Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 262  —  242. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eflingu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.


Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Einar Daðason,
Jóhanna María Sigmundsdóttir, Haraldur Benediktsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvernig hægt sé að efla starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og auka fjárveitingar til hennar með það að markmiði að standa vörð um starfsemina og minnka álag á Landspítala.
    Starfshópurinn skili niðurstöðum eigi síðar en í apríl 2016.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi hefur það að markmiði að styrkja innviði, efla starfsemi og standa vörð um starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og minnka að sama skapi álag á Landspítala. Lagt er til að ráðherra komi á fót starfshópi sem hafi það hlutverk að greina starfsemi stofnunarinnar ítarlega og skila að því búnu hugmyndum og tillögum um með hvaða hætti verði hægt að efla starfsemina og auka fjárveitingar til stofnunarinnar. Lögð er áhersla á að vinna starfshópsins gangi hratt og vel fyrir sig og því er lagt til að hann skili niðurstöðum eigi síðar en í apríl á næsta ári.
    Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur þurft að ganga í gegnum erfiðan niðurskurð. Í kjölfar bankahrunsins þurfti að fara í sársaukafullar hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir á stofnuninni. Loka hefur þurft einni deild á Akranesi og störf hafa glatast auk þess sem dregið hefur verið saman hjá öðrum starfsstöðvum stofnunarinnar.
    Á sama tíma hefur álag á Landspítala aukist auk þess sem hann hefur ekki farið varhluta af hagræðingar- og niðurskurðarkröfum í kjölfar hrunsins. Flutningsmenn benda á að ein leið til að minnka álagið þar er að færa þær aðgerðir sem ekki þarfnast bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnanir í nágrenni Reykjavíkur og má í því sambandi benda á að Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi er eingöngu í 45 mínútna akstursfjarlægð frá Landspítala.
    Auk þessa telja flutningsmenn ástæðu til að gera Heilbrigðisstofnun Vesturlands að varasjúkrahúsi fyrir Landspítala.
    Það er mikilvægt hagsmuna- og öryggismál fyrir íbúa Vesturlands að Heilbrigðisstofnun Vesturlands verði efld og þjónustustig stofnunarinnar aukið. Því er mikilvægt að ráðist verði nú þegar í heildræna yfirferð á starfsemi stofnunarinnar með eflingu og styrkingu hennar að leiðarljósi.