Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 167  —  95. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur
um þjónustu presta og mismunun á grundvelli kynhneigðar.


     1.      Eru einhverjar reglur um samviskufrelsi presta í gildi innan þjóðkirkjunnar sem heimila þeim að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar? Ef svo er, á hvaða heimild byggjast þær reglur?
    Í tilefni af fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá biskupsstofu. Upplýsingarnar bárust með bréfi, dags. 7. júlí 2015. Í svari biskupsstofu kemur fram að engar reglur séu í gildi innan þjóðkirkjunnar um samviskufrelsi presta sem heimili þeim að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar. Um nánara svar vísast til greinargerðar sem fram kemur í svari biskupsstofu, sjá fylgiskjal.

     2.      Er ráðherra kunnugt um tilfelli þar sem samkynja pörum hefur verið neitað um þjónustu starfsmanna kirkjunnar á grundvelli meints samviskufrelsis þeirra?
    Ráðuneytið hefur ekki fengið formlega tilkynningu eða ábendingu um að samkynja pörum hafi verið synjað um þjónustu starfsmanna kirkjunnar á grundvelli meints samviskufrelsis þeirra.

     3.      Telur ráðherra það geta samrýmst skyldum presta sem opinberra starfsmanna að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar?
    Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Skv. 62. gr. stjórnarskrárinnar skal hin evangelíska lúterska kirkja vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Með lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, var stefnt að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar. Skv. 1. gr. laganna nýtur þjóðkirkjan sjálfstæðis gagnvart ríkinu innan lögmæltra marka. Lögin hafa að geyma ákveðnar grundvallarreglur um þjóðkirkjuna sem henni ber að fara eftir, en jafnframt gera lögin ráð fyrir að þjóðkirkjan njóti frelsis um sín innri mál sem sjálfstætt starfandi trúfélag og setji sér starfsreglur um þau, sbr. 59. gr. laganna. Þannig hefur kirkjunni verið eftirlátið að móta stefnu sína en ríkisvaldið veitir henni þann stuðning sem því ber að veita og hefur yfirumsjón með því að þjóðkirkjan og stofnanir hennar fari að lögum.
    Samkvæmt 60. og 61. gr. laga nr. 78/1997 greiðir ríkissjóður laun presta þjóðkirkjunnar og njóta þeir réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo og öðrum lögum er kveða á um réttarstöðu opinberra starfsmanna.
    Sem opinberir starfsmenn mega prestar ekki mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 70/1996 skulu sérákvæði haldast í lögum sem öðruvísi mæla um réttindi og skyldur einstakra flokka starfsmanna. Í IV. kafla hjúskaparlaga, nr. 31/1993, með síðari breytingum, eru ákvæði um hjónavígslu. Í 22. gr. laganna er fjallað um rétt til hjónavígslu og skyldu prests til að framkvæma hjónavígslu. Þar segir í 1. mgr. að hjónaefni eigi rétt á að stofna til hjúskapar fyrir borgaralegum vígslumanni, hvort sem þau eiga kröfu á kirkjulegri hjónavígslu eða ekki. Í 2. mgr. er ákvæði um að ráðherra geti, að fengnum tillögum biskups, sett reglur um hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og nánari reglur um hvenær þeim sé þetta heimilt. Í athugasemdum við greinina, sem fram koma í frumvarpi að lögunum, segir að 2. mgr. byggist á því að unnt sé samkvæmt almennum stjórnsýslureglum að skjóta synjun prests um að framkvæma hjónavígslu til úrlausnar ráðuneytisins sem mundi samkvæmt venju leita álits biskups um málið. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um breytingar á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist, sem lagt var fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010, er fjallað um skyldu eða heimild presta til að vígja fólk af sama kyni í hjúskap, sbr. 6. kafla athugasemdanna sem fjallar um ýmis álitaefni. Þar segir m.a. varðandi vígsluheimild eða vígsluskyldu: „Árétta ber að spurningar um vígsluheimild og vígsluskyldu snerta fyrst og fremst einstaka vígslumenn. Með hliðsjón af stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi þykir mega stefna að því að allir muni geta notið kirkjulegrar vígslu innan þjóðkirkjunnar ef annað eða bæði hjónaefna tilheyra þjóðkirkjunni þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns.“ Ráðuneytið hefur ekki fengið til meðferðar kæru vegna synjunar prests um að vígja fólk í hjúskap og þar af leiðandi liggja ekki fyrir fordæmi þar um slíkt úrlausnarefni. Framangreint ákvæði 22. gr. hjúskaparlaga ber með sér að prestur geti synjað því að framkvæma hjónavígslu og að ráðuneytið leiti að jafnaði álits biskups fái það mál til úrlausnar. Sömuleiðis er ráðherra ætlað að leita eftir tillögum biskups við setningu reglna um það hvenær prestum sé skylt eða eftir atvikum heimilt að framkvæma hjónavígslu. Reglur um það hafa ekki verið settar en aðkoma biskups að þeim reglum byggist væntanlega á sjálfstæði þjóðkirkjunnar sem trúfélags. Hins vegar telur ráðuneytið að tilefni sé til að kalla eftir tillögum frá biskupi um það hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og hvenær þeim sé það heimilt.
    Að öðru leyti vísast til upplýsinga sem bárust frá biskupsstofu í bréfi, dags. 7. júlí 2015, vegna fyrirspurnarinnar, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Hefur komið til álita að færa hjónavígsluheimild alfarið til borgaralegra vígslumanna?
    Það hefur ekki komið til álita að færa hjónavígslur alfarið til borgaralegra vígslumanna.

     5.      Hefur komið til álita að heimild til borgaralegra hjónavígslna nái til fleiri en nú er, t.d. bæjarstjóra líkt og víða þekkist?
    Ráðuneytinu hefur borist beiðni um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, þess efnis að borgarstjóra verði heimilt að framkvæma borgaralega hjónavígslu ásamt sýslumönnum og löglærðum fulltrúum þeirra. Að mati ráðuneytisins þyrfti, ef til þess kæmi, að kanna hvort slík heimild ætti þá að ná til allra sveitarstjóra. Engin ákvörðun um þess háttar breytingu hefur þó verið tekin.


Fylgiskjal.


Bréf biskupsstofu til innanríkisráðuneytis.
Reykjavík 7. júlí 2015.


    Biskupsstofu barst þann 2. júlí sl. beiðni innanríkisráðuneytisins um að svara einni af fimm fyrirspurnum Andrésar Inga Jónssonar, sem borin var upp við ráðherra á Alþingi, á þingskjali 1563 í máli 811.

     Fyrirspurnin hljóðar svo: „Eru einhverjar reglur um samviskufrelsi presta í gildi innan þjóðkirkjunnar sem heimila þeim að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar? Ef svo er, á hvaða heimild byggjast þær reglur?“
     Svar: Nei, engar slíkar reglur eru í gildi innan þjóðkirkjunnar.


Greinargerð með svari

    Umræðan um hjónaband fólks af sama kyni var til umfjöllunar fyrir nokkrum árum í samfélaginu. Málið var rætt víða innan þjóðkirkjunnar út frá guðfræðilegum forsendum og var á grundvelli þeirrar umræðu samþykkt á kirkjuþingi árið 2007 að ef lögum um staðfesta samvist yrði breytt þannig að trúfélög fengju heimild til að staðfesta samvist þá styddi Kirkjuþing það að prestum þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, verði það heimilt. Kirkjuþing lagði í samþykkt sinni áherslu á að frelsi presta í þessum efnum verði virt.
    Þegar árið 1999 setti biskup form fyrir blessun og fyrirbæn yfir staðfesta samvist. Eftir breytingu á hjúskaparlögunum árið 2010 var sett nýtt form fyrir hjónavígslu í samræmi við hið nýja ákvæði um hjónaband fólks af sama kyni.
    Umfjöllun um samviskufrelsi presta varðandi hjónavígslu samkynhneigðra, þ.e. hvort prestar hefðu leyfi til að verða ekki við beiðni samkynhneigðra para um hjónavígslu fór einnig fram fyrir nokkrum árum. Í greinargerð með frumvarpi um breytingar á hjúskaparlögunum, sem lagt var fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009– 2010 er í 6. kaflanum fjallað um ýmis álitaefni. Þar stendur varðandi skyldu eða heimild til að vígja: „Árétta ber að spurningar um vígsluheimild og vígsluskyldu snerta fyrst og fremst einstaka vígslumenn. Með hliðsjón af stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi þykir mega stefna að því að allir muni geta notið kirkjulegrar vígslu innan þjóðkirkjunnar ef annað eða bæði hjónaefna tilheyra þjóðkirkjunni þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns“.
    Eftir síðustu breytingar á hjúskaparlögunum þar sem fólki af sama kyni er veittur réttur til að ganga í hjónaband hefur þjóðkirkjan ávallt litið svo á að réttur samkynhneigðra til kirkjulegrar hjónavígslu væri tryggður þó friðhelgi prests til að fara eftir samvisku sinni væri ekki fyrir borð borinn.
    Í áðurnefndri greinargerð með frumvarpinu um breytingar á hjúskaparlögunum þar sem fjallað er um ýmis álitaefni stendur einnig að „samkvæmt 1. mgr. 22. gr. hjúskaparlaga eiga hjónaefni ótvíræðan rétt á að stofna til hjúskapar fyrir borgaralegum vígslumanni hvort sem þau eiga kröfu á kirkjulegri hjónavígslu eða ekki.
    Á kirkjulegum vígslumönnum hvílir ekki sams konar skylda. Í 16. og 17. gr. laganna er fjallað um vígsluheimild presta og forstöðumanna skráðra trúfélaga og skv. 2. mgr. 22. gr. laganna getur ráðuneytið, að fengnum tillögum biskups, sett reglur um hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og nánari reglur um hvenær þeim sé þetta heimilt. Ákvæði þetta er óbreytt frá setningu eldri laga en ráðuneytið hefur ekki nýtt lagaheimildina til að setja umræddar reglur“.
    Af ástæðum sem Biskupsstofu eru ekki kunnar hefur ráðuneytið ekki kallað eftir tillögum biskups og ekki sett þessar reglur. Ef til vill er ástæðan sú að ekki hefur verið talin þörf á því vegna þess að umrædd þjónusta er tryggð innan þjóðkirkjunnar.

Virðingarfyllst, f.h. biskups Íslands,
Þorvaldur Víðisson, biskupsritari.