hugverkarétt, í samræmi við 26. gr. samningsins (Tæknileg aðstoð).
3.           Samningsaðilarnir skulu endurskoða framkvæmd þessarar greinar reglulega. Komi upp erfiðleikar í tengslum við hugverkarétt, sem hafa áhrif á viðskipti, skal þegar í stað boða til samráðs innan ramma sameiginlegu nefndarinnar að beiðni samningsaðila í því augnamiði að leita lausna sem báðir aðilar geta sætt sig við.

16. gr.
Reglur um samkeppni fyrirtækja

1.           Eftirfarandi samrýmist ekki réttri framkvæmd samningsins að því leyti sem það hefur áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkis og Vesturbakkans og Gaza-svæðisins:
       a)      allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir fyrirtækja sem miða að því að koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni eða leiða til slíks;
       b)      misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á yfirburðastöðu sinni á yfirráðasvæðum samningsaðila í heild eða á verulegum hluta þeirra.
2.           Ákvæði 1. mgr. skulu einnig gilda um starfsemi opinberra fyrirtækja og fyrirtækja sem njóta sér- eða einkaréttinda er samningsaðilar hafa veitt þeim, en beiting ákvæðanna má þó ekki hindra, að lögum eða í raun, framkvæmd opinberra verkefna sem þeim eru fengin.
3.           Telji samningsaðili að tiltekið athæfi samrýmist ekki ákvæðum 1. og 2. mgr. er honum heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá málsmeðferð sem er mælt er fyrir um í 23. gr. (Málsmeðferð við beitingu öryggisráðstafana).

17. gr.
Ríkisaðstoð

1.           Sérhver aðstoð sem samningsaðili veitir eða felst með einhverju móti í ráðstöfun ríkisfjármuna og raskar eða gæti raskað samkeppni með því að hygla einstökum fyrirtækjum eða einstakri framleiðslugrein, samrýmist ekki réttri framkvæmd þessa samnings að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkis og Vesturbakkans og Gaza-svæðisins.
2.           Meta skal athæfi, sem brýtur í bága við 1. mgr., á grundvelli viðmiðana sem tilgreindar eru í III. viðauka. Samningsaðilarnir viðurkenna að palestínskum yfirvöldum er heimilt að veita ríkisaðstoð til fyrirtækja til 31. desember 2001 í því skyni að takast á við sérstök þróunarvandamál.
3.           Samningsaðilarnir skulu tryggja gagnsæi í meðferð ríkisaðstoðar með því að skiptast á upplýsingum eins og kveðið er á um í IV. viðauka.
4.           Telji samningsaðili að tiltekið athæfi samrýmist ekki ákvæðum 1. mgr. er honum heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir gegn því athæfi samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 23. gr. (Málsmeðferð við beitingu öryggisráðstafana).

18. gr.
Undirboð

    Komist EFTA-ríki að raun um að undirboðum sé beitt, í skilningi VI. greinar Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti, í viðskiptum við Vesturbakkann og Gaza-svæðið eða verði palestínsk yfirvöld vör við að undirboðum sé beitt í þessum skilningi í viðskiptum við EFTA-ríki getur viðkomandi samningsaðili gert viðeigandi ráðstafanir í samræmi við samkomulagið um framkvæmd VI. greinar Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti frá 1994 og þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 23. gr. (Málsmeðferð við beitingu öryggisráðstafana).

19. gr.
Neyðaraðgerðir vegna innflutnings tiltekinna vara

    Þegar innflutningur tiltekinna vara eykst svo mjög eða á sér stað við slík skilyrði að það veldur eða gæti valdið:
       a)      alvarlegu tjóni fyrir innlenda framleiðendur sambærilegra vara eða samkeppnisvara á yfirráðasvæði samningsaðilans sem flytur inn, eða
       b)      alvarlegri röskun í skyldri grein atvinnulífsins eða erfiðleikum sem gætu leitt til alvarlegra efnahagsþrenginga á einstökum yfirráðasvæðum,
er viðkomandi samningsaðila heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 23. gr. (Málsmeðferð við beitingu öryggisráðstafana).

20. gr.
Endurskipulagning

1.           Palestínskum yfirvöldum er heimilt, í takmarkaðan tíma, að gera sérstakar ráðstafanir í formi hækkaðra tolla sem víkja frá ákvæðum 4. gr. (Innflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif) eða, sé ekki unnt að beita slíkum tollum eða skili þeir ekki árangri, í formi gjalda vegna endurskipulagningar á framleiðsluvörur sem eru skráðar í V. viðauka.
2.           Með fyrirvara um ráðstafanir vegna framleiðsluvara sem falla undir V. viðauka skulu ráðstafanirnar sem um getur í 1. mgr. eingöngu vernda nýjan iðnað eða einstakar greinar atvinnulífs sem verið er að endurskipuleggja eða eiga í alvarlegum erfiðleikum, einkum þegar þessir erfiðleikar valda stórvægilegum félagslegum vandkvæðum.
3.           Heildarverðtollar og gjöld vegna endurskipulagningar sem kunna að vera lögð á upprunavörur frá EFTA-ríkjunum á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu mega ekki fara yfir 25% eftir að ráðstafanirnar eru komnar til framkvæmda og skulu vörur upprunnar í EFTA-ríki njóta að einhverju leyti hagstæðari kjara en aðrar. Þeir mega ekki vera hærri en tollar sem eru lagðir á innflutning svipaðra vara til Vesturbakkans og Gaza-svæðisins frá öðrum löndum. Heildarverðmæti innfluttra vara sem þessar ráðstafanir taka til skal ekki fara yfir 15% alls innflutnings iðnaðarvara frá EFTA-ríkjum samkvæmt skilgreiningu í a-lið 2. gr. á síðasta ári sem hagtölur eru til um.
4.           Beita má þessum ráðstöfunum í fimm ár hið lengsta nema sameiginlega nefndin heimili lengra tímabil.
5.           Palestínskum yfirvöldum ber að tilkynna sameiginlegu nefndinni um allar sérstakar ráðstafanir sem þau hyggjast beita og, að beiðni EFTA-ríkjanna, hafa samráð um þær og málefni viðkomandi atvinnugreinar í sameiginlegu nefndinni áður en þeim er beitt. Þegar palestínsk yfirvöld gera slíkar ráðstafanir ber þeim að afhenda sameiginlegu nefndinni áætlun um afnám tollanna og gjalda vegna endurskipulagningar sem lagðir eru á samkvæmt þessari grein. Í áætluninni skal gera grein fyrir afnámi tollanna og gjalda vegna endurskipulagningar í jöfnum árlegum áföngum sem hefjist eigi síðar en tveimur árum eftir að þeim er komið á. Sameiginlegu nefndinni er heimilt að ákveða aðra áætlun.

21. gr.
Endurútflutningur og alvarlegur vöruskortur

    Leiði beiting ákvæðanna í 6. gr. (Útflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif) og 7. gr. (Magntakmarkanir á innflutningi eða útflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif) til þess að:
       a)      vara verði flutt aftur út til þriðja lands og samningsaðilinn, sem flytur út, hefur beitt magntakmörkunum á útflutning, útflutningstollum eða ráðstöfunum eða gjöldum sem hafa samsvarandi áhrif gagnvart útflutningi umræddrar vöru þangað, eða
       b)      alvarlegur skortur verði eða gæti orðið á vöru sem er nauðsynleg fyrir samningsaðila sem flytur út,
og þar sem ofangreindar ástæður valda eða gætu valdið alvarlegum vandkvæðum fyrir samningsaðilann, sem flytur út, er þeim samningsaðila heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 23. gr. (Málsmeðferð við beitingu öryggisráðstafana). Þessar ráðstafanir skulu vera án mismununar og skulu afnumdar þegar aðstæður réttlæta þær ekki lengur.

22. gr.
Erfiðleikar vegna greiðslujafnaðar

1.           Samningsaðilar skulu reyna að forðast að gera takmarkandi ráðstafanir vegna greiðslujafnaðar.
2.           Eigi samningsaðili í erfiðleikum með greiðslujöfnuð eða ef alvarleg hætta er á að slíkir erfiðleikar skapist er honum, eftir því sem við á, heimilt að gera takmarkandi ráðstafanir í viðskiptum, samkvæmt þeim skilmálum sem settir eru með Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti frá 1994 og samkomulaginu um ákvæði um greiðslujöfnuð í Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti frá árinu 1994, sem skulu vara í takmarkaðan tíma og vera án mismununar og ekki hafa víðtækari áhrif en þörf er á til að leysa erfiðleika vegna greiðslujafnaðar. Ráðstafanir sem hafa áhrif á vöruverð skulu njóta ívilnana og skal aflétta þeim smám saman eftir því sem erfiðleikar vegna greiðslujafnaðar minnka og með öllu þegar aðstæður réttlæta þær ekki lengur. Samningsaðila, sem grípur til takmarkandi ráðstafana af þessu tagi, ber að tilkynna öðrum samningsaðilum og sameiginlegu nefndinni þegar í stað um slíkar ráðstafanir helst áður en þær eru gerðar og leggja fram tímaáætlun um afnám þeirra. Sameiginlega nefndin skal kanna, fari annar samningsaðili fram á það, hvort þörf sé á að viðhalda ráðstöfunum sem gerðar hafa verið.

23. gr.
Málsmeðferð við beitingu öryggisráðstafana

1.           Áður en hafist er handa við að beita þeim öryggisráðstöfunum, sem tilgreindar eru í eftirfarandi málsgreinum þessarar greinar, skulu samningsaðilarnir leita lausnar á ágreiningi sín í milli með beinu samráði og tilkynna öðrum samningsaðilum þar um.
2.           Með fyrirvara um 6. mgr. þessarar greinar ber samningsaðila, sem íhugar að beita öryggisráðstöfunum, að tilkynna öðrum samningsaðilum og sameiginlegu nefndinni þegar þar um og láta þeim í té allar upplýsingar sem málið varða. Samningsaðilarnir skulu hefja viðræður innan sameiginlegu nefndarinnar án tafar til að leita lausnar sem allir samningsaðilar geta sætt sig við.
3.            a)      Að því er varðar 16. gr. (Reglur um samkeppni fyrirtækja) og 17. gr. (Ríkisaðstoð) skulu samningsaðilarnir sem í hlut eiga veita sameiginlegu nefndinni nauðsynlega aðstoð til að rannsaka málið og, þegar við á, binda enda á athæfið sem mótmælt hefur verið. Hafi samningsaðilinn sem í hlut á ekki bundið enda á athæfið sem mótmælt er innan þess tímabils sem sameiginlega nefndin ákveður, eða ef nefndin kemst ekki að samkomulagi eftir samráð eða þrjátíu dögum eftir að málinu var vísað til hennar, er viðkomandi samningsaðila heimilt að gera þær ráðstafanir sem það telur nauðsynlegar til að leysa erfiðleikana sem stafa af viðkomandi athæfi.
            b)      Að því er varðar 18. gr. (Undirboð), 19. gr. (Neyðaraðgerðir vegna innflutnings tiltekinnar vöru) og 21. gr. (Endurútflutningur og alvarlegur vöruskortur) skal sameiginlega nefndin rannsaka málið og taka þá ákvörðun sem þörf er á til að binda enda á erfiðleika sem samningsaðili hefur tilkynnt um. Hafi engin ákvörðun verið tekin þrjátíu dögum eftir að málinu var vísað til sameiginlegu nefndarinnar er hlutaðeigandi samningsaðila heimilt að gera þær ráðstafanir sem það telur nauðsynlegar til að bæta úr ástandinu.
           c)      Að því er varðar 30. gr. (Uppfylling skuldbindinga) skal hlutaðeigandi samningsaðili láta sameiginlegu nefndinni í té allar upplýsingar sem komið geta að notum við nákvæma rannsókn málsins til að leita lausnar sem allir aðilar geta sætt sig við. Finni sameiginlega nefndin ekki lausn eða ef þrír mánuðir eru liðnir frá því að tilkynnt var um málið er hlutaðeigandi samningsaðila heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir.
4.           Skylt er að tilkynna öllum samningsaðilum og sameiginlegu nefndinni þegar í stað um öryggisráðstafanir sem gerðar eru. Umfang þeirra og gildistími skal takmarkast við það sem óhjákvæmilegt er til að bæta úr því ástandi sem leiddi til beitingar þeirra og skulu ekki vera umfangsmeiri en sá skaði sem umrætt athæfi eða erfiðleikar hafa valdið. Reynt skal að beita ráðstöfunum sem hindra framkvæmd samningsins minnst. Ráðstafanir sem palestínsk yfirvöld gera vegna aðgerða eða aðgerðaleysis EFTA-ríkis skulu einungis hafa áhrif á viðskipti við það ríki. Einungis EFTA-ríki eða EFTA-ríkjum, sem hafa í viðskiptum orðið fyrir áhrifum af aðgerðum eða aðgerðaleysi palestínskra yfirvalda, er heimilt að gera ráðstafanir sem beinast gegn slíkum aðgerðum eða aðgerðaleysi, aðrar en þær sem eru gerðar samkvæmt 19. gr. (Neyðaraðgerðir vegna innflutnings tiltekinnar vöru) og 21. gr. (Endurútflutningur og alvarlegur vöruskortur).
5.           Efna skal til reglubundins samráðs um öryggisráðstafanir í sameiginlegu nefndinni og leita leiða til að draga úr þeim, finna aðra valkosti í stað þeirra eða afnema þær þegar aðstæður réttlæta þær ekki lengur.
6.           Þegar óvenjulegar aðstæður kalla á tafarlausar aðgerðir og útiloka að þær verði kannaðar fyrirfram getur viðkomandi samningsaðili, í tilvikum sem um ræðir í 18. gr. (Undirboð), 19. gr. (Neyðaraðgerðir vegna innflutnings tiltekinnar vöru) og 21. gr. (Endurútflutningur og alvarlegur vöruskortur) og í þeim tilvikum er ríkisaðstoð hefur bein og tafarlaus áhrif á viðskipti milli samningsaðila, gripið strax til varúðar- og bráðabirgðaráðstafana sem brýn þörf er á til að bæta ástandið. Tilkynna ber um ráðstafanirnar án tafar og efna sem fyrst til samráðs milli samningsaðila innan sameiginlegu nefndarinnar.

24. gr.
Undanþágur af öryggisástæðum

    Ekkert í þessum samningi kemur í veg fyrir að samningsaðili geri ráðstafanir sem það telur nauðsynlegar:
       a)      til að koma í veg fyrir að gefnar séu upplýsingar sem eru andstæðar mikilvægum öryggishagsmunum þess,
       b)      til að vernda mikilvæga öryggishagsmuni sína eða standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi eða yfirlýsta stefnu sína
                      i)      að því er snertir viðskipti með vopn, skotfæri og hergögn, að því tilskildu að ráðstafanirnar raski ekki samkeppnisstöðu að því er snertir vörur sem eru ekki ætlaðar sérstaklega til hernaðar, og önnur viðskipti með vörur, efni eða þjónustu sem er beint eða óbeint í þágu hernaðaraðila, eða
                      ii)      varðandi bann við dreifingu efna- og lífefnavopna, kjarnavopna eða annarra kjarnasprengna, eða
                      iii)      á stríðstímum eða þegar alvarleg spenna ríkir í alþjóðamálum.

25. gr.
Þjónusta og fjárfestingar

1.           Samningsaðilarnir viðurkenna að þjónusta og fjárfestingar verða æ mikilvægari. Í viðleitni sinni við að þróa smám saman og auka samstarf sitt munu þeir vinna saman að því markmiði að auka fjárfestingar og auka smám saman frjálsræði og opna markaði sína gagnkvæmt í þjónustuviðskiptum.
2.           Samningsaðilarnir skulu ræða þessa samvinnu í sameiginlegu nefndinni með það fyrir augum að þróa og styrkja tengsl sín samkvæmt samningnum.

26. gr.
Tæknileg aðstoð

    Til að auðvelda framkvæmd þessa samnings skulu samningsaðilarnir samþykkja heppilegt skipulag um tækniaðstoð og samvinnu yfirvalda aðilanna á sviði viðskipta. Til að ná þessum markmiðum skulu þau vinna með hlutaðeigandi alþjóðastofnunum.

27. gr.
Sameiginlega nefndin

1.           Sameiginleg nefnd skal hafa umsjón með og annast framkvæmd samningsins.
2.           Til að tryggja árangursríka framkvæmd samningsins skulu samningsaðilar skiptast á upplýsingum og, að beiðni samningsaðila, efna til samráðs í sameiginlegu nefndinni. Sameiginlega nefndin skal kanna reglulega möguleika á að fjarlægja þær hindranir sem eftir standa í vegi fyrir viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Vesturbakkans og Gaza-svæðisins.
3.           Sameiginlegu nefndinni er heimilt að taka ákvarðanir í málum sem kveðið er á um í samningnum. Í öðrum málum er sameiginlegu nefndinni heimilt að gera tillögur.

28. gr.
Störf sameiginlegu nefndarinnar

1.           Til að tryggja árangursríka framkvæmd samningsins kemur sameiginlega nefndin saman með reglulegu millibili og hvenær sem það er talið nauðsynlegt. Sérhverjum samningsaðila er heimilt að fara þess á leit að fundur verði haldinn.
2.           Ákvarðanir nefndarinnar skulu samþykktar samhljóða.
3.           Hafi fulltrúi samningsaðila í sameiginlegu nefndinni samþykkt ákvörðun, með fyrirvara um að uppfyllt verði stjórnskipuleg skilyrði, skal ákvörðunin taka gildi þann dag sem tilkynnt er að fallið hafi verið frá fyrirvaranum, sé ekki kveðið á um síðari gildistökudag í ákvörðuninni.
4.           Samkvæmt þessum samningi setur sameiginlega nefndin sér starfsreglur.
5.           Sameiginlega nefndin getur ákveðið að skipa undirnefndir og vinnuhópa sem hún telur þörf á til aðstoðar við að inna skyldur sínar af hendi.

29. gr.
Málsmeðferð fyrir gerðardómi

1.           Heimilt er að vísa deilumálum milli samningsaðilanna, er lúta að túlkun á réttindum og skyldum samningsaðilanna og hafa ekki verið leyst með viðræðum í sameiginlegu nefndinni innan sex mánaða, til gerðardóms með skriflegri tilkynningu sem deiluaðili stílar á hinn deiluaðilann. Senda skal afrit af tilkynningunni til allra samningsaðilanna.
2.           Fjallað er um stofnun og starfsemi gerðardómstólsins í VI. viðauka.
3.           Gerðardómstóllinn skal leysa deilur í samræmi við ákvæði þessa samnings og viðeigandi reglur þjóðaréttar.
4.           Úrskurður gerðardóms er endanlegur og bindandi fyrir deiluaðila.

30. gr.
Uppfylling skuldbindinga

1.           Samningsaðilarnir skulu gera allar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að markmið samningsins náist og til að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.
2.           Telji EFTA-ríki að palestínsk yfirvöld hafi ekki eða telji palestínsk yfirvöld að EFTA- ríki hafi ekki uppfyllt skuldbindingu samkvæmt samningnum getur viðkomandi samningsaðili gert viðeigandi ráðstafanir samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 23. gr. (Málsmeðferð við beitingu öryggisráðstafana).

31. gr.
Viðaukar og bókanir

    Viðaukar og bókanir við samninginn eru óaðskiljanlegur hluti hans. Sameiginlega nefndin getur ákveðið breytingar á viðaukum og bókunum.

32. gr.
Viðskiptasambönd sem falla undir þennan samning

    Samningur þessi gildir um viðskiptasambönd milli einstakra EFTA-ríkja annars vegar og Vesturbakkans og Gaza-svæðisins hins vegar en ekki um viðskiptasambönd milli einstakra EFTA-ríkja nema kveðið sé á um annað í samningnum. Í þessum samningi merkir hugtakið „samningsaðilar“ EFTA-ríkin og PLO fyrir hönd palestínskra yfirvalda sem fer með umboð fyrir þau.

33 gr.
Yfirráðasvæði þar sem samningurinn gildir

    Samningur þessi tekur til yfirráðasvæða EFTA-ríkjanna og yfirráðasvæðis Vesturbakkans og Gaza-svæðisins, ef ekki er kveðið á um annað í bókun E.

34. gr.
Tollabandalög, fríverslunarsvæði og landamæraviðskipti

    Samningur þessi skal ekki koma í veg fyrir að tollabandalögum, fríverslunarsvæðum og samningum um landamæraviðskipti verði haldið við eða til þeirra stofnað, að því marki sem það hefur ekki neikvæð áhrif á fyrirkomulag viðskiptanna.

35. gr.
Breytingar

    Breytingar á samningnum, að öðru leyti en um getur í 31. gr. (Viðaukar og bókanir), sem sameiginlega nefndin samþykkir, skulu lagðar fyrir samningsaðilana til samþykkis og öðlast gildi þegar allir samningsaðilar hafa samþykkt og/eða fullgilt þær. Breytingartextum og samþykktarskjölum eða fullgildingarskjölum skal komið í vörslu hjá vörsluaðila.

36. gr.
Aðild

1.           Sérhvert ríki sem gerist aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu getur gerst aðili að samningi þessum, ákveði sameiginlega nefndin að samþykkja aðild þess með þeim kjörum og skilyrðum sem sett kunna að verða í þeirri ákvörðun, enda semji umsóknarríkið um aðildina við hlutaðeigandi samningsaðila. Aðildarskjalinu skal koma í vörslu hjá vörsluaðila.
2.           Að því er varðar ríki sem gerist aðili skal samningurinn taka gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að aðildarskjali þess hefur verið komið í vörslu.

37. gr.
Endurskoðunarákvæði

    Til að ná endanlegum samningi skuldbinda samningsaðilarnir sig til að endurskoða þennan samning og framkvæmd hans í ljósi þróunar efnahagssamskipta á alþjóðavettvangi og framvindu friðarviðræðna í Mið-Austurlöndum. Enn fremur geta samningsaðilar gefið sameiginlegu nefndinni fyrirmæli um að fjalla um og gera tillögur um að þróa og auka samvinnu á grundvelli þessa samnings og láta hann ná til sviða sem falla ekki undir hann.

38. gr.
Uppsögn og niðurfelling samningsins

1.           Sérhvert samningsaðili getur dregið til baka aðild sína að samningnum með því að tilkynna vörsluaðila það skriflega. Uppsögnin tekur gildi sex mánuðum eftir að tilkynningin berst vörsluaðila.
2.           Dragi palestínsk yfirvöld aðild sína til baka fellur samningurinn úr gildi þegar uppsagnarfresturinn er liðinn og ef öll EFTA-ríkin draga aðild sína til baka fellur samningurinn úr gildi eftir að síðasti uppsagnarfresturinn er liðinn.
3.           Ef EFTA-ríki dregur til baka aðild sína að samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu fellur aðild þess að samningi þessum af þeim sökum niður sama dag og uppsögnin tekur gildi.

39. gr.
Gildistaka

1.           Samningurinn öðlast gildi 1. júní 1999 gagnvart samningsríkjum, sem þá hafa komið fullgildingar- eða staðfestingarskjölum sínum til vörsluaðilans, að því tilskildu að palestínsk yfirvöld hafi komið fullgildingar- eða staðfestingarskjölum sínum í vörslu.
2.           Þegar um er að ræða aðila sem undirritar samninginn og kemur fullgildingar- eða staðfestingarskjali sínu í vörslu eftir 1. júlí 1999 öðlast samningurinn gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að skjalinu hefur verið komið til vörsluaðila, að því tilskildu að samningurinn öðlist gildi hjá palestínskum yfirvöldum eigi síðar en þann dag.
3.           Aðili sem undirritar samninginn getur þegar við undirritun lýst yfir að geti samningurinn ekki tekið gildi gagnvart honum 1. júlí 1999 muni hann fyrst í stað beita ákvæðum samningsins til bráðabirgða. Beiting til bráðabirgða kemur því aðeins til greina fyrir EFTA-ríki að samningurinn hafi tekið gildi hjá palestínskum yfirvöldum eða palestínsk yfirvöld beiti ákvæðum samningsins til bráðabirgða.

40. gr.
Vörsluaðili

    Ríkisstjórn Noregs, sem gegnir hlutverki vörsluaðila, skal tilkynna öllum samningsaðilum, sem undirritað hafa samninginn eða gerst aðilar að honum, um afhendingu skjala er varða fullgildingu, beitingu til bráðabirgða, aðild eða staðfestingu á breytingum samkvæmt 35. gr. (Breytingar) og einnig gildistöku samningsins og breytingar á honum samkvæmt reglum sem mælt er fyrir um í 35. gr. (Breytingar), niðurfellingu hans eða uppsögn á honum.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.
GJÖRT í Leukerbad á þrítugasta degi nóvembermánaðar 1998 í einu frumriti á ensku og skal því komið í vörslu hjá ríkisstjórn Noregs. Vörsluaðili skal senda öllum aðilum sem undirritað hafa samninginn og aðilum sem gerast aðilar að honum staðfest afrit.

BÓKUN UM SAMKOMULAG VARÐANDI BRÁÐABIRGÐASAMNING MILLI EFTA-RÍKJANNA OG PLO FYRIR HÖND PALESTÍNSKRA YFIRVALDA

Samræmi

1.           EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld eru sammála um að palestínsk yfirvöld mismuni ekki EFTA-ríkjum er þau uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart Evrópubandalaginu samkvæmt bráðabirgðasamningnum og aðildarsamningi sem verður gerður síðar.

Unnar landbúnaðarafurðir

2.           EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld eru sammála um að fastir tollar, sem um getur í 4. gr. bókunar A við samninginn, skuli ekki vera hærri en þeir tollar sem Ísrael leggur á innflutning framleiðsluvara sem eru upprunnar í EFTA-ríki og skráðar í töflu V í bókuninni.

Fiskur og aðrar sjávarafurðir

3.           EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld líta svo á að það sé ófrávíkjanlegt markmið þessa samnings að afnema algerlega höft á viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir. Palestínskum yfirvöldum ber að afnema öll höft á innflutning framleiðsluvara sem eru upprunnar í EFTA- ríki um leið og aðstæður leyfa.
4.           Samningsaðilarnir hafa hugfast að í Parísar-bókuninni milli palestínskra yfirvalda og Ísraels er valdsvið palestínskra yfirvalda takmarkað á sviði viðskipta með fisk og aðrar sjávarafurðir. Samningsaðilar eru sammála um að þær breytingar sem kunna að vera gerðar á fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Ísraels er varða fisk og aðrar sjávarafurðir taki einnig til viðskipta milli EFTA-ríkjanna og Vesturbakkans og Gaza-svæðisins þar til palestínsk yfirvöld hafa fengið óskorað vald á þessu sviði.
5.           Að því er varðar 3. gr. II. viðauka ríkir sá skilningur að orðalagið „um leið og aðstæður leyfa“ merki um leið og palestínsk yfirvöld hafa fengið óskorað vald á sviði fisks og annarra sjávarafurða.

Bókun B

6.           EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld viðurkenna mikilvægi samvinnu á svæðinu við Miðjarðarhafið. Markmiðið með þessari samvinnu er að veita tækifæri til frekari þróunar fríverslunarsambanda milli samningsaðilanna, sem og innan svæðisins, og stuðla þannig að því að koma á fót fríverslunarsvæði landa í Evrópu og við Miðjarðarhafið.
7.           Í ljósi þessa hafa EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld lýst yfir vilja sínum til að hefja viðræður í hlutaðeigandi löndum við fyrsta tækifæri í því augnamiði að taka upp í samninginn nauðsynleg ákvæði er varða gagnkvæma þríhliða uppsöfnun vegna framleiðsluvara sem eru upprunnar í Egyptalandi, Ísrael og Jórdaníu, eftir því sem við á.
8.           EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld samþykkja að leitast við að víkka enn frekar og bæta upprunareglurnar, í því skyni að auka og styðja við framleiðslu og viðskipti á svæði sem nær yfir Evrópu og lönd við Miðjarðarhafið, að leitast við að víkka enn frekar og bæta upprunareglurnar, einkum með því að gerast aðilar að því kerfi uppsöfnunar á þessu svæði sem kann að verða komið á.
9.           Að því er varðar 6. mgr. 15. gr. bókunar B samþykkja EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld að hefja viðræður, að beiðni annars hvors samningsaðilans, um neikvæð áhrif sem leiða af þessari undanþágu með það að markmiði að finna fullnægjandi lausn. EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld samþykkja einnig að hver sú endurskoðun sem fram fer innan sameiginlegu nefndarinnar skuli taka mið af þeim starfsháttum sem eru viðhafðir í samskiptum palestínskra yfirvalda og Evrópubandalagsins.

Vernd hugverka

10.           EFTA-ríkin veita tækniaðstoð í því augnamiði að styðja þá viðleitni palestínskra yfirvalda að uppfylla skuldbindingar sínar er varða vernd hugverka á sem auðveldastan hátt.

Endurskipulagning

11.           Sá skilningur ríkir að tollar eða gjöld vegna endurskipulagningar, sem eru lögð á framleiðsluvörur upprunnar í EFTA-ríkjunum, skuli ekki vera hærri en tollar eða gjöld sem eru lögð á samskonar framleiðsluvörur upprunnar í Evrópubandalaginu.
12.           Að því er varðar 3. mgr. 20. gr. skal nota alþjóðlegar viðskipta- og hagskýrslur, til dæmis frá Sameinuðu þjóðunum (UN)/Efnahagsnefnd Evrópu (ECE), Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), ef til ágreinings kemur um raunverulegt verðmæti innfluttra iðnaðarvara.

Tækniaðstoð

13.           Sá skilningur ríkir að EFTA-ríkin muni veita palestínskum yfirvöldum tækniaðstoð í málum er varða viðskiptastefnu þeirra og tengjast framkvæmd samningsins. Aðstoðin verður veitt með málstofum á vegum EFTA-ríkjanna um viðskiptastefnu og tollamál og annarri tæknilegri aðstoð sem samningsaðilar verða ásáttir um.

Endurskoðunarákvæði

14.           Samningurinn verður endurskoðaður þegar palestínsk yfirvöld hafa fengið rýmra valdsvið og samningaviðræðum um framtíðarstöðu þeirra er lokið, svo að unnt sé að ganga frá endanlegum samningi.
15.           EFTA-ríkin og palestínsk yfirvöld skuldbinda sig til að endurskoða samninginn þegar palestínsk yfirvöld hefja formlegar viðræður um aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO).

GJÖRT í Leukerbad á þrítugasta degi nóvembermánaðar 1998 í einu frumriti á ensku og skal því komið í vörslu hjá ríkisstjórn Noregs. Vörsluaðili skal senda öllum aðilum sem undirritað hafa samninginn og aðilum sem gerast aðilar að honum staðfest afrit.
Neðanmálsgrein: 1
1     Mærkning af fødevarer fra Israel, hhv. de besatte palæstinensiske områder:
     www.foedevarestyrelsen.dk/Leksikon/Sider/Mærkning-af-fødevarer-fra-Israel-og-besatte-palæstinensiske-områder.aspx