Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 414  —  227. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur
um innleiðingu Arjeplog-samningsins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað er Ísland komið langt í að innleiða Arjeplog-samninginn um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna? Er ráðherra með aðgerðaáætlun um innleiðingu samningsins?

    Samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna var samþykktur 14. júní 1993 og gekk í gildi 1. janúar 1994. Honum var síðan breytt með samningi 11. nóvember 1998. Samningurinn var birtur hér á landi með auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 36/1993, og breytingin frá 1998 með auglýsingu nr. 6/2001.
    Ekki var um neitt sérstakt innleiðingarferli að ræða þegar þessi samningur tók gildi. Gildistökuferlið var hins vegar þannig að eftir að Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð höfðu tilkynnt sænska utanríkisráðuneytinu að samningurinn hefði verið samþykktur í hverju landi fyrir sig tilkynnti sænska utanríkisráðuneytið hvaða dag hann tæki gildi. Samningurinn var birtur með auglýsingu í Stjórnartíðindum og þar kom skýrt fram hvaða dag hann tók gildi.
    Á 67. þingi Norðurlandaráðs 29. október síðastliðinn var samþykkt tillaga norrænu ráðherranefndarinnar um félags- og heilbrigðismál að breyta fyrrgreindum samningi. Meginbreytingin er sú að við mat á faglegri menntun og hæfi þeirra norrænu ríkisborgara sem hafa hlotið menntun í einhverju Norðurlandanna skuli fylgja þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í tilskipun 2005/36/EB.
    Samningurinn í breyttri mynd mun taka gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð hafa tilkynnt sænska utanríkisráðuneytinu að samningurinn hafi verið samþykktur. Utanríkisráðuneytið mun sjá um birtingu samningsins með auglýsingu í Stjórnartíðindum og þar mun koma skýrt fram hvaða dag hann tekur gildi.