Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 304  —  275. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um hæfisskilyrði leiðsögumanna.


Flm.: Róbert Marshall, Katrín Júlíusdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að undirbúa reglur um hæfisskilyrði leiðsögumanna í ferðum um hálendi Íslands og í þjóðgörðum og friðlöndum á Íslandi. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir reglunum með skýrslu í upphafi 146. löggjafarþings haustið 2017.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari til þingsályktunar er lagt til að undirbúnar verði reglur um hæfi leiðsögumanna í ferðum um hálendi Íslands, þjóðgarða og friðlönd með það fyrir augum að vernda náttúruna.
    Störf leiðsögumanna eru hvorki löggilt né er starfsheitið lögverndað. Þó eru sett skilyrði um menntun til þess að öðlast starfsheitið leiðsögumaður. Leiðsögumenn eru sérhæfðir þjónustuaðilar við ferðamenn og krefst starfið m.a. þess að leiðsögumaður hafi víðtæka þekkingu á íslensku þjóðlífi, sögu og menningu og síðast en ekki síst náttúru Íslands.
    Árlega fara þúsundir ferðamanna um hálendi, þjóðgarða og friðlönd Íslands, með og án leiðsagnar. Náttúra þessara svæða er einstök og þess eðlis að vistgerðin er viðkvæm og rask ferðamanna, utanvegaakstur og annar umgangur getur farið illa með hana. Fjöldi ferðamanna fer um náttúru Íslands í skipulögðum hópferðum en þó einnig á eigin vegum, ýmist á bifreiðum, hestum, hjólum eða bifhjólum eða fótgangandi. Ljóst er að mesta hættan á skaða er þar sem saman fara stórir hópar sem njóta leiðsagnar leiðsögumanna með litla eða takmarkaða þekkingu á sérstakri náttúru landsins.
    Til að mögulegt sé að takmarka eða fyrirbyggja skaða á náttúru hálendisins, þjóðgarðanna og friðlandanna er mikilvægt að þeir leiðsögumenn sem bera ábyrgð á skipulögðum hópferðum á hálendinu séu hæfir til að ganga um náttúruna með þeim hætti sem ætlast er til samkvæmt lögum og almennt viðurkenndri venju hér á landi. Leiðsögumenn þurfa að vera hæfir til þess að leiða fólk um náttúru landsins með þeim hætti að ekki valdi spjöllum og þannig að ferðamenn þekki umgengnisreglurnar og mikilvægi þess að náttúran verði fyrir sem minnstri röskun, svo sem vegna utanvegaaksturs, steinasöfnunar og niðurbrots lífræns úrgangs.
    Flutningsmenn telja rétt að Umhverfisstofnun í samstarfi við Náttúrufræðistofnun, Landgræðsluna og Skógrækt ríkisins undirbúi námskeið fyrir leiðsögumenn ferðamanna um hálendi, þjóðgarða og friðlönd Íslands og móti jafnframt tillögur að reglum um hæfisskilyrði þeirra sem sinna leiðsögn um dýrmætustu og viðkvæmustu svæðin. Gera má ráð fyrir að leiðsögumenn sem þegar hafa lokið námi frá leiðsöguskóla hér á landi hafi nægilega þekkingu á efni slíks námskeiðs, en t.d. erlendir leiðsögumenn yrðu með slíkum skilyrðum skyldaðir til að afla sér tilskilinnar þekkingar áður en þeir veita leiðsögn um viðkvæmustu náttúrusvæði landsins. Með auknum fjölda ferðamanna má búast við fjölgun leiðsögumanna sem hafa e.t.v. ekki mikla þekkingu á íslenskri náttúru eða reglum um umgengni og vernd sem líklegt er að menntaðir leiðsögumenn hafi. Ýmis lönd hafa gripið til þess ráðs að skylda ferðamenn til þess að ráða innlenda leiðsögumenn á ferðum sínum en hér er ekki gengið svo langt. Æskilegt er að sem flestir leiðsögumenn hafi lokið námi í leiðsögn við íslenskar aðstæður en hér er gert að tillögu að útbúið verði námskeið fyrir þá sem hyggjast sinna leiðsögn hér svo að tryggt sé að náttúran verði ekki fyrir spjöllum.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra er með þingsályktun þessari falið að beina því til þeirra stofnana sem nefndar eru hér að framan, í samstarfi við samtök ferðaþjónustunnar og sveitarfélögin, ásamt innlendum ferðafélögum á borð við Útivist og Ferðafélag Íslands sem ekki eru rekin með hagnaðarsjónarmiði, að gera tillögur að reglum er varða hæfisskilyrði leiðsögumanna í ferðum um viðkvæm náttúrusvæði Íslands.