Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 150  —  150. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um uppbyggingu áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi.


Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Ögmundur Jónasson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa starfshóp um áningarstaði við þjóðvegi sem geri tillögu um uppbyggingu, hlutverk og þróun áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi landsins, m.a. með tilliti til salernisaðstöðu. Starfshópurinn meti einnig hvort fjölga beri áningarstöðum Vegagerðarinnar, geri tillögur um forgangsröðun í uppbyggingu áningarstaða og meti kostnað við uppbyggingu á fyrsta áfanga hennar. Ráðherra leggi niðurstöður starfshópsins fyrir Alþingi á vorþingi 2016.

Greinargerð.

    Mikilli fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi á undanförnum árum hefði þurft að fylgja mun meiri fjárfesting í innviðum ferðamannaþjónustunnar en átt hefur sér stað. Stefnuleysi stjórnvalda í málaflokknum, lausatökum þeirra á viðfangsefnunum sem honum tengjast og úrræðaleysi við fjármögnun brýnna verkefna er einkum um að kenna. En þótt skort hafi á nauðsynlega stefnumörkun og uppbyggingu í ferðamannageiranum er alls ekki svo að skilja að allt sé þar í kalda koli því íslenskt samfélag býr sannarlega að þeirri uppbyggingu innviða sem farið hefur fram á vegum hins opinbera á undanförnum áratugum. Þar hefur víða verið skotið traustum stoðum undir framtíðarframkvæmdir sem sjálfsagt er að nýta.
    Meðal þess sem allnokkuð hefur verið gagnrýnt af hálfu almennings og ferðaþjónustuaðila er skortur á almenningssalernum og hreinlætisaðstöðu fyrir ferðamenn. Gæti sú umræða sem farið hefur fram um þetta undanfarið gefið til kynna á stundum að hreinlætis- og hollustuháttum ferðamanna væri ærið ábótavant og salernisaðstaða í þeirra þágu til vansa fyrir land og þjóð. Munu það vera nokkrar ýkjur en hitt sönnu nær að þörf er fyrir úrbætur á þessu sviði og ýmsum öðrum til að bæta umbúnað ferðamannaþjónustunnar svo vel megi við hann una.
    Svo heppilega vill til að Vegagerðin hefur komið upp áningarstöðum við þjóðvegi landsins og annast umhirðu þeirra. Þessir áningarstaðir Vegagerðarinnar eru nú 469 talsins. 1 Á heimasíðu Vegagerðarinnar segir að þeir séu „margvíslegir að stærð, gerð og útbúnaði“. Enn fremur segir um þá: „Víðast er aðstaða til að borða nesti, oft fróðleikur á skiltum um sögu eða hindurvitni í nánasta umhverfi auk þjónustu- og leiðbeiningarupplýsinga.“ Fram kemur að salerni eru nú á 27 áningarstöðum Vegagerðarinnar.
    Vegagerðin hefur alllanga reynslu af því að starfrækja áningarstaði. Gerð þeirra hófst árið 1987 fyrir hvatningu frá Félagi leiðsögumanna og með aðstoð þess þar sem reyndir leiðsögumenn voru með í ráðum um staðarval. 2 Gengið hefur verið út frá því að hlutverk áningarstaðanna væri tvíþætt; annars vegar væru þeir hvíldarstaðir en hins vegar útsýnisstaðir og markast staðsetning þeirra af þessu. Fyrirkomulag og mannvirki áningarstaðanna hafa þróast á ýmsan hátt á þeim tæpum þremur áratugum sem þeir hafa verið við lýði, m.a. með tilliti til aðgengis hreyfihamlaðra, og ber að sjálfsögðu að halda áfram á þeirri leið.
    Nú þegar þörf er fyrir aukna uppbyggingu í þágu ferðamannaþjónustunnar með fjölgun almenningssalerna með þjóðvegum landsins og við ferðamannastaði á landsbyggðinni virðist einboðið að byggja á þeim grunni sem hinir 469 áningarstaðir Vegagerðarinnar mynda og fela stofnuninni að leggja í endurbætur á þeim sem hafi það m.a. að markmiði að gera ferðamönnum fært að bjarga brókum sínum við sæmandi aðstæður sem víðast með þjóðvegum landsins og við náttúruvætti. Fyrirliggjandi tillaga felur þannig í sér ábendingu um að halda áfram á þegar markaðri braut með uppbyggingu þess þáttar þjóðvegakerfisins sem snýr að þjónustu við þarfir ferðamanna, nýta þá reynslu sem fengist hefur, styrkja opinbera innviði samfélagsins og skapa störf á landsbyggðinni en þar eru flestir áfangastaðirnir eðli málsins samkvæmt.
Neðanmálsgrein: 1
1     Heimasíða Vegagerðarinnar: www.vegagerdin.is/sthbthjon.nsf/
Neðanmálsgrein: 2
2     Guðrún Rakel Svandísardóttir: Áningarstaðir á Snæfellsnesi. BS-ritgerð við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Maí 2011.