Ferill 159. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 280  —  159. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Benediktssyni um bakteríusýkingar.


1.      Hver var tíðni eftirfarandi sýkinga á 100.000 íbúa á tímabilinu 2010–2014, sundurliðað eftir árum:
                  a.      kampýlóbaktersýking,
                  b.      salmonellusýking,
                  c.      enterohemoragísk E. coli-sýking,
                  d.      metisillínónæmir stafýlókokkar aureus (MÓSA),
                  e.      breiðvirkir betalaktamasamyndandi sýklar (ESBL)?

    Tíðni sýkinga (fjöldi á 100.000 íbúa á ári) á Íslandi tímabilið 2010-2014 var eftirfarandi:
2010 2011 2012 2013 2014
Kampýlóbakter 17 39 19 31 44
Salmonella 11 17 13 15 13
Enteróhemórragískur E. coli 1 1 0,3 1 1
MÓSA (metisillínónæmir stafýlókokkar) 11 18 13 10 17
ESBL (extended spectrum beta- laktamasamyndandi bakteríur) - - 40 34 41

2.      Hve mikill hluti framangreindra sýkinga átti upptök sín hér á landi og hve mikill hluti erlendis?
    Á árunum 2010– 2014 voru 36–49% kampýlóbaktersýkinga af völdum innlends smits, 37–50% vegna erlends smits en í 10–16% tilfella var smitleiðin óþekkt. Engin marktæk breyting var á milli áranna.
    Á árunum 2010–2014 voru 24–42% salmonellusýkinga innlendar, 37–61% erlendar en hjá 11–26% var smitleiðin óþekkt. Engin marktæk breyting var á milli ára.
    Smitleiðir enteróhemorragísks E. coli, MÓSA og ESBL eru hins vegar ekki þekktar þótt ætla megi að flestar smitleiðir MÓSA séu örugglega af innlendum toga.

3.      Hver er sambærileg tíðni þessara sýkinga í eftirtöldum ríkjum eða ríkjasamböndum:
                  a.      Danmörku,
                  b.      Bretlandi,
                  c.      Þýskalandi,
                  d.      Evrópusambandinu í heild,
                  e.      Bandaríkjunum?


         Kampýlóbaktersýkingar á 100.000 íbúa á ári.
2010 2011 2012 2013 2014
Ísland 17 39 19 31 44
Þýskaland 80 87 78 79 87
Danmörk 73 73 67 67 67
Bretland 112 114 114 104 104
EU-meðaltal 46 48 46 46 50
Bandaríkin 14 - 14 14 13
    
         Salmonellasýkingar á 100.000 íbúa á ári.
2010 2011 2012 2013 2014
Ísland 11 17 13 15 13
Þýskaland 31 29 26 23 20
Danmörk 30 21 22 21 20
Bretland 16 16 15 14 13
EU-meðaltal 21 20 19 18 18
Bandaríkin 18 - 16 15 15

    Enteróhemorragískur E. coli á 100.000 íbúa á ári.
2010 2011 2012 2013 2014
Ísland 1 1 0,3 1 1
Þýskaland 1 7 2 2 2
Danmörk 3 4 4 3 5
Bretland 2 2 2 2 2
EU meðaltal 1 2 1 1 1
Bandaríkin 2 - 1 1 2


    Mósasýkingar á 100.000 íbúa á ári.
2010 2011 2012 2013 2014
Ísland 11 18 13 10 17
Þýskaland 2 3 3 4 4
Danmörk 25 26 26 30 33
Bretland 4 5 4 3 4
EU-meðaltal 6 7 7 8 7
Bandaríkin 27 26 24 24 -

         Ekki liggja fyrir samanburðarhæfar tölur frá ýmsu löndum um faraldsfræði ESBL sem fjölda á 100.000 íbúa á ári. Ástæðan er sú að yfirleitt er faraldsfræði ESBL birt sem hlutfall ESBL-myndandi baktería af öllum Enterobacteriacaea-bakteríum (%). Taflan hér á eftir sýnir þessi hlutföll (% ) í þeim löndum sem spurt er um nema í Bandaríkjunum þar sem ekki liggja fyrir samanburðarhæf gögn þaðan.
2010 2011 2012 2013 2014
Ísland 4 6 7 4 3
Þýskaland 9 9 9 11 11
Danmörk 8 9 8 9 7
Bretland 9 9 13 15 10
EU-meðaltal 12 13 14 15 15
Bandaríkin - - - - -

4.      Hver var árlegur kostnaður heilbrigðisþjónustunnar við meðhöndlun framangreindra sýkinga, sundurliðað eftir árum?
    Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir. Meðferð við framangreindum sýkingum er oftast sýklalyfjagjöf en þau sýklalyf sem notuð eru við meðferð á þessum sýkingum eru einnig notuð við meðferð annarra sýkinga og því ekki unnt að greina nema með umfangsmikilli könnun hvaða ástæða var fyrir lyfjagjöfinni.
    Mósasýkingar valda helst vandamálum á legudeildum sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og öldrunarstofnana en ekki liggja fyrir kostnaðartölur um hvort lega sjúklinga hefur lengst vegna slíkrar sýkingar eða hver samfélagslegur kostnaður er, t.d. við að loka deild á sjúkrahúsi tímabundið.

5.      Telur ráðherra ávinning að því að vinna að frekari fækkun þessara sýkinga og ef svo er, hvernig telur ráðherra það best gert?
    Heilbrigðisráðherra telur tvímælalaust mjög mikinn ávinning af því að vinna að fækkun þessara sýkinga. Það verður best gert með því að reyna eins og mögulegt er að stemma stigu við útbreiðslu þessara baktería því aukin tíðni sýkinga af þeirra völdum leiðir til fjölgunar einstaklinga sem þjást vegna þeirra, fjölgunar alvarlegra afleiðinga sýkinganna og eykur verulega kostnað heilbrigðisþjónustunnar.
    Eftirfarandi aðgerðir eru líklegastar til að skila árangri:
     Stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum. Sóttvarnalæknir hefur staðið að slíku átaki í samvinnu við heilsugæsluna á nokkrum svæðum á landinu á undanförnum árum og lofar árangurinn góðu. Fyrirhugað er að halda áfram með þá vinnu og veita almenna og sértæka fræðslu í samvinnu við heilbrigðisstarfsfólk og almenning.
     Hvetja almenning til almenns hreinlætis.
     Halda áfram að takmarka notkun sýklalyfja hjá dýrum en hún er þó ein sú minnsta hér á landi í allri Evrópu.
     Fylgjast grannt með sýklalyfjaónæmum sýklum í matvælaframleiðslu hér á landi og bregðast við með viðeigandi hætti komi slíkt upp.
     Gefa út leiðbeiningar um hvernig staðið skuli að skimun ónæmra baktería hjá einstaklingum sem starfa í matvælaframleiðslu.
     Fylgjast vel með ónæmum sýklum í innfluttum matvælum.