Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 369  —  319. mál.




Fyrirspurn



til fjármála- og efnahagsráðherra um samkomulag stjórnvalda
og slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.

Frá Birni Val Gíslasyni.


     1.      Hverjar eru helstu ástæður þess að gefa slitabúum kost á greiðslu stöðugleikaframlags í stað þess að sæta skattlagningu?
     2.      Hversu mikið fé má ætla að verði bundið í skuldabréfum sem gefin verða út af lögaðilum sem áður iðkuðu fjármálastarfsemi og undanþegin verða skattskyldu og greiðslu afdráttarskatts af vöxtum sem greiddir verða úr landi verði frumvarpið á þskj. 175 að lögum?
     3.      Hver hefði hækkun stöðugleikaframlags slitabús Glitnis orðið ef hlutafé ISB Holding, eiganda Íslandsbanka, hefði ekki verið afsalað til íslenska ríkisins?
     4.      Hverjar eru helstu röksemdir fyrir þeirri ákvörðun að ganga að tilboði um afsal á hlutafé í eignarhaldsfélagi Íslandsbanka í stað þess að krefjast greiðslu á stöðugleikaframlagi í reiðufé? Hvers vegna var ekki gripið til sömu ráðstafana gagnvart Kaupþingi með framsali á Arion banka til ríkisins?
     5.      Á hverju byggist verðmat það á Íslandsbanka og Arion banka sem stjórnvöld leggja til grundvallar útreikningum sínum, hvaða aðferð var beitt við gerð þess og hvaða aðilar unnu það? Er mat á virði umræddra fjármálafyrirtækja í samræmi við verðmat slíkra fyrirtækja á Norðurlöndum?
     6.      Hvaða eignir eru það nákvæmlega sem falla í hlut ríkisins við uppgjör á stöðugleikaframlagi og hvert er andvirði hverrar eignar um sig? Óskað er eftir sundurliðun á eignum hvers slitabús um sig, lýsingu á sérhverri eign og verðmati hennar.
     7.      Hvernig skiptast stöðugleikaframlög slitabúanna í:
                  a.      afhendingu reiðufjár,
                  b.      afhendingu eigna,
                  c.      afsal innlendra eigna og krafna,
                  d.      óbeint framsal með fjársópsákvæði,
                  e.      útgáfu skuldabréfa á móti eignarhlut í banka og afkomuskiptasamningi?
     8.      Hafa verið undirritaðir samningar milli fulltrúa slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og hins opinbera um greiðslu stöðugleikaframlags og heimild til fjármagnsflutninga? Ef svo er, að hverju lúta þeir samningar og hvaða aðili staðfesti þá fyrir hönd ríkisins?
     9.      Hversu mikið fé fá kröfuhafar í slitabúin heimild til að flytja úr landi innan gjaldeyrishafta?


Skriflegt svar óskast.