Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 355  —  307. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um Vesturlandsveg.


Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Ásmundur Einar Daðason, Helgi Hrafn Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að hefja viðræður við Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, sveitarfélög á Vesturlandi, Vegagerðina, samgönguráð og aðra hlutaðeigandi aðila um nauðsynlegar vegabætur á Vesturlandsvegi. Í viðræðum við framangreinda aðila verði stefnt að sameiginlegu átaki og áætlanagerð varðandi framkvæmdir á næstu árum við Vesturlandsveg um Kjalarnes, fyrirhugaða Sundabraut og hvernig bregðast skuli við vaxandi umferð í Hvalfjarðargöngum. Í framhaldi af viðræðum aðila verði lögð fram tímasett áætlun um framkvæmdir og fjármögnun þessara verkefna.

Greinargerð.

    Á síðustu árum hefur verið unnið að endurbótum á Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi og hafa þær framkvæmdir aukið verulega öryggi vegfarenda. Framkvæmdir við Vesturlandsveg hafa einskorðast við þann hluta vegarins sem liggur um Mosfellsbæ. Á hverjum degi fara um 6000 bílar um Vesturlandsveg og fer umferð vaxandi. Um 2000 ökutæki fara daglega til og frá Akranesi þar sem fólk sækir atvinnu og skóla utan sveitarfélagsins.
    Um langt skeið hefur verið rætt um Sundabraut en ekkert orðið af framkvæmdum við þá samgöngubót. Þá hefur verið kallað eftir vegabótum á Kjalarnesi, enda umferð þar mikil, en engar verulegar endurbætur hafa átt sér stað á veginum á síðustu áratugum. Þá hefur verið bent á vaxandi umferð um Hvalfjarðargöng og reglulega kemur upp umræða um öryggi vegfarenda þar í ljósi aukinnar umferðar.
    Markmið tillögunnar er að vegna umferðaröryggis verði gerð tímasett áætlun um nauðsynlegar vegaframkvæmdir og fjármögnun á Vesturlandsvegi frá Sæbraut í suðri að norðurströnd Hvalfjarðar. Því er mikilvægt að innanríkisráðherra taki upp viðræður við Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, sveitarfélög á Vesturlandi, Vegagerðina, samgönguráð og aðra hlutaðeigandi aðila um vegaumbætur á Vesturlandsvegi þannig að fyrir liggi skýr framtíðarsýn um nauðsynlegar aðgerðir.