Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 288  —  261. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum.

Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Björgvin G. Sigurðsson, Helgi Hjörvar, Hörður Ríkharðsson, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins ,,þrjá“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fimm.
     b.      Í stað orðsins ,,þremur“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: tveimur.
     c.      Í stað orðsins ,,níu“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: tólf.

2. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar ,,370.000 kr.“ í 3. mgr. 13. gr. laganna kemur: 500.000 kr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins ,,þrjá“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fimm.
     b.      Í stað orðsins ,,þrjá“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: tvo.
     c.      Í stað orðsins ,,níu“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: tólf.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 8. og 18. gr. verður sjálfstæður réttur hvors foreldris til töku fæðingarorlofs sem hér segir:
     a.      Frá 1. janúar 2016 til 31. desember 2016 skal sjálfstæður réttur hvors foreldris til töku fæðingarorlofs vera þrír mánuðir og skulu þrír mánuðir vera sameiginlegir.
     b.      Frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2017 skal sjálfstæður réttur hvors foreldris til töku fæðingarorlofs vera fjórir mánuðir og skulu tveir mánuðir vera sameiginlegir.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.
    2. gr. á við um foreldra barna sem fæðast eða eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2016 eða síðar.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, sem felast í því annars vegar að fæðingarorlof verði lengt og hins vegar að mánaðarleg hámarksgreiðsla verði hækkuð.
    Eftir hrun voru fjárframlög til Fæðingarorlofssjóðs skorin niður til að unnt yrði að hækka atvinnuleysisbætur og lágmarksgreiðslur almannatrygginga. Í nefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar o.fl. (274. mál á 138. löggjafarþingi) kom m.a. fram: „Þá telur meiri hlutinn rétt að árétta að þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar til skerðingar orlofsins hefur ávallt verið ætlað að vera tímabundnar eins og kemur skýrt fram í athugasemdum frumvarpa við þær breytingar. Telur meiri hlutinn mikilvægt að þessu sé viðhaldið og eigi við jafnt um þá breytingu sem nú er lögð til sem og þær sem á undan hafa komið. Mikilvægt er að þegar aðstæður í ríkisfjármálum leyfa gangi skerðingarnar að fullu til baka.“ Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir fylgdi þeim áformum og í árslok 2012 voru samþykkt lög nr. 143/2012 um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið var á um lengingu fæðingarorlofs úr samtals níu mánuðum í tólf mánuði og átti lenging að hefjast frá og með 1. janúar 2014 og taka að fullu gildi frá og með 1. janúar 2016. Einnig var mánaðarleg hámarksfjárhæð 3. mgr. 13. gr. laganna hækkuð úr 300.000 kr. í 350.000 kr.
    Þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum í maí 2013 breyttist forgangsröðun í ríkisfjármálum. Í árslok 2013 voru samþykkt lög nr. 140/2013 um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem fólu m.a. í sér að fallið var frá því að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði. Hámarksfjárhæð skv. 3. mgr. 13. gr. laganna var hækkuð um 20.000 kr. í 370.000 kr. frá og með 1. janúar 2014. Sú fjárhæð hefur ekki verið hækkuð síðan og ekki er gert ráð fyrir hækkun hennar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 en verði það raunin munu hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi ekki hækka í þrjú ár.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sjálfstæður réttur hvers foreldris skv. 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna verði fimm mánuðir og að sameiginlegur réttur foreldra skv. 3. málsl. sömu málsgreinar verði tveir mánuðir. Sambærileg breyting er lögð til á 18. gr. þar sem kveðið er á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Einnig er lagt til að mánaðarleg greiðsla skv. 3. mgr. 13. gr. hækki úr 370.000 kr. í 500.000 kr. Breyting á hámarksfjárhæð mun öðlast gildi 1. janúar 2016 verði frumvarpið að lögum. Gert er ráð fyrir því að lenging fæðingarorlofs verði innleidd í áföngum þannig að sjálfstæður réttur foreldra verði fjórir mánuðir og sameiginlegur réttur tveir mánuðir frá og með 1. janúar 2017 og að sjálfstæður réttur foreldra verði fimm mánuðir og sameiginlegur réttur tveir mánuðir frá og með 1. janúar 2018.
    Þegar feðrum var gefinn kostur á fæðingarorlofi og hámarksgreiðslan var hærri en hún er í dag náðist mikill árangur við að jafna stöðu kynjanna. Í kjölfar fjármálakreppunnar var hámarksfjárhæð fæðingarorlofsgreiðsla hins vegar lækkuð og hafði sú breyting neikvæð áhrif á árangur í jafnréttismálum. Fyrirhugað var að hækka hámarksfjárhæðina í áföngum til ársins 2015 þannig að hún næði 450.000 kr. en það gekk ekki eftir og er hámarksfjárhæð nú 370.000 kr. Árið 2008 var hámarksfjárhæðin 535.700 kr. eða 820.157 kr. á núvirði miðað við verðlag í ágúst 2015. Þak fæðingarorlofsgreiðslna væri því um 450.000 kr. hærra í dag ef ekki hefði komið til skerðinga og ef þær hefðu hækkað til samræmis við verðlag. Af þessu er ljóst að hámark fæðingarorlofsgreiðsla er enn langt frá upphaflegum markmiðum.
    Markmið þess að leggja til hækkun á hámarksfjárhæð er að virða rétt barna til samveru við báða foreldra og að jafna stöðu foreldra til þátttöku á vinnumarkaði og umönnunar barna. Afleiðingar lækkunar hámarksfjárhæðarinnar hafa verið þær að sífellt færri feður taka fæðingarorlof þar sem tekjur þeirra eru að jafnaði hærri en tekjur mæðra. Mæður eiga af eðlilegum ástæðum erfiðara með að stytta fæðingarorlofstímabil sitt þó margar þeirra lækki núorðið mikið í launum þá mánuði sem þær eru í fæðingarorlofi. Þróun fæðingarorlofstöku hefur verið þannig að hlutfall feðra sem tók fæðingarorlof var 90,9% árið 2008 en var komið niður í 78,3% árið 2014. Þessari þróun er nauðsynlegt að snúa við til að tryggja samvistir barna við báða foreldra á fyrsta æviárinu, jafna stöðu karla og kvenna og til að stuðla að auknum lífsgæðum barnafjölskyldna.
    Í frumvarpinu er ekki kveðið á um hækkun lágmarksgreiðslna eða fæðingarstyrkja sem nýtast þeim sem eru í lágu starfshlutfalli, í námi eða utan vinnumarkaðar. Þær greiðslur hækka árlega án aðkomu Alþingis. Forsendur þeirrar fjárhæðar er nauðsynlegt að endurskoða í framhaldinu í samhengi við lágmarksframfærsluviðmið námslána, lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur.
    Í frumvarpinu er lagt til að fæðingarorlof verði lengt úr níu mánuðum í tólf og felur sú breyting í sér aukinn rétt beggja foreldra og þar með ungabarna til samvista við foreldra sína. Sveitarfélög víða um land leitast við að brúa tímabilið sem foreldrar þurfa að bíða eftir dagvistun eftir að fæðingarorlofi lýkur. Ríki og vinnumarkaður þurfa að leggja sitt af mörkum til að ná því markmiði. Í frumvarpinu er lagt til að hámarksfjárhæðir fæðingarorlofsgreiðslna hækki að þessu sinni úr 370.000 kr. á mánuði í 500.000 kr. mánuði en sú fjárhæð jafngildir um 80% af meðallaunum í landinu.
    Mikil sátt var um breytingar á fæðingarorlofinu sem gerðar voru um síðustu aldamót. Markmiðið með þessu frumvarpi er að tryggja að fæðingarorlofskerfið þjóni markmiðum sínum. Að öðrum kosti er hætt við að fæðingarorlofskerfið veikist enn frekar og að kostnaðurinn við að endurreisa það verði illviðráðanlegur.