Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 446  —  252. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ernu Indriðadóttur um hjúkrunarheimili, dvalarkostnað o.fl.


     1.      Hversu háar upphæðir borgar fólk að meðaltali á mánuði úr eigin vasa fyrir dvöl á hjúkrunarheimili?
    Í október 2015 er meðalkostnaðarþátttaka fólks í hjúkrunarrýmum 52.696 kr. Tryggingastofnun ríkisins reiknar út kostnaðarþátttöku en stofnunin heyrir undir félags- og húsnæðismálaráðherra sem getur veitt frekari upplýsingar ef þeirra er óskað.

     2.      Hverjar eru hámarksgreiðslur einstaklinga á mánuði fyrir dvöl á hjúkrunarheimili?
    Hámarkskostnaðarþátttaka einstaklings í hjúkrunarrými árið 2015 er 354.902 kr. á mánuði.

     3.      Hversu hátt hlutfall starfsfólks á hjúkrunarheimilum er af erlendum uppruna?
    Ráðuneytið safnar saman ýmsum upplýsingum til að fylgjast með starfsemi hjúkrunarheimila. Upplýsingar um uppruna einstakra starfsmanna eru þó ekki þar á meðal og því eru ekki tök á að svara spurningunni.

     4.      Hversu löng bið er að meðaltali eftir plássi á hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar? Hversu löng er biðin að meðaltali á landinu öllu?
    Meðfylgjandi tafla sýnir meðalfjölda og meðalbiðtíma einstaklinga á biðlista eftir hjúkrunarrými árið 2014. Um er að ræða meðalbiðtíma þeirra sem fóru í hjúkrunarrými það ár. Auk þess kemur fram í töflunni meðalhjúkrunarþyngdarstuðull (RAI) á hjúkrunarheimilum árið 2014. Hærri stuðull bendir til veikari íbúa sem þurfa meiri þjónustu. Tölurnar eru flokkaðar eftir búsetu einstaklinga í heilbrigðisumdæmum.

Heilbrigðisumdæmi Einstaklingar á biðlista 2014*      Meðalþyngdarstuðull (RAI)
Meðalfjöldi Meðalbiðtími í dögum hjá þeim sem komust í úrræði
Vesturland 13 96 0,998
Vestfirðir 11 99 1,068
Norðurland 44 87 1,041
Austurland 26 87 1,095
Suðurland 19 87 1,052
Suðurnes 33 138 1,068
Höfuðborgarsvæðið 129 74 1,110
Allt landið 276 82 1,081
* Unnið úr vistunarmatsgrunni embættis landlæknis (bráðabirgðatölur).

    Árið 2014 var meðalbiðtími þess fólks á biðlistanum sem komst í hjúkrunarrými um 80 dagar. Meðalhjúkrunarþyngdarstuðullinn (RAI) var hæstur á höfuðborgarsvæðinu, þar var hann 1,11 árið 2014 en 1,00 þar sem hann var lægstur.

     5.      Hversu margir 67 ára og eldri fá fulla vasapeninga frá ríkinu og hversu margir fá skerta vasapeninga?
    Í október 2015 fá 86 einstaklingar í hjúkrunarrýmum fulla vasapeninga, 1.105 einstaklingar fá skerta vasapeninga og 1.381 fær enga vasapeninga. Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslu vasapeninga skv. 24. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, sbr. 48. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Vasapeningar heyra undir félags- og húsnæðismálaráðherra sem getur veitt frekari upplýsingar ef þeirra er óskað.