Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 353  —  172. mál.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um
sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki
(nauðasamningagerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Guðrúnu Þorleifsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Leif Arnkel Skarphéðinsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Steinunni Guðbjartsdóttur, Einar Baldvin Árnason og Pál Eiríksson frá slitastjórn Glitnis hf., Kristin Bjarnason og Herdísi Hallmarsdóttur frá slitastjórn LBI hf., Árna Ármann Árnason, Evu Helgadóttur og Ágúst Kristinsson frá slitastjórn Byrs Sparisjóðs, Þórarin Þorgeirsson, Þröst Ríkharðsson og Pál Jóhannesson frá slitastjórn Kaupþings hf., Hlyn Jónsson og Jóhann Pétursson frá slitastjórn SPRON, Berglindi Svavarsdóttur og Tómas Jónsson frá slitastjórn SPB hf. og Ingvar J. Rögnvaldsson og Guðrúnu Jennýju Jónsdóttur frá embætti ríkisskattstjóra.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá ríkisskattstjóra, Samtökum fjármálafyrirtækja, slitastjórn Glitnis hf., slitastjórn LBI hf., slitastjórn Byrs sparisjóðs, slitastjórn Kaupþings hf., slitastjórn SPRON og slitastjórn SPB hf. auk tveggja minnisblaða frá fjármálaráðuneytinu.

Um efni frumvarpsins og vinnu nefndarinnar.
    Megintilgangur frumvarpsins er að skýra betur eða einfalda nokkur atriði í löggjöf sem talin eru nauðsynleg til að auðvelda slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja gerð nauðasamninga. Frumvarpið er því lagt fram með það að markmiði að skapa frekari forsendur fyrir því að lögaðilar sem teljast skattskyldir aðilar í skilningi laga um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, geti lokið þeim áfanga í slitameðferð að hafa fengið nauðasamning staðfestan af dómstólum fyrir næstu áramót.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þremur lagabálkum eins og lýst er í athugasemdum við frumvarpið.
     Í umsögnum sem bárust nefndinni komu fram ábendingar sem meiri hlutinn taldi rétt að taka til nánari skoðunar. Eftir umfjöllun í nefndinni með umsagnaraðilum telur meiri hlutinn, með vísan til markmiðs frumvarpsins, rétt að leggja til nokkrar breytingar. Þar er komið að nokkru leyti til móts við ábendingar umsagnaraðila. Í nefndaráliti þessu er gerð grein fyrir þessum ábendingum og einnig að nokkru leyti hinum sem meiri hlutinn taldi ekki þörf á að bregðast við.

Um 1. gr. o.fl.
    Með ákvæðinu er lagt til að undanþága frá greiðslu tekjuskatts af vaxtatekjum sem kveðið er á um í 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði rýmkuð þannig að hún nái til vaxta af skuldabréfum sem gefin eru út af lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir en sæta slitameðferð eða hafa lokið slitameðferð með nauðasamningi. Nefndin hefur verið upplýst um afstöðu eins stærsta aðilans á sviði utanumhalds og uppgjörs vegna útgáfu skuldabréfa í Evrópu til þessa álitaefnis. Fyrir liggur að uppgjörsfyrirtæki muni ekki taka við skráningu á skuldabréfunum ef þeim yrði skylt að halda eftir afdráttarskatti vegna vaxta af umræddum bréfum. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu munu skuldabréf sem slitabúin gefa út í tengslum við nauðasamninga ekki bera vexti í öllum tilvikum. Með vöxtum í skilningi 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt er hins vegar einnig átt við vexti í formi affalla sem myndast við viðskipti með skuldabréfin síðar meir. Umsýsla síðar meir vegna slíkrar skattskyldu aðila sem hafa takmarkaða skattskyldu hér á landi er torveld og fellst nefndin á markmið ákvæðisins. Í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarpið er hins vegar bent á að orðalag 1. gr. frumvarpsins tiltaki ekki sérstaklega að skuldabréfið þurfi að vera gefið út í tengslum við nauðasaming heldur undanþiggi orðalagið alla vexti af öllum skuldabréfum sem umræddir aðilar gefi út óháð tilefni skuldabréfaútgáfunnar. Meiri hlutinn fellst á að rétt sé að kveða skýrar á um að undanþágan sem 1. gr. frumvarpsins vísar til eigi aðeins við tilgreinda aðila að því marki sem útgáfa skuldabréfanna sé liður í því að efna greiðslur samkvæmt nauðasamningi.
    Ríkisskattstjóri bendir einnig á að ef hinn nýi málsliður eigi að koma á eftir núgildandi 4. málsl. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt gildi ekki þau skilyrði sem fram komi í þeim málslið um skráningu umræddra skuldabréfa hjá verðbréfamiðstöð. Þá kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að breytingin sem lögð er til í frumvarpinu taki eingöngu til þeirra móttakenda vaxta sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Innlendir aðilar beri áfram fulla og ótakmarkaða skattskyldu af vöxtunum. Að lokum áréttar ríkisskattstjóri að frumvarpið haggi í engu þeirri upplýsingaskyldu sem hvíli á útgefanda skuldabréfanna og eftir atvikum milligönguaðilum. Meiri hlutinn telur þessar ábendingar ríkisskattstjóra ekki gefa tilefni til sérstakra viðbragða.
    Í umsögn einnar slitastjórnar er vísað til þess að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða LVI í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, er það gert að skilyrði fyrir því að eftirgjöf skulda við gerð nauðasamnings myndi ekki skattstofn að hinni eftirgefnu kröfu verði breytt í hlutafé í hinu skuldsetta félagi. Er á það bent að óeðlilegt sé að binda skattfrelsi eftirgjafar við það form að kröfu sé breytt í hlutafé. Skýr krafa hafi komið frá sumum kröfuhöfum, erlendum bönkum og sparisjóðum um að þeir verði ekki hluthafar í fyrrverandi fjármálafyrirtæki hérlendis. Í umsögninni kemur fram að tilgangurinn með nauðasamningi slitabús sé að ljúka slitum á fyrrum fjármálafyrirtæki og ekki standi til að endurreisa fjármálafyrirtækið. Slitastjórnin leggur því til að orðin „gegn því að kröfu er breytt í hlutafé í hinu skuldsetta félagi“ verði felld brott úr ákvæðinu. Af þessu tilefni fjallaði nefndin um að markmið gildandi ákvæðis, þ.e. ákvæðis til bráðabirgða LVI í lögum um tekjuskatt sem lögfest var með lögum nr. 59/2015, hafi verið að greiða fyrir vinnu við gerð nauðasamninga fjármálafyrirtækja í slitameðferð. Að teknu tilliti til þeirra álitaefna sem hafa komið upp síðan þá þykir meiri hlutanum rétt að leggja nú til breytingu á a-lið ákvæðisins. Nú er lagt til að eftirgjöf skulda skuli teljast skuldara til skattskyldra tekna þar til allt yfirfæranlegt skattalegt tap hans frá fyrri rekstrarárum og skattalegt tap ársins hefur að fullu verið jafnað. Nemi eftirgjöf skulda hærri fjárhæð en ójöfnuðu yfirfæranlegu tapi frá fyrri árum, að viðbættu tapi ársins ef því er fyrir að fara, telst mismunurinn ekki til skattskyldra tekna. Áréttað er að tekjur vegna eftirgjafar færast eftir að rekstrarafkoma ársins, hagnaður eða tap, hefur verið leidd fram og rekstarhagnaður, sé honum fyrir að fara, hefur verið jafnaður með tapi frá fyrri árum. Með því móti er bæði girt fyrir að eftir standi yfirfæranlegt tap til næsta árs þrátt fyrir að eftirgjöf hafi ekki verið tekjufærð að fullu og að eftirgjöf myndi tekjuskattsstofn. Gildandi regla hefur verið túlkuð á þann hátt að eftirgefnar skuldir yrðu fyrst jafnaðar á móti yfirfæranlegu tapi og rekstrartapi ársins áður en kæmi að nýtingu taps á móti hagnaði ársins. Framangreind meðhöndlun eftirgjafar yrði ekki bundin við umbreytingu skuldar í hlutafé, þ.e. ekki yrði lengur gert að skilyrði að skuldari gæfi út nýtt hlutafé til kröfuhafa sem greiðslu upp í kröfu hans. Fari slík greiðsla fram telst til eftirgjafar mismunur á nafnverði kröfunnar sem umbreytt er og raunvirði hlutafjárins sem gefið er út á móti. Raunvirði útgefins hlutafjár nemur í því sambandi bókfærðu eigin fé skuldarans að gerðum viðeigandi færslum vegna eftirgjafarinnar og umbreytingarinnar.
    Ástæða þykir til að kveða jafnframt á um meðhöndlun eftirgjafar og umbreytingar í skattskilum kröfuhafa. Kröfuhafar geta ýmist borið ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Í hópi kröfuhafa geta ýmist verið atvinnufyrirtæki eða einstaklingar. Rekstraraðilum sem bera ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi er heimilt skv. 3. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt að færa til frádráttar tekjum sínum tapaðar viðskiptakröfur og lánveitingar. Hér er áréttað að slík heimild nær til eftirgjafar krafna við nauðasamninga slíkra sem hér um ræðir. Þá er áréttað að um frádráttarheimild er að ræða. Kjósi rekstraraðili að nýta sér þá heimild ekki, eða aðeins að hluta, myndar sá hluti nafnverðs kröfu sem ekki er færður til frádráttar stofnverð hlutafjár þess sem skuldari gefur út til greiðslu upp í kröfuna. Nafnverð eftirgefinnar kröfu myndar á hinn bóginn stofnverð móttekins hlutafjár í hendi þeirra kröfuhafa sem ekki eiga þess kost að færa tap á kröfum til frádráttar tekjum sínum, svo sem einstaklinga utan rekstrar og kröfuhafa sem bera aðeins takmarkaða skattskyldu á Íslandi.

Um 2. gr.
    Fram kom athugasemd við 2. gr. frumvarpsins sem varðar orðalag sem vísar til þess að slitameðferð sé lokið. Lagt var til við nefndina að greinin mundi vísa til lögaðila sem hafa fengið samþykkt frumvarp að nauðasamningi. Um þetta atriði og skilgreiningu þess hvenær slitameðferð telst lokið fjallaði nefndin ítarlega, sbr. umfjöllun um b-lið 3. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.
    Fram kom ábending um að a-liður 3. gr. frumvarpsins væri ekki í samræmi við venju, sem hefur myndast á þeim árum sem slitabúin hafa verið starfrækt, um skráningu aðilaskipta að kröfum í búin. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að slitastjórn beri upp á kröfuhafafundi tillögu um að þeir kröfuhafar einir sem skráðir eru í kröfuhafaskrá á þeim degi þegar frumvarp að nauðasamningi er lagt fram hafi heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarpið. Fram kom í umsögn einnar slitastjórnar að þessi lagabreyting bæti engu við gildandi rétt eða þá framkvæmd sem höfð hefur verið við slitameðferð fjármálafyrirtækja til þessa. Hins vegar sé það mjög hamlandi fyrir slitastjórnir að þurfa að afla samþykkis á kröfuhafafundi fyrir lokun kröfuskrár og að viðmiðunardagsetning verði að vera sá dagur þegar frumvarp að nauðasamningi sé lagt fram. Svigrúm verði að vera til staðar varðandi tímamarkið. Ljóst er hins vegar að nýr kröfuhafi hefur heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi ef hann tilkynnir slitastjórn um kröfuhafaskipti og sannar þau með framvísun gagna. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið og leggur til breytingu á a-lið 3. gr. frumvarpsins sem miðar að auknum sveigjanleika við ákvörðun viðmiðunardagsetningar vegna lokunar kröfuskrár. Sömu sjónarmið eiga við um framsöl eftir samþykki og staðfestingu nauðasamnings og móttöku greiðslna á grundvelli þeirra.
    Athugasemdir bárust nefndinni vegna b-liðar 3. gr. frumvarpsins frá slitastjórnum minni slitabúanna. Í athugasemdunum koma fram áhyggjur þess efnis að lagaleg óvissa skapaðist um stöðu slitastjórnar á tímabilinu frá því að nauðasamningurinn væri staðfestur af héraðsdómi og þar til hann hefði verið efndur þar sem umboð slitastjórnar skv. 4. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki félli niður við lok slitameðferðar. Þá kunni að vakna spurningar um félagaréttarlega stöðu slitastjórna, valdsvið og ábyrgð. Nauðsynlegt sé að fyrir liggi skýrt umboð slitastjórnar til að efna nauðasamning eftir staðfestingu hans. Meiri hlutinn áréttar að með lögum nr. 59/2015 var gildandi rétti ekki breytt að þessu leyti og ekki sé heldur stefnt að því með frumvarpinu sem nú er til meðferðar. Nauðasamningur er bindandi fyrir alla kröfuhafa og efndir samningsins fara eftir því sem nauðasamningurinn sjálfur kveður á um. Þá hljóta ágreiningsmál sem kann að vera ólokið fyrir dómstólum að verða rekin samkvæmt ákvæðum nauðasamningsins og eftir atvikum verði slitastjórn falið að klára þau. Að mati meiri hlutans er ekki þörf á sérstakri réttarvernd slitastjórna eftir að nauðasamningur hefur verið staðfestur í þeim tilfellum þegar slitameðferð er lokið með staðfestum nauðasamningi og meiri hlutinn fellst ekki á að þörf sé á breytingu á b-lið 3. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn tekur þó undir að ákvæði 4. mgr. 101. gr. og 103. gr. a í lögunum kunni enn að vera óskýr í einstökum tilvikum og leggur því til breytingu á 8. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laganna eins og gerð verður grein fyrir hér á eftir í kafla um aðrar breytingar.
    Þá voru gerðar athugasemdir vegna c-liðar 3. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til breyting á hlutfalli bak við samþykki nauðasamningsfrumvarps eftir fjárhæðum, úr 90% í 85%. Lúta athugasemdirnar að því að færa hlutfallið enn neðar, allt niður í 60%. Nefndin fjallaði ítarlega um þetta atriði. Rétt er að hafa í huga að ákvæði laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um skuldaskil með nauðasamningi miða að því að renna stoðum undir áframhaldandi rekstur hins skuldsetta félags. Ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, um nauðasamninga miða hins vegar í meginatriðum ekki að því að fjármálafyritæki haldi áfram starfsemi sem slíkt heldur er beinlínis stefnt að því að færa kröfuhöfum umráð yfir eigum sínum og ljúka þannig starfsemi fjármálafyrirtækisins. Þannig er engin sérstök ástæða fyrir tilteknum auknum meiri hluta kröfuhafa miðað við fjárhæð þegar kemur að því að samþykkja nauðasamning sem á að vera liður í slitum fjármálafyrirtækis. Reglum um hlutfall samþykkis, eftir fjárhæðum eða höfðatölu, hefur verið breytt nokkrum sinnum á undanförnum árum með vísan til þess að það sé til hagsbóta fyrir kröfuhafa hinna föllnu fjármálafyrirtækja að ljúka megi slitameðferð. Meiri hlutinn telur réttmætar þær áhyggjur sem uppi eru um að kröfuhafar muni ekki mæta á fund um atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi og það þótt c-liður 3. gr. frumvarpsins verði að lögum. Þannig sé hætta á að samþykki eftir fjárhæðum náist ekki um frumvarp sem þó sé öllum kröfuhöfum til hagsbóta. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á c-lið 3. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.
    Í umsögnum slitastjórna eru gerðar athugasemdir við orðalag c-liðar 4. gr. frumvarpsins sem fjallar um gildistöku 3. gr. frumvarpsins. Lúta athugasemdir einkum að því að ekki sé skýrt kveðið á um það í lögum hvenær nauðasamningsferli fjármálafyrirtækis í slitameðferð telst hafið. Eðlilegra væri að kveða á um að breytingarnar mundu gilda um fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem ekki hafa lagt fram frumvarp að nauðasamningi, ekki haldið fund um atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi eða greitt atkvæði um frumvarp að nauðasamningi. Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur til að c-liður 4. gr. frumvarpsins taki breytingum að þessu leyti.

Aðrar breytingar á efni frumvarpsins.
    Auk þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu telur meiri hlutinn nauðsynlegt að leggja til breytingu á 6. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem er að finna heimild til að gefa út nýja hluti í félagi sem nota má sem greiðslu með skuldajöfnun hluta kröfunnar sem samþykkt hefur verið við slitameðferðina og getur verið þáttur í efnum nauðasamnings. Rétt er að ítreka að hið sama ætti að gilda um stofnfé að þessu leyti. Meiri hlutinn leggur því til að orðin „eða stofnfé“ bætist við á eftir orðunum „nýir hlutir“ í málsliðnum.
    Þá telur meiri hlutinn nauðsynlegt að leggja til breytingu á 7. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Með lögum nr. 59/2015 bættist við heimild til að hækka hlutafé og lækka að fullu eldra hlutafé fjármálafyrirtækis í slitameðferð samkvæmt skilyrðum sem kveðið er á um í málsliðnum. Samkvæmt orðanna hljóðan á reglan einungis við um fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem áður störfuðu í rekstrarformi hlutafélags. Sömu aðstæður geta átt við um sparisjóði sem eru sjálfseignarstofnanir og eru í slitameðferð. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á málsliðnum.
    Varðandi réttarstöðu slitastjórnar gagnvart kröfuhöfum og nýju félagi þangað til að kröfuhafar taka við endurreistu félagi á grundvelli nauðasamnings leggur meiri hlutinn til breytingu á 8. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki þannig að séu heimildir 6. og 7. málsl. þeirrar málsgreinar nýttar til þess að gefa út nýja hluti eða stofnfé í fjármálafyrirtækinu sem greiða á með skuldajöfnun tiltekins hluta kröfu, sem þáttur í efndum nauðasamnings, gildi 4. mgr. 101. gr. laganna um störf slitastjórnar þangað til hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda hefur farið fram í félaginu og kosið nýja stjórn.
    Enn fremur leggur meiri hlutinn til breytingu á 6. mgr. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Nauðasamningar kunna að kveða á um greiðslu í hlutabréfum í einkahlutafélagi. Slíka greiðslu er eðli máls samkvæmt ekki hægt að leggja inn á fjárvörslureikning eins og áskilið er í málsgreininni. Þá er engin lagaskylda fyrir hendi til útgáfu hlutabréfa þegar um einkahlutafélög er að ræða og 103. gr. a getur ekki náð til þess að kveðið sé á um heimild og skyldu í samþykktum félags til þess að gefa út hlutabréf þegar úr stöðu viðkomandi kröfuhafa hefur verið leyst og hann á rétt til greiðslu samkvæmt nauðasamningi. Í þessu ljósi telur meiri hlutinn rétt að leggja til að við 6. mgr. bætist tveir nýir málsliðir sem taki til atvika þegar ekki er hægt að leggja nauðasamningsgreiðslu inn á fjárvörslureikning og/eða vörslureikning sem stofnaður er í því skyni að leggja nauðasamningsgreiðslur inn á. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á 3. gr. frumvarpsins um þessa viðbót.
    Að lokum skal nefnt að nefndinni bárust athugasemdir frá flestum slitastjórnum um að óvíst sé að hægt verði að ljúka slitameðferð þeirra fyrir áramót. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið slitastjórnanna og telur ástæðu til að þeim aðilum sem falla undir skattskyldusvið laga nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, verði veittur frestur til 15. mars 2016 til að ganga þannig frá sínum málum að ekki komi til skattskyldu. Í tilviki þeirra slitabúa sem nú sæta slitameðferð verði jafnframt áskilið að þau hafi fengið frumvarp að nauðasamningi samþykkt fyrir næstu áramót og auk þess lagt það fyrir héraðsdómara til staðfestingar fyrir sama tímamark. Vegna framangreindra breytinga telur meiri hlutinn jafnframt nauðsynlegt að breyta ákvæði til bráðabirgða LVI í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Nefndin telur frumvarpið til þess fallið að auðvelda slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja gerð nauðasamninga. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. nóvember 2015.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Sigríður Á. Andersen,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Vilhjálmur Bjarnason. Willum Þór Þórsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir.